Alheimurinn

Loftsteinn með stefnu á jörðina: 13. apríl 2036

Þennan dag gætu orðið miklar hamfarir á jörðinni. Þá gæti loftsteinninn Apophis hugsanlega rekist á jörðina og jafnað heilar borgir við jörðu eða valdið ofboðslegum fljóðbylgjum. Stjörnufræðingar og geimfarar vinna þó nú þegar að því að koma í veg fyrir slíkan árekstur.

BIRT: 04/11/2014

Föstudagurinn 13. apríl 2029 gæti orðið örlagaríkur dagur. Þennan dag munu margir íbúar jarðar horfa til himins til að sjá loftsteininn Apophis þjóta fram hjá á 20.000 km hraða. Loftsteinninn er um 250 metrar í þvermál, vegur um 20 milljón tonn og sést frá jörðu með berum augum. Til allrar lukku er þó engin hætta á að loftsteinninn skelli á jörðinni þennan föstudag. Það þýðir þó ekki að hættan sé þar með liðin hjá. Ef loftsteinninn fer hjá í nákvæmlega “réttri” fjarlægð frá jörðu, eða í 30.000 km fjarlægð, kemur aðdráttarafl jarðar til með að sveigja braut hans þannig að sjö árum síðar muni hann skella beint til jarðar og valda gríðarlegri eyðileggingu.

Apophis fékk nafn sitt eftir stórri slöngu í egypskri trú. Slanga þessi var talin ógna allri röð og reglu í heiminum. Svo ógnvænlegur er loftsteinninn að vísu ekki að allur heimurinn muni ganga alveg úr skorðum. Loftsteinn af þessari stærð mun ekki leiða af sér hnattrænar hamfarir en afleiðingar þess að hann skelli til jarðar geta engu að síður orðið skelfilegar. Sá himinhnöttur sem sprakk yfir Tunguska í Rússlandi árið 1908 og stráfelldi allan skóg á 2.000 ferkílómetra svæði, var um 60 metrar í þvermál og þannig talsvert minni en Apophis. Sama er að segja um loftsteininn sem féll niður fyrir 50.000 árum í Arizona í Bandaríkjunum og skildi eftir sig þann 170 metra djúpa og 1.200 metra breiða gíg sem Bandaríkjamenn kalla einfaldlega “Meteor Crater”. Sá loftsteinn er talinn hafa verið um 40 m í þvermál. Ef Apophis skellur til jarðar svarar orkulosunin til um 880 milljóna tonna af TNT eða 60.000 Hírósímasprengna. Það dugar fullvel til að leggja stórt svæði í auðn. Ef loftsteinninn fellur niður í sjó, sem telja verður líklegast, sýna útreikningar að hann myndi samstundis skapa 2.500 metra djúpan og allt að 8 km breiðan gíg í hafið. Svo ofboðsleg vatnshrinding hlyti óhjákvæmilega að valda ofboðslegri flóðbylgju sem breiðast myndi út og valda dauða og eyðileggingu á mörg þúsund kílómetra löngum strandsvæðum.

Fréttin drukknaði í flóðbylgju

Fyrir rúmum þremur árum komu stjörnufræðingar í fyrsta sinn auga á Apophis og eftir að hafa reiknað út braut loftsteinsins sendi NASA frá sér fréttatilkynningu þann 24. desember 2004 þar sem fram kom að hættan á að loftsteinninn myndi rekast á jörðina væri 1 á móti 233. Þar með varð Apophis fyrsti loftsteinninn sem flokkaður hefur verið á áhættustigi 2 á svonefndum Tórínókvarða sem notaður er til að flokka hættu á árekstri loftsteins og jarðar. Fréttin af þessari uppgötvun vísindamannanna drukknaði þó alveg í fregnum af flóðbylgjunni miklu í Asíu tveimur dögum síðar. Nánari útreikningar sýndu svo reyndar að áhættan hafði í fyrstu verið stórlega ofmetin og nú er talið að líkurnar á því að Apophis skelli til jarðar 2036 séu ekki nema 1 á móti 45.000.

Apophis er reyndar síður en svo eina ógnin sem að okkur steðjar utan úr geimnum. Sá möguleiki að stór loftsteinn rekist á jörðina er stöðugt yfirvofandi. Nú síðast þann 29. ágúst þaut loftsteinninn 85275, sem er margir km í þvermál, framhjá okkur á um 40.000 km hraða. Og þann 9. september fara tveir smærri loftsteinar talsvert nær okkur. En þegar hugtakið “nálægt jörðu” er notað í þessu sambandi er þó til allrar hamingju yfirleitt um að ræða örugga fjarlægð. Sá þessara þriggja loftsteina sem hér um ræðir og kemst næst jörðu, fer hjá í um 12 milljón km fjarlægð, eða sem nemur 30-faldri fjarlægðinni til tunglsins.

Við getum því talið okkur örugg í allra nánustu framtíð. Jörðin verður þó sí og æ fyrir loftsteinum og fyrr eða síðar mun svo stór loftsteinn skella til jarðar að það hafi alvarlegar afleiðingar. Til allrar lukku eru langflestir loftsteinarnir svo litlir að þeir valda engum skaða. Örsmáir steinar utan úr geimnum brenna upp í gufuhvolfinu. Ástæðan er sú að hraði þeirra er svo mikill að núningshitinn sem myndast í gufuhvolfinu bræðir þá upp. Slíka smásteina má iðulega sjá sem stjörnuhrap. Sumir loftsteinar eru á hinn bóginn svo léttir í sér að gufuhvolfið nær að hægja á þeim áður en þeir brenna upp og þeir ná því alla leið til jarðar. Enn aðrir brenna aðeins upp að hluta og ná því einnig alla leið til jarðar, en þessir steinar eru svo litlir að þeir valda í mesta lagi mjög takmörkuðum skaða.

Hin raunverulega ógn stafar af talsvert stærri himinhnöttum. Hér getur bæði verið um að ræða halastjörnur, sem eru tiltölulega fáséðar, og stærri loftsteina, sem eru eins konar smáhnettir á braut um sólu og mun algengari. Fyrsti stóri loftsteinninn uppgötvaðist 1801 og fékk nafnið Ceres. Nú áætla stjörnufræðingar að í sólkerfinu séu um 200.000 loftsteinar, 100 metrar í þvermál eða meira. Ríflega 1.000 þeirra eru meira en kílómetri í þvermál og myndu þar með valda miklum hamförum um allan heim ef þeir rækjust á jörðina. Það var að líkindum árekstur við einn þessara risaloftsteina sem varð þess valdandi að risaeðlurnar dóu út fyrir 65 milljónum ára.

Ógninni má verjast

Alla tíð síðan hefur lífið á jörðinni beðið aðgerðalaust eftir næsta stóra árekstri, en með tækni nútímans er mannkynið beinlínis komið í þá aðstöðu að geta gripið til raunhæfra aðgerða til að verjast þessari ógn.

Fyrsta skrefið er að kortleggja nákvæmlega brautir loftsteinanna til að komast að því af hverjum þeirra kann að stafa hætta og hvænær áreksturs mætti þá vænta. Í þessum tilgangi var á vegum NASA komið á fót sérstöku varnarverkefni “Spaceguard Survey” á síðasta áratug síðustu aldar. Tilgangurinn var að ákvarða nákvæmlega brautir allra loftsteina, stærri en 1 km í þvermál. Nú þegar eru brautir meira en 700 slíkra loftsteina þekktar. Að auki þekkja menn nú brautir um 4.000 smærri loftsteina og næsta markmið stjörnufræðinganna er að kortleggja brautir 90% allra loftsteina sem eru meira en 140 metrar í þvermál fyrir 2020.

Meðal þeirra tækja sem notuð verða í þessum tilgangi er nýi ofursjónaukinn LSST (Large Synoptic Survey Telescope), sem setja á upp í norðurhluta Chile. Aðalspegill sjónaukans verður 8,4 metrar í þvermál og við ljósmyndatökuna verður notuð 3.200 megadíla stafræn myndavél. Sjónaukinn á að vera kominn upp árið 2012 og á þá samtals að ná myndum af öllu himinhvolfinu um 10 sinnum á mánuði. Á svo hárnákvæmum stafrænum myndum verður unnt að fylgjast með hreyfingum jafnvel smærri loftsteina og LSST verður því afar traust verkfæri.

Þvingaðir af braut

Þegar áhættan hefur verið kortlögð verður næsta skref að ákvarða hvernig bregðast skuli við ógninni. Frá Hollywood hafa komið ýmsar kvikmyndir þar sem settar eru fram mögulegar lausnir sem einkum bera þó vott um frjótt ímyndunarafl höfundanna. Í rauninni er t.d. fremur hæpið að geimfarar verði sendir út í geiminn og látnir sprengja stóran loftstein í tætlur með kjarnorkusprengju. Margir loftsteinar eru fremur gljúpir og væri slíkur loftsteinn sprengdur í sundur, yrði afleiðingin einkum sú að í stað eins loftsteins á þekktri braut, kæmu fjölmargir nýir sem hver um sig gæti ógnað jörðinni.

Sennilegast þykir nú að reynt yrði að þvinga loftsteininn af braut sinni með “þyngdaraflsdráttartæki” – þungu geimfari sem héldi fastri afstöðu gagnvart loftsteininum og breytti stefnu hans einungis með sínum eigin þyngdaráhrifum. Þetta hljómar kannski ekki mjög trúverðugt en sannleikurinn er þó sá að slíkt geimfar sem aðeins væri eitt tonn að þyngd gæti breytt stefnu Apophis nægilega mikið til þess að engin hætta væri lengur á því að loftsteinninn rækist á jörðina.

Til að slík för bæri tilætlaðan árangur þyrfti geimskipið að fara á loft um 2027 og kostnaðurinn yrði um 300 milljónir dollara. Þetta er ekki nema tveir þriðju hlutar þess sem það kostar að senda eina af geimferjum NASA einu sinni út í geiminn. En hver á að borga? Hver ber ábyrgð á þessu verkefni? Og hver ber ábyrgðina ef ætlunarverkið mistekst?

Allir geta orðið fórnarlömb?

Fram að þessu hafa athuganir á loftsteinum einkum verið fjármagnaðar með fjármagni sem ætlað er til rannsókna. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna þetta fyrirkomulag og segja slíkar athuganir ekki rannsóknir heldur öllu fremur flokkast undir tölfræðilegt áhættumat. Stjörnufræðingar afla ekki beinlínis nýrra fræðilegra upplýsinga með því að skoða nánast endalausa mergð loftsteina og markmiðið með þessu starfi er að koma í veg fyrir dauða fjölda fólks og eyðileggingu mikilla verðmæta.

Ef við hugsum okkur að braut Apophis yrði breytt lítils háttar en aðgerðin heppnaðist ekki að fullu, gæti loftsteinninn fyrir bragðið komið niður annars staðar en hann hefði ella gert. Með því að færa loftsteininn til í geimnum væri þá aðeins verið að flytja hamfarasvæðið á jörðu niðri. Þetta sýnir vel nauðsyn þess að athuganir stjörnufræðinga og varnir gegn loftsteinum séu ekki aðeins á hendi eins ríkis heldur alþjóðlegrar stofnunar.

Russel “Rusty” Schweickart var einn geimfaranna á dögum Apollo-áætlunarinnar kringum 1970 og hefur á síðari árum reynt að beina sjónum manna að hættunni sem að okkur steðjar utan úr geimnum. En honum veitist oft erfitt að fá valdamenn til að taka vandamálið alvarlega. Árekstur við stóran loftstein má einmitt kalla hið fullkomna dæmi um mjög ólíklegt atvik sem á hinn bóginn hefði hinar hrikalegustu afleiðingar. Enginn núlifandi maður hefur sjálfur orðið vitni að afleiðingum þess að stór loftsteinn falli til jarðar og vegna þess hversu sjaldan það gerist hyllast langflestir til að trúa því að slíkt geti ekki gerst – alla vega ekki á okkar dögum. Og þegar áhættan vekur ekki athygli almennings, hafa ráðamenn yfirleitt ekki áhuga á henni heldur.

Samræming hjá SÞ

Til að koma á fót alþjóðlegri aðgerðaáætlun hafa alþjóðasamtök geimfara, ASE (Association of Space Explorers) komið á fót sérstökum starfshópi sem Rusty Schweickart veitir forstöðu. Árið 2005 gaf starfshópurinn út opið bréf til þjóðarleiðtoga og alþjóðastofnana sem málið er skylt, þar sem bent var á nauðsyn slíkar aðgerðaráætlunar. Nú vinnur Schweickart, ásamt hópi sérfræðinga, sem í eru m.a. stjörnufræðingar, lögfræðingar og diplómatar, að því að setja saman nákvæmar tillögur að áætlun á þessu sviði. Tillögurnar eiga að vera fullmótaðar árið 2009.

Þegar þar að kemur er ætlunin að leggja tillögurnar fyrir geimferðanefnd Sameinuðu þjóðanna sem Schweickart og alþjóðasaamtök geimfara telja að sé rétti vettvangurinn til að stjórna og samræma loftsteinavarnir framtíðarinnar. Ef allt gengur eins og Schweickart hefur hugsað sér gæti Apophis orðið eins konar prófsteinn og hugsanleg tilfærsla loftsteinsins sannað að það verði í framtíðinni raunhæfur möguleiki að verjast hamförum af völdum stórra loftsteina.

Föstudaginn 13. apríl 2029 verður unnt að sjá Apophis sem lítinn ljósdepil á ferð yfir næturhimininn. En sé loftsteinninn skoðaður í stjörnukíki verður þá kannski líka unnt að greina örsmátt geimfar með bláhvítum fána Sameinuðu þjóðanna – farartæki sem þá kynni að hafa verið staðfastur fylgisveinn loftsteinsins árum saman og smám saman tekist að toga hann burtu af hættusvæðinu.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Hvernig myndast gull?

Lifandi Saga

Leið nasista til valda í Þýskalandi

Alheimurinn

Stjörnuskífa finnst í framandi stjörnuþoku

Náttúran

Hvað ef allar örverurnar hyrfu?

Náttúran

Hundategundin ræður litlu um hegðun hunda

Heilsa

Deyr maður úr svefnleysi?

Lifandi Saga

Hvernig varð Rússland svona stórt?

Maðurinn

Svona gróa sár

Tækni

Gervigreindin getur nú spáð fyrir um líf og dauða

Maðurinn

Þannig þekkjast félagsblindir

Lifandi Saga

Dr. Kellogg rak út djöfulinn með kornflexi 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is