Um allan heim er fólk á biðlistum eftir ígræðslulíffærum enda er eftirspurnin meiri en framboðið. Það eykur enn á vandann að ástand gjafalíffæra er oft orðið svo slæmt að læknar geta ekki notað þau.
Lungu eru meðal viðkvæmustu líffæra. Eftir að lungu eru fjarlægð úr gjafanum þarf að græða þau í líffæraþegann innan örfárra klukkustunda, svo hratt hrakar þeim utan líkamans.
Nú hafa vísindamenn hjá Columbiaháskóla í BNA fundið aðferð sem bæði getur haldið lungum ferskum lengur og komið þeim í betra form. Hugmyndin byggist einfaldlega á því að láta lifandi svín halda lungunum á lífi.
Gjafalungu tengd við svín
Gjafalungu varðveitast betur og lifna við á ný þegar þau eru tengd við deyft svín.
1. Svínið sér um blóðstreymið
Slöngur frá æðum í hálsi svínsins senda hreint og næringarríkt blóð um æðar lungnanna.
2. Öndunarvél dælir súrefni
Öndunarvél sér lungunum stöðugt fyrir súrefni þótt þau séu utan líkamans.
3. Dauð svæði endurvakna
Eftir 24 tíma eru dauð, hvít svæði í lungunum orðin rauð og geta aftur tekið til sín súrefni.
Vísindamennirnir gerðu tilraunir á fimm lungum sem þurfti að afskrifa vegna þess að á stórum svæðum var vefurinn ekki lengur fær um að taka til sín súrefni. Æðar lungnanna voru tengdar hálsslagæð á niðurdeyfðu svíni sem þar með tók að sjá þeim fyrir blóðstreymi.
Gjafalungu eru oft of illa farin til ígræðslu en oft er hægt að bjarga þeim með því að tengja þau svíni í sólarhring.
Á leið frá hálsslagæðinni til lungnanna var bætt í blóðið efnum sem draga úr ónæmissvörun til að koma í veg fyrir að lungnavefurinn hafnaði blóðinu. Jafnframt var öndunarvél notuð til að sjá blóðinu fyrir súrefni.
Eftir 24 klukkutíma höfðu lungun gjörbreyst. Hvít svæði sem áður tóku ekki til sín súrefni, voru orðin rauðleit og heilbrigð og byggingarlag og súrefnisupptaka voru nú þannig að lungun hefðu verið fullgóð til ígræðslu.
Umbreyting lungnana sést greinilega - frá upphafi meðferðar (t.v.), eftir 12 klukkustundir (í miðju) og eftir 24 klukkustundir (t.h.).
Áður en unnt er að reyna aðferðina á mönnum þarf þó að gera fleiri tilraunir til að tryggja að engin óæskileg efni berist úr svíninu í lungnaþegann. Gangi þær tilraunir vel og aðferðin tekin upp í framhaldinu, mun hún auka verulega við fjölda nothæfra lungna.
Nú eru aðeins 28 gjafalungu í BNA nægilega góð til ígræðslu þegar á hólminn er komið. Vísindamennirnir sem gerðu tilraunina giska á að þetta hlutfall gæti þrefaldast.