Nú er yfirborðið á Mars of kalt, þurrt og geislunarmengað til að þar þrífist líf.
En fyrir 3,7 milljörðum ára gæti þessi ryðbrúna pláneta hafa verið byggð neðanjarðarörverum sem á endanum hafi þó útrýmt sjálfum sér.
Þetta er allavega niðurstaða nýlegrar rannsóknar sem birt hefur verið í vísindatímaritinu Nature Astronomy.
Líktist Jörðinni
Vísindamennirnir beittu svonefndum loftslags og jarðvegslíkönum til að skoða möguleika lífvera á rauðu plánetunni fyrir um fjórum milljörðum ára – á þeim tíma þegar aðstæður í gufuhvolfi voru svipaðar þar og hér.
Þetta vinsamlegra umhverfi telja vísindamennirnir að gæti hafa fóstrað einfaldar örveru sem notuðu vetni sem orkugjafa og skiluðu af sér metanúrgangi.
En í stað þess að búa í haginn fyrir frekari þróun eins og gerðist hér á jörð, gætu örverurnar á Mars hafa valdið eigin útrýmingu áður en þróunin komst lengra.
Varð kaldari
Orsökina segja vísindamennirnir felast í fjarlægð frá sólinni.
Mars er í um 228 milljón kílómetra fjarlægð frá sólu og plánetan hefur því meiri þörf fyrir gróðurhúsalofttegundir á borð við vetni og koltvísýring til að viðhalda lífvænlegu loftslagi.
En þegar örverurnar á Mars hámuðu í sig vetnið, eyddu þær jafnframt því lagi af gróðurhúsalofti sem hélt hitastiginu uppi.
Að lokum varð yfirborðið svo kalt að þar gátu flóknar lífverur ekki lengur þrifist.
Fundu leifar af metani
Líkan vísindamannanna sýnir að yfirborðshitinn á Mars gæti hafa farið úr 10-20 gráður niður í 57 stiga frost á þessu tímabili og það hefur líklega hrakið fyrstu lífverurnar niður á allt að eins kílómetra dýpi í jarðskorpunni, þar sem hitastig var hærra.
Geimför hafa áður fundið ummerki metans í þunnu gufuhvolfinu á Mars.
Sexhjóla Marsjeppi NASA, Curosity hefur líka greint metan á för sinni um vindblásnar klappir á Mars. Vísindamenn eiga þó enn eftir að finna ummerki þess hvort einhverjar af þessum gömlu örverum hafi lifað af.