Á listanum yfir dauðasyndirnar sjö er græðgi númer tvö og hefur í aldaraðir verið tengd slæmri hegðun og skuggalegum karaktereinkennum.
Græðgi er almennt talinn ljótur og leiðinlegur eiginleiki sem er óaðlaðandi og beinlínis skaðlegur öðru fólki. Græðgi er þó talin örva framleiðni og hagvöxt.
Græðgi getur reyndar verið góð
Því má skoða græðgi frá mismunandi sjónarhornum, en nánast allar rannsóknir sem gerðar eru á þessu sviði beinast að áhrifum græðginnar á annað fólk eða á samfélagið í heild.
Spurningin er hvaða áhrif græðgi hefur á einstaklinginn sjálfan? Þetta vildi hópur hollenskra vísindamanna skoða nánar og í því skyni rannsökuðu þeir 2.367 Hollendinga á aldrinum 16 til 95 ára.
Spurt um allt frá kynlífi til launa
Þátttakendur þurftu að fylla út spurningalista með margvíslegum upplýsingum sem gerðu rannsakendum kleift að meta umfang græðgi og hversu mikil eigingirni lág þar að baki.
Auk þess þurftu þátttakendur að veita upplýsingar um lífshamingjuna, persónulegar tekjur sem og tekjur allrar fjölskyldunnar, fjölda barna, lengd lengsta ástarsambandsins og fjölda bólfélaga.
Meiri peningar, meiri óhamingja
Í gögnunum sem safnað var kom fram að aukin græðgi tengdist hærri tekjum. Gráðugir einstaklingar höfðu almennt átt fleiri bólfélaga en þeir sem voru minna gráðugir – en þeir eignuðust færri börn og ástarsambönd þeirra voru entust ekki eins lengi. Mikilvægast var þó að græðgi tengdist minni lífshamingju.
„Í stuttu máli getum við dregið þá ályktun að græðgi er gagnleg þegar kemur að því að auka tekjur, en hún veitir ekki neina hamingju,“ skrifuðu hollensku vísindamennirnir í vísindatímaritið Personality and Social Psychology Bulletin.