Stephenson 2-18
2.150 sinnum stærri en sólin
Methafinn er í 20.000 ljósára fjarlægð. Þessi rauða risastjarna vekur undrun stjörnufræðinga því stærðin stríðir gegn gildandi kenningum um þróun stjarna þar sem mörkin eru talin liggja við 1.500 sinnum radíus (geisla) sólar eða svo. Væri Stephenson 2-18 sett þar sem sólin er nú, næði stjarnan út fyrir braut Satúrnusar.
UY Scuti
1.708 sinnum stærri en sólin
Rauði risinn UY Scuti er svonefnd breytistjarna. Það merkir að ljósstyrkur hennar breytist í ákveðnum takti. Hið sama gildir um stærðina sem fyrir bragðið er erfitt að ákvarða nákvæmlega.
V354 Cephei
1.520 sinnum stærri en sólin
Stjarnan er svonefnd óregluleg breytistjarna. Auk ljóss og stærðar er geislun frá stjörnunni líka breytileg. Eins og aðrar risastjörnur er hún svöl – yfirborðshitinn er „aðeins“ um 3.225 gráður.
VY Canis Majoris
1.420 sinnum stærri en sólin
Ein af ljóssterkustu stjörnum sem þekktar eru, er í stjörnumerkinu Stóra hundi. Stjarnan fannst 1801 og ljósstyrkur hennar virðist hafa minnkað síðan.
KY Cygni
1.420 sinnum stærri en sólin
KY Cygni er um 5.000 ljósár frá jörðu, í stjörnumerkinu Svaninum. Vegna stærðar sinnar og geislunar ætti þessi rauði risi að sjást með berum augum en ryk eða gas drekkur í sig ljósið og við sjáum stjörnuna ekki.