Mataræði þitt hefur ekkert breyst og þú hreyfir þig alveg jafn mikið og áður. Samt er það svo að líkamsþyngdin fer smám saman upp á við þegar þú tekur að eldast.
Að sögn vísindamanna hjá Karólínsku stofnuninni stafar þetta af því að umsetning lípíða minnkar með aldrinum og þá hættir okkur til að þyngjast.
Hvít fita safnast upp
Í líkamanum er tvenns konar fituvefur – hvíta fitan og sú brúna. Í báðum þessum gerðum fituvefja safnast upp fita í formi þríglýseríða, fitusameinda sem einnig kallast lípíð. Þrátt fyrir þessi líkindi gegna fitugerðirnar tvær ekki sama hlutverki.
Hvíta fitan er forðafita og ætluð til seinni tíma nota en hlutverk brúnu fitunnar er að skapa varma þegar okkur verður kalt.
Líkaminn þarf á báðum gerðunum að halda til að virka rétt en jafnvægi þarf líka að vera milli fitugerðanna. Ef of mikið safnast upp af hvítu fitunni verðum við of þung og því geta fylgt ýmsir heilsukvillar.
Líkaminn hefur sérstaka aðferð til að stýra magni hvítrar fitu. Það gerist með ferli sem kallað er umsetning lípíða og stýrir jafnvægi milli magns fitufrumna sem eru geymdar og fjarlægðar úr fituvefnum.
Þegar dregur úr umsetningu lípíða hefur það áhrif á hæfni líkamans til að brenna fitu og fjarlægja hana þannig. Og þegar brennslan minnkar geta fitufrumurnar stækkað og þar með eykst líkamsþyngdin
Til vinstri sjást brúnar fitufrumur en hvítar fitufrumur eru til hægri.
Þyngdaraukning um 20%
Í rannsókninni fylgdust vísindamennirnir með fitufrumum í 54 körlum og konum á allt að 16 ára tímabili. Það var gert þannig að sýni voru tekin úr fituvef og fitan aldursgreind með C-14 aðferðinni.
C-14 aldursgreining er notuð til að ákvarða aldur lífræns efnis á grundvelli innihalds þess af geislavirka kolefnisísótópinu C-14.
Niðurstöðurnar sýndu að hjá öllum minnkaði umsetning lípíða með hækkandi aldri. Þeir þátttakendur sem ekki unnu gegn þessu með því að borða færri hitaeiningar þyngdust að meðaltali um 20%.
Hvernig á að léttast þegar aldurinn hækkar?
Þótt brennsla líkamans minnki með aldrinum er sem best hægt að halda óbreyttri líkamsþyngd eða jafnvel léttast.
Til þess þarf þó að auka hreyfingu og fækka hitaeiningum í fæðunni.