Náttúran

Ódrepandi dýr aðlagast á leifturhraða

Þau skreppa saman, dægursveiflur breytast og þau lifa innan um eitur. Þrátt fyrir að hitastigið hækki á ógnarhraða og hegðun mannanna þvingi dýrin út á ystu nöf, geta margar tegundir engu að síður fylgt með og aðlagast leiftursnöggt.

BIRT: 04/12/2022

BÚSVÆÐI

Sumar tegundir færast nær heimskautunum

 

Stór hluti dýralífs færir sig um set í átt frá miðbaug eftir því sem hitastig jarðar hækkar. Þessir flutningar geta haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir tilvist tiltekinna dýrategunda.

 

Jörðin fer hlýnandi og hærra hitastig hefur það í för með sér að hitastigið er of hátt fyrir mörg dýr til að þau geti komist af.

 

Mörgum tegundum tekst þó að færa sig um set þannig að hitastig nýja búsvæðisins henti þeim. Breskir og tævanskir vísindamenn hafa fylgst með flutningum rösklega 2000 dýrategunda allar götur frá árinu 1970 og skráð núverandi kjörlendi og borið saman við það sem áður var.

 

1690 m er sú vegalengd sem öll dýr fjarlægjast miðbaug á ári hverju.

 

Gögn þeirra sýna að dýr og plöntur færa sig að meðaltali um 1690 metra í átt frá miðbaug á ári hverju. Með þessu áframhaldi má búast við að dýr sem í dag lifa ekki norðar en á breiddargráðu Kaupmannahafnar geti verið að finna nærri Gautaborg eftir liðlega eina öld.

 

Vísindamennirnir búast þó við að hraðinn sem dýrin ferðast á muni aukast eftir því sem hnatthlýnun eykst á 21. öldinni.

 

Sum dýr fara töluvert hraðar en meðaltalið.

 

Villti ameríski kalkúninn hefur flust sem nemur 650 kílómetrum mót norðri, á meðan humarinn sem lifir meðfram ströndum Atlantshafsins hefur flust eina 500 km nær norðurskautinu.

 

Þessir gífurlegu dýraflutningar í átt frá  miðbaug hafa að sjálfsögðu sínar afleiðingar.

 

Þegar tegundirnar færa sig um set má búast við því að nýjar fæðukeðjur myndist, tegundir hverfi og að breyting verði á frævunarferli.

 

Þá óttast vísindamenn að sama skapi að ný rándýr flytji á tiltekin svæði þar sem önnur dýr verði þeim auðveld bráð og hverfi með öllu.

 

ATFERLI

Athafnir okkar mannanna þvinga aðrar tegundir til að breyta atferli sínu.

Athafnir okkar mannanna þvinga aðrar tegundir til að breyta atferli sínu.

 

Maðurinn rekur dýrin inn í myrkrið

Í því skyni að takmarka nærveru við mennina eru sum spendýr farin að vera á ferli þegar dimma tekur, þrátt fyrir að verða bráð soltinna rándýra á veiðum í myrkrinu.

 

Spendýr jarðarinnar eru í auknum mæli byrjuð að vera á ferli á nóttunni og að fela sig að deginum.

 

Þetta kom í ljós í viðamikilli rannsókn sem gerð var á árinu 2018, þar sem bandarískir vísindamenn fylgdust með líkamsklukku alls 141 dýrahjarðar, tilheyrandi 62 ólíkum dýrategundum frá öllum heimsálfum, að undanskildu Suðurskautslandinu.

 

Vísindamennirnir veittu því athygli að tíminn sem dýrin voru á ferli á nóttunni lengdist að meðaltali um 36 prósent á þeim svæðum sem dýrin áttu á hættu að rekast á menn að degi til.

Hjarðir fela sig að nóttu til

Villisvín ráðast til atlögu við sorptunnur stórborganna og antilópur narra veiðimenn. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að margar dýrahjarðir eru meira á ferli að nóttu til en áður.

Sléttuúlfur flýr undan göngufólki

Sléttuúlfar eru að öllu jöfnu vakandi, hvort heldur er að nóttu eða degi, en úlfar sem lifa í grennd við göngustígana í Santa Cruz-fjöllunum eru nú að 70 hundraðshlutum á ferli á nóttunni.

Sverðantilópur narra veiðimenn

Að öllu jöfnu eru sverðantilópur aðeins á ferli í björtu en í Hwange-þjóðgarðinum í Simbabve eru þær nú að 50 hundraðshlutum á ferli á nóttunni til að forðast veiðimenn.

Villisvín ráðast inn í Barselóna að nóttu til

Tiltekinn stofn villisvína úr skógunum umhverfis Barselóna er nú byrjaður að leita inn í stórborgina að nóttu til, þar sem þau geta leitað að fæðu í sorptunnum íbúanna, án þess að verða fyrir barðinu á veiðimönnum.

 

Einstaka tegundir gera þetta ýmissa hluta vegna, m.a. til þess að komast í fæðu ellegar að forðast veiðimenn. Að öllu jöfnu eru dýrin þó á ferli á nóttunni í því skyni að takmarka hvað mest snertingu við menn.

 

Vísindamenn leggja áherslu á að breytingar á líkamsklukku sé þekkt leið til aðlögunar, sem bráðdýr hafi beitt í milljónir ára til að forðast rándýrin sem veiða þau.

 

Geta dýranna til að vera virk á öðrum tíma en ella hefur kosti í för með sér hvað varðar sambúð dýra og manna en er þó engu að síður breyting frá því sem telst dýrunum eðlilegt.

 

Fyrir vikið eiga vísindamenn von á að þessi breyting eigi eftir að hafa afleiðingar á dýrahjarðirnar, t.d. hvað varðar fæðu þeirra og hegðun.

 

Næturgöltið gerir það einnig að verkum að dýrin komast í tæri við ný rándýr, sem þau þurfa að læra að umgangast.

 

Dýr tímgast fyrr

Aborrar gjóta fyrr, farfuglar leggja fyrr af stað og íkornar ná að koma upp tveimur gotum á einu ári. Mörg önnur dýr hafa aðlagað gottímann eða varptímann, til að tryggja það að tegundin lifi af.

Aborrar verða fyrr kynþroska

Aborrarnir í Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis verða kynþroska yngri en áður. Ástæðan er fólgin í gífurlega mikilli veiði sem stunduð er á þessum litla fiski í vatninu. Þar sem miklar líkur eru á að fiskarnir verði veiddir, þá eru það þeir fiskar sem verða snemma kynþroska sem ná að fjölga sér og bera erfðavísa sína áfram.

Blómasafi þvingar kólibrífugla til að verpa fyrr

Árið 2016 var gerð rannsókn sem leiddi í ljós að margar farfuglategundir í Norður-Ameríku eru byrjaðar að verpa eggjum sínum fyrr á árinu. Skýringin er sennilega sú að loftslagsbreytingar valda því að blómin springa út fyrr en ella, með þeim afleiðingum að fuglar sem lifa á blómasafa, líkt og mánabríinn, verða að tímgast fyrr en áður til að fá sem mest út úr blómasafanum.

Íkornar gjóta tveimur gotum á ári

Þegar árið 2003 komust vísindamenn að raun um að rauði íkorninn í Júkon í Kanada, fyrstur allra spendýra, væri fær um að aðlagast hnatthlýnuninni erfðafræðilega séð. Þessum smágerða trjásnillingi hafði nefnilega tekist að færa got fyrstu afkvæmanna fram um 18 daga á aðeins tíu ára tímabili, í takt við að vorið er fyrr á ferðinni. Með því móti tekst honum að koma tveimur gotum á legg áður en hausta tekur.

BÚKUR

Eftir el niño fyrirbærið árið 1998 skrapp beinagrind sjávarkembanna saman, því dýrunum reyndist torvelt að finna fæðu.

Dýrin minnka sökum hnatthlýnunar

 

Stór líkami hefur þörf fyrir meira magn súrefnis og fæðu og þetta er ókostur í hitanum. Fyrir vikið bregðast mörg dýr við hlýnun með því að minnka.

 

Á Galapagoseyjum hafa vísindamenn mælt stærð sjávarkembunnar í rösklega 25 ár.

 

Árið 1998 veittu þeir því athygli að kemburnar höfðu bæði grennst og styst.

 

Beinagrindur þeirra höfðu einfaldlega skroppið saman.

 

Ástæðan var fólgin í hitastigssveiflum í náttúrunni, því sjórinn var að hlýna með þeim afleiðingum að kemburnar áttu í basli með að útvega fæðu.

 

Í dag er það vel þekkt staðreynd að mörg dýr bregðast við hlýnun með því að minnka.

Hesturinn Sifrhippus, sem var á stærð við kött, minnkaði um 30% í hitanum.

Forsögulegur hestur minnkaði um þriðjung

Í því skyni að öðlast sem besta hugmynd um hvað muni gerast í dýralífinu ef hitastig jarðar hefur hækkað um fimm gráður eftir eina öld, leita vísindamenn u.þ.b. 56 milljón ár aftur í tímann.

 

Hitastig jarðar hækkaði um einar átta gráður yfir 10.000 ára tímabil og fór svo fyrst að lækka niður í það hitastig sem við þekkjum eftir hartnær 175.000 ár. Margar tegundir brugðust við þessum aukna hita með því að skreppa saman.

 

Þetta á einkum við um frumhestinn Sifrhippus, sem skrapp verulega saman, en hann var á stærð við kött.

 

Með því að rannsaka steingerðar tennur komust vísindamenn að raun um að þessi forveri reiðhesta hafði skroppið saman um 30 af hundraði í hitanum. Dýrið stækkaði svo umtalsvert aftur þegar kólna tók.

Fiskur þrífst vel í eiturblöndu

 

Þökk sé ofurhraðri þróun hefur dvergþorskurinn aðlagast umhverfiseitrinu PCB.

 

Á árunum milli 1947 og 1976 voru alls 600.000 kg af baneitraða umhverfiseitrinu PCB losuð út í Hudsonfljótið í grennd við New York.

 

Mengunin olli algeru hruni vistkerfisins í ánni með þeim afleiðingum að margar fisk- og sundfuglategundir hurfu með öllu.

 

Dvergþorskurinn er vanur að bregðast við PCB eitrun með því að seiðin fæðast með vansköpuð hjörtu en þessi 35 cm langi fiskur aðlagaðist nýju aðstæðunum leifturhratt og varð hundraðfalt síður næmur fyrir umhverfiseitrinu.

 

Vísindamenn höfðu áður greint álíka gagngera og hraða aðlögunarhæfni, en dvergþorskurinn var fyrsta hryggdýrið sem þessir einstæðu eiginleikar greindust hjá.

Breytt prótein vinnur gegn umhverfiseitri (smelltu á tölurnar til að fá nánari upplýsingar)

1

PCB binst próteini

Próteinið AHR2 binst fast við PCB og flytur eitrið inn í frumukjarnana í venjulegum dvergþorskum. Hér getur eitrið leitt af sér vansköpun í afkvæmum.
2

Lögun próteinsins breytist

AHR2-próteinið í erfðabreytta þorskinum skortir tvær þeirra 1104 amínósýra sem sambærilegt prótein annarra fiska sömu tegundar eru mynduð úr. Þetta gerir það að verkum að próteinið binst ekki PCB-sameindinni með sama móti.
3

PCB veldur minni skaða

Þökk sé breytta próteininu komast langtum færri eitraðar PCB-sameindir inn í frumukjarnann. Þetta gerir það að verkum að dvergþorskurinn verður hundraðfalt síður næmur fyrir umhverfiseitrinu.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: NIELS HALFDAN HANSEN

Shutterstock,© Andrew Cooper/NaturePL,© Oliver Larsen,© Claus Lunau

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Stjörnufræðingar finna fyrstu frumvísa að Vetrarbrautinni

Maðurinn

Hve hratt fer blóðið um líkamann?

Lifandi Saga

Fjöldamorð SS leiddi til miskunnarlausrar hefndar

Lifandi Saga

Hvað var gula?

Náttúran

Öflugasta bit heims – Hér eru fimm dýr sem ekki væri gott að enda í skoltinum á

Náttúran

Geta elliglöp herjað á hunda?

Lifandi Saga

Martröð í Mogadishu

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is