1. Murchison-loftsteinninn: 7 milljarðar ára – 2. Mánasýni 67215: 4,46 milljarðar ára – 3. Jack Hills-sirkonsteinarnir: 4,40 milljarðar ára – 4. Nuvvuagittuq-grænsteinabeltið: 4,39 milljarðar ára – 5. Alan Hills 84001: 4,09 milljarðar ára
1. Murchison-loftsteinninn: 7 milljarðar ára
Elsti steinn jarðar er eldri en bæði jörðin og sólkerfið. Svonefndur Murchison-loftsteinn lenti á jörðu í grennd við Murchison í Ástralíu þann 28. september 1969.
Efnafræðingar rannsökuðu steinefni í loftsteininum á síðasta ári og komust að raun um að hann hafi að öllum líkindum myndast í stjörnuþoku fyrir einum sjö milljörðum ára.
2. Tunglsýni 67215: 4,46 milljarðar ára
Næstelsti steinn á jörðinni á rætur að rekja til tunglsins. Sýnið sem er merkt með númerinu 67215, sótti áhöfnin á Apolló 16 en steinninn felur nánast einvörðungu í sér steinefnið plagíóklas.
Að öllum líkindum er um að ræða storknaða bergkviku frá því skömmu eftir að tunglið myndaðist.
3. Jack Hills-sirkonsteinarnir: 4,40 milljarðar ára
Elsta efnið sem vísindamenn vita að er upprunnið frá jörðinni eru smágerðir kristallar úr steinefninu sirkoni sem fundust í grennd við Jack Hills í vesturhluta Ástralíu.
Kristalarnir leiða í ljós að jörðin fól í sér skorpu, vatn og hugsanlega einnig þurrlendi aðeins 160 milljón árum eftir að hún myndaðist.
4. Nuvvuagittuq-grænsteinabeltið: 4,39 milljarðar ára
Grænsteinabeltið með storkubergi og setbergi í austurhluta Hudson-flóans flokkast sem elstu þekktu bergmyndanir á jörðu.
Árið 2007 var grænsteinabeltið aldursgreint og talið vera 3,75 milljarða ára gamalt en fimm árum síðar aldursgreindu aðrir vísindamenn bergið og nú er það álitið vera 4,39 milljarða ára.
5. Alan Hills 84001: 4,09 milljarðar ára
Þessi 2 kg þungi loftsteinn fannst á Suðurskautslandinu árið 1984. Efnafræðilegar rannsóknir leiddu í ljós að um væri að ræða jarðskorpu frá Mars.
Vísindamenn sem rannsakað hafa Mars gera ráð fyrir að steinninn eigi rætur að rekja til Valles Marineris en um er að ræða gljúfur sem líkja mætti við Miklagljúfur í Bandaríkjunum.