Lifandi Saga

Saga grínsins: Leitin að besta brandara allra tíma

Þjóðverjar sögðu grínsögur af Hitler, Rómverjar hæddu eiginkonu keisarans og elsti brandari sögunnar er óskiljanlegur í nútímanum. Við skoðum húmorinn á sögulegum tíma – og útnefnum besta brandara allra tíma.

BIRT: 25/08/2023

Strax á dögum Forn-Grikkja voru heimspekingar á borð við Plató og Aristóteles farnir að velta fyrir sér innsta eðli kímninnar. Faðir sálgreiningarinnar, Sigmund Freud, fylgdi í fótspor þeirra í upphafi 20. aldar og rannsakaði hvað það væri sem gerði brandara hlægilegan. Af hverju segjum við brandara? Og er húmorinn óháður tíðaranda?

 

Seinni spurningunni er auðveldast að svara með því að taka dæmi: Klassískur brandari á tíma Rómarveldis var svona: Þistlar eru eins og salat á vörum asnans.

 

Sagt er að rómverski stjórnmálamaðurinn Marcus Crassus (115-53 f.Kr.) hafi tekið bakföll af hlátri þegar hann heyrði þennan brandara. Nú til dags vekur hann fremur undrun, enda hefur merkingin horfið á þessum 2.000 árum.

 

Á þessum tíma taldist salat hafa svipaða verkun og viagra á okkar tímum. Þegar minnst var á salat, skildu Rómverjar það sem tilboð um kynlíf og þótti fyndið. Nú fer fæst fólk hjá sér þegar það sér salat innan um annað grænmeti í matvörubúð.

Prump-húmor var útbreiddur á miðöldum og kannski þess vegna sem furðuskepnunni bonnacon var í bókum lýst sem ófreskju í uxalíki sem notaði afturendann sér til varnar.

Breyttir tímar eyðileggja þó alls ekki alla brandara. Við skulum taka sem dæmi annan rómverskan brandara og nú frá fimmtu öld:

 

Lærður maður er í sjóferð þegar mikill stormur skellur á og þrælar hans fyllast skelfingu og taka að gráta af ótta við að láta lífið. „Verið bara rólegir,“ segir maðurinn uppörvandi. „Ef ég ferst fáið þið allir frelsi samkvæmt erfðaskránni minni.“

 

Þessi brandari sýnir að til er uppskrift að sígildum bröndurum sem standast allar breytingar á tíðaranda – uppskrift sem Forn-Grikkir notuðu og er vel þekkt á okkar dögum.

 

Sú uppskrift var m.a. notuð í brandara sem útnefndur var sem besti brandari sögunnar árið 2002. Við víkjum nánar að þeim brandara síðar.

 

Séreign Homo sapiens

Bandaríski rithöfundurinn og húmoristinn Mark Twain sagði húmorinn mestu blessun mannsins. Ekkert annað dýr á jörðinni er fært um að hlæja að bröndurum eða launfyndnum athugasemdum. Þessi hæfni stafar af milljóna ára þróun.
Húmorinn var að líkindum hluti daglegs lífs áður en tungumál kom til sögunnar.

 

Mannfræðingar telja að hláturinn hafi þróast frá þeim skrækjum sem forsögulegar mannverur gáfu frá sér, þegar tekist var á við nánustu ættingja í gríni.

Verkfærakista grínistans inniheldur ávalt hamar til að negla niður hið óvænta.

Alla tíð sömu áhöldin í verkfærakassa húmorista

Gegnum aldirnar hefur uppskriftin að góðum brandara verið hin sama. Jafnvel Forn-Grikkir fylgdu sömu meginreglum og þær voru skrifaðar niður fyrir meira en 2.300 árum.

 

Aristóteles (384-322 f.Kr.) var enginn aðdáandi fyndninnar. Hann leit á hana sem löst í fari manna og taldi hana hættulega samfélaginu. Þessi gríski heimspekingur skildi þó mæta vel hvernig brandari virkar. Í riti sínu „Mælskulist“ sagði hann:

 

„Ef þú vilt koma áheyrendum til að hlæja skaltu vekja þeim væntingar um tiltekinn endi á stuttri sögu en botna hana allt öðruvísi en eðlilegt var að sjá fyrir.“

 

Brandarar eru byggðir upp á mótsögnum og líkingum sem hafa ákveðna merkingu en í samspili snýst þetta á ófyrirsjáanlegan hátt. Immanuel Kant og Søren Kirkegaard kölluðu þessa víxlverkun „ósamhverfu“ og að sögn þessara frægu heimspekinga merkir ósamhverfa að við skynjum andstæðu milli þess hvernig við væntum að tilteknar aðstæður þróist og sem síðan gerist í raun og veru.

 

Farir þú yfir á grænu ljósi og fáir vörubíl inn í hliðina, þvert gegn öllum væntingum, er það ekkert aðhlátursefni. En gerist þetta í hættulausu umhverfi gamansögunnar getur það vakið hlátur.

 

Það sem kemur okkur til að hlæja er munurinn á því hvers við væntum eftir upphafsorð sögunnar og þeim tíðindum sem niðurlagsorðin færa okkur. Þessi formúla hefur alltaf virkað eins og þessi skrýtla aftan úr fornöld ber vitni um:

 

Aðkomumaður í kirkjugarði spyr: „Hver hvílir hér?“

„Það geri ég – núna þegar hún er dáin,“ svarar ekkillinn.

Með tímanum hafa þessir skrækir þróast í það sem við þekkjum nú sem hlátur. Á steinöld jók húmorinn líkurnar á að lifa af, segir Don Nilsen, prófessor í málvísindum við ríkisháskólann í Arizona í BNA. Hann hefur rannsakað húmor um áratugaskeið og m.a. gefið út bókina The Language of Humour:

 

„Á steinöld – rétt eins og nú – var húmorinn tákn um greind. Gætirðu fengið hina hellisbúana til að hlæja jókst álit þitt og þú lentir hærra í metorðastiganum. En húmorinn bætti einnig lífslíkur þínar. Ef þú gast brosað og hlegið með öðrum hellisbúum, líkaði öðrum sjálfkrafa vel við þig – og þú lentir því síður í lífshættu í átökum um mat eða maka.

 

Húmorinn bætti líka möguleikana til að eignast maka. Þá sem nú löðuðust konur að greindum mönnum sem gátu veitt þeim vernd og voru nógu skynsamir til að greina kátlegar hliðar, jafnvel á erfiðum úrlausnarefnum,“ segir hann.

 

Hvort hellisbúar komu húmor sínum á framfæri í hellamyndum eða beittu hver annan skemmtihrekkjum er auðvitað ekki ljóst.

Ekki er auðvelt að skilja súmerískan húmor ef marka má elsta varðveitta brandara heims.

Elsti brandari sem menn þekkja varð ekki til fyrr en mörg þúsund árum síðar.

 

Paul McDonald hjá Wolverhamtonháskóla í Bretlandi hefur sérhæft sig í húmor og árið 2008 uppgötvaði hann elsta brandara sem fundist hefur. Hann er grafinn í súmeríska leirtöflu og orðinn nærri 4.000 ára gamall:

 

„Nokkuð sem ekki hefur gerst síðan á morgni tímans: Ung kona prumpaði ekki í skaut eiginmanns síns.“ Þannig hljóðar þessi dálítið kyndugi brandari.

 

Þetta er ekki sú gerð fyndni sem nú til dags myndi uppskera dynjandi hlátrasköll og lófatak fyrir uppistandara á sviði en hjá Súmerum virðist þetta hafa þótt heimsklassahúmor.

 

Það er reyndar erfitt að skilja þetta sem fyndni á okkar tímum en Don Nilsen gerir þó tilraun til þess.

 

„Í menningu Súmera átti konan að vera undirgefin eiginmanninum og konur huldu sig með skikkju sem kallaðist chador og huldi líkamsvöxt þeirra til að þær drægju ekki að sér athygli annarra karlmanna,“ útskýrir hann.

 

„Kannski á að skilja þessa fyndni sem gagnrýni á þessar miklu kröfur um undirgefni kvenna: Að jafnvel svo eðlileg líkamsstarfsemi sem að reka við skyldi fara leynt og helst leyfileg þegar konan sat í skauti eiginmannsins.

 

Svo mikið hefur glatast í tímans rás að það er erfitt að átta sig á hvers vegna þetta var fyndið í þessum tiltekna menningarheimi,“ viðurkennir Don Nilsen.

 

Keisarinn fórnarlamb

Annar ævagamall brandari er mun skiljanlegri í nútímanum. Frægur brandari frá tímanum kringum fæðingu Jesú segir frá rómverska keisaranum Ágústusi á ferð um ríki sitt.

 

Hann hittir ungan mann sem honum þykir undarlega líkur sjálfum sér. Í forvitni sinni spyr keisarinn: „Starfaði móðir þín einhvern tíma í höllinni?“

 

Maðurinn svarar: „Nei yðar tign en faðir minn starfaði þar.“

 

Þetta þarfnast varla skýringa en ljóst er að keisarann grunaði að hann gæti verið faðir unga mannsins. Í svarinu felst þvert á móti sá möguleiki að faðir unga mannsins gæti líka verið faðir keisarans sjálfs.

Rómverski keisarinn Ágústus (ríkti 27 f.Kr.-19 e.Kr.) fékk að finna fyrir einum elsta „mamma þín“ brandara sögunnar.

Don Nilsen segir þennan brandara enn fyndinn vegna þess að hann snýst um kynlíf. Kynlífið er alveg óháð stað og tíma og er öllu fólki umhugsunarefni.

 

„Tímalaus fyndni snýst oft um eitthvað sem er öllu fólki sameiginlegt – eða það sem Carl Jung lýsti sem ómeðvituðu. Slíkir brandarar byggjast á einhverju sem allt fólk getur auðveldlega tengt sig við – kynlíf, veðrið, líkamann, dýr, plöntur o.s.frv. – en líka óhlutbundin hugtök á borð trúarbrögð eða stjórnmál,“ útskýrir Don Nilsen.

 

Ágústusarbrandarann má þannig skilja sem fyrsta „mamma-þín-brandarann“ – sem sagt fyndni sem hefur það að markmiði að lítillækka andstæðing með því að setja móður hans í vafasamt samhengi. Í þessu tilviki er það Ágústus sem lendir í gildrunni. Í þessum tiltekna brandara er þó einnig annað stef: Þarna er gert grín að valdamanninum Ágústusi en fjölskylda hans taldist síður en svo flekklaus.

 

Að vekja hlátur á kostnað valdhafa er aðferð sem rekja má aftur til fyrstu gamanleikjanna eftir gríska leikskáldið Aristofanes.

Forngrísk gamanleikverk höfðu mikil áhrif á húmor síðari kynslóða. Shakespeare, Molière og margir aðrir sóttu innblástur frá hinum gamansömu leikverkum Grikkja.

Í gamanleiknum „Riddararnir“ frá 424 f.Kr. gerir Aristofanes rungandi grín að leiðtogum Aþenu í Pelopsskagastríðinu (431-404 f.Kr.). Ein aðalpersónan er greinilega skopstæling á Kleon.

 

Stjórnmálamaðurinn Kleon var valdamikill í Aþenu á þessum tíma og beitti ruddalegu orðbragði um pólitíska andstæðinga en lofaði kjósendum sínum öllu fögru.

 

Það þarf ekki að teygja mikið á ímyndunaraflinu til að sjá líkingu við leiðtoga alla leið fram til okkar daga.

 

Í sérhverju nútímalýðræðisríki er dyggð að segja brandara um valdhafana, útskýrir Simon Ctritchley, prófessor við „New School of Social Research“ í New York. Hann skrifaði bókina On humour:

 

„Eins og kjörorð ítalskrar framúrstefnuhreyfingar í pólitískri fyndni segir: „Una risata vi seppellira – það verður grínið sem grefur þig. Með orðinu „þig“ er átt við þá sem sitja að völdum.“

 

Myndskeið: Sjáðu gott forngrískt grín

Breski grínistinn og goðsögnin Jim Bowen (1937-2018) flytur 2000 ára gamla brandara.

„Með því að hlæja að valdinu sýnum við hversu tilviljanakennt það er og sjáum að það sem við fyrstu sýn virðist svo vel rökstuddur sannleikur, er í raun ekki annað en leiktjöld sem ber að hæða og gera að aðhlátursefni,“ útskýrir Critchley.

 

Heimspekingar lítt hrifnir

Meðal Forn-Grikkja var gáfumannaelítan ekki sérlega hrifin af fyndni – hvorki þegar gert var grín að valdhöfum eða bara venjulegu fólki og hversdagslegum aðstæðum.

 

Einkum voru heimspekingar, svo sem Plató, Sókrates og Aristóteles lítt hrifnir af hlátri. Þeir vildu ekki láta hlæja að heimspekinni og í hugmyndum þeirra um fyrirmyndarríki heyrði hlátur til algerra undantekninga.

 

Rómverski heimspekingurinn, mælskusnillingurinn og stjórnmálamaðurinn Cicero (102-43 f.Kr.) hafði miklu jákvæðari afstöðu til fyndninnar. Hann áleit húmorinn vera gjöf frá guðunum. Hann var fyrsti heimspekingurinn sem bar virðingu fyrir slagkrafti fyndninnar í ræðulist og greining hans á því hvernig fyndni virkar heldur gildi sínu enn þann dag í dag.

Fimmaurabrandarar Ciceros virka ennþá: ,,Engin manneskja með réttu ráði dansar" var einn brandarinn.

„Cicero skrifaði að algengastir væru þeir brandarar sem hafa – á nútímamáli væntingu og niðurstöðu í formi óvæntra punkta. Þegar tekst að fá okkur til að vænta tiltekinnar niðurstöðu og erum svo kynnt fyrir algerlega óvæntum endapunkti, vekur það okkur hlátur,“ segir Don Nilsen.

 

Prófessor Critchley skýrir þetta nánar:

 

„Brandarar snúa væntingum okkar um tiltekið ástand á haus og skapa óvæntan hliðarveruleika með því að breyta þessu ástandi. Það er þetta sem við köllum fyndni.“

 

Cicero skildi mátt fyndninnar og hafði oft betur í kappræðum með því að beita henni. Að gera valdhafa í Róm að athlægi kostaði hann þó að endingu lífið. Árið 43 f.Kr. lét hershöfðinginn Marcus Antonius taka þennan málsnjalla stjórnmálamann af lífi eftir að hann hafði hvað eftir annað dregið hershöfðingjann sundur og saman í háði.

 

Hirðfífl hélt kóngi á tánum

Úrval af bröndurum Ciceros er enn til en það er að finna í grísku riti, „Philogeles“ (Unnandi hláturs) sem er elsta brandarasafn sögunnar.

Það, að láta einhvern stíga á banahýði hefur vakið hlátur alveg frá upphafi 20. aldar.

Bananahýði fyndin í 120 ár

Allt frá upphafi 20. aldar hefur bananahýði verið að finna í verkfærakössum fjölmargra grínsmiða.

 

Fyrsti grínistinn sem fékk áhorfendur til að taka bakföll af hlátri yfir að sjá hann renna á bananahýði var bandaríski grínleikarinn „Sliding“ Bill Watson. Í upphafi 20. aldar ferðaðist hann um með sýningu þar sem hann steig á bananahýði, rann síðan til litla stund og datt svo á rassinn.

 

Sagt er að Watson hafi fengið hugmyndina eftir að hafa séð mann renna til á bananahýði á götu. Bananahýði kom fyrst fyrir í kvikmynd í „The Flirt“ með Harold Lloyd árið 1917. Þar fleygir Harold Lloyd bananahýði á gólfið á veitingahúsi og þjónn með gríðarmarga diska rennur á því og dettur.

 

Fjórum árum síðar bætti Buster Keaton millispili inn í hið klassíska bananahýði í myndinni „The High Sign“ þar sem persóna hans stígur yfir bananahýði og horfir svo um öxl sigri hrósandi, að sjálfsögðu til þess eins að stíga á annað í næsta skrefi og liggja flatur.

 

Bananahýði gátu þó líka verið dauðans alvara. Í upphafi aldarinnar var algengt í New York að fólk fleygði bananahýði frá sér á götuna og þann 30. október 1917 steig bílstjóri, Jacob Bopp að nafni, á banahýði í Brooklyn og skall svo harkalega með hnakkann í götuna að hann höfuðkúpubrotnaði og lést nokkrum klukkustundum síðar.

Í safninu er m.a. að finna fyrstu læknabrandara sem sögur fara af, t.d. þennan:

 

„Læknir, í hvert sinn sem ég vakna fæ ég svima í stundarkorn,“ segir sjúklingurinn.

 

Læknirinn svaraði: „Þá skaltu bara fresta því að fara á fætur.“

 

Annar brandari úr „Philogelos“ rataði seinna í Monty Python-atriði um dauðan páfagauk.

 

Maður kvartar við annan: „Þrællinn sem þú seldir mér tók sig til og dó.“

 

Hinn svarar: „Merkilegt. Allan þann tíma sem hann vann fyrir mig, hvarflaði það aldrei að honum.“

 

Grikkir voru ekki einir um að safna skrýtlum saman í rit. Árið 1072 kom bókin „Exeter Book“ út í Englandi. Í henni voru 99 brandarar og settir fram í spurninga- og gátuformi. Ein af þessum nærri þúsund ára gömlu skrýtlum er þessi:

 

„Hvað er það sem hangir við læri karlmanns og vill gjarnan stingast í það sem í hefur verið stungið áður?“

 

Svar: „Lykill“.

Skopteikningar veita vanmættinum útrás

Um aldir hafa valdhafa þurft að þola að spéfuglar settu puttann á aumustu punkta þeirra í skopteikningum.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Brandarinn um ráðgjöf læknisins hefur vafalaust enn þótt bráðfyndinn á miðöldum. En þegar svo var komið að kóngar gátu óátalið gert það sem þeir vildu, voru brandarar ekki einungis til skemmtunar. Fyrir kónginn gerðu þeir jafnframt mögulegt að átta sig á almenningsálitinu í ríki sínu.

 

Annar möguleiki fólst í hirðfíflinu. Tími blaða eða annarra fjölmiðla var enn ekki kominn en hirðfíflinu leyfðist að gera dálítið grín að valdhöfunum. Fyrir slíkt var öllum öðrum refsað harkalega – oft með lífláti.

 

Hirðfíflið lýsti veruleikanum gegnum skopið og gat bent á skynsemi – eða skort á henni – í ákvörðunum kóngsins sem þar með gafst tækifæri til að hugsa ráð sitt.

 

„Konungar vildu ekki að af hirðfíflinu gæti stafað nein ógn. Þess vegna völdust ýmis konar furðufuglar til þessa skemmtanastarfs. Hirðfífl voru oft af alþýðuættum, gjarna með herðakistil, útstæð augu eða önnur líkamslýti,“ útskýrir Don Nilsen.

Hirðfíflið lifði hættulegu lífi. Húmorinn átti að vera gagnrýninn án þess þó að móðga yfirvaldið.

„Til viðbótar var hirðfíflið alltaf skrautlega klætt og með litla bjöllu um hálsinn og maðurinn þar með gerður eins hlægilegur útlits og mögulegt var. Hirðfíflið bar veldissprota eins og kóngurinn og talaði gegnum hann líkt og brúða búktalara. Hlutverk hans var því ekki aðeins að skemmta, heldur virkaði hann sem eins konar veruleikaspegill fyrir kónginn og stjórnunarstíl hans,“ segir Don Nilsen

 

Blótsyrði vörðuðu lífláti

En það var ekki einungis innan hallarmúranna sem fólk hafði þörf fyrir grín. Almenningur þurfti líka sína fyndni til að mýkja aðeins þá félagslegu og trúarlegu fjötra sem fólk var bundið.

 

Fólk fékk ákveðna afþreyingu á kjötkveðjuhátíðum. Þetta voru langar borgar- eða bæjarhátíðir þar sem allir tóku þátt. Fólk klæddist ýmsum búningum og gervum og gerðu iðulega einhvers konar grín að valdhöfum. Bændur voru krýndir til konungs, konur klæddust karlmannsfötum og ungir léku gamalmenni. Þannig varð kjötkveðjuhátíðin skemmtun og frávik frá hversdagslífinu sem annars einkenndist af fátækt og ótta við að lenda í Helvíti.

Kjötkveðjuhátíðin í Feneyjum var talin vera sérstaklega áræðin.

Sumt af þeirri fyndni sem blómstraði á miðöldum var gróf og dónaleg. Margar kímnisögur snerust um kynlíf og það sem nú mætti kallast klósetthúmor. Þetta má nefna sem dæmi:

 

Í Flórens var ung kona, einfeldningur sem var komin að því að fæða barn. Hún hafði lengi haft verki og yfirsetukonan tók á kviðnum til að finna hvort barnið væri að koma. „Þú þarft líka að skoða hinum megin,“ hrópaði unga konan. „Maðurinn minn fór líka oft bakdyramegin.“

 

Á 17. öld var dónalegum bröndurum illa tekið af hreintrúarmönnum, hreyfingu púrítana sem varð til í Englandi upp úr 1560. Púrítanar vildu einfalt líferni, t.d. án hátíðahalda um jólin og tóku einarða afstöðu gegn skemmtunum, svo sem dansi, spilum eða leiksýningum.

 

Brandara var þeim illa við og sér í lagi ef fyndnin snerist um trú eða kynlíf en slíka fyndni töldu púrítanar beinlínis and-kristna.

 

Ólöglegt að blóta

Frá 1663 var ólöglegt að blóta á almannafæri í Englandi en það var ekki nóg fyrir púrítanana sem á 17. öld fluttust margir til Ameríku. Árið 1648 fengu þeir samþykkt lög í nýlendunni Massachusetts þar sem löng fangelsisrefsing var lögð við blótsyrðum. Blótaði einhver foreldrum sínum gat refsingin m.a.s. orðið líflát.

 

Þrátt fyrir tilraunir púrítana til að hreinsa enska tungu af öllum ljótum orðum, voru áfram sagðar skopsögur á 17. og 18. öld.

 

Árið 1739 kom út það brandarasafn sem trúlega hefur orðið allra vinsælast, Joe Miller‘s Jests sem í voru 249 brandarar. Flestir voru nýlegir og umfjöllunarefnið oftast vandkvæði daglegs lífs eða fjölskyldumál. Iðulega voru þessar skopsögur á kostnað kvenna.

 

Maður spurði nágranna sinn hvernig gengi með veikindi konu hans. Nágranninn svaraði: „Það er mikið vandræðamál. Hún hrædd um að deyja en ég er hræddur um að hún lifi af, þannig að við erum auðvitað bæði óhuggandi.“

 

Myndskeið: Þekkirðu hin forna brandara um að leysa vind?

Bandarískur grínisti klæddur grískum kyrtli tæklar gamla klassík.

Eftir því sem leið á 19. öldina uxu brandarar í áliti. Hláturinn var nú álitinn heilsusamlegur bæði fyrir líkama og sál. Í ensku bókinni The Railway Book of Fun frá 1875 voru skemmtilegheit sögð vera „kristileg dyggð“ og kristnir lesendur voru hvattir til að „nota öll tiltæk ráð til að viðhalda andlegri skemmtun“.

 

Þar var m.a.s. fullyrt að húmor gæti átt þátt í að koma í veg fyrir sjúkdóma. Í Englandi Viktoríutímans voru að vísu ekki allir sammála því. Sama ár gaf heimspekingurinn George Vasey út bókina „The Philosophy of Laughter and Smiling“, þar sem hann skrifaði:

 

„Ég er sannfærður um að mannkyninu verður ekki bjargað fyrr en hlátrinum hefur verið útrýmt af yfirborði jarðar.“

 

Faðir sálgreiningarinnar Sigmund Freud var þveröfugrar skoðunar. Í bók frá 1905 rökstuddi hann þá skoðun að brandarar og húmor væru nauðsynleg verkfæri til að veita fólki útrás fyrir grundvallarhvatir sínar, svo sem kynhvöt og árásargirni.

 

„Freud hélt því fram að við höfum mikla nautn af því að segja brandara sem fjalla um bannaðar tilfinningar, svo sem fjandskap, kaldhæðna framkomu og bælda kynhvöt. Slíkir brandarar virka sem ventlar fyrir vonbrigði og skapraunir – eða eins og Freud orðar það sjálfur „hlátur gegnum útrás“, útskýrir Simon Critchley.

 

CIA safnaði kommúnistasögum

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 þurftu hermenn að vinna úr ótta sínum, sorg, reiði og vanmáttarkennd sem helltist yfir þá í skotgröfunum. Í stríðinu varð til gríðarmikið af bröndurum sem gróflega má flokka í þrennt:

 

Föðurlandsbrandarar, brandarar um herinn og svo brandarar um óvininn. Hefði brandarinn kynferðislegan undirtón gat það dugað langt til að vekja hlátur – eitt dæmi:

 

Enskur hermaður og frönsk madame njóta ásta á ströndinni eitt kvöldið. „Er hann inni?“ spyr hermaðurinn.

 

„Nei,“ svarar konan, „hann er í sandinum.“

 

„Er hann inni núna?“ spyr hermaðurinn litlu seinna.

 

„Já,“ svarar hún, „nú er hann inni.“

 

Það líður augnablik en svo segir hermaðurinn:

 

„Ég veit fjandakornið ekki en ég held að ég ætti frekar að prófa sandinn aftur.“

Hlátur er gott fyrir samheldnina samkvæmt nútímarannsóknum. Ómeðvitað kemst heilinn að þeirri niðurstöðu að við eigum margt sameiginlegt þegar hlegið er að sama brandaranum.

Seinni heimsstyrjöld varð blómaskeið nasistabrandara í hersetnum ríkjum í Evrópu. Í bók sinni „Heil Hitler, das Schwein ist tot“ (Heil Hitler, svínið er dautt), segir Rudolf Herzog að brandararnir hafi virkað sem öryggisventill fyrir innibyrgt vonleysi almennings.

 

Brandarar voru sagðir í verslunum eða á förnum vegi og urðu eins konar viðbrögð við hryllingi stríðsins.

 

Eftir að stríðsgæfan snerist fóru nasistar að taka harkalegar á nasistabröndurum. Árið 1944 var þýsk ekkja, Marianne Elise Kürchner, að vinna í vopnaverksmiðju í Berlín. Hún sagði vinnufélaga sínum eftirfarandi:

 

Hitler og Göring standa uppi á útvarpsturninum í Berlín og Foringinn segist vilja gera eitthvað sem geti orðið þýskum almenningi til uppörvunar.

 

Göring svarar: „Stökktu þá.“

 

Vinnufélaginn sagði frá þessu og skömmu síðar var Marianne Elise Kürchner handtekin, dæmd og hálshöggvin.

Fjölmargir brandarar hafa varðveist um hinn smávaxna Joseph Göbbels og hinn þéttvaxna Hermann Göring.

Nasistar auðveld skotmörk

Sú mýta er lífseig að það hafi verið lífshættulegt að segja brandara um Hitler og aðra leiðtoga nasista. Þótt um þetta séu dæmi, sýna seinni tíma rannsóknir að brandarar sem nefndir voru Flüsterwitze og fjölluðu um valdhafana, virðast yfirleitt hafa verið umbornir af nasistum.

 

Í sárafáum tilvikum var refsað fyrir að segja slíka brandara en margir þeirra lifa enn og eru til vitnis um að Þjóðverjar voru ekki blindir fyrir veikleikum nasistaleiðtoganna:

 

Hermann Göring

Yfirmaður flughersins, hinn feitlagni Hermann Göring lítur út um glugga og sér bóndakonu vera að matreiða kartöflur á pönnu, hún hefur þó ekki kveikt neitt bál en veifar hakakrossfánanum fram og aftur yfir pönnunni.

 

Göring fer út til hennar og spyr hvort hún beiti einhvers konar töfrum við matreiðsluna. Konan svarar:

 

„Nei, þetta er bara tilraun. Það hafa svo margir aðrir orðið feitir undir þessum fána.“

 

Rudolf Hess

Staðgengill Hitlers, Rudolf Hess flaug til Bretlands og var fluttur til aðseturs Winstons Churchill. Breski forsætisráðherrann leit upp frá skrifborðinu og sagði:

 

„Nú, svo að þú ert hálfvitinn?“

 

Hess svaraði:

 

„Nei, nei, ég er bara staðgengill hans.“

 

Joseph Göbbels:

Gáta hljóðaði svo:

„Hvernig lítur úrvalsþjóðverji út?“

 

„Ljóshærður eins og Hitler, stór eins og Göbbels og grannur eins og Göring.“

 

Adolf Hitler:

Önnur gáta:

„Hver er munurinn á Hitler og sólinni?“

„Sólin rís í austri en Hitler hnígur til viðar í austri.“

 

Ritskoðun

Ströng ritskoðun nasista fæddi líka af sér ýmis hnyttiyrði, t.d. þetta:

 

„Nú er til yfirvegunar að þétta letrið í lesmáli blaðanna, þannig að ekki verði lengur hægt að lesa svona mikið á milli línanna.“

Tilveran var heldur ekki tiltakanlega ánægjuleg fyrir þær milljónir manna sem bjuggu austan járntjaldsins eftir lok styrjaldarinnar. Fólk bjó við pólitíska kúgun, hungursneyð og ritskoðun og fylltist örvæntingu og vonleysi. En kannski var það einmitt vegna þess hve lífið var erfitt og fáránlegt sem íbúar Sovétríkjanna fundu sér dægrastyttingu í því að snúa óþolinu í brandara.

 

Fyrir fall Berlínarmúrsins 1989 söfnuðu bandarískir leyniþjónustuerindrekar margskonar fyndni og pólitískum bröndurum í Sovétríkjunum – til að hafa áhrif á almenningsálitið.

 

Ronald Reagan sem var Bandaríkjaforseti frá 1981 og fram undir fall múrsins, naut þess að endursegja slíkar sögur frá Sovétríkjunum í ræðum sínum.

 

Sagt er að hann hafi sagt Mikhail Gorbatsjov uppáhaldsbrandara sinn og Gorbatsjov hafi skellihlegið en hann stefndi sem kunnugt er að miklum umbótum. Sagan var þessi:

 

Bandaríkjamaður segir Rússa frá því að hann geti tekið sér stöðu fyrir framan Hvíta húsið og öskrað: „Til helvítis með Reagan.“ Rússinn svarar: „Þetta er nú ekkert merkilegt. Ég get líka tekið mér stöðu framan við Kreml og öskrað: „Til helvítis með Reagan.“

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti sagði gjarnan brandara.

Reagan mætti gagnrýni með húmor

Húmor hefur lengi verið notaður í pólitík. Góður brandari getur slegið vopnin úr höndum andstæðinga og fáir kunnu það betur en Ronald Reagan.

 

Hár aldur:

Ronald Reagan átti aðeins fáeina daga eftir í sjötugt þegar hann tók við embætti sem 40. forseti Bandaríkjanna 1981. Þessi hái aldur hafði einmitt verið ein helsta röksemdin gegn honum í kosningabaráttunni en þeirri gagnrýni svaraði Reagan með bros á vör:

 

„Thomas Jefferson (forseti BNA 1801-1809, ritstj.) sagði einu sinni að við eigum aldrei að dæma forseta út frá aldri hans heldur aðeins eftir verkum hans. Og alveg síðan hann sagði mér þetta, hef ég verið alveg áhyggjulaus.“

 

Bara leikari

Keppinautar Reagans voru flestir reyndir viðskiptajöfrar eða höfðu áralanga reynslu af starfi í stjórnmálum. Reagan átti hins vegar 25 ára leikarareynslu að baki þegar hann hóf afskipti af stjórnmálum.

 

Andstæðingarnir álitu hægt að koma höggi á Reagan með því að halda því fram að hann hefði aldrei unnið erfiða vinnu. En Reagan hafði svar við því:

 

„Það er alveg rétt að erfið vinna hefur aldrei drepið neinn en ég hugsaði með mér: Til hvers að taka áhættuna?“

Hefði einhver af forverum Gorbatsjovs heyrt þessa gamansögu af munni óbreytts verkamanns í Sovétríkjunum, hefðu viðbrögðin trúlega verið önnur. Viðurlög við því að segja andsovéska brandara voru allt frá sex mánaða fangelsi til lífláts.

 

Flestir kusu veiðibrandara

Skemmtisögur hafa lífgað upp á andrúmsloftið alla tíð. Nú er hins vegar engin leið að gera sér grein fyrir því hvaða brandari kynni að hafa verið mest metinn í Róm til forna eða t.d. hvað hefur vakið mesta kátínu meðal víkinga á sinni tíð.

 

Það tíðkaðist hreinlega ekki að útnefna neitt „besta“ þetta eða hitt. Fyrsta tilraunin til að finna besta brandara sögunnar er þess vegna tiltölulega ný.

 

Árið 2002 einsetti breski sálfræðiprófessorinn Richard Wiseman hjá Hertfordshireháskóla sér að útnefna besta brandara allra tíma. Hann setti upp heimasíðuna „LaughLab“ til að rannsaka hvaða brandari hefði víðasta skírskotun án tillits til landamæra, menningar, aldurs eða menntunar. Honum bárust 40 þúsund brandarar frá 70 mismunandi löndum.

Dansk-bandaríski grínistinn Victor Borge (1909-2000) var snillingur í að segja brandara.

Wiseman setti brandarana á heimasíðuna og þar völdu um tvær milljónir manna þann brandara sem þeim var best að skapi.

 

Flest stig fékk brandari sem Gurpal Gosal í Manchester á Englandi hafði sent. Sá brandari var nútímaútgáfa svipaðs brandara sem naut mikilla vinsælda upp úr 1950:

 

Tveir veiðimenn eru á veiðum og skyndilega hnígur annar þeirra niður og sýnir engin lífsmerki. Hinn hringir æstur og lafmóður í neyðarnúmer og hrópar:

 

„Vinur minn er dauður! Hvað á ég að gera?“

 

Neyðarvaktmaðurinn svarar: „Reyndu umfram allt að vera rólegur. Það fyrsta sem þú þarft að gera er að fullvissa þig um að vinur þinn sé örugglega látinn.“

 

Það verður stutt þögn. Svo heyrist byssuskot.

 

Síðan segir veiðimaðurinn:

 

„Ókei, og hvað svo?“

Lestu meira um sögu grínsins

P. Mcdonald: The philosophy of humour, Humanities-Ebooks, 2013


Bremmer: Cultural History of Humour: From Antiquity to the Present Day, Polity, 1997.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Andreas Ebbesen Jensen , Jannik Petersen

© Imageselect,© Shutterstock,© Michel wal,© Ad Meskens,© Deedman22,© H. Armstrong Roberts/Stringer/Getty Images,© Thomas Davidson,© Giovanni Domenico Tiepolo/Louvre Museum,© Bettmann/Getty Images,© LAPI/Getty Images,© Jay Dickman/Getty Images

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hve marga Rómana drápu nasistar? 

Maðurinn

Hvaða tilgangi gegna líkamshár mannsins?

Náttúran

Hvernig myndast El Ninjo?

Lifandi Saga

Blóðsúthellingar og kynlíf: Íslendingar skrifuðu ævintýrasagnfræði

Heilsa

Óþekktar lendur heilans kortlagðar

Alheimurinn

Missýningar og veðurfyrirbæri skapa fljúgandi diska.

Heilsa

Epla- eða perulögun? Líkami þinn kemur upp um hættuna á ótímabæru andláti

Alheimurinn

Ráðgáta sólkerfisins verður leyst á tunglunum 

Lifandi Saga

Allir hræddust miskunnarlausa böðla

Náttúran

Af hverju verður fólki ekki kalt í framan?

Jörðin

Af hverju spúa eldstöðvar ösku?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.