Stærsta stjörnuþoka sem fundist hefur

Risastór útvarpsbylgjuþoka sem stjörnufræðingar hafa nú uppgötvað er 16,3 milljónir ljósára að lengd. Nú á þessi uppgötvun að veita nýja innsýn í eina af stærstu ráðgátum geimsins.

BIRT: 19/05/2022

LESTÍMI:

3 mínútur

Í þriggja milljarða kílómetra fjarlægð hafa vísindamenn nú uppgötvað fyrirbæri sem verður að teljast til hinna merkilegustu.

 

Þetta er risastór útvarpsbylgjuþoka og hún uppgötvaðist gegnum einn stærsta útvarpsbylgjusjónauka jarðar. Lengd þokunnar er um 16,3 milljónir ljósára og hún er þar með sú stærsta sem fundist hefur.

 

Þetta segja stjörnufræðingarnir sem uppgötvunina gerðu. Rannsókn þeirra hefur enn ekki verið ritrýnd en á að því loknu að birtast í vísindatímaritinu Astronomy and Astrophysics.

 

Vísindamenn um allan heim taka þó undir með stjörnufræðingunum. Einn þeirra er Johan Peter Uldall, prófessor í stjarneðlisfræði hjá Niels Bohr-stofnuninni við Kaupmannahafnarháskóla.

 

„Við þekkjum þúsundir af útvarpsbylgjuþokum. Þessi er bara gríðarlega stór og sú stærsta sem við höfum nokkru sinni greint,“ segir hann.

 

Svarthol skýtur út plasma á ljóshraða

Fjarlægðin milli plasmaskýjanna tveggja sem greindust gegnum hinn tröllvaxna LOFAR-sjónauka, er 16,5 milljónir ljósára. Það gerir fyrirbrigðið að stærsta stjörnuþokulagaða fyrirbrigði sem fundist hefur.

Þessi nýfundna þoka hefur fengið nafnið Alcyoneus og þvermál hennar er 160 sinnum þvermál Vetrarbrautarinnar. Hún er af þeirri gerð sem kallast útvarpsbylgjuþokur.

 

En stjörnuþokur af þessari gerð eru vísindamönnum enn nokkur ráðgáta.

 

Í miðju útvarpsbylgjuþokunnar er stórt svarthol sem sogar í sig óheyrilegt magn efnis og dregur segulsvið í kringum sig.

 

Þetta mikla efnismagn veldur því að kjarni þokunnar er mjög virkur og skýtur gríðarstórum rafeindageislum í tvær andstæðar áttir á hraða ljóssins.

 

„Það má ímynda sér þessa geisla sem tvö risavaxin ljóssverð úr Star Wars og svartholið skýtur þeim út í gagnstæðar áttir,“ útskýrir Johan Peter Uldall.

 

Árið 2019 tókst stjörnufræðingum í fyrsta sinn að ná mynd af svartholi eða öllu heldur atburðahringnum í kringum það. Þetta ógnarstóra svarthol er í miðju stjörnuþokunnar Messier 87 eða M87 sem er ein orkuríkasta uppspretta útvarpsgeisla í geiminum og líka svokölluð útvarpsbylgjuþoka.

Risavaxinn útvarpsbylgjusjónauki greindi þokuna

Vísindamönnum tókst að greina þá risavöxnu rafeindageisla sem berast út frá svartholinu með því að nota einn stærsta útvarpsbylgjusjónauka jarðar, LOFAR-sjónaukann.

 

Þessi sjónauki er í rauninni heilt netverk útvarpsbylgjusjónauka sem nær yfir stóran hluta Norðvestur-Evrópu – út frá ótrufluðu náttúruverndarsvæði í Hollandi þar sem snjallsímar ná engu sambandi.

 

LOFAR-sjónaukinn er samsettur úr stóru neti mörg þúsund útvarpsbylgjuloftneta á alls 44 stöðum, m.a. í Hollandi, Englandi og Frakklandi.

Útvarpsbylgjuloftnetin greindu útvarpsbylgjur frá rafeindageislunum sem svartholið í miðri Alcyoneus-þokunni skýtur út frá sér.

 

Þannig náðist myndin af plasmaskýjunum tveimur sem eru þau stærstu sinnar gerðar.

 

Nú á að afhjúpa leyndardóminn

Johan Peter Uldall prófessor í stjarneðlisfræði undirstrikar að uppgötvunina beri ekki að skilja þannig að vísindamenn hafi fundið hefðbundna stjörnuþoku þar sem milljarðar stjarna nái þvert yfir 16,5 milljóna ljósára svæði.

 

„Lengdin milli plasmaskýjanna tveggja segir okkur að svartholið hefur skotið út geislum í lengri tíma en við sjáum yfirleitt í fyrirbrigðum af þessari gerð,“ útskýrir hann.

 

Að sögn vísindamannanna að baki þessari uppgötvun er næsta skref nú að átta sig á hvers vegna Alcyoneus hefur náð þessari stærð, þar eð hvorki svartholið né hinir svokölluðu plasmageislar virðast stærri en í smærri útvarpsbylgjuþokum.

 

BIRT: 19/05/2022

HÖFUNDUR: Nanna Vium

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © ESO © Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is