Maðurinn

Typpastærð – Þetta er meðalstærð á typpum

Stærðin skiptir ekki öllu máli. Samt vilja margir karlmenn lengra typpi með meira ummáli. En hversu stórt er meðaltyppi og er hægt að stækka liminn? Lifandi vísindi svara helstu spurningum þínum um þetta teygjanlega líffæri.

BIRT: 07/10/2022

Hve stórt er meðaltyppi? – Hvenær hættir typpið að vaxa? – Hver er með heimsins stærsta typpi? – Hver er með heimsins minnsta typpi? – Hvað ræður stærð typpis? – Hvernig stækkar maður typpið? – Vilja konur frekar stór typpi?

Hve stórt er meðaltyppi?

Enskir vísindamenn við King´s College í London söfnuðu saman mælingum á typpastærðum árið 2014 úr 20 mismunandi rannsóknum sem náðu til 15.521 manns frá 16 löndum.

 

Samhliða því höfðu vísindamennirnir flokkað fjölmargar rannsóknir frá, enda þóttu þær ekki áreiðanlegar, t.d. vegna þess hve þátttakendur voru fáir eða að það voru þeir sjálfir sem mældu á sér getnaðarliminn.

 

Fimm mælingar voru gerðar: lengd typpis í reisn og slöku typpi, lengd á teygðu slöku typpi og ummál á slöku typpi og reistu typpi.

 

Lengdin var mæld frá rót typpisins alveg við beinið og út að enda kóngsins en ummálið var ýmist mælt við rótina eða á miðju typpi.

 

Þetta eru niðurstöður ensku vísindamannanna á meðalgildum typpa:

 

  • Lengd á reistu typpi: 13,12 sentimetrar

 

  • Lengd á slöku typpi: 9,16 sentimetrar

 

  • Teygt slakt typpi: 13,24 sentimetrar

 

  • Ummál á reistu typpi: 11,66 sentimetrar

 

  • Ummál á slöku typpi: 9,31 sentimetri

 

Auk þess gerðu vísindamennirnir línurit sem sýna dreifingu typpastærða. Sem dæmi sýnir fyrsta línuritið að 85% manna eru með typpi í fullri reisn sem er undir 15 sentimetrum.

 

Línurit yfir stærð typpis – lengd

Sentimetrar á y-ás og prósentuhlutfall á x-ás

Lengd á slöku typpi
Lengd á slöku, teygðu typpi
Lengd á reistu typpi

Línurit yfir stærð typpis – ummál

Sentimetrar á y-ás og prósentuhlutfall á x-ás

Ummál á slöku typpi
Ummál á reistu typpi

Hvenær hættir typpið að stækka

Typpið byrjar að stækka á strákum þegar þeir ná kynþroskaaldri sem er yfirleitt þegar þeir eru 12 – 13 ára gamlir.

 

Síðan heldur limurinn áfram að vaxa fram á tvítugsaldur, þegar kynþroskaskeiðinu lýkur. Þó eru til fáeinar rannsóknir sem sýna að eldri karlmenn eru með aðeins stærri typpi heldur en þeir yngri.

 

Það hversu hratt typpið stækkar er mismunandi milli einstaklinga.

 

Ein rannsókn frá árinu 2010 sýnir þó að meðaltal stækkunar var 1,3 sentimetri á ári á aldrinum 11 til 15 ára. Typpið heldur áfram að vaxa á næstu árum, nokkuð hægar.

 

Hver er með heimsins stærsta typpi?

Heimsins lengsta typpi virðist tilheyra hinum bandaríska Jonah Falcon.

 

Typpi hans mældist vera 24 sentimetrar í slöku ástandi, 34 sentimetrar í fullri reisn og með 20 sentimetra ummál. Samkvæmt Falcon finnur hann fyrir svima þegar hann er með standpínu.

 

Falcon hefur átt metið frá 1999 en árið 2015 skákaði hinn mexíkanski Roberto Esquivel Cabrera honum rækilega. Hann er sagður vera með tæplega hálfs metra langan getnaðarlim sem mældist 48 sentimetrar.

 

Samkvæmt lækninum Jesus Muro sem hefur tekið ómmynd af líffærinu, felst mestur hluti lengdarinnar í forhúðinni. Sjálft typpið er 16 til 18 sentimetra langt. Þessi mikla forhúð stafar mögulega af því að Cabrera hafi reynt að lengja liminn frá því að hann var táningur.

 

Hvernig nær typpið reisn?

Typpið samanstendur af þvagrás, æðakerfi, taugum, himnum, frauðvefjum og svampvef. Það eru þeir síðastnefndu sem sjá um að lyfta typpinu í fulla reisn.

 

Frauðvefirnir eru tveir og liggja samsíða á ofanverðu typpinu. Undir er svampvefur sem inniheldur þvagrásina. Í henni er lokuvöðvi sem sér til þess að súrt þvag blandist ekki sæðinu við sáðlos.

 

Þegar heilinn verður fyrir kynferðislegri örvun tekur blóð að streyma til þessara vefja og limurinn verður stífur og harður.

 

Þetta er til þess að tryggja sem best að frjóvgun geti átt sér stað við samræði.

Hver er með heimsins minnsta typpi?

Það er nokkrum örðugleikum bundið að hengja þá nafnbót á tiltekinn einstakling.

 

Í bandarískri rannsókn frá árinu 2014 þar sem 1.661 karlar greindu sjálfir frá mælingum sínum reyndist einn ónafngreindur maður vera með typpi sem var fjórir sentimetrar í fullri reisn. Í sömu rannsókn sögðu þrír mælt ummál typpis síns í reisn vera þrjá sentimetra.

 

Teygt slakt typpi sem er minna en 8,5 sentimetrar, er skilgreint sem smátyppi (e. micropenis) og slíkt greinist hjá 1 af hverjum 160 karlmönnum.

Hvað orsakar smátyppi?

Þessi snubbótta typpalengd stafa líklega af brengluðu hormónajafnvægi á fósturstigi. Erfðafræðilegir þættir geta einnig komið við sögu.

 

Smátyppi eru jafnan greind á fyrstu árum ungra drengja og hægt er að meðhöndla þau með testósteróni til að örva vöxt typpisins.

Hvað ræður stærð typpis?

Í enskri rannsókn á typpastærð frá árinu 2014 skoðuðu vísindamennirnir nánar samhengið milli typpastærðar og annarra þátta eins og kynþáttar, hæðar og stærðar fóta.

 

Typpastærð og kynþáttur

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að blökkumenn séu með lengri typpi en karlmenn í Evrópu sem eru sjálfir með stærri typpi en karlmenn frá Asíu.

 

En þessar rannsóknir þykja ekki áreiðanlegar og ensku vísindamennirnir fundu engan afgerandi mun á typpastærð kynþáttanna í þeim rannsóknum sem taldar voru áreiðanlegar.

 

Niðurstaða þessi felur ekki nauðsynlega í sér að slíkan mun sé ekki að finna, heldur aðeins að það skorti betri rannsóknir.

 

Aðeins tvær rannsóknir vörðuðu typpastærð Afríkubúa sunnan Sahara – og þær mælingar reyndust vera nærri alþjóðlegu meðaltali.

 

Typpastærð og hæð og þyngd

Nokkrar rannsóknir benda til að hávaxnir karlmenn séu einnig með lengri typpi en samhengið er ekki burðugt.

 

Samhengi milli þyngdar og typpastærðar virðist öllu snúnara.

 

Sumar rannsóknir benda til þess að þungir menn séu með stærri typpi, meðan aðrar sýna ekkert samhengi. Enn aðrar segja þessu öfugt farið, þ.e. að þungir karlar séu með minni typpi.

 

Typpastærð og hendur og fætur

Ein rannsókn fann smávægilegt samhengi milli stærðar fóta og typpa, meðan önnur fann ekkert slíkt samhengi.

 

Sérfræðingar hafa einnig rannsakað lengd fingranna og þar sýnir ein rannsókn að karlmenn sem eru með lengri baugfingur en vísifingur séu með lengra typpi.

 

Þessi vensl milli lengdar fingra og typpastærðar eru skýrð með vísun í sambærilegt testósterónmagn á fósturstigi.

 

Stærð getnaðarlims og nefs

Rannsókn frá Kyoto Prefectural University of Medicine fann tengsl milli stærðar nefsins og stærð typpis. Rannsóknin var byggð á 26 nýlátnum japönskum körlum á aldrinum 30-50 ára.

 

Rannsakendur mældu ýmsa líkamshluta, þar á meðal lengd nefsins og lengd á teygðu typpi þeirra, en hið síðarnefnda getur gefið til kynna hversu stórt reist typpi karlanna var þegar þeir voru á lífi.

 

Mælingarnar leiddu í ljós tengsl á milli líkamshlutanna tveggja, sem bendir til þess að stærð getnaðarlimsins ræðst kannski ekki af aldri, hæð eða þyngd, heldur er hún erfðafræðileg.

 

Hvers vegna lengd nefs og getnaðarlims tengist er enn óljóst og því munu vísindamenn halda áfram að rannsaka sambandið þar á milli.

 

Til forna þóttu lítil typpi fallegust

Í Grikklandi hinu forna og Rómarríki voru styttur af karlmönnum jafnan með lítil typpi, enda þóttu lítil typpi til marks um sjálfsaga, gáfur og siðfágun.

 

Stór typpi stóðu hins vegar fyrir hið gagnstæða – hömluleysi, greindarskort og holdlegar fýsnir. Frjósemisgoðmögn voru þó undantekning í þessum efnum.

 

Myndin er af af styttu Michelangelos af Davíð áður en hann réðst til atlögu við hinn risavaxna Golíat – sem hefur mögulega verið með stærra typpi.

Hvernig stækkar maður typpið?

Það fyrirfinnast margvíslegar vörur, t.d. pillur og pumpur sem lofa karlmönnum að limur þeirra stækki.

 

Slíkar staðhæfingar byggja ekki á vísindalegum grunni en sumar vörurnar kunna að geta haft áhrif á stækkun typpisins.

 

Pillur sem innihalda t.d. vítamín eða hormóna hafa enga rannsakaða virkni og sumar geta verið skaðlegar.

 

Svonefndar typpapumpur virka ekki heldur. Tilraun ein sýndi að sex mánaða ástundun við typpapumpun skilaði engum árangri.

Þrátt fyrir að typpapumpa stækki ekki liminn, getur hún gagnast við risvanda.

Sumir karlmenn stunda sérhæfðar æfingar þar sem reynt er að þrýsta blóði fram í kónginn en engum áreiðanlegum sögum fer af afrakstrinum.

 

Rannsókn ein segir af manni sem hafði sprautað taugaeitrinu bótoxi í typpið í von um að lengja það en lengdaraukningin átti einungis við slakt typpi, þar sem eitrið hindrar að limurinn geti dregist fyllilega saman.

Menn hafa sprautað í sig taugaeitrinu bótoxi í von um stærra typpi.

Búnaður sem togar í typpið virðist geta haft áhrif á typpastærðina. Rannsóknir hafa sýnt að slakt typpi getur stækkað og á það einnig við um teygt slakt typpi.

 

Tilraun með 21 karlmanni sýndi að slíkur togbúnaður gat – eftir fjögurra tíma daglega notkun í hálft ár – lengt slakt typpi um 2,3 sentimetra og teygt slakt, teygt typpi um 1,7 sentimetra.

 

Skurðaðgerð er enn einn möguleikinn og læknar hafa gert tilraunir með mismunandi aðgerðir, t.d. að skera á tengslin milli lífbeins og typpis eða með því að græða brjósk eða fituvef í liminn.

 

Sumar aðferðir virðast lengja typpið en yfirleitt skortir haldbærar vísindalegar sannanir og eins geta þetta verið áhættusamar aðgerðir.

Vilja konur frekar stór typpi?

Margar rannsóknir hafa í áranna rás reynt að kanna hug kvenna til typpastærðar. Og margt bendir til þess að þeim virðist stærri typpi vera meira aðlaðandi.

 

Í einni rannsókn frá árinu 2013 voru 105 konur beðnar um að meta 53 tölvugerða karlmenn sem voru með mismunandi líkamsbyggingu, hæð og typpastærð.

 

Niðurstöðurnar sýndu að konurnar voru hrifnastar af herðabreiðum, hávöxnum karlmönnum með grannar mjaðmir. Stærð typpis reyndist einnig skipta máli. Konurnar vildu fremur karla með stór typpi – einkum ef hann var líka hávaxinn.

 

Í annarri rannsókn frá árinu 2015 könnuðu sérfræðingar val 75 kvenna sem lögðu mat á 33 mismunandi þrívíddartyppi sem tölva var látin skapa.

 

Þær niðurstöður sýndu að konurnar vildu einkum typpi sem voru aðeins yfir meðaltali lengdar og að val þeirra réðst að miklu leyti af samhengi sambandsins.

 

Í langtímasambandi kusu konurnar 16 sentimetra langt typpi með 12,2 sentimetra ummál en fyrir einnar nætur gaman var lengdin 16,3 sentimetrar og ummálið 12,7 sentimetrar.

 

84 prósent kvenna eru sátt við typpastærð kærastans

Öllu stærri rannsókn með 52.031 gagnkynhneigðum karlmönnum og konum frá árinu 2006 sýndi að þó að konur kysu að typpi makans væri aðeins stærra, þá var meirihluti þeirra sáttur við stærðina á typpi makans.

 

Í rannsókninni sögðust 67% þeirra telja að stærðin væri í meðallagi. 27% töldu typpið vera stórt en einungis 4% sögðu það vera lítið.

 

Auk þess sögðust 84% þeirra vera ánægðar með stærð typpisins, 14% vildu að það væri stærra og 4% sögðust vilja að typpið væri minna.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: CHRISTIAN AMMITZBØLL JUUL

Shutterstock,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.