Jörðin

Verstu náttúruhamfarir Evrópu

Á sögulegum tímum hafa skæðar náttúruhamfarir hvað eftir annað breytt Evrópu. Óveðursflóð, þurrkar og hnefastór högl hafa þurrkað þorp og bæi út af landakortinu.

BIRT: 20/10/2023

1 - Skýstrókur: Floti reglunnar kurlaðist

2 - Skógareldar: Reykur kostaði 82 slökkviliðsmenn lífið

3 - Haglél: Högl lögði þorp í eyði

4 - Skriðuhlaup: Kolaleðjuhlaup eyddi skóla

5 - Frost: Litla ísöldin reyndist Evrópubúum erfið

6 - Flóðbylgja: Stór klöpp olli risaflóðbylgju

7 - Þrumuveður: Elding kveikti í púðri Napóleons

8 - Stormflóð: Hafið gleypti fólkið þúsundum saman

9 - Þurrkur: Fljót Evrópu þornuðu

10 - Fellibylur: Fárviðrið tætti ensku þorpin eins og eldspýtur

Náttúruhamfarir hafa valdið dauða og eyðileggingu á öllum tímum.

 

Á síðustu 500 árum höfum við öðlast meiri skilning á því hvernig við getum varist náttúruvá á borð við flóð eða eldingar en græðgi og ofmetnaður mannskepnunnar hafa engu að síður leitt af sér nýjar hamfarir sem kostað hafa miklar mannfórnir.

 

Hér lítum við yfir verstu náttúruhamfarir í Evrópu síðustu 500 árin.

1 - Skýstrókur: Floti reglunnar kurlaðist

Skýstrókar myndast sjaldan á sjó og eru þá oftast ekki jafn ofsafengnir en engu að síður hættulegir skipum.

Þann 23. september 1556, klukkan sjö að morgni tók mikill skýstrókur stefnuna af hafi beint inn yfir höfnina í núverandi Valetta á Möltu. Skýstrókar myndast þegar vindum úr tveimur áttum slær saman. Við réttar aðstæður getur myndast hvirfilvindur á allt að 500 km hraða í spíral upp á við og pískar saman sjó, loft og ský. 

 

Samkvæmt franska Mölturiddaranum og sagnaritaranum Pierre-Marie-Louis Kerdu fórust margir þegar skýstrókurinn gekk yfir. Kerdu lýsti því hvernig hann sökkti skipum í höfninni og gróf íbúa í grenndinni í rústum húsa sinna á hálfri klukkustund.

 

„Seglskip og galeiður brotnuðu í spón og enn sárgrætilegra var að mörgum galeiðum hvolfdi þannig að flestir yfirmenn, hermenn og galeiðuþrælar drukknuðu eða krömdust undir þunganum.“

 

Kerdu taldi að meira en 600 manns hefðu týnt lífi, þeirra á meðal sex riddarar Möltureglunnar. Þegar Möltubúar höfðu jafnað sig eftir sorgina, lét stórmeistari reglunnar, Claude de la Sengle endurbyggja bæði húsin og flotann.

2 - Skógareldar: Reykur kostaði 82 slökkviliðsmenn lífið

Tilraun til að slökkva gríðarlegan eld með trjágreinum reyndist ekki tiltakanlega áhrifarík.

Eftir seinni heimsstyrjöld var slökkvilið í Frakklandi illa á sig komið og skógur að vaxa saman yfir eldvarnabelti í Landesskógi, stórum furuskógi suðvestur af Bordeaux. Eftir þrjú þurrkasumur þegar hitinn fór upp í 42 gráður, kom brunavörður auga á reyk þann 19. ágúst 1949 skammt frá þorpinu Saucats.

 

Lítill hópur slökkviliðsmanna reyndi að slökkva eldinn með trjágreinar að vopni en eldurinn magnaðist hratt og breiddist út. Þegar loks tókst að ná valdi á skógareldunum höfðu 82 sjálfboðaliðar látið lífið, þeirra á meðal bæjarstjórinn í Saucats. Meira en 500 ferkílómetrar höfðu brunnið.

 

Einn eftirlifenda sagði frá hamförunum: „Maður sá eldinn læsa sig hraðfara meðfram líkunum þannig að líkamsfitan tútnaði.“

 

Niðurstaða lögreglunnar var sú að sígarettustubbur hefði kveikt þennan banvæna eld, einhvern þann skaðvænlegasta í Evrópu.

 

Skógareldar hafa svo orðið hraðvaxandi vandamál á síðustu árum. 2021 át skógareldurinn Dixie upp 3.800 ferkílómetra af skógi í Kaliforníu.

3 - Haglél: Högl lögði þorp í eyði

Þegar höglin eru á stærð við krepptan hnefa verður haglél lífshættulegt.

Þann 1. júlí 1891 gerði ofboðslegt óveður í Hollandi og vesturhluta Þýskalands. Eldingar lýstu upp himininn og skýstrókur fór yfir akra norðvestur af Düsseldorf en í Hollandi reið yfir stórskornasta haglél í manna minnum.

 

Höglunum rigndi yfir þorpið Hezalaar þannig að rústir einar stóðu eftir. Högl myndast þegar vatnsdropar frjósa í lofti. Öflugur vindur getur feykt hagli hvað eftir annað í gegnum regnský þannig að fleiri vatnsdropar bætist við og haglið stækki. Samkvæmt skrifuðum lýsingum frá Konunglegu hollensku veðurstofunni höfðu höglin sums staðar náð stærð „á við mannshnefa“.

 

Þessi stórgerðu högl lögðu þorpið Hezelaar fullkomlega í eyði. Þýskalands megin landamæranna lýstu sjónvarvottar því að höglin hefðu víða mölbrotið glugga og þök og eyðilagt kornuppskeruna. Í Hameln fannst hagl sem vóg 1,5 kg og í staðarblaðinu sagði: „Síðan maðurinn lærði að hugsa hefur enginn nokkru sinni lent í óveðri sem olli svo miklum og óhugnanlegum skaða.“

4 - Skriðuhlaup: Kolaleðjuhlaup eyddi skóla

28 klukkustundum eftir hamfarirnar í Aberfan var enn mikil ringulreið í bænum sem að stórum hluta var þakinn svartri leðju.

Í smábænum Aberfan í Wales var kennsla í barnaskólanum nýhafin að morgni 21. október 1966 þegar gjallhaugur frá kolanámunni sem hlaðist hafði upp efst í hlíðinni, komst á hreyfingu. Síðustu þrjár vikur hafði rignt mikið og vatn safnast upp í þessum 34 metra háa jarðvegs- og gjallhaug sem í var settur úrgangur frá námuvinnslunni.

 

Haugurinn þyngdist sífellt og kl. 9.15 tók þessi svarti, klísturmassi að skríða niður hlíðina í átt að Aberfan. Haugurinn bætti við sig jarðvegi á leiðinni og alls skullu 110.000 rúmmetrar af eðju á þorpinu.

 

Sjónarvottar lýstu skriðunni sem „svörtum, gljáandi massa“ og á nokkrum mínútum gleypti skriðan í sig nokkur býli og skall síðan á skólanum. Þegar allt var yfirstaðið var ríflega 9 metra hálfstorkinn gjallblandaður jarðvegur kominn í stað skólans og fleiri húsa í bænum. 116 börn og 28 fullorðnir týndu lífi.

 

Í kjölfar hamfaranna fylgdu réttarhöld og námufélagið NCB var dæmt til að greiða 500 pund fyrir hvert barn sem fórst.

Horfðu á upptökur frá hreinsuninni eftir hamfarirnar í Aberfan:

5 - Frost: Litla ísöldin reyndist Evrópubúum erfið

Á litlu ísöldinni var Norður-Evrópa oft þakin snjó á veturna.

Undir lok miðalda kólnaði verulega í Evrópu af óþekktum ástæðum. Frá um 1300 til 1850 var meðalhiti um 1,5 gráðum lægri en nú. Kuldinn hafði mikil áhrif á íbúa álfunnar.

Jöklar teygðu á sér

Á 17. öld hurfu mörg þorp undir jökla í Ölpunum. Í Noregi teygði skriðjökull út úr Jostedalsjökli sig fram um 4 km frá 1700-1748. Eitt býlið sem varð jöklinum að bráð hét Nigard og skriðjökullinn heitir síðan Nigardsjökull.

 

Sundin lagði

Margar siglingaleiðir frusu á veturna. Sænski herinn komst á ísi yfir Stórabelti frá Fjóni til Sjálands 1659. Danir töpuðu stríðinu og misstu Skán, Halland og Blekinge til Svía.

Landssvæði urðu óbyggileg

Kaldari sumur ollu því að færra fólk gat lifað af gæðum landsins. Íslendingum snarfækkaði og norræna byggðin á Grænlandi lagðist af, þótt ekki sé vitað hvort íbúarnir fluttust burtu eða dóu út.

6 - Flóðbylgja: Stór klöpp olli risaflóðbylgju

Flóðbylgjan í Lodalnum var meðal allra verstu hamfara í sögu Noregs.

Eftir að berghlaup niður í Lovatn kostaði 61 mannslíf árið 1905, álitu íbúar í Lodalnum í Vestur-Noregi að Ramnefjall, 1.500 metrar á hæð, stæði styrkara eftir. Bergið er gert úr hörðum kvarts- og granítlögum en inn á milli eru gljúpari æðar gljáflögusteinda, þar sem regnvatn getur seitlað inn.

 

Nái vatnið ekki að komast út aftur getur það valdið miklum þrýstingi og þannig rifið hluta úr berginu en það töldu jarðfræðingar ósennilegt að gerðist aftur. Þremur áratugum síðar reyndust þeir hafa haft rangt fyrir sér.

 

Þann 13. september 1936 losaði milljón rúmmetra bjarg sig úr fjallshlíðinni og féll 800 metra leið beint niður í Lovatnið og leysti úr læðingi 70 metra háa flóðbylgju. Öll býli við vatnið þurrkuðust út í flóðinu sem varð 74 að bana á nokkrum mínútum.

 

Flóðbylgjan var svo öflug að hún hrifsaði með sér minnismerki sem reist hafði verið eftir hamfarirnar 1905, þótt það væri steypt fast niður í klöppina. Eftir hamfarirnar voru býli í Lodalnum endanlega yfirgefin.

7 - Þrumuveður: Elding kveikti í púðri Napóleons

Þótt eldingavarnir séu komnar til sögunnar geta eldingar enn verið lífshættulegar.

Sárafátt fólk verður fórnarlömb þeirra átta milljón eldinga eða svo sem daglega verða á hnettinum. En ljósti eldingu – sem oft er um 100 milljón volta orkulosun – niður í mann getur það leitt til alvarlegs bruna, heilaskaða og jafnvel dauða.

 

Þann 26. júní 1807 leiddi ein stök elding af sér dauða og eyðileggingu í Lúxembúrg. Samkvæmt samtímafrásögn breska blaðsins London Times laust eldingunni niður í „púðurgeymslu í neðri byggðinni og hún sprakk samstundis. Tvær heilar götur eyðilögðust.“

 

Furstadæmið var hersetið af hermönnum Napóleons og m.a. geymdu þeir mikið púður í turni í borgarhlutanum Verlorenkost.

 

Þegar eldingunni laust niður í turninn, sprungu 224 púðurtunnur í loft upp og sprengingin olli mikilli eyðileggingu á húsum í grenndinni. 32 fórust og 120 slösuðust alvarlega. Sumir sagnfræðingar telja nær lagi að 300 hafi farist.

8 - Stormflóð: Hafið gleypti fólkið þúsundum saman

Sjór gekk á land á Jótlandi og reyndar líka sunnar í stórum flóðum 1362 og 1634. Kortin sýna hve mikið land fór undir sjó í þessum flóðum.

Aðfaranótt 12. október 1634 þrýsti mikill stormur á Norðursjó gríðarlegu vatnsmagni upp að ströndinni á Suður-Jótlandi, Slésvík og Holtsetalandi. Lágreistir varnargarðar höfðu lengi verið vanræktir og sjórinn flæddi yfir þá.

 

Þótt flóð væru tíð við þessa láglendisstrandlengju var ekkert viðvörunarkerfi komið til sögu og þegar sjór flæddi inn til fólks að næturlagi var það oft sofandi. Í Ribe hækkaði vatnsborðið um sex metra og m.a. flæddi inn í dómkirkjuna.

 

Sunnar fórust a.m.k. 6.000 manns og 50.000 húsdýr á frísnesku eyjunni Strand, þar sem sjórinn sópaði 17 af alls 21 kirkju á haf út. Alls kostaði þetta mikla flóð – sem eftirlifendur litu á sem refsingu Guðs – allt að 15.000 mannslíf og breytti strandlínunni um alla framtíð.

 

Fjórða stærsta höfn Danmerkur á þessum tíma, Sønderside, var óþekkjanleg eftir flóðið og margar eyjar hurfu endanlega í sjóinn.

9 - Þurrkur: Fljót Evrópu þornuðu

Í þurrkunum miklu hurfu árnar alveg víða í Frakklandi.

Árið 1539 urðu bændur í Evrópu fyrir upphafi harðneskjulegustu þurrka sem sögur fara af. Í árslok voru söfnuðir í spænskum kirkjum farnir að grátbiðja Guð um úrkomu og á Ítalíu undruðust annálaritarar að það skyldi vera „ámóta heitt og í júlí“.

 

Í janúar 1540 breiddist þurrkatíðin norður fyrir Alpafjöll og næstu 11 mánuði kom varla dropi úr lofti víðast hvar í Evrópu. Um sumarið fór hitinn víða yfir 40 stig og í Alsace blómstruðu ávaxtatré tvisvar. Hægt var að vaða yfir stórfljót á borð við Rín og Signu, enda hafði vatnsmagnið í þeim minnkað um 90%.

 

Matjurtir sölnuðu á ökrum og bæði menn og dýr veiktust af vatns- og næringarskorti. Sumir sagnfræðingar telja þetta mesta þurrkaár í Evrópu á síðustu 500 árum. Vínbændur voru þeir einu sem fóru vel út úr árferðinu. Úr hálfþornuðum þrúgum fengust nefnilega afar bragðgóð vín sem annálaritarar líktu við „gull í glasinu!“

 

Aðrir Evrópubúar höfðu engu að fagna. Brunnar þornuðu upp, matarskortur var útbreiddur og umfangsmiklir skógareldar herjuðu.

10 - Fellibylur: Fárviðrið tætti ensku þorpin eins og eldspýtur

Margir Bretar litu á fárviðrið sem refsingu Guðs og það var nefnt í siðaprédikunum presta langt fram á 19. öld.

Þann 26. nóvember olli gríðardjúp lægð yfir Norðvestur-Evrópu einu versta fárviðri í sögu Englands. Hvassviðrið var mest norðan Ermarsunds og vindhraði upp í 130 km (36 m/sek.).

 

Í London fauk blýþak af kirkjunni Westminster Abbey en Anne Stuart, drottning Englendinga, Skota og Íra þurfti að leita skjóls í kjallara St. James-hallar. Í höfuðborginni hrundu 2.000 reykháfar og 4.000 eikartré rifnuðu upp með rótum á Suður-Englandi.

 

Floti Englendinga lenti í miklum hremmingum og eitt skip var sagt hafa hrakist alla leið frá Harwich til Gautaborgar. Á landi snerust mylluvængir svo hratt að sögur herma að kviknað hafi í timburtannhjólum.

 

Talið er að fárviðrið hafi kostað um 15.000 mannslíf og árið eftir lýsti enski rithöfundurinn Daniel Defoe því hvernig þorp og bæir við ströndina „litu út eins og óvinurinn hefði rænt þar og ruplað og tætt svo allt í sundur í ofanálag.“

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Bjørn Bojesen, Bue Kindtler-Nielsen

© NOAA Photo Library. © Shutterstock. © Keystone-France/Getty Images. © Sepia Times/Getty Images & Shutterstock. © Uncredited/AP/Ritzau Scanpix. © Web Gallery of Art. © Achille Beltrame (1871-1945)/Bridgeman Art Library/Ritzau Scanpix. © Joan Blaeu. © 2d Alan King/Alamy Stock Photo.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Stjörnufræðingar finna fyrstu frumvísa að Vetrarbrautinni

Maðurinn

Hve hratt fer blóðið um líkamann?

Lifandi Saga

Fjöldamorð SS leiddi til miskunnarlausrar hefndar

Lifandi Saga

Hvað var gula?

Náttúran

Öflugasta bit heims – Hér eru fimm dýr sem ekki væri gott að enda í skoltinum á

Náttúran

Geta elliglöp herjað á hunda?

Lifandi Saga

Martröð í Mogadishu

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is