5 mýtur um gamla heila: Heilinn styrkist með aldrinum

Gamlir, fúllyndir karlar og ruglað gamalt fólk sem ekki man nokkurn skapaðan hlut. Fjöldinn allur af sögusögnum segir okkur hvernig veiklun heilans hafi áhrif á okkur í ellinni. Margt af þessu eru mýtur sem ekki halda vatni.

BIRT: 08/02/2023

LESTÍMI:

9 mínútur
,,ELDRA FÓLK ENDURTEKUR SIG”  – ,,MINNIÐ VERSNAR”  – „VIÐ VERÐUM HJÁLPARLAUS OG RINGLUГ – ,,ALDURINN VEIKLAR SKYNFÆRIN”  –  ,,VIÐ VERÐUM SÚRIR FÝLUPOKAR”

,,ELDRA FÓLK ENDURTEKUR SIG" 

Eldra fólk á það til að endurtaka sig, en hefur til ráðstöfunar meiri orðaforða.

Rangt

Mýtan um slæmt minni eldra fólks gildir ekki um hæfnina til að muna orð og merkingu þeirra. Orðaforðinn eykst fram yfir sjötugt, sennilega vegna þess að orðminni er að finna alls staðar í heilanum.

 

Afar og ömmur segja kannski sömu sögurnar aftur og aftur en það er sjaldnast leiðinlegt vegna þess að þau nota iðulega ný og spennandi orð. Orðaforði okkar heldur nefnilega áfram að vaxa, jafnvel þótt eftirlaunaaldri sé náð.

1. Orðaforði eykst með árunum

Við bætum stöðugt við orðaforðann með árunum og tungumál okkar verður því blæbrigðaríkari í tali og tjáningarmáta.

2. Talnaskilningur verður stöðugur

Við höldum getu okkar til að vinna úr tölum allt frá frá reikningi til rökrænna áskorana allt lífið.

3. Sjónskyni hrakar

Sjónræn athygli okkar nær hámarki á fertugsaldri og minnkar síðan hægt og rólega með árunum.

Samkvæmt breskri netrannsókn læra börn fjögur ný orð á dag frá þriggja til sextán ára aldurs. Orðaforðinn vex svo áfram með tveimur nýjum orðum á dag öll fullorðinsárin.

 

Sálfræðingurinn Joshua Hartshorne hjá Harvardháskóla í Boston sýndi fram á það í rannsóknarniðurstöðum 2015 að okkur fer líka fram við að nýta orðin í daglegu máli.

 

Hann lagði netpróf fyrir 21.000 manns á aldrinum 10-71 árs sem áttu að finna samheiti við tiltekið orð. Niðurstöðurnar sýndu að hæfnin til að finna samheiti óx nokkuð stöðugt og orðaforðinn náði hámarki við 68 ára aldur.

 

Vísindamenn þekkja ekki ástæðuna en umfangsmikil rannsókn frá 2016 gæti gefið vísbendingu.

 

Taugalíffræðingurinn Jack Gallant hjá Kaliforníuháskóla skannaði heila sjö þátttakenda í tvo tíma meðan þeir hlustuðu á upplestur sagna úr ýmsum bókum. Niðurstöðurnar sýndu að orðin voru vistuð á fjölmörgum stöðum í heilaberkinum og skyld orð oft varðveitt í grennd við hvert annað.

 

Orðaforðinn virðist þannig ekki tengjast neinum einum tilteknum heilastöðvum sem kynnu að veiklast með aldrinum. Og ef orðin eru varðveitt um allan heilann, þarf stór hluti hans að veiklast áður en það hefur alvarleg áhrif á orðaforðann.

,,MINNIÐ VERSNAR"

Með aldrinum dregur úr hæfni til að muna atburði. Við eigum því t.d. erfiðara með að finna réttu spjöldin í þessu barnaspili.

Að hluta til rétt

Með aldrinum getum við farið að gleyma hvar við lögðum bílnum eða hvað við ætluðum að kaupa í matvörubúð. En við munum staðreyndir og gleymum aldrei hvernig á að binda hnút.

 

Minni skiptist í mismunandi svið og það breytist ekki með aldrinum.

 

Mest verða aldursáhrifin á atburðaminnið en þar flokkast ýmsar upplifanir, persónuleg reynsla, bernskuminningar, minningar frá sumarfríinu í fyrra og það sem gerðist í vinnu eða skóla fyrr um daginn.

 

Þetta svið minnis virkar best um 35 ára aldur en fer síðan hrakandi með hækkandi aldri. Það er þess vegna sem við getum þurft að leita að bílnum á bílastæðinu eða gleymum að kaupa eitthvað af því sem til stóð.

 

Tilraun sem gerð var árið 2000 leiddi í ljós muninn á atvikaminni og kennslaminni. Hópar ungs og eldra fólks fengu að sjá 16 orð. Síðan voru þessi tvö minnissvið prófuð hvort í sínu lagi.

Til að prófa atburðaminnið voru þátttakendur beðnir að skrifa öll orðin sem þeir mundu.

 

Í þessum hluta stóð unga fólkið sig mun betur. En þegar kom að því að benda á þessi 16 orð á 32 orða lista í tilviljanakenndri röð til að prófa kennslaminnið, stóð eldra fólkið sig nánast jafn vel og yngri hópurinn.

 

Tvö önnur svið minnis verða mun síður fyrir áhrifum af aldrinum, þekkingarminni og ferlisminni. Á sviði þekkingarminnis er öll bein þekking, m.a. um staðreyndir, t.d. nöfn fjölskyldumeðlima, 2 + 2 = 4 eða að París er höfuðborg Frakklands. Þessi gerð minnis er í bestu standi um sextugt.

 

Ferlisminni felst í því hvernig við framkvæmum eins og ósjálfrátt ýmsar samsettar og flóknar aðgerðir, svo sem að binda tiltekna hnúta eða að spila á píanó. Tilraunir hafa sýnt að þegar eldra fólk fer að eiga erfiðara með slíkar hreyfingar stafi það ekki af lakara ferlisminni, heldur hafi dregið úr fimi og hreyfigetu.

 

Þess vegna taka þessar hreyfingar lengri tíma þótt fólk muni nákvæmlega hvernig farið er að.

„VIÐ VERÐUM HJÁLPARLAUS OG RINGLUГ

Um fimmtug erum við hæfust til að fást við flókin úrlausnarefni.

Rangt

Ímyndaðu þér að þú sért í erlendri borg og uppgötvir að bílaleigubíllinn hefur verið dreginn burt af því að þú hafðir lagt ólöglega. Þú ætlaðir annars að fara út á flugvöll, skila bílnum og stíga svo upp í flugvél til næsta áfangastaðar í heimsreisunni.

 

Það eru tæpir fjórir tímar þar til flugvélin fer. Hvað gerirðu nú? Ef þú ert um fimmtugt ertu frá sjónarmiði vísindanna á besta aldri til að leysa slíkt vandamál sem bæði krefst reynslu, þekkingar, dómgreindar og hraðrar hugsunar.

 

Vísindamenn skipta greind í tvö meginsvið sem þeir kalla fljótandi og kristallaða greind. Fljótandi greind samsvarar reiknihraða tölvuörgjörva og lýsir því hve hratt og vel taugafrumur heilans vinna saman þegar leysa þarf úr vanda.

 

Hin kristallaða greind samsvarar í samlíkingunni harða diskinum og lýsir því hve mikla þekkingu og reynslu þú getur nýtt þér.

Greindarsvið þróast misjafnt á ævinni

Við nýtum mismunandi greindarsvið, allt eftir því hvers konar vanda við þurfum að leysa en mismunandi þættir greindar hjálpast að. Þess vegna fer okkur fram í úrlausnarhæfni.

Fimmtugir snillingar

Hæfnin til að leysa úr flóknum vanda krefst samnýtingar greindarsviða. Við náum hæst um fimmtugt en síðan fer hæfnin minnkandi.

Það hægist á þér

Fljótandi greind lýsir því hve hratt þér tekst að tengja saman þekkingaratriði til að ná árangri. Hún lækkar nokkuð hratt eftir þrítugt.

Gagnagrunnurinn stækkar

Eldra fólk er reyndara og getur nýtt sér meiri þekkingu fram að 60-70 ára aldri. Kristölluð greind vegur upp á móti því að fljótandi greind minnkar.

Báðar gerðirnar skipta miklu máli við úrlausnir viðfangsefna og geta bætt hvor aðra upp. Hafir þú t.d. áður lent í því að bíllinn þinn væri tekinn, þekkirðu það ferli og það eykur möguleika þína til að ná flugvélinni, þótt þú hugsir ekki né framkvæmir mjög hratt.

 

Taugasérfræðingurinn Xi Chen hjá Texasháskóla í Dallas í BNA sýndi fram á það árið 2017 að fljótandi greind byrji að veiklast strax upp úr 25 ára aldri, þegar heilinn er fullþróaður. Kristölluð greind eykst hins vegar eftir því sem við bætum við okkur þekkingu og reynslu og fer ekki minnkandi fyrr en um 65 ára aldur.

 

Xi Chen lagði flókin úrlausnarefni fyrir þátttakendur í tilraun sinni og komst að þeirri niðurstöðu að hæfnin til að leysa úr vandamálum þróist alla ævi sem summa þessara tveggja greindarþátta.

 

Fólki fer fram við úrlausnir verkefna alveg til fimmtugs vegna þess að kristallaða greindin eykst áfram en upp úr því fer úrlausnarhæfnin heldur niður á við vegna þess að hinni fljótandi greind hrakar meira en sem svarar viðbót kristallaðrar greindar. Það tekur því æ lengri tíma að finna lausnir.

,,ALDURINN VEIKLAR SKYNFÆRIN"

Eldra fólk hefur færri heilafrumur til að vinna úr tali.

Rétt

Þegar við eldumst og förum að heyra illa, stafar það ekki bara af því að litlu hárin í innra eyranu séu slitin og nái ekki lengur að greina hljóðbylgjurnar. Heilinn á heldur ekki jafn auðvelt með að greina orð frá öðrum hljóðum og skynja heilar setningar. Þessu sló kanadíski heilasérfræðingurinn Pascale föstu árið 2020 eftir heilaskannanir á 32 einstaklingum á aldrinum 19-87 ára.

 

Niðurstöður hennar sýndu að heyrnarstöðvar í heilaberki, ásamt öðrum heilastöðvum sem eiga þátt í málskilningi, rýrna með aldrinum. Eldra fólk hefur þannig færri heilafrumur til að greina þau orð sem eyrun nema.

 

Skannanir leiddu líka í ljós að þær frumur sem eftir voru sendu frá sér færri boð og starfa þannig ekki jafn vel og í yngra fólki.

Svipað gildir um sjónskynið sem notar töluvert mikið af heilagetunni þar eð heilinn þarf alveg stöðugt að greina og túlka sjónáreiti.

 

Afturför í sjálfum augunum gerir eldra fólki örðugt að sjá skýrt nálægt sér eða sjá í rökkri. Veiklun heilans veldur því svo til viðbótar að við skynjum liti öðruvísi á efri árum, eigum erfiðara með að meta fjarlægð og hraða hluta á hreyfingu og greinum smáatriði eða blæbrigði ekki jafn vel. Að einu leyti má segja að veiklun skynfæranna komi sér vel, nefnilega að því er varðar sársaukaskynið.

 

Taugasálfræðingurinn Ana María Gonzáles-Roldán hjá Balearic-háskóla á Mallorca sýndi fram á það árið 2020 að eldra fólk, að meðaltali 67 ára, hafði vel merkjanlega hærri sársaukaþröskuld en ungt fólk í kringum 21 árs aldur.

 

Ekki þurfti einungis að þrýsta fastar á húð eldra fólksins til að það skynjaði sársauka, heldur mat það sársaukann minni en unga fólkið.

 

Ástæðunnar fyrir þessu er líka að leita í heilanum. Skannanir sýndu nefnilega að þau tauganet sem tengja líkamlegan sársauka við skyn heilans voru ekki jafn virk og hjá unga fólkinu.

 

Þessu reyndist öfugt farið varðandi annað tauganet milli ennisblaðanna og tilfinningastöðva sem var talsvert virkara hjá eldri hópnum. Það gæti hugsanlega sýnt meðvitaða hæfni til að hafa sársaukaboð að engu.

,,VIÐ VERÐUM SÚRIR FÝLUPOKAR"

Í rauninni verðum við vinsamlegri og þægilegri í umgengni þegar við eldumst.

Rangt

Fúllynd gamalmenni eru eins konar erkitýpa í bíómyndum og líka í hugum margra. Þetta á þó ekkert skylt við veruleikann. Með aldrinum verðum við nefnilega vinsamlegri og auðveldari í umgengni.

 

Eftir sextugt verður flest fólk minna gefið fyrir skemmtanir og félagslíf, ásamt því sem nýjar hugmyndir eiga síður upp á pallborðið. Þetta sést m.a. í aukinni samviskusemi sem gefur til kynna hve skipulega við hegðum okkur. Minni þátttaka út á við og finnum meira öryggi í því að hafa allt í sem föstustum skorðum leiðir oft til minni þátttöku í félagsstarfi og af því leiðir svo að okkur getur fundist við vera einmana.

 

Margt eldra fólk fer að hafa meiri áhyggjur af ýmsu og þetta getur leitt af sér neikvæðni, mögulega fúllyndi og jafnvel þunglyndi. Slíkt sálarástand er þó afleiðing einsemdarinnar en ekki ellinnar. Í veruleikanum verðum við nefnilega auðveldari í umgengni og blíðari í skapi.

 

Fram á þetta sýndi sálfræðingurinn Brent Roberts hjá Illinoisháskóla í BNA árið 2006, þegar hann lagði mat á tvo sálfræðilega grunnþætti, vinsamleika og tilfinningalegt jafnvægi , hjá 50.000 manns á aldrinum 18-80 ára.

 

Niðurstöðurnar sýndu að við verðum stöðugt vinsamlegri með aldrinum og sú þróun heldur áfram alveg fram á elliár. Hið sama gildir um tilfinningalegt jafnvægi. Þetta sýnir að með aldrinum dregur úr skapofsa og við öðlumst meira jafnvægi og rósemi.

Öldrun styrkir fimm hluta heilans

Vísindamenn eru stöðugt að bæta við sig þekkingu á getu heilans til að bæta sig og gera betur. Vísindin þekkja nú þegar nokkur dæmi um hvernig heilinn skapar nýja hæfileika með aldrinum.

1. Orðaforði er dreifður

Stórir hlutar heilabarkarins geyma og tengja saman orðin sem við lærum í gegnum lífið. Það er líka ástæðan fyrir því að við missum ekki allan orðaforða okkar ef einhver hluti heilans skemmist.

2. Við reimum skóna alla ævi

Þegar við eldumst getum við samt þekkt annað fólk og reimt skóna, að því gefnu að alzheimer hafi ekki áhrif á heilann. Munurinn er sá að þetta gerist aðeins hægar með aldrinum.

3. Gagnagrunnurinn stækkar

Þó að fljótandi greind á svæðinu efst í heilanum verði hægvirkari í að tengja saman þekkingu, þá veitir kristallaða greindin fremst í heilanum meiri reynslu.

4. Eldra fólk með hærri sársaukaþröskuld

Skyn og tilfinningar okkar veikjast með aldrinum, sem er kostur þegar kemur að sársauka. Samkvæmt rannsókn hefur eldra fólk marktækt hærri sársaukaþröskuld en ungt fólk.

5. Við verðum mildari með aldrinum

Heiladingullinn minnkar og stuðlar að því að við höfum færri hormón í líkamanum. Þess vegna er það mýta að við verðum fúlari þegar við eldumst. Þvert á móti verðum við mildari, vinalegri og þægilegri í allri umgengni.

Öldrun styrkir fimm hluta heilans

Vísindamenn eru stöðugt að auka við sig þekkingu á getu heilans til að bæta sig og gera betur. Vísindin þekkja nú þegar nokkur dæmi um hvernig heilinn skapar nýja hæfileika með aldrinum.

1. Orðaforði er dreifður

Stórir hlutar heilabarkarins geyma og tengja saman orðin sem við lærum í gegnum lífið. Það er líka ástæðan fyrir því að við missum ekki allan orðaforða okkar ef einhver hluti heilans skemmist.

2. Við reimum skóna alla ævi

Þegar við eldumst getum við samt þekkt annað fólk og reimt skóna, að því gefnu að alzheimer hafi ekki áhrif á heilann. Munurinn er sá að þetta gerist aðeins hægar með aldrinum.

3. Gagnagrunnurinn stækkar

Þó að fljótandi greind á svæðinu efst í heilanum verði hægvirkari í að tengja saman þekkingu, þá veitir kristallaða greindin fremst í heilanum meiri reynslu.

4. Eldra fólk með hærri sársaukaþröskuld

Skyn og tilfinningar okkar veikjast með aldrinum, sem er kostur þegar kemur að sársauka. Samkvæmt rannsókn hefur eldra fólk marktækt hærri sársaukaþröskuld en ungt fólk.

5. Við verðum mildari með aldrinum

Heiladingullinn minnkar og stuðlar að því að við höfum færri hormón í líkamanum. Þess vegna er það mýta að við verðum fúlari þegar við eldumst. Þvert á móti verðum við mildari, vinalegri og þægilegri í allri umgengni.

Þessar persónuleikabreytingar má að hluta til skýra með því að hormónakirtill heilans, heiladingullinn, rýrnar með aldrinum og um leið dregur úr magni ýmissa hormóna. Hormónasveiflur hafa áhrif á vöxt heilafrumna og nýjar tengingar milli þeirra.

 

Breytingar á framleiðslu helstu boðefna heilans, dópamíns og serótóníns, skipta líka máli. Magn þessara efna í heila sveiflast alla ævi og næmi heilans fyrir þeim breytist líka og það hefur aftur áhrif á það hvernig heilafrumurnar senda boð sín á milli.

BIRT: 08/02/2023

HÖFUNDUR: Gorm Palmgren

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock,© Joshua K Hartshorne & Laura T Germine,© Xi Chen, Christopher Hertzog og Denise C Park,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu með áskrifandi að blaðinu?

Áskrifendur geta fengið áskrift af vefnum hér

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is