Skýstrókar myndast árlega í Mið- og Norður-Evrópu frá maí og fram í ágúst.
Algengastir eru þeir í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi en þeir hafa sést allt norður í norðurhluta Svíþjóðar og Finnlands.
Síðast herjaði kröftugur skýstrókur á Tékkland í júní 2021. Þá fórust þrír og meira en 300 slösuðust.
Þessi skýstrókur var metinn F4 á Fujitakvarða sem nær frá F0 upp í F5.
Sléttan skapar fullkomnar aðstæður
Í Bandaríkjunum eru F5-skýstrókar algengir. Miðhluti Bandaríkjanna, slétturnar miklu, eru nefnilega það svæði á hnettinum þar sem myndun skýstróka er auðveldust.
Skýstrókar myndast helst undir miklum skúraskýjum sem verða til þar sem rakaþrungið heitt loft mætir köldu og þurru lofti.
Í Norður-Ameríku sogast heimskautaloft suður yfir Kanada og yfir Bandaríkjunum mætir það hitabeltislofti sunnan af Mexíkóflóa.
484 km hraði. Svo mikill mældist vindhraðinn í F5-skýstrók nálægt Oklahoma City í BNA, 3. maí 1999.
Slíkir árekstrar loftmassa eru sjaldgæfir í Evrópu vegna þess að fjallgarðar, einkum Alpafjöll liggja frá vestri til austurs og standa í vegi fyrir framrás loftmassans.
Í Norður-Ameríku snúa fjallgarðar í norður og suður þannig að loftið streymir hindrunarlaust bæði norður og suður.
Asía á dauðametið
Á síðari tímum eru það skýstrókarnir 2011 sem harðast hafa leikið Bandaríkin. Það ár geisuðu 293 skýstrókar 26. – 28. apríl og urðu 324 að bana.
Dánartölur í Bandaríkjunum eru þó ekki sambærilegar við þær hörmungar sem mun vægari skýstrókar valda í Suðaustur-Asíu.
Þannig kostaði F3-skýstrókur 1.300 manns lífið í Bangladess 26. apríl 1989 þegar þorpin Saturia og Mankganji þurrkuðust út.