Sért þú í þeim hópi sem á erfitt með að koma tímanum í ræktinni fyrir á dagskránni, gætu hér leynst góðar fréttar.
Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar hjá Edith Cowan-háskóla í Ástralíu getur þú mögulega stytt styrktarþjálfun niður um helming en samt náð sama árangri.
Í ljós kom að það hefur meiri áhrif á uppbyggingu vöðvamassans að láta lóð síga en að lyfta þeim.
Vísindamennirnir skiptu þátttakendum í þrjá hópa sem látnir voru gera styrktaræfingar tvisvar í viku en fjórði hópurinn var samanburðarhópur sem gerði engar æfingar í þær fimm vikur sem tilraunin stóð.
Einn æfingahópurinn var látinn láta lóðin síga og styrkja þannig vöðvana meðan tognar á þeim. Hinn hópurinn var látinn lyfta lóðunum sem styrkir vöðvana meðan þeir dragast saman. Þriðji hópurinn var bæði látinn lyfta lóðunum og láta þau síga.
Niðurstöðurnar sýndu sömu bætingu í styrk hjá þeim sem einungis létu lóðin síga og þeim sem bæði lyftu og létu síga, jafnvel þótt síðarnefndi hópurinn hefði gert æfingarnar helmingi sjaldnar.
Og mælingar á þeim hópum sem höfðu eingöngu lyft og eingöngu látið síga, sýndu að þvermál vöðva fólks í sighópnum hafði aukist um 7,2% en um 5,4% hjá þeim sem bæði lyftu og létu síga.
LESTU EINNIG
Vísindamennirnir segja niðurstöðurnar sýna að unnt sé að ná talsvert meiri árangri á þeim tíma sem fólk ver til þjálfunar.
„Við vitum nú að bara ein vöðvaáreynsla á dag, þar sem lengt er á vöðvanum, fimm sinnum í viku, getur aukið vöðvastyrk – jafnvel þótt æfingin taki ekki nema þrjár sekúndur. En styrktaræfing sem felst í vöðvasamdrætti, skilar ekki sömu áhrifum,“ segir Ken Nosaka, einn vísindamannanna.