Maðurinn

Raunveruleiki þinn er ekki til … í raunveruleikanum. 

Flokkur agnarsmárra loftfimleikamanna ræðst inn í stofu þína. Þetta er ofskynjun. Heili þinn hefur skapað þetta allt – og hann notar sömu brellur þegar hann skapar það sem þú kallar raunveruleikann.

BIRT: 06/08/2022

Þess vegna ættir þú að lesa greinina:

  • Snerting á öxlina þegar þú ert ein heima, eða þú finnur reykjarlykt. Í greininni lærir þú meira um þínar eigin ofskynjanir – og þú getur lesið hvort aðrir hafi upplifað eitthvað svipað.

Dag eftir dag dúkkuðu litlar manneskjur upp í kringum herra B. Hann var vel menntaður, giftur 25 ára maður og hafði dregið verulega úr hömlulausri áfengismisnotkun.

 

Þessar litlu verur voru einungis um 30 cm háar og störðu á hann stórum augum með skældan munn og undarlegan andlitssvip. Þessar verur eltu hann um húsið í skrautlegum klæðum og hann gat heyrt fótatak þeirra á gólfinu.

 

Í tvær vikur voru þær nánast stöðugt í fylgd með herra B en síðan fór hann til læknis.

Sumar manneskjur upplifa ofskynjanir þar sem hópar af litlum litríkum verum marsera t.d. í gegnum húsið eða framkvæma loftfimleika innan um mublurnar.

Læknirinn greindi þessa reynslu herra B sem svonefnda smámennaofskynjun (e. liliput hallucination) og orsökina taldi hann vera svokallað brennivínsæði eða delerium tremens sem getur komið fram þegar mikilli drykkju er hætt.

 

Og herra B er alls ekki einn um viðlíka reynslu.

 

Ofskynjanir eru útbreiddur fylgikvilli fleiri sjúkdóma; t.d. heyra allt að 90% þeirra sem þjást af geðklofa ímyndaðar raddir sem tala til þeirra og skipa þeim stundum fyrir. Og um fjórðungur Parkinson-sjúklinga sér manneskju sem ekki er til staðar.

 

Slíkar undarlegar sjónhverfingar geta einnig hrjáð heilbrigðar manneskjur.

 

Í mörgum tilvikum eru ofskynjanirnar óþægilegar og ekki hægt að meðhöndla þær en kannski getur ný uppgötvun breytt því. Í einni tilraun sem markar nokkur þáttaskil hafa vísindamenn nefnilega afhjúpað hvaðan ofskynjanirnar eru komnar og uppgötvað að þessi draumkennda reynsla greinist í raun ekki mikið frá því sem við köllum raunveruleika.

 

Litlar manneskjur hoppa í sófanum

Þessar litlu manneskjur sem herra B sá alls staðar í kringum sig, er dæmigerð sjón-ofskynjun og er flokkuð sem smámenna-ofskynjun. Þessi flokkur ber nokkur einkenni og árið 2021 gaf hollenski geðlæknirinn Jan Blom umfangsmikla lýsingu á þeim, eftir að hafa farið í gegnum 226 læknaskýrslur af sjúklingum með þessa gerð ofskynjana.

Litlar, litríkar verur marsera í gegnum húsið eða framkvæma loftfimleika innan um mublurnar.

Í 97% tilvika koma þessar litlu manneskjur eða dýr fram sem eðlilegur hluti af umhverfinu og geta t.d. skriðið upp á sófa eða gægst fram á bak við skáp. Álíka stór hluti þeirra eru afar virkir og geta hoppað og dansað um í mublunum, marserað í röðum yfir gólfið eða framkvæmt loftfimleikabrellur.

 

Um helmingur af þeim persónum sem hafa smámenna-ofskynjanir telja þessar litlu manneskjur vera skemmtilegar eða að þær skipti engu máli, meðan hinum helmingnum finnst þær vera ógnvekjandi og ákaflega þreytandi.

Þrír sjúkdómar gabba skynfærin

Margir sjúkdómar orsaka ójafnvægi í heilanum sem getur leitt til ofskynjana. Þessar óraunverulegu upplifanir eru ákaflega mismunandi, allt eftir því hvaða hluti heilans á í hlut.

Raddir gefa skipanir

Allt að 90% geðklofasjúklinga heyra raddir sem ekki eru til í raunveruleikanum. Raddirnar geta verið árásargjarnar og skipandi og sjúklingurinn á oft samtöl við raddirnar sem geta bæði svarað spurningum og sett þær fram.

Skordýr skríða um líkamann

Um 4% alkóhólista sem hætta ekki að drekka fá delerium tremens. Þeir upplifa oft ofskynjanir þar sem t.d. munstur á veggfóðri verður að skordýrum sem skríða yfir sjúklinginn og hann finnur greinilega fyrir þeim á húðinni.

Hlédrægar verur í nágrenninu

Fjórði hver sjúklingur með Parkinson fær ofskynjanir þar sem þeir sjá aðrar manneskjur. Það eru að jafnaði engin samskipti milli sjúklingsins og ímynduðu persónunnar sem hverfur oftar en ekki þegar sjúklingurinn fókuserar á viðkomandi.

Margir sjúklinganna sem Jan Blom greinir frá hafa farið í gegnum heilaskönnun meðan ofskynjanirnar voru virkar. Skannanirnar sýna að ofskynjanirnar koma jafnan fram í kjölfar mikillar virkni í sjónstöðvum heilans en jafnframt að aðrir hlutar heilans taki einnig þátt, t.d. ennisblaðið sem gegnir meginhlutverki fyrir hugsun okkar, skynsemi og dómgreind.

 

Þessar athuganir hafa leitt til kenningar um að sjón og skynjanir komi jafnan fram þegar sjónstöðvarnar fái tiltölulega lítil boð frá augum og nýta því umframgetu sína til að búa til uppskáldaðar myndir.

LESTU EINNIG

Samkvæmt kenningunni grípa ennisblöðin inn í gang mála í tilraun til að skapa merkingu í myndunum og umbreyta þeim í trúverðugleg fyrirbæri eða persónur. Þessi kenning sækir styrk í það að Parkinson-sjúklingar fá jafnan ofskynjanir í daufri lýsingu þegar virkni í sjónstöðvunum er lítil.

 

Hin bjöguðu smámenni herra B sem við fjöllum um betur aðeins síðar, virtust afar sannfærandi. Aðrar gerðir af ofskynjunum eru ekki jafn eftirtektarverðar þrátt fyrir að skynhrifin geti verið alveg jafn raunveruleg. Og í reynd upplifa flest okkar einhvers konar ofskynjanir einhvern tímann á ævinni.

 

Raunveruleikinn er blekking

Tilfinningin af regndropa sem fellur á höndina úr heiðum himni. Hljóðið af gráti barns þegar barnið í raunveruleikanum er sofandi. Eða titringur í vasanum þrátt fyrir að snjallsíminn liggi á borðinu.

 

Skynhrif þessi eru hrein ímyndun en þau koma ekki að ástæðulausu. Margir vísindamenn hafa rannsakað ofskynjanir hversdagsins og telja nú að þær myndist vegna væntinga okkar til heimsins.

Heilbrigt fólk getur líka fundið fyrir ofskynjunum. Það getur meðal annars verið tilfinningin fyrir titrandi síma í vasanum eða hönd á öxl.

Einn slíkur vísindamaður er bandaríski sálfræðingurinn Philip Corlett. Árið 2017 birti hann niðurstöður fjölmargra tilrauna þar sem hópur þátttakenda var látinn heyra stuttan tón samtímis því að tiltekin fígura dúkkaði upp á skjánum fyrir framan þá. Í hvert sinn sem þátttakendur sáu fígúruna áttu þeir að ýta á hnapp ef þeir heyrðu einnig tóninn.

 

Þar sem þessi tvö skynhrif fylgdust ævinlega að til að byrja með varð þeim smám saman eðlilegt að ýta á hnappinn þegar fígúran sást, því að þátttakendur væntu þess að heyra einnig tóninn. En síðan fór Philip Corlett að svindla dálítið.

 

Hann sýndi fígúruna án þess að spila tóninn og niðurstaðan var sú að þátttakendur þrýstu oft samt sem áður á hnappinn. Það var ekki vegna þess að þeir voru að fúska og þrýstu á hnappinn af einskærum vana. Þeir töldu í raun og veru að þeir hefðu heyrt tóninn.

Heilbrigðir upplifa einnig ofskynjanir

Bæði heilbrigðar og sjúkar manneskjur geta upplifað ofskynjanir. Þær tengjast oft sjón- eða heyrnarskyni en önnur skynfæri geta einnig átt í hlut. Kannski kannast þú við einhverja af þessum tilfinningum hér á listanum.

Nefið finnur reykjarlykt

Margir upplifa lykt sem er ekki er til í raun og veru. Venjulega er þetta óþægileg lykt eins og reykur, bensín, saur, rotinn fiskur eða egg. Ofskynjanirnar eru oftast tímabundnar, en þær geta verið langvarandi, til dæmis hjá þunguðum konum.

Málmbragð af tungunni

Ofskynjanir í bragð- og lyktarskyni getur verið erfitt að greina í sundur en bragð-ofskynjanir geta meðal annars virkað eins og sterkt salt eða eitthvað beiskt efni – eða málmbragð í munninum eftir erfiðar æfingar.

Raddir fylla höfuðið

Heyrnar-ofskynjanir birtast oft í formi radda. Þetta kann að vera hljóðið af eigin hugsunum eða þá að aðrir séu að tala við mann. Öllu sjaldgæfari eru ofskynjanir með tónlist eða skyndilegur og síðan hverfandi hávaði.

Ofskynjun situr í stólnum

Sjón-ofskynjanir geta komi fram sem skýrar og nákvæmar myndir af t.d. persónu eða dýri sem líta raunverulega út. Oft blandast ofskynjanir raunveruleikanum þannig að persóna sem ekki er til virðist t.d. sitja á raunverulegum stól.

Óraunverulegar köngulær kitla húðina

Meðal ofskynjana í snertiskyni eru t.d. köngulær á líkamanum, dýr undir húð sem reyna að skríða út, hönd á öxl, líffæri sem hreyfist inni í líkamanum eða sími sem titrar í vasanum.

Corlett nefndi fyrirbærið skilyrta ofskynjun og með hjálp af ómskönnun heilans gat hann sýnt að m.a. heyrnarstöðvar í gagnaugablöðunum urðu virkar þegar þátttakendur fundu slíkar ofskynjanir. Það bendir til að þátttakendur hafi á vissan máta haft rétt fyrir sér þegar þeir töldu sig hafa heyrt hljóðið.

 

Skilyrtar ofskynjanir virðast vera afurð þess hvernig heilinn vinnur úr skynhrifum þegar hann túlkar raunveruleg skynhrif og myndar skoðun á umhverfinu. Það sem við köllum raunveruleika er nefnilega samkvæmt mörgum vísindamönnum í sjálfu sér að hluta til uppskálduð afurð.

 

Þeir telja að skynhrif okkar tengist stöðugt væntingum okkar og reynslu og að þessir þættir myndi samanlagt raunveruleika okkar – ferli sem þeir kalla forspár-kóðun (e. predictive coding).

 

Upplifun okkar á raunveruleikanum er þannig einungis að hluta til afleiðing af skynhrifum frá hinum raunverulega heimi. Tilraunir Corletts með skilyrtar ofskynjanir sýna greinilega fram á þessa blekkingu heilans. En þetta á sér ekki bara stað í vísindalegum tilraunum – þetta á sér stað sérhverja sekúndu í lífi þínu.

 

Ofskynjanir eru hrein efnafræði

Heilinn blandar skynhrifum og væntingum saman af góðri og gildri ástæðu. Væntingar okkar leyfa heilanum að búa til mynd af umhverfi okkar áður en skynhrifin hafa náð til heilans. Þegar þau bætast síðan við þarf heilinn ekki að búa til mynd frá grunni, heldur lætur sér nægja að láta skynjanir fylla upp í fyrirframskapaða mynd.

 

Þetta tryggir að heilinn getur unnið úr umhverfinu mun hraðar og væntingar geta jafnframt fyllt upp í mögulegar gloppur í skynjuninni.

 

Þú getur m.a. þakkað þessu ferli fyrir að geta heyrt rödd annarrar manneskju í veisluglaumi. Ef kunningi þinn segir t.d.: „ — fór ekki í gang í morgun“ þá getur heilinn í ljósi reynslunnar skjótt reiknað út að það orð sem skortir er „bíllinn“.

 

Þetta nýtir heilinn til að þú fáir fullkomna setningu án þess að þú uppgötvir að þú heyrðir ekki þetta tiltekna orð.

 

Í vissum skilningi er maður því ævinlega með einhverjar ofskynjanir sem jafnan passa mjög vel við raunveruleikann. Það er ekki fyrr en heilinn fer að leggja of mikla áherslu á væntingar sínar að maður verður fórnarlamb raunverulegra ofskynjana, þ.e.a.s. reynslu sem passar alls ekki við raunveruleikann.

 

Rannsókn frá árinu 2021 hefur nú varpað ljósi á hvernig heilinn getur farið að veita væntingunum of mikið vægi. Bandaríski geðlæknirinn Katharina Schmack þjálfaði mýs í að þrýsta með trýninu á hnapp þegar þær heyrðu tiltekið hljóð og annan hnapp ef þær heyrðu ekki hljóðið. Rétt eins og í tilraunum Philip Corletts kom í ljós að mýsnar fengu ofskynjanir endrum og sinnum og heyrðu hljóð sem ekki var til staðar.

 

Smack hafði möndlað við gen músanna þannig að heilar þeirra lýstu upp á þeim stöðum þar sem dópamín losnaði í heilanum. Þar með gat hún séð að dópamín losnaði í heilasvæði, svonefndum rákahjarna (e. corpus striatum), rétt áður en mýsnar fengu ofskynjanir.

Dópamínvíma orsakar ofskynjanir

Væntingar okkar verka á upplifun okkar á heiminum umhverfis okkur. En of mikið magn af boðefninu dópamín getur gabbað heilann til að trúa því að væntingarnar séu í sjálfu sér raunveruleikinn.

1. Raunveruleikinn stoppar í rákahjarna

Sjón- og heyrnarstöðvar senda skilaboð um skynhrif til svæðisins rákahjarna. Þar er unnið úr þeim og þau samhæfð við boð frá öðrum stöðvum heilans áður en þau eru send til heilabarkarins og koma fram sem mynd eða hljóð.

2. Heilabörkurinn býr til væntingar

Í ljósi nýrra og gamalla skynhrifa ásamt boðum frá öðrum hlutum heilans myndar heilabörkurinn væntingar um hvernig næstu skynhrif muni verða. Væntingar þessar eru sendar sem rafboð til rákahjarna.

3. Dópamín sendir væntingarnar til baka

Yfirleitt ná slíkar væntingar ekki lengra en til rákahjarnans en mikið magn af boðefninu dópamíni getur sent boðin aftur til heilabarkarins. Þar er unnið úr þeim sem raunverulegum skynhrifum og fyrir vikið myndast ofskynjanir.

Rákahjarni virkar eins og milliliður fyrir taugaboð frá m.a. heyrnar- og sjónstöðvum, áður en boðin eru send áfram til heilabarkarins og mynda upplifun af hljóði og mynd. En rákahjarni tekur einnig við taugaboðum frá öðrum svæðum heilabarkarins sem innihalda upplýsingar um hvað það er sem heilinn á von á að heyra eða sjá.

 

Rákahjarninn skiptir þannig máli fyrir það sem þú raunverulega skynjar á móti því sem heilinn væntir. Þannig ræður þetta litla heilasvæði hvað það er sem þú upplifir.

 

Katharina Schmack uppgötvaði að það var aukamagn af dópamíni til staðar þegar rákahjarninn kaus að leggja aukið vægi á væntingar og leysti þannig ofskynjun úr læðingi. Þetta samhengi staðfestir hún með hjálp frá snjöllu inngripi sem nefnist á ensku optogenetics.

Heilinn getur látið eitthvað sem þú ætlar að segja líða vera eins og eitthvað sem þú hefur heyrt.

Mýsnar voru nefnilega genabreyttar þannig að Schmack gat með markvissum ljósgeisla skapað tilbúna dópamínvímu í rákahjarna. Þegar hún gerði það var til ofskynjun sem fékk dýrin til að ýta á hnappinn.

 

Mikið magn af dópamíni í rákahjarna getur m.ö.o. orsakað ofskynjanir í músum – og þetta á líklega einnig við um menn.

 

Lyf við ógleði geta virkað

Uppgötvun Katharinu Schmack passar vel við svonefnda dópamín-tilgátu sem segir að sjúklingar sem eru með geðklofa og fá ofskynjanir geri það að hluta til vegna mikils magns af dópamíni í tilteknum stöðvum heilans. Þetta ójafnvægi getur m.a. truflað taugasamband í tveimur heilastöðvum, Wernickes og Brocas-stöðvum sem taka þátt í að skilja og móta tungumálið.

 

Þegar þessi tvö svæði virka ekki vel saman getur eitthvað sem þú ætlar þér að segja orðið þess í stað að einhverju sem þú hefur heyrt. Þetta getur skapað radd-ofskynjanir sem eru einkennandi fyrir geðklofa.

 

Wernickes og Brocas-svæðin tengjast einnig rákahjarna og þessi nýja þekking frá tilraunum Katharinu Schmacks mun kannski hraða þróun lyfja sem miða að því að minnka dópamínmagn í rákahjarnanum til þess að draga úr ofskynjunum geðklofasjúklinga.

 

En nú eru lyfjaframleiðendur uppteknir af lyfjum sem minnka magn annars boðefnis í heilanum.

Heilasvæðið rákahjarni gegnir meginhlutverki í myndun ofskynjana. Hér má sjá fjölmargar taugatengingar hans við heilabörkinn.

Árið 2016 viðurkenndi bandaríska lyfjastofnunin fyrsta lyfið í sögunni sem er ætlað að slá á sjónofskynjanir hjá sjúklingum með Parkinson. Lyfið Nuplazid hefur engin áhrif á dópamín en virkar hins vegar með því að skrúfa fyrir áhrif boðefnisins serótóníns í rákahjarnanum.

 

Líklega veldur efnið því að rákahjarninn heldur væntingum heilans utan við skynhrifin þannig að sjúklingar losna við ofskynjanir en í raun er ekki vitað hvernig það virkar nákvæmlega.

 

Nuplazid hefur ekki hlotið viðurkenningu í Evrópu en það hefur hins vegar annað efni gert, ondansetron sem grípur einnig inn í áhrif serótóníns. Lyfið hefur verið prófað á sjúklingum með Parkinsonveiki en það hefur þegar verið samþykkt í allt öðru samhengi. Lyfið er nefnilega notað við ógleði sem tengist kemískri krabbameinsmeðferð.

 

Meðan sjúklingar með ofskynjanir bíða eftir lyfi til að losna við kvalara sína er mannfræðingurinn Tanya Luhrman með aðra hugmynd um hvernig megi losna við ofskynjanir án þess að nota lyf.

 

Raddir með persónuleika

Ofskynjanir geðklofasjúklinga mótast ekki einvörðungu af innbyggðu ójafnvægi í heilanum. Þessar ímynduðu upplifanir mótast einnig af menningu hvers lands. Í rannsókn frá árinu 2014 sýndi Tanya Luhrman að einkenni ofskynjana voru ólík fyrir geðklofa í BNA annars vegar og Indlandi og Ghana hins vegar.

 

Ofskynjanir Bandaríkjamanna voru yfirleitt árásargjarnar og hatursfullar og þessar draugaraddir komu oft fram með ásakanir og skipanir. Hjá Ghanabúum og Indverjum voru raddirnar hins vegar fremur glaðlegar og vinalegar og í sumum tilvikum litu sjúklingarnir á þær sem mikinn ávinning, enda höfðu geðklofasjúklingarnir þá einhvern til að tala við.

 

Samkvæmt Tönju Luhrman getur munurinn stafað af því að Bandaríkjamenn eru miklir einstaklingshyggjumenn og líta því á raddirnar sem óþægilegt inngrip í einkalíf þeirra. Ghanabúar og Indverjar koma hins vegar frá mun félagslyndari menningarsvæðum og taka því á móti röddunum á jákvæðari máta.

LESTU EINNIG

Þessi þekking gæti gagnast geðklofasjúklingum um heim allan, að mati Luhrman. Geðklofasjúklingar geta nefnilega lært að byggja upp betra samband við raddir sínar með meðferð svo þeir þjáist síður af ofskynjunum.

 

Einn af þeim sjúklingum sem Tanja Luhrman talaði við hafði fengið nýja rödd sem talaði reglulega við hann á afar óþægilegan og illkvittinn máta. En sjúklingurinn svaraði röddinni og sagði henni að þau þyrftu nú að vera saman og til þess að það gæti virkað yrðu þau að sýna hvort öðru gagnkvæma virðingu. Þetta virkaði ágætlega og nýja röddin varð vinalegri.

 

Fleiri rannsóknir hafa sýnt að jákvæð upplifun ofskynjana hefur mikla þýðingu fyrir lífsgleði sjúklinga og því kann aðferð Luhrmans að verða mikilvæg meðferð sem getur hjálpað til ásamt nýjum lyfjum.

 

Hvað varðar herra B og hópinn af litríku litlu smámennunum þá endar sú saga einnig farsællega. Eftir fjögurra daga meðferð við áfengisfráhvörfunum slapp þessi ungi maður við dansandi og skoppandi kvalara sína.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Gorm Palmgren

© Shutterstock & Lotte Fredslund, Shuttarstock,© F.C. Yeh et al./Brain.labsolver.org

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

Náttúran

Greind í heimi dýranna

Alheimurinn

Hér eru sannanirnar fyrir Miklahvelli

Náttúran

Nýfundin risaeðla með furðu smáa framlimi

Lifandi Saga

Veislubúningar varðmanna Nixons aðhlátursefni

Náttúran

Hvað eru doppleráhrif?

Spurningar og svör

Af hverju eru sítrónur súrar?

Maðurinn

Hvernig framleiðir líkaminn orku úr fæðunni?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.