Á síðustu ísöld höfðu stór spendýr náð að leggja undir sig heiminn – nema í Ástralíu, þar sem skriðdýr voru efst í fæðukeðjunni.
Þetta sýna nýjar rannsóknir á steingervingum sem safnað hefur verið á síðustu 15 árum.
Vísindamenn hjá Queenslandháskóla í Ástralíu hafa rannsakað þessa steingervinga og niðurstaða þeirra er sú að miklar breytingar hafi orðið í Ástralíu á síðustu ísöld og dýralífið hafi gjörbreyst.
Risa skriðdýr toppurinn á fæðukeðjunni
Þar til fyrir 40.000 árum voru stærstu rándýrin risaslöngur, landlifandi krókódílar með langa fætur og kómódódrekar allt að 200 kg að þyngd.
Loftslagsbreytingar gerðu út af við þessi stóru rándýr en eftir urðu smærri rándýr á borð við pokaúlf og Tasmaníudjöful.
200 kílóa kómódódrekar voru meðal stórra skriðdýra sem ríktu efst í fæðukeðjunni í Ástralíu á ísöld. Síðar tóku við rándýr sem bárust með mönnum.
Vísindamennirnir segja þetta hafa raskað jafnvægi dýralífsins þannig að það varð mjög viðkvæmt fyrir þeim rándýrum sem menn fluttu síðar með sér.
Refir og kettir fluttir til álfunnar
Talið er að úlfhundur sem nefnist dingó, hafi borist til Ástralíu með sæfarendum frá Asíu fyrir um 5.000 árum og hann varð fljótlega bæði pokaúlfum og Tasmaníudjöflum yfirsterkari.
Enn harðnaði á dalnum hjá bæði ránspendýrum og grasbítum þegar Evrópumenn fluttu bæði refi og ketti til Ástralíu.
Þessi vel greindu spendýr áttu auðveldan leik við vanþróaðri pokadýr og útrýmdu mörgum staðbundnum tegundum.
Vísindamennirnir álíta að kettir og refir eigi sök á aldauða allt að 30 tegunda á síðustu 200 árum en telja að grunnurinn hafi verið lagður strax þegar stóru skriðdýrin hurfu á ísöld.