Olíuleki er eitthvert það versta mengunarslys sem orðið getur á strandsvæðum. Því miður eru slík slys alltof tíð og hreinsunarvinnan reynist yfirleitt bæði dýr, gagnslítil og skaðleg dýralífinu.
Nú hefur teymi vísindamanna á vegum Northwestern háskólans í Bandaríkjunum þróað öflugan svamp sem drukkið getur í sig þrítugfalda þyngd sína af olíu án þess að drekka í sig sjó.
Þegar svampurinn er mettaður af olíu er einfaldlega hægt að vinda hann, án þess að áhrifin dvíni að nokkru leyti og nota hann aftur.
Sjáðu hvernig svampurinn drekkur í sig olíu án þess að þyngjast af vatni:
Hægt að nota 25 sinnum
Kjarninn í þessari gæfulegu uppfinningu er segulmögnuð, olíudræg og vatnsfráhrindandi nanóklæðning sem komið er fyrir á venjulegum svampi. Klæðningin sem byggir á kolefni felur í sér ógrynni örsmárra gata sem binda olíu þó svo að vatn komist greiðlega í gegnum þau.
Klæðningin gerir svampinn öflugan með þessu móti, því hann er fær um að flokka sjálfur í sundur olíu og vatn.
Götin geyma olíuna þar til svampurinn er kreistur og unnt er að endurtaka ferlið alls 25 sinnum sem gerir það að verkum að svampurinn nýtist miklu oftar en margvíslegur annar hreinsunarbúnaður.
Unnt er að koma fyrir nanóklæðningu á öllum svömpum sem með því móti öðlast ofurgetu. Aðeins þarf að dýfa þeim í klæðninguna og þurrka þá áður en unnt er að nota þá. Með þessu móti verður aðferðin ódýr og auðvelt að laga stærðina að umfangi verksins.
Vísindamenn telja sig fyrir vikið hafa gert mjög mikilvæga uppgötvun, ekki einungis hvað áhrærir hreinsun olíuleka, heldur jafnframt til að þróa svipaða svampa sem nota mætti til að soga í sig aðrar óæskilegar agnir úr lofti eða sjó.
Nanósvampinn má til dæmis fylla í flotvörn sem síðan er hent í olíumengað vatn. 12 tommur samsvarar rúmlega 30 sm.
Ekki skaðlegur dýrum né umhverfi
Nýi olíusvampurinn gæti þegar fram í sækir orðið sjálfbær valkostur umfram aðrar hreinsunaraðferðir sem þekktar eru í dag en með því er átt við kemískt niðurbrot, olíubruna, fleytingu á sjávarfletinum og notkun ísogsefna.
Kemískt niðurbrot felur í sér hættu fyrir dýralífið, bruni losar koltvísýring út í andrúmsloftið, fleyting er ógerleg í úfnum sjó og ísogsefni eru kostnaðarsöm, auk þess sem þau er ekki unnt að nýta aftur.
Nýi svampurinn er aftur á móti ódýr í framleiðslu, hann er endurnýtanlegur og greinir í sundur olíu og sjó án þess að vera skaðlegur dýralífi eða umhverfi.