Hvernig er hægt að stuðla að svokölluðu jafnvægi milli vinnu og einkalífs þannig að færri finni fyrir streitu og líði betur í vinnunni?
Við því er eflaust ekkert einhlítt svar en ein hugmynd skýtur reglulega upp kollinum – fjögurra daga vinnuvika.
Í Bretlandi er fjögurra daga vinnuvika þegar að ryðja sér til rúms. Það sýnir umfangsmikil rannsókn sem unnin var af vísindamönnum frá m.a. Háskólanum í Cambridge í samvinnu við samtökin 4 Day Week Campaign.
Áðurnefnd samtök vilja stuðla að 32 tíma vinnuviku sem dreift er á fjóra daga – án þess þó að breyta launum.
Jákvæð teikn
Rannsökuð voru 61 misstór fyrirtæki á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og stóð yfir í sex mánuði frá júní 2022. Af þessum 61 fyrirtæki völdu 56 þeirra að halda áfram með 4 daga vinnuviku.
Af 56 fyrirtækjum ákváðu 18 þeirra að gera fyrirkomulagið varanlegt.
Og ef marka má niðurstöður rannsóknarinnar þá er ekki margt sem mælir gegn því að taka upp 4 daga vinnuviku – hvorki fyrir vinnuveitanda né launþega.
Viðbrögð frá um það bil 2.900 þátttakendum rannsóknarinnar sýndu að 71 prósent fannst þau ekki eins þreytt og 39 prósent fundu fyrir minni streitu.
Auk þess fækkaði veikindadögum um 65 prósent og 57 prósent færri uppsagnir miðað við árið áður.
Og vel að merkja, án þess að skerða framleiðni, sem jókst þvert á móti um 1,4 prósent.
„Margir efuðust um hvort framleiðni myndi aukast við styttingu vinnutíma. En raunin var önnur,“ segir prófessor Brendan Burchell, forsvarsmaður rannsóknarinnar.
Ánægt starfsfólk
Hjá Charity Bank í Kent-úthverfinu í London býst framkvæmdastjóri bankans, Ed Siegal, við að halda áfram með fjögurra daga vinnuviku, þó rannsókninni sé lokið.
„Þetta hefur verið frábært fyrir um tvo þriðju hluta starfsmanna okkar. Það hefur haft jákvæð áhrif á stemninguna og fólk hefur lýst því yfir að það sé ánægt með að starfa í stofnuninni,“ segir hann við vísindamiðilinn Phys.org og heldur áfram:
„Þetta hefur verið skyndinámskeið í framleiðniaukningu.“
Í kjölfar rannsóknarinnar vonast 4 Day Week Campaign til að sjá mun fleiri vinnuveitendur taka upp fjögurra daga vinnuviku. Eins verður reynt eftir fremsta megni reynt að sannfæra bresk stjórnvöld um að veita starfsmönnum lagalegan rétt til að krefjast fjögurra daga vinnuviku ef þeir vilja.
„Við erum mjög ánægð með niðurstöðurnar og vonandi sýna þær að nú sé tími til kominn að taka upp fjögurra daga vinnuviku,“ segir framkvæmdastjóri, 4 Day Week Campaign Joe Ryle.
Rannsóknin hefur ekki enn verið ritrýnd.