Árum saman hafa verkfræðingar reitt hár sitt af örvæntingu vegna þess að ekki er unnt að hafa samband milli kafbáta og flugvéla. Nú hafa vísindamenn hjá MIT-háskólanum í BNA fundið lausnina.
Ný og næmari ratsjá greinir jafnvel fíngerðar bylgjur á yfirborði vatns. Þess vegna má fljótlega greina boð frá kafbátum úr flugvél.
Yfirborðið breytir sónboðum í radar
1 – Hljóð færist upp á yfirborðið
Hljóðboðin frá sóntæki kafbátsins mynda þrýstibylgjur upp að yfirborðinu.
2 – Yfirborðið hreyfist
Þrýstibylgjurnar valda örsmáum yfirborðsbylgjum.
3- Ratsjá les í vatnsyfirborðið
Ratsjárboð endurkastast af yfirborðinu og greina má jafnvel minnstu ójöfnur á því.
Hvernig er þetta hægt?
Kafbátar nota sóntæki og senda því hljóðbylgjur sem berast vel í vatni, en flugvélar nota útvarpsbylgjur eða radar, rafsegulgeislun sem berst vel í lofti. Vatnsborðið hefur því verið líkt og órjúfanlegur múr.
Vísindamennirnir hjá MIT fundu upp aðferð til að „þýða“ hljóðbylgjur sóntækjanna yfir í bylgjur sem ratsjá getur lesið. Hugmyndin byggist á því að nota mjög stuttar radarbylgjur, svonefndan millimetra-radar.
Millimetra-radar getur skynjað þær fíngerðu bylgjur sem myndast á yfirborði sjávar þegar hljóðbylgjurnar ná þangað upp. Þannig er sjálft yfirborðið notað sem milliliður.
Komdu í heimsókn á rannsóknarstofuna: Sjáðu hvernig vísindamenn frá Massachusetts Institute of Technology senda stafræn skilaboð frá neðansjávarhátalara til ratsjár í loftinu.
Í rannsóknastofu tókst að koma á framfæri boðunum „Hello from under water“ í formi stafrænnar sendingar frá hátalara í vatni til millimetra-ratsjár.
Þeir prófuðu kerfið síðan í stórri laug og náðu að greina boðin þótt bæði væru hljóðtruflanir í vatninu og allt upp í átta sentimetra öldur á yfirborðinu.
Vísindamennirnir hyggjast nú fínslípa tæknina, sem ætti að eiga framtíðina fyrir sér. Líffræðingar geta t.d. notað dróna til að safna upplýsingum um hitastig og strauma frá neðansjávarskynjurum. Sömuleiðis verður auðveldara að finna flugvélar sem hrapað hafa í sjó.