Blóðgjafaskammtar á heimsvísu eru nú um 112,5 milljónir á ári.
En því miður hentar ekki allt blóð öllum sjúklingum.
Á yfirborði rauðra blóðkorna í blóðflokkunum A og B eru tiltekin sykurefni, svonefnd mótgen.
Fáir þú blóð af öðrum blóðflokki en þínum eigin, ræðst ónæmiskerfið á mótgenin í blóðinu og það er lífshættulegt.
O-flokkurinn er eina blóðið án mótgena og hentar þess vegna öllum og er fyrir bragðið mjög eftirsóttur í blóðbönkum heimsins.
Allir blóðflokkar verða O
Nú hafa bandarískir vísindamenn uppgötvað hvernig hægt er að breyta öllu blóði í O-flokksblóð. Lausnin fannst í þarmaflórunni.
Á þarmaveggjunum eru sykurefni, nauðalík mótgenum á blóðkornum.
Og í þörmunum eru bakteríur sem lifa af því að brjóta þessi efni niður með sérstökum ensímum.
Þessar bakteríur lifa í samlífi við okkur og hjálpa okkur að melta fæðuna svo lengi sem þær fá sykur af þarmaveggjunum.
Ensím éta ysta lag blóðkornanna
Bakteríur í þörmunum búa yfir genakóða þeirra ensíma, sem þekkja og fjarlægja mótgenin á yfirborði rauðu blóðkornanna.
1. Þarmabakteríur skaffa uppskrift
Í þarmabakteríum (græna skelin) eru gen (bláu og gulu spírallarnir) sem kóða fyrir ensímum sem geta brotið niður ákveðin sykurefni á þarmaveggnum.
2. Ensím hreinsa blóðið
Á yfirborði rauðu blóðkornanna eru svonefnd mótgen (gult og blátt) sem líkjar þeim sykurefnum sem sitja á þarmaveggjunum. Mótgenin eru á blóðkornum fólks í blóðflokkunum A, B og AB. Þegar ensím úr þörmunum komast að þessum blóðkornum fjarlægja þau mótgenin og hreinsa þannig blóðkornin.
3. Hreinsað blóð er algilt
Þegar mótgen hafa verið hreinsuð af blóðkornum henta þau öllum sjúklingum rétt eins og blóð í O-flokki, sem einmitt er laust við mótgen.
Vísindamennirnir notuðu erfðaefni bakteríanna til framleiða ensímin í rannsóknastofu og slepptu þeim síðan lausum innan um rauð blóðkorn með mótgenum. Ensímin fjarlægðu mótgenin þrítugfalt hraðar en tekist hefur með öðrum ensímum.
Alla gjafablóðskammta þarf að meðhöndla út af fyrir sig til að draga úr hættu á sýkingum og því þarf að vera unnt að framleiða ensímin ódýrt og í miklu magni.
Nú hyggjast vísindamennirnir gera umfangsmeiri prófanir og rannsaka þann möguleika að rækta þær bakteríur sem framleiða áhrifaríkustu ensímin.