Það hefur verið viðtekin skoðun að sáðfrumur syndi bara af krafti þar til sú kraftmesta vinnur kappsundið að egginu og frjóvgar það. Ný rannsókn við Cornell háskóla í BNA bendir til að atferli sáðfrumna í grennd við eggið líkist fremur mökunardansi en kapphlaupi.
Í upphafi ferðarinnar synda vissulega allar sáðfrumurnar af miklu kappi en kalkríkar aðstæður í eggjaleiðaranum valda svonefndri ofurvirkni meðal þeirra sáðfrumna sem ná svo langt.
LESTU EINNIG
Þetta veldur breytingum í atferli og frumurnar synda ekki lengur beint áfram heldur í hringi, enda eykur það möguleika þeirra til að finna eggið og frjóvga það.
Rannsóknin var gerð utan mannslíkamans og þróuð tölvutækni notuð til að líkja eftir æxlunarfærum. Fylgst var með atburðarásinni í smásjá og með hjálp háhraðamyndavéla.
Vísindamennirnir vonast til að þessi nýja þekking á hegðun sáðfrumna leiði til framfara við frjósemismeðferðir á mannfólki en einnig við sæðingar dýra.