Fólki heldur áfram að fjölga á hnettinum, þótt það gerist nú hægar en áður. Alls er íbúatala heimsins nú komin í átta milljarða. En fjölgunin stöðvast ekki þar. Samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna verður hámarkinu ekki náð fyrr en upp úr 2080 þegar íbúar jarðar verða 10,4 milljarðar. Þessi mikla fjölgun skýrist ekki síst af allnokkrum gríðarlega fjölmennum þjóðum. Sjáðu listann yfir þau ríki þar sem íbúar eru flestir
Kína
Kína er fjölmennasta ríkið. Þar búa 1,425 milljarðar.
Núverandi mannfjöldi: 1,425 milljarðar
Flatarmál: 9.597.000 ferkílómetrar
Tungumál: Mandarín, Kantónska o.fl.
Með nærri einn og hálfan milljarð íbúa er Kína fjölmennasta ríki heims. Þessi mikli mannfjöldi varð þess valdandi að kommúnistaflokkurinn kom á ströngum takmörkunum. Frá 1980 til 2016 var meginreglan sú að hjón máttu aðeins eignast eitt barn.
Tilgangur lagasetningarinnar var að koma í veg fyrir frekari fjölgun, enda sáu menn vaxandi mannfjölda sem ógn við efnahagsþróunina. Kommúnistaflokkurinn hefur líka haldið því fram að þetta hafi verið nauðsynlegt til að hafa næga fæðu handa öllum. Frá 2016 hefur verið löglegt að eignast tvö börn og nú er í undirbúningi að leyfa þrjú börn á fjölskyldu.
Ástæða þessarar breyttu afstöðu er m.a. sú að nú eru horfur á að of mikið verði af gömlu fólki miðað við fjölda yngra fólks. En hvað sem því líður bendir nú allt til að Kínverjar glati titlinum fjölmennasta þjóðin til nágranna sinna í suðri, Indverja.
Indland
Umferðin í indverskum stórborgum er afar óreiðukennd. Þar ægir saman bílum, mótorhjólum, reiðhjólum og gangandi fólki. Bara í höfuðborginni Delhi eru kringum 30 milljónir.
Núverandi mannfjöldi: 1,417 milljarðar.
Flatarmál: 3.287.000 ferkílómetrar.
Tungumál: Hindi, enska o.fl.
Á Indlandi er alls staðar fólk. Þetta má iðulega heyra frá fólki sem farið hefur þangað í fyrsta sinn. Og það er vissulega nokkuð til í þessu. Íbúafjöldinn nálgast nefnilega íbúatölu Kína og ef trúa má mannfjöldaspám verða Indverjar fleiri en Kínverjar áður en langt um líður.
Í fylkinu Rajasthan búa nú rétt tæpar 69 milljónir. Til samanburðar eru Frakkar um 67 milljónir.
Indverjum hefur fjölgað mjög hratt á síðari árum og áratugum. Árið 1950 voru Indverjar um 400 milljónir en eru komnir yfir 1,4 milljarða.
Bandaríkin
Um 58% af íbúunum eru af evrópskum uppruna, 19% eiga rætur í Suður-Ameríku og 12% í Afríku. Þau 11% sem eru ótalin eru m.a. frumbyggjar, íbúar Kyrrahafseyja og fólk af blönduðum uppruna.
Núverandi mannfjöldi: 338 milljónir.
Flatarmál: 9.833.517 ferkílómetrar.
Tungumál: Amerísk enska.
Þótt íbúar Bandaríkjanna séu miklu færri en Kína eða Indlands eru Bandaríkin öflugasta stórveldið. Landið er stórt og íbúarnir 338 milljónir og það einkennir þetta fjölmenna ríki að íbúarnir eru af mjög blönduðum uppruna.
Á austurströndinni er New York miðstöð bæði fjármála og menningar en Kalifornía á vesturströndinni er þekktari fyrir baðstrendur, pálmatré og sólskin, ásamt auðvitað Hollywood-stjörnum. En svo einfaldur er veruleikinn auðvitað ekki og þetta sólskinsríki er miklu meira en bara Vince Beach, Beverly Hills og Rodeo Drive.
Indónesía
Í Jakarta, höfuðborg Indónesíu búa um 35 milljónir manna. Hér sést mannfjöldi á brautarpalli einnar af járnbrautarstöðvum stórborgarinnar.
Núverandi mannfjöldi: 275 milljónir.
Flatarmál: 1.919.931 ferkílómetrar.
Tungumál: Indónesíska.
Með sínar 275 milljónir íbúa er Indónesía fjórða fjölmennasta ríki heims. Indónesía er eyjaríki og teygir sig frá Suðaustur-Asíu langleiðina til Ástralíu. 87% íbúanna eru múslímar og þetta er því fjölmennasta múslímaríki heims. Indónesía er á vel þekktu eldfjallasvæði en líka þekkt fyrir ferðamannaeyjuna Bali og svo eyjuna Borneó þar sem Órangútanapar lifa enn.
Pakistan
Þótt Indverjar séu fimmfalt fleiri en Pakistanar er Pakistan engu að síður fimmta fjölmennasta ríki heims.
Núverandi mannfjöldi: 235 milljónir.
Flatarmál: 796.096 ferkílómetrar.
Tungumál: Urdu, panjabi, sindhu o.fl.
Pakistan er fimmta fjölmennasta ríkið með um 235 milljónir íbúa. Lífæð landsins er fljótið Indus sem flytur vatn til landbúnaðarhéraðanna. Landið er líka þekkt fyrir glæsilegt fjalllendi og því miður líka fyrir vopnuð átök – bæði við Indverja um Kashmír-hérað en líka sjálfmorðssprengjuárásir. Erlendar leyniþjónustur telja ýmis hryðjuverkasamtök hafa höfuðstöðvar í landinu.
Nígería
Nígería er fjölmennasta ríki Afríku með um 219 milljónir íbúa. Í þessu Vestur-Afríkulandi er líka stærsta borg álfunnar, Lagos.
Núverandi mannfjöldi: 219 milljónir.
Flatarmál: 923.768 ferkílómetrar.
Tungumál: Hausa, youruba, enska.
Með um 219 milljónir íbúa er Nígería fjölmennasta Afríkuríkið og verður það um fyrirsjáanlega framtíð. Sumir vísindamenn spá því nefnilega að íbúatalan muni tvöfaldast fyrir árslok 2050. Efnahagslíf í Nígeríu hefur tekið miklum framförum á síðari árum en þótt efnahagur sé á uppleið, er enn slæmt ástand í landinu. Einkum er það Boko Haram, herská samtök múslíma sem hafa staðið að fjölda óhugnanlegra árása og mannrána á síðari árum. Í því sambandi hafa stjórnvöld iðulega verið ásökuð fyrir aðgerðaleysi.
Brasilía
Í Brasilíu býr fjölmargt fólk við sára fátækt í fátækrahverfum sem oft standa í fjallahlíðum í útjöðrum stórborga, svo sem Ríó de Janeiro og Sao Paulo.
Núverandi mannfjöldi: 215 milljónir.
Flatarmál: 8.516.000 ferkílómetrar.
Tungumál: Portúgalska.
Brasilía er bæði langstærsta og fjölmennasta ríki Suður-Ameríku. Flest tengjum við landið sjálfsagt við fótbolta og baðstrendur en mesta verðmæti landsins er í rauninni Amazónsvæðið sem er stærsta regnskógasvæði heims.
Langflestir íbúar eru á strandsvæðunum en mun færri búa inn til landsins. Í suðri eru flestir íbúar afkomendur Evrópumanna en norðar eru mun fleiri þeldökkir eða af blönduðum uppruna.
Það er stórborgin Ríó de Janeiro sem dregur að sér flesta ferðamenn. Þar er bæði hin gríðarstóra Kristsstytta og hinar frægu baðstrendur Copacabana og Ipanema. Það er hins vegar borgin Sao Paulo sem er stærst með 22,5 milljónir íbúa og borgin er jafnframt fjármálamiðstöð landsins. Í höfuðborginni Brasilíu búa hins vegar aðeins 4,8 milljónir.
Bangladess
Bangladess er afar láglent og kröftugar monsúnrigningar valda iðulega flóðum. Það gildir líka um sjálfa höfuðborgina, Dhaka.
Núverandi mannfjöldi: 171 milljón.
Flatarmál: 147.570 ferkílómetrar.
Tungumál: Bengalska.
Ef einstaka borg- og eyríki eru frátalin er Bangladess þéttbýlasta land heims með 171 milljón manns á aðeins tæpum 150 þúsund ferkílómetrum sem er aðeins á við eitt og hálft Ísland.
Þrjár stórár renna um Bangladess: Meghna, Padma og Bramaputra. Þær hafa afgerandi þýðingu fyrir landbúnaðinn. Um 70% alls lands er ræktarland og öfugt við mörg önnur ríki búa um 80% á landsbyggðinni.
Rússland
Rússland er langstærsta ríki hnattarins reiknað í landstærð. Að því fólksfjölda varðar er það þó aðeins í níunda sæti með um 144 milljónir íbúa.
Núverandi mannfjöldi: 144 milljónir.
Flatarmál: 17.098.246 ferkílómetrar.
Tungumál: Rússneska.
Rússland nær yfir miklu stærra landsvæði en nokkurt annað ríki og nær yfir 11 tímabelti. Að fólksfjölda til ná Rússar inn á topp tíu listann og eru í níunda sæti með 144 milljónir íbúa sem samsvarar því að einn Rússi sé á móti hverjum tíu Kínverjum. Stærstur hluti íbúanna er vestan Úralfjalla og þar með í Evrópu. Þar eru líka stórborgirnar Moskva og St. Pétursborg.
Rússland hefur fóstrað nokkra af risum heimsbókmenntanna, svo sem Pushkin, Fjodor Dostojevsky og Leó Tolstoj en líka mikilsmetin tónskáld eins Peter Tchaikovsky og Igor Stravinsky.
Eftir að Vladimir Putin komst til valda árið 2000 hefur gjáin milli Rússlands og Vesturlanda dýpkað og eftir innlimun Krímskaga 2014 og innrásina í Úkraínu 2022 er sambandið vægast sagt slæmt.
Mexíkó
Myndin sýnir fólk í mexíkóskum þjóðbúningum stíga dans á torgi. Dans og tónlist er reyndar ekki sjaldséð á götum eða torgum um helgar.
Núverandi mannfjöldi: 127 milljónir.
Flatarmál: 1.964.347 ferkílómetrar.
Tungumál: Spænska.
Í tíunda sæti er Mexíkó sem er þriðja fjölmennasta ríki í Ameríku, næst á eftir Bandaríkjunum og Brasilíu.
Mexíkó telst til Norður-Ameríku en teygir sig alllangt inn á Mið-Ameríkuskagann. Mexíkó tapaði stórum landsvæðum til Bandaríkjanna í stríði 1846-48. Fyrir landvinninga Spánverja blómstraði menning indíána í Mexíkó en síðan hefur þar mjög gætt áhrifa Spánverja og spænska er hið opinbera tungumál.
Mexíkó er um margt háð stórveldinu í norðri, BNA og sambúðin hefur oft verið stirð. Á síðari tímum hafa bandarísk stjórnvöld sett sig mjög upp á móti straumi ólöglegra innflytjenda inn yfir landamærin að Mexíkó, ekki síst til Texas.
Helstu ástæður innflytjendastraumsins eru fátækt og hernaður eiturlyfjabaróna, bæði í Mexíkó og öðrum ríkjum sunnar í álfunni. Þótt stjórnvöld í Mexíkó hafi skorið upp herör gegn glæpagengjunum, hefur ástandið lítið skánað.
Auk þeirra tíu ríkja sem hér hafa verið talin eru íbúar fleiri en 100 milljónir í Japan, Eþíópíu, Filippseyjum og Egyptalandi. Víetnam fylgir þar á eftir með 97-98 milljónir. Fjölmennasta ríkið í Vestur-Evrópu er Þýskaland með um 84 milljónir íbúa en í Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu eru íbúar á bilinu 60-70 milljónir.