Stórstjarnan Justin Bieber hefur hætt við tónleikaferð sína en hann lamaðist öðru megin í andliti sökum Ramsay Hunt heilkennisins.
Taugasjúkdómurinn stafar af sömu veiru og veldur hlaupabólu og ristli.
Með þessu tiltekna heilkenni ræðst veiran á andlitstaugina sem veldur tímabundinni lömun, sem oftast er hægt að lækna.
Veirur valda algengum sjúkdómum
Veiran sem nú herjar á andlit poppstjörnunnar heitir Varicella Zoster veiran (VZV) og er ein níu herpes veira sem geta sýkt menn.
Börn verða oftast fyrir barðinu á VZV en hún veldur hlaupabólu sem er einn algengasti barnasjúkdómurinn.
Veiran fer aldrei aftur úr líkamanum ef hún á annað borð hafa komið sér þar fyrir. Hins vegar leggst hún í dvala í taugakerfinu og ef hún er endurvakin getur valdið svokölluðum ristli.
Sænsk rannsókn hefur sýnt að hættan á að fá ristill eykst með aldrinum. Útbrotin valda rauðum blöðrum á húðinni, sviðatilfinningu, kláða og höfuðverkur getur fylgt.
Ristill hefur aðeins áhrif á fólk sem áður hefur fengið hlaupabólu. Vísindamenn vita enn ekki nákvæmlega hvað veldur því að vírusinn sem er í dvala vaknar til lífsins.
Sem betur fer er mjög sjaldgæft að fá ristil oftar en tvisvar.
Ristilsútbrot vara venjulega í tvær til fjórar vikur, en stundum hverfur sársaukinn ekki alveg jafnvel eftir að útbrotin hverfa.
Árásir á sérstaka taug lama andlitið
Í sérstökum tilvikum er veiran endurvirkjuð en ekki sem ristill. Þess í stað sýkir hún andlitstaugina og veldur Ramsay Hunt heilkenninu.
Menn hafa tvær andlitstaugar sem beina andlitsvöðvunum í samræmi við skilaboð frá heilanum. Upphaf taugarinnar er í heilastofninum og liggur nálægt eyrunum.
Þar ræðst VZV á taugafrumurnar – oftast aðeins á aðra andlitstaugina. Og þess vegna lamast sjúklingar með heilkennið aðeins öðru megin í andliti – rétt eins og Justin Bieber.
Einkenni um lömun á andlitstaug
Erfiðleikar að hrukka ennið eða lyfta augabrúninni.
Sígandi augnlok og erfiðleikar að blikka augum.
Ósamhverft bros og sigin kinn.
Hangandi munnvik.
Eins og með ristil er óljóst nákvæmlega hvað veldur því að vírusinn vaknar úr dvala sínum. Aðeins um fimm af hverjum 100.000 einstaklingum fá þetta sjaldgæfa heilkenni.
Sem betur fer ná sjö af hverjum tíu sjúklingum sér að fullu ef þeir fá meðferð innan þriggja daga frá fyrstu einkennum.
Grammyverðlaunahafinn Bieber hefur deilt sögu sinni á Instagram og þar kemur fram að einkennin minnki með hverjum degi.