Hópur vísindamanna hjá Stanfordháskóla í BNA hefur notað mýs í tilraunum sínum til að finna þær heilastöðvar sem hýsa samkennd, þ.e. hæfnina til að skilja tilfinningar annarra.
Vísindamennirnir settu mýsnar tvær og tvær saman í búr og mús 1 fékk sprautu sem olli bólgum í öðrum afturfætinum.
Eins og vænst var sýndi músin augljós merki þess að henni var illt í fætinum en hitt kom á óvart að eftir klukkutíma sýndi mús 2 sömu einkenni, meira að segja í báðum afturfótunum
Tengsl milli heilastöðvanna anterior cingulate cortex (trjónulægur gyrðilbörkur) og nugelus accumbens (aðlegukjarni) ræður úrslitum um hæfnina til að auðsýna samkennd.
Í næstu tilraun framkölluðu vísindamennirnir bólgu í báðum músunum en gáfu annarri morfínsprautu skömmu síðar og losuðu hana þannig við sársaukann.
Nú kom í ljós að þjáningar hinnar músarinnar virtust einnig linast, þótt hún hefði ekki fengið neina deyfingu.
Lokun fjarlægði samkenndina
Greiningar á heilavirkni músanna sýndu mikla virkni í tveimur heilastöðvum þeirrar músar sem auðsýndi hinni samkennd.
Önnur heilastöðin kallast „anterior cingulate cortex“ og er þekkt fyrir tengsl við siðferðishegðun og stjórn á skyndihugdettum. Hin heilastöðin, „nucleus accumbens“, tengist m.a. örvun og umbun.
Þegar vísindamennirnir lokuðu leiðum milli þessara tveggja heilastöðva hvarf öll samkenndararhegðun músanna.
Niðurstöðurnar gætu leitt af sér betri skilning á siðblindu sem m.a. lýsir sér í skorti á hæfni til samkenndar.