Geta svarthol yfirgefið stjörnuþokur sínar? Já, greinilega. Stjörnufræðingar hafa nú einmitt séð svarthol á hraðferð burtu frá heimaslóðunum.
Það eru meira en 50 ár síðan stjörnufræðingar gerðu sér ljóst að í geimnum hlyt að vera að finna svarthol sem yfirgefa stjörnuþokur sínar en þeim hefur ekki tekist að finna þau. Þessi uppgötvun er því ekki aðeins hrífandi heldur staðfestir hún áratuga grunsemdir stjörnufræðinga.
Fannst fyrir tilviljun
Það var hópur vísindamanna hjá Yaleháskóla sem uppgötvaði svartholið.
Niðurstöður þeirra eru birtar í grein sem mun brátt birtast í The Astrophysical Journal Letters, en hana má nú þegar lesa á rannsóknarsíðunni arXiv.
Hópurinn var reyndar að rannsaka dvergþokuna RCP 28 sem er í 7,5 milljarða ljósára fjarlægð, með aðstoð Hubble-sjónaukans, þegar undarleg ljósrönd birtist á myndum. Menn grunaði fljótlega að þetta væri svokallað ofursvarthol en þau eru ofboðslega massamikil og yfirleitt að finna inni í miðri stjörnuþoku.
Til nánari rannsókna notuðu vísindamennirnir Keck-sjónaukann á Hawaii. Nú var hægt að slá því föstu að ljósrákin væri meira en 200.000 ljósár á lengd sem er tvöfalt þvermál Vetrarbrautarinnar. Það er skoðun vísindamannanna að ljósrákin sé í rauninni þétt gas og þar myndist stöðugt nýjar stjörnur.
Keck sjónaukinn er staðsettur á eldfjallaeyjunni Mauna Kea, sem er talin ein mikilvægasta stjörnuathugunarstöð heims. Keck sjónaukarnir tveir mynda einn sjónauka.
Það er ofurþungt svarthol sem hefur dregið þennan ljóshala á eftir sér og vísindamennirnir telja það um 20 milljónir sólmassa að þyngd.
Það þýtur burt frá stjörnuþoku sinni á um 5,6 milljón km hraða sem er meira en 4.500 sinnum meiri hraði en hljóðið nær.
Til viðbótar má greina að hinn endi ljóshalans vísar inn að miðju stjörnuþokunnar, þar sem einmitt ætti að vera að finna gríðarstórt svarthol.
LESTU EINNIG
Gæti verið eitthvað annað
Vísindamennirnir voru þó fullir efasemda í upphafi enda eiga mjög þung svarthol til að skjóta frá sér ljósstrókum sem geta minnt talsvert á þessa nýuppgötvuðu ljósrák.
Styrkur þessara ljósstróka minnkar þó smám saman eftir því sem lengra dregur en hali svartholsins virðist þvert á móti styrkjast.
Þar að auki breiðir halinn úr sér en ljósstrókar frá svartholi eru því sem næst alveg línulegir.
Sú skýring virðist því trúlegust að þarna sé á ferð þungt svarthol og nýjar stjörnur myndist í gasskýinu sem það dregur á eftir sér.
Þriðja hjólið í vetrarbrautadansi
Vísindamennirnir veltu líka fyrir sér hvernig svartholið hefði losnað úr haldi stjörnuþokunnar. Líklegast telja þeir að það hafi slöngvast burtu líkt og því væri skotið með teygjubyssu.
Hér hafa rannsakendur búið til fimm þrepa kerfi sem sýnir hvernig tvö svarthol í tvíundarsambandi geta raskast af þriðja svartholinu, skapað ójafnvægi í samstarfinu og hent út úr vetrarbrautinni. Skema 6 sýnir slóð þjappaðs gass sem myndar stjörnur.
Það gæti gerst ef þrjú ámóta þung svarthol koma of nálægt hvert öðru.
Tvö svarthol taka þá að snúast hvort um annað en það þriðja þeytist burtu „úr dansinum“ á miklum hraða.
Nú vonast stjörnufræðingarnir til að finna fleiri svarthol á flótta til að öðlast einhverja tilfinningu fyrir því hversu algengt þetta sé.