Í upphafi 17. aldar lýsti enski heimspekingurinn og vísindamaðurinn Francis Bacon því yfir að heimurinn stæði á merkum tímamótum.
Ástæðan fólst í þremur stórum uppfinningum: Púðrið, áttavitinn og prentlistin.
Á dögum Bacons voru þessar uppfinningar tiltölulega nýjar í Evrópu en höfðu hins vegar verið lengi í notkun í Kína.
Reyndar er það svo, að kínversk menning með þeirri menntun og tæknikunnáttu sem henni fylgdi, varð upphafið að gríðarmörgum tæknilegum og menningarlegum framförum.
Auk hinna fjögurra þekktustu, pappírs, púðurs, áttavita og prentlistar, má t.d. nefna hjólbörur, smíðajárn og eldspýtur.
Umfang þeirra framfara sem áttu rætur í Kína var ekki almennt þekkt á Vesturlöndum fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld.
Þá hófst Joseph Needham handa við að gefa út fjölda bóka um kínverska vísindasögu.
Needham hefur verið gagnrýndur fyrir að eigna Kínverjum fullmargar uppgötvanir en lýsingar hans hafa reynst réttar.
Sir Francis Bacon (1561-1626) var enskur heimspekingur og vísindamaður.
Evrópa var á eftir Kína
Mjög lengi var forskot Kínverja mikið. Nú telja flestir fræðimenn að landið hafi verið efnahagsleg þungamiðja heimsins fram á miðja 17. öld.
Þegar evrópskir kaupmenn komu til Kína, rann upp fyrir þeim að vörur þeirra stóðust hinum kínversku ekki snúning. Fyrir varning sem þeir keyptu í Kína þurftu þeir þess vegna að greiða háar fjárhæðir í silfri og gulli.
Þessar aðstæður voru hins vegar fljótar að breytast. Á 18. og 19. öld varð iðnbyltingin á Vesturlöndum en Kína staðnaði. Hvers vegna þetta fór eins og það fór er spurning sem margir sérfræðingar hafa reynt að svara.
Áður var afstaða vísindamanna sú að kínverskt ritmál væri svo klunnalegt að það hægði á framförum. Nú aðhyllast ekki margir þessa kenningu.
Aðrir hafa litið svo á að hefðbundin lífssýn og heimspeki Kínverja hafi verið of íhaldssöm í samanburði við menningu kristinna á Vesturlöndum.
Þróun í nútímanum sýnir hins vegar að þessi kenning stenst ekki heldur.
Skýrðist af ódýru vinnuafli
Nú telja fræðimenn að efnahagsleg uppbygging í þessu fjölmenna ríki hafi verið framþróun fjötur um fót.
Öfugt við Evrópu var í Kína gríðarlegt framboð af ódýru vinnuafli og því minni þörf fyrir vélvæðingu.
Nú er Kína á ný orðið efnahagslegt stórveldi og Kínverjar leggja aukna áherslu á að kynna heiminum glæsta sögu sína.
Elsta prentaða bókin sem nú er varðveitt er enda kínversk, svonefnd „Demants-sútra“ frá 868 og er búddískt trúarrit.
1. Prentun: Prentlistin er miklu eldri en Gutenberg
Í Evrópu er Johann Gutenberg þekktur fyrir að hafa fundið upp prentverk en reyndar hófst prentun miklu fyrr í Kína og fræðimenn telja nú að hugmyndir um hana gætu hafa borist til Gutenbergs.
Uppfinningin er gömul og enginn einn upphafsmaður þekktur. Strax á 7. öld voru búddískir trúartextar prentaðir í Kína.
Sagnfræðingar vita jafnframt að á 10. öld var mikil eftirspurn eftir hverskyns bókum, allt frá trúarritum til fræðslurita um handverk og tækni.
Elsta prentaða bókin sem nú er varðveitt er enda kínversk, svonefnd „Demants-sútra“ frá 868 og er búddískt trúarrit.
Að stærstum hluta notuðu Kínverjar tréplötutækni sem byggðist á því að skera allt letur á einni síðu í tréplötu.
Slíka plötu var aðeins unnt að nota til að prenta þessa tilteknu síðu en ef gera átti breytingu þurfti nýja plötu.
Duglegustu prentararnir unnu þó svo hratt að með þessari tækni voru þeir samkeppnisfærir allt fram á 19. öld.
Kínverjar voru farnir að nota skotelda með púðurhleðslum sem vopn um 1200.
2. Púður: Leit að eilífu lífi skilaði banvænum vopnum
Til eru margar ólíkar sögur af uppruna púðursins en sú er nú talin næst lagi að kínverskir alkemistar hafi fundið upp hið svonefnda svarta púður á 9. öld e.Kr.
Að sögn voru menn að reyna að blanda elixír sem gæfi eilíft líf, þegar í ljós kom að blanda saltpéturs, trékola og brennisteins myndaði sprengiefni.
Púðrið var notað í flugelda sem m.a. voru notaðir við trúarathafnir en fljótlega tóku Kínverjar þó að nota púður í öðru samhengi.
Undir lok 12. aldar höfðu Kínverjar þróað einfaldar fallbyssur og eins konar riffla úr bambus.
Þeir gerðu líka sprengjur sem hægt var að skjóta með slöngvibyssum og sömuleiðis eldflaugar sem hægt var að skjóta að óvinum um langan veg.
Svo mikið er ljóst að púðurframleiðsla var orðin mjög mikil árið 1280 en þá sprakk púðurgeymsla í borginni Weiyang.
Mörg hundruð létu lífið og brak úr byggingunni fannst í margra kílómetra fjarlægð.
Í tengslum við framrás mongóla á 13. og 14. öld barst púðrið alla leið vestur til Evrópu.
Á síðari árum hafa indverskir vísindamenn sett fram þá kenningu að púðrið hafi verið fundið upp á Indlandi löngu áður en það gerðist í Kína.
Í þessu samhengi vísa menn í forna hindú-texta þar sem lýst er ýmsum eldspúandi vopnum. Sannanir fyrir þessari kenningu hafa menn þó ekki getað lagt fram.
Hið nýuppfundna púður var notað í flugelda sem Kínverjar skutu m.a. upp til að fagna nýju ári.
Hið nýuppfundna púður var notað í flugelda sem Kínverjar skutu m.a. upp til að fagna nýju ári.
Áttavitinn var fundinn upp á tímum Han-keisaraættarinnar.
3: Áttaviti: Nál vísaði veg fyrir herforingja og landkönnuði
Í lok 13. aldar tóku ítalskir sæfarar að nota áhald sem vakti mikla undrun – áttavitann.
Sem áttunarverkfæri jók áttavitinn til muna öryggi manna á siglingum um Miðjarðarhafið.
Áður höfðu sjómenn þurft að reiða sig á sól og stjörnur til að finna áttirnar.
Það var maður að nafni Flavio Gioia frá Amalfi sem fékk heiðurinn af því að hafa fundið upp áttavitann. Hann hafði þó lengi verið þekktur í Kína.
Í lýsingum sem eru eldri en tímatal okkar er útskýrt hvernig jaðesteinasafnarar notuðu svonefndan suðurbendil til að villast ekki.
Áhaldið var skeiðlaga „nál“ úr seguljárnsteini sem sett var á bronsplötu þar sem hún gat snúist.
Síðar voru þessir einföldu áttavitar endurbættir. Á 8. öld segulmögnuðu Kínverjar járnnálar með því að núa þeim upp að seguljárnsteini og síðan voru þær látnar fljóta á vatni eða hengdar í þráð.
Til er bók um hernaðarlist sem staðfestir að áttavitar voru mikið notaðir í Kína. Þar er herforingjum ráðlagt að flytja sig í skjóli nætur og nota „suðurbendil“.
Vísindamenn telja að áttavitinn hafi borist frá Kína gegnum múslimaheiminn á 13. öld. Í Evrópu hélt þróunin áfram og menn smíðuðu traustari áttavita.
Þessir áttavitar voru dós, þar sem nálin gat vísað á eitthvert hinna 16 heimshorna, sem sagt skipt í 360 gráður.
Þessir þurru áttavitar komu síðar að góðum notum fyrir landkönnuði.
Te varð mikilvæg útflutningsvara kínverja í Evrópuverslun á 18. öld.
4. Te: Heitt vatn með bragði varð vinsælt í Evrópu
Kínversk arfsögn segir svo frá að keisarinn Shen Nong sem tignaður var sem guð, hafi sest niður um 2700 f.Kr. til að drekka heitt vatn.
Nokkur blöð féllu þá af tré niður í bollann. Vatnið tók á sig lit, Shen Nong smakkaði og líkaði bragðið vel. Til viðbótar leið honum eins og hann væri endurfæddur.
Arfsögnin er tæpast sönn en vísindmenn hafa nú rakið slóð hinnar upprunalegu teplöntu og hún telst upprunnin í norðurhluta Myanmar og kínversku suðurhéruðunum Yunnan og Sichuan.
Kínverjar hafa drukkið te í mörg þúsund ár, trúlega sem náttúrulyf framan af. Te öðlaðist háan sess í menningunni og drykkurinn var talinn slakandi og róandi, auk þess sem hann jók mönnum vit.
Árið 59 f.Kr. skrifaði Kínverjinn Wang Bao fyrsta þekkta ritið um te og lýsti þar m.a. hvernig drykkurinn skyldi búinn til.
Sigurganga tesins hóft á 7. öld e.Kr. þegar Búddamunkar fluttu það með sér til Japans.
Í Evrópu var farið að drekka te fyrir alvöru á 18. öld en þá stóð verslun við Kína í miklum blóma.
Mestum vinsældum náði tedrykkjan í Englandi. Árangursrík áróðursherferð Austur-Indíafélagsins leiddi til þess að te sem verið hafði nær óþekkt í lok 17. aldar var orðið að uppáhaldsdrykk Englendinga tæpum 100 árum síðar.
Auk telaufanna tóku Englendingar líka upp þann kínverska sið að neyta drykkjarins á svonefndum tehúsum.
Auk telaufanna tóku Englendingar líka upp þann kínverska sið að neyta drykkjarins á svonefndum tehúsum.
Allt frá einföldum skálum til glæsilegra styttna úr kínversku postulíni.
5: Postulín: Enginn vildi drekka úr glösum
Sagnfræðingar vita ekki nákvæmlega hvenær Kínverjar byrjuðu að vinna muni úr postulíni.
Þó er vitað að leirmunir af þeirri gerð sem nú er nefnt postulín – með steinefninu kaólíni sem veitir postulíni þéttni þess og styrk – var fullþróað fyrir um 2.000 árum.
Arabíski kaupmaðurinn Suleiman heimsótti Tang-veldið árið 851 e.Kr. og lýsti postulíni:
„Í Kína hafa menn afar fínan leir og gera úr honum vasa sem eru gagnsæir eins og gler; vatn sést í gegn.“
Á þessum tíma litu Kínverjar á það sem sjálfsagðan hlut að framleiða hvers kyns varning úr postulíni, allt frá einföldum bollum og skálum upp í glæsilega vasa og styttur.
Postulínið ruddi glerinu af markaði. Gler var líka þekkt í Kína en taldist vera af mun lakari gæðum en postulín.
Þegar Vesturlönd komust í meiri snertingu við Kína á 17. öld og síðar urðu hvers konar postulínsvörur að hátískuvarningi.
Margir fróðustu menn álfunnar lögðu því höfuðið í bleyti til að greina hvernig postulín væri gert og árið 1709 tókst tveimur Þjóðverjum að leysa þessa ráðgátu. Það voru Johann Friedrich Böttger og Ehrenfried Walther von Tschimhaus.
Silkiklæði hafa verið stöðutákn í Kína árþúsundum saman.
6. Silki: Dýrmætur og leynilegur ormur
Uppruna silkis í Kína er að rekja mörg þúsund ár aftur í tímann. Vinsæl arfsögn hermir að keisaraynjan Xi Ling-Shi hafi verið að drekka te í garðinum þegar púpa silkifiðrildis féll úr mórberjatré niður í bollann.
Púpan leystist upp í vökvanum og keisaraynjan sá þar birtast hárfínan og afar fallegan þráð sem hægt var að teygja yfir endilangan garðinn.
Sagan hermir að eftir þetta hafi Xi Ling-Shi fundið aðferð til að ala lirfurnar (silkiormana) og jafnframt tækni til að vefa silki.
Sagan er að öllum líkindum ósönn en sagnfræðingar vita hins vegar að í hinu forna Kína var silki munaðarvara. Leifar silkiprótína í gröfum benda til að efnið hafi verið unnið fyrir 8.500 árum.
Fornleifafræðingar hafa fundið leifar silkilíkklæða sem rekja má til ársins 3630 f.Kr. Sagnfræðingar giska á að í upphafi hafi það einungis verið keisarinn og tignustu aðalsmenn sem klæddust silki.
Smám saman hefur silkið þó náð útbreiðslu víðar í samfélaginu. Silkiframleiðsla taldist ríkisleyndarmál í Kína og dauðarefsing lá við útflutningi eggja silkifiðrilda.
Sú saga er til að tveir trúboðar hafi notað förustafi sína, hola að innan, til að smygla silkieggjum og fræjum mórberjatrés frá Kína upp úr 550 og fært Jústiníanusi keisara í Konstantínópel að gjöf.
En þá hafði leyndardómur silkiframleiðslunnar þegar borist bæði til Kóreu og Indlands.
Kínverjar hafa þekkt leyndardóma silkiframleiðslu í mörg þúsund ár.
Kínverjar hafa þekkt leyndardóma silkiframleiðslu í mörg þúsund ár.
Meira en 100 árum f.Kr. framleiddu Kínverjar pappír til að skrifa á.
7. Pappír: Blanda úr fiskineti, hampi og berki
Geldingurinn Cai Lun hefur væntanlega verið nokkuð taugaóstyrkur árið 105 e.Kr. þegar hann kynnti uppfinningu sína fyrir keisara Kínaveldis: alveg nýja aðferð til að framleiða pappír.
Hann lagði börk af mórberjatré í bleyti ásamt afgöngum af hampi, klæðum og fiskinetum. Þegar blandan var þurrkuð myndaðist þunnur, fallegur og sterkur pappír.
Fyrir þessa uppfinningu sína var Cai Lun verðlaunaður með titli og nafn hans var skráð á spjöld kínverskrar sögu.
Sagan um Cai Lun gæti mögulega verið nokkuð ýkt. Fornleifafræðingar hafa nefnilega sýnt fram á að strax á 1. öld f.Kr. höfðu Kínverjar þokkalega góðan pappír.
Svo mikið er alla vega víst að kringum upphaf tímatals okkar notuðu Kínverjar mikið af pappír.
Pappírinn var notaður til að skrifa á en líka sem umbúðir og úr honum voru einnig gerðir vasaklútar, munnþurrkur og klósettpappír. Arabískur ferðamaður lýsti notkun pappírs við klósettferð.
Hann kvartaði undan skorti á hreinlæti þar eð Kínverjar þvoðu sér ekki um hendurnar eftir salernisferð heldur létu nægja að skeina sig með pappír.
Sú saga er til að tveir kínverskir stríðsfangar hafi verið fluttir til Samarkand á 8. öld og þeir hafi kennt mönnum listina að búa til pappír. Þaðan breiddist svo kunnáttan út og barst loks til Evrópu.
Kringum árið 1000 hófu Kínverjar að prenta peningaseðla og sú tækni náði líka til Evrópu.
Það voru reyndar Svíar sem urðu fyrstir Vesturlandaþjóða til að taka pappírspeninga í notkun. Það var árið 1661.