Sveppirnir sem sýkja heila í The Last of Us eru ekki gripnir úr lausu lofti. Í náttúrunni er t.d. til sveppurinn Ophiocordyceps unilateralis sem tekur yfir heila í maurum og neyðir þá til að klifra upp í tré. Í því tilviki vex sveppurinn upp úr höfði uppvakninga-maursins og dreifir gróum sínum út um allan skógarbotninn.
En ólíkt maurnum er mannnsheilinn vel varinn gegn sveppum, þökk sé blóð-heilaþröskuldinum. Hins vegar geta ákveðnar sveppagerðir komist yfir þröskuldinn, t.d. sveppurinn Cryptococcus sem nýtir ónæmisfrumur okkar sem eins konar Trójuhesta.
Sveppir í heila geta valdið hættulegri heilahimnubólgu. Dánartíðnin veltur meðal annars á hversu fljótt sýkingin er meðhöndluð og hvort ónæmiskerfið er veikt af til dæmis aldri eða veikindum.
Vísindamenn hafa einnig fundið vísbendingar um að sveppir geti hagað sér eins og sníkjudýr og haft áhrif á hegðun okkar eða geti aukið hættuna á Alzheimer.
Hlýnun jarðar gæti ýtt undir sveppafaraldur
Almennt séð er ónæmiskerfið vel í stakk búið til að koma í veg fyrir sveppasýkingar – fyrst og fremst vegna líkamshita okkar. Sveppir kjósa hita upp á 25-30 gráður og því hamlar 37 gráðu líkamshiti okkar sveppavexti.
Vísindamenn óttast hins vegar að aðlögun þeirra að hlýnun jarðar muni gera sveppum kleift að dreifa sér við hærra hitastig og auka þannig hættuna á sveppafaraldri í framtíðinni.
Svona berst heilinn gegn sveppum
Ónæmiskerfi heilans er vel í stakk búið til að koma í veg fyrir að sveppir taki hann yfir.
1. Sveppur ræðst á heilann
Sveppir geta komist inn í heilann við skurðaðgerðir eða brotist í gegnum blóð-heilaþröskuldinn – til dæmis með því að nota okkar eigin ónæmisfrumur sem Trójuhesta sem lauma sveppnum inn í heilann.
2. Sérhæfðar taugafrumur koma til varna
Sérstakar taugafrumur sem kallast glial-frumur, virka sem ónæmiskerfi heilans. Glial-frumurnar skynja sveppinn og setja í gang viðvörunarkerfi sem seytir ónæmisefni er kallast cýtókín.
3. Ónæmisfrumur framkvæma hreinsunarstarf
Cýtókínin kalla fram ónæmisfrumur, kallaðar T-frumur og daufkyrninga sem fá aðgang að heilanum og berjast gegn sveppunum. Hins vegar geta of margar ónæmisfrumur leitt til skaðlegrar bólgu í heilanum.