Þegar fornleifafræðingar frá Kaliforníuháskóla fundu 9.000 ára gamla gröf í Perúhluta Andesfjalla kom innihaldið þeim á óvart.
Í gröfinni voru vönduð áhöld úr tinnu, bæði hnífar og spjótsoddar sem þykja örugg merki þess að þarna hafi verið jarðsettur veiðimaður sem naut virðingar.
Auk verðmætra áhalda sinna hafði veiðimaðurinn fengið sýnishorn af bráð sinni með sér í gröfina.
Fyrir 9.000 árum var 17-19 ára stúlka jarðsett í fjalllendi í Perú. Í gröfina voru m.a. lagðir spjótsoddar sem þykir benda til að hún hafi stundað veiðar.
Vísindamennirnir fundu bein úr stórum villidýrum, svo sem lamadýrum og hjörtum og svo verkfæri til að flá dýrin og hreinsa skinnið.
En merkilegust þóttu bein veiðimannsins sjálfs. Þau voru mjóslegin og létt og þetta vakti grun um að þetta væru kvenbein.
Tennurnar afhjúpuðu kynið
Tennurnar voru sendar í rannsókn og á grundvelli prótínsins amelogenins í glerungnum reyndist unnt að slá því föstu að þarna lægi kona. Grunurinn var þar með staðfestur. Konan hefur ekki verið nema 17-19 ára.
Stóru dýrin sem veidd voru í Suður-Ameríku vorur m.a. lamadýr. Það sýna bein úr dýrum sem voru í gröfinni.
Þessi uppgötvun stingur algerlega í stúf við þá almennu skoðun að það hafi verið karlmennirnir sem sáu um veiðiskap en konur hins vegar safnað rótum, ávöxtum og berjum meðfram barnagæslunni.
Ástæða þess að kynjahlutverk á steinöld eru svo rótgróin er ekki síst sú að verkaskipting kynjanna er einmitt þannig, t.d. í veiði- og safnaraættbálkum í Afríku.
Alls fundust 24 veiðivopn og verkfæri í gröf ungu konunnar - þar á meðal fíngerðir spjótoddar og verkfæri til að skera bráðinni og vinna skinnið.
Til að ákvarða hvort veiðikonan í Perú hafi verið alger undantekning frá reglunni fóru vísindamennirnir í gegnum uppgraftarskýrslur frá 107 gröfum steinaldarmanna í Norður- og Suður-Ameríku sem allar voru meira en 8.000 ára gamlar.
39% steinaldargrafa í Ameríku, þar sem veiðivopn fundust, virðast vera grafir kvenna.
Veiðiáhöld höfðu fundist í 26 gröfum og konur virtust hafa verið grafnar í tíu af þeim.
Þessi uppgötvun skorar á hólm viðtekin sjónarmið varðandi verkaskiptingu kynjanna og samfélagsbyggingu á steinöld.