Alheimurinn

Við vitum hvar E.T. á heima

Útvarpsmerki utan úr geimnum hefur vakið furðu vísindamanna allar götur frá árinu 1977. Nú hefur stjörnufræðingi einum tekist að finna sólkerfið sem sennilegt þykir að merkið stafi frá.

BIRT: 28/01/2024

Dag einn síðla sumars árið 1977 lentu nokkrar útvarpsbylgjur á útvarpssjónaukanum við Ohio State háskólann í Bandaríkjunum. Um var að ræða svo öflug merki að stjörnufræðingar um allan heim hentu frá sér því sem þeir voru að gera þá stundina því skyndilega var ekki lengur óraunhæft að segja: „Hugsanlega erum við ekki einu íbúar alheimsins“.

 

Ekkert merki hefur nálgast styrkinn sem þarna mældist.

 

Árum saman hafa vísindamenn lagt allt kapp á að útskýra uppruna útvarpsmerkisins. Átti það rætur að rekja til háþróaðs menningarheims? Eða var skýringin „leiðinlegri“ en sem svo?

 

Jerry Ehman sem fyrstur allra greindi merkið, taldi fyrst í stað að það hefði borist frá jörðu og endurkastast frá geimrusli á sporbaugi um jörðu. Stjörnufræðingurinn Antonio Paris kom fram með þá tillögu árið 2017 að merkið væri sprottið af halastjörnunum 266P/Christensen og 335P/Gibbs. Stjörnufræðingar höfnuðu báðum þessum tilgátum.

 

Leitin heldur því áfram – einnig leit áhugastjörnufræðingsins Alberto Caballero sem hefur stundað rannsóknir á því hvert við ættum að beina sjónaukum okkar ef við vildum komast að raun um hvort merkið í raun réttri stafi frá vitrænum geimverum.

 

„Gerðar hafa verið mjög fáar tilraunir í þá veru að ákvarða nákvæma staðsetningu merkisins, því þetta er mjög flókið,“ ritar Caballero í grein sem fjallar um það hvernig finna megi uppsprettu merkisins.

 

Hann hefur sannprófað þetta 45 ára gamla útvarpsmerki í samanburði við nýjustu kortlagningu Vetrarbrautarinnar.

Aðeins hafa verið gerðar fáar tilraunir til að ákvarða beina staðsetningu merkisins, því það er afar erfitt verk.

Alberto Caballero, áhugastjörnufræðingur

Rannsóknir hans gefa einungis eitt til kynna, þ.e. sólkerfi sem er 1.801 ljósár frá jörðu.

 

Merkið olli því að vísindamaður hrópaði „Vá!“

Hinn 15. ágúst 1977 greindi bandaríski sjónaukinn Big Ear í Ohio útvarpsmerki sem var þrjátíufalt öflugra en bakgrunnssuðið.

 

Stjörnufræðingurinn Jerry Ehman sem starfaði við Big Ear, fór nákvæmlega yfir prentuðu runurnar með gögnum frá sjónaukanum. Þegar hann greindi miklar sveiflur í tölunum merkti hann við þær og skráði eftirfarandi með rauðum kúlupenna á spássíunni: „Vá!“

 

Þannig festist orðið „Vá!“ við útvarpsmerkið og leitin að uppruna þess hófst fyrir alvöru.

 

Sú leit hefur aldrei borið neinn árangur. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að áhugastjörnufræðingurinn Alberto Caballero færi að hafa afskipti af málinu.

 

Hann starfar við samræmingu í verkefninu Habitable Exoplanet Hunting Project en um er að ræða útvarpssjónaukanet sem spannar gjörvallan heim og stjórnað er af áhugastjörnufræðingum sem stunda nærrannsóknir á tíu stjörnum í nágrenni jarðar til þess að freista þess að finna ummerki um plánetur sem hugsanlega gæti leynst líf á.

 

Líf gæti mæta vel fyrirfundist annars staðar en á jörðinni okkar, segir Caballero í viðtali við forsvarsmenn samtakanna Astronomy For Change.

 

„Jörðin er ekki endilega besti kosturinn fyrir líf í alheiminum, né heldur sá staður sem hentar best“, staðhæfir hann.

Árið 1977 greindi stjörnufræðingurinn Jerry Ehman öflugt útvarpsmerki frá stjörnumerki sem við þekkjum undir heitinu Bogmaðurinn. Hann skrásetti tíðnina og ritaði „Vá!“ á spássíuna.

Árið 2020 ákvað Caballero að rannsaka hið margrómaða Vá!-merki. Röksemdir hans fyrir að hefja rannsóknirnar á þessu stigi voru þær að við vitum svo miklu meira um stjörnurnar í vetrarbrautinni núna en áður og að þessi nýja vitneskja gæti hugsanlega varpað nýju ljósi á þetta gamla mál.

 

Niðurstöður hans gerðu það að verkum að gjörvallur vísindaheimurinn lagði við hlustirnar.

 

Sjónauki fann 1,3 milljarð stjarna

Alberto Caballero hóf rannsóknir sínar á Vá!-merkinu með því að fara yfir gömlu gögnin frá árinu 1977.

 

Big Ear-útvarpssjónaukinn sem greindi Vá!-merkið, samanstóð af 103 metra löngum og 33 metra háum loftnetsdiski sem nam merki sem varpað var í átt til hans frá endurkastsgrind.

 

Á leið sinni frá grindinni yfir í viðtökudiskinn voru hugsanleg útvarpsmerki send í gegnum magnaraeiningu sem samanstóð af tveimur aðskildum hlutum.

 

Ógerlegt var að greina í gegnum hvaða tvo þætti Vá!-merkið hefði komist og fyrir vikið sátu vísindamennirnir í þá daga uppi með tvo geira stjörnuhiminsins sem merkið hefði getað borist frá.

 

Tvær víðáttumiklar heysátur.

Big Ear-sjónaukinn í Ohio State háskólanum nam öflugasta óútskýrða útvarpsmerkið sem stjörnufræðingar vita til að hafi borist utan úr geimnum.

Alberto Caballero hafði hins vegar yfir að ráða svolitlu sem stjörnufræðingar þekktu ekki til á árinu 1977 en með því er átt við Gaia-geimsjónaukann.

 

Gaia-geimsjónaukinn var sendur út í geiminn árið 2013. Allar götur síðan hefur þessi tveggja tonna þungi gervihnöttur skrásett um 1,3 milljarða stjarna í Vetrarbrautinni.

 

Með það gagnasafn til hliðsjónar hófst Caballero handa við nánari rannsóknir á stjörnunum í báðum Big Ear-geirum stjörnuhvolfsins.

 

Hann starfaði með hliðsjón af þeirri röksemdafærslu að sennilegast væri að háþróaðir menningarheimar fyrirfyndust á þeim reikistjörnum sem snúast í kringum stjörnur sem líkjast sólinni okkar. Sumir vísindamenn telja að við ættum frekar að beina athyglinni að stærri – eða minni – stjörnum, þ.e. stjörnum sem líkjast sólinni okkar en þetta er m.a. áhugavert fyrir þær sakir að vísindin hafa leitt í ljós að umhverfis helming slíkra stjarna kunni að snúast reikistjörnur sem minna á jörðina okkar.

 

Caballero þrengdi því leit sína niður í leit að stjörnum með radíus, yfirborðshita og birtusamsetningu í líkingu við sólina okkar.

Jörðin er ekki endilega besti kosturinn fyrir líf í alheiminum, né heldur sá staður sem hentar best.

Alberto Caballero, áhugastjörnufræðingur

Þegar hann hafði farið í gegnum allt gagnasafnið komst hann að þeirri niðurstöðu að einungis ein stjarna passaði við lýsinguna.

 

Vitrænt líf kann að nota vetni

Alls 1.801 ljósár frá jörðu er að finna stjörnu sem kallast 2MASS 19281982-2640123.

 

Radíus hennar nemur 99,7% af 696.000 km sólar og yfirborðshitinn nemur um 5.510 gráðum sem er einungis tíu gráðum heitara en stjarna okkar er. Ljósstyrkurinn nemur 1,0007-faldri sólinni, þ.e. hann er nánast sá sami.

 

Og síðast en ekki síst, þá er stjörnuna að finna á öðru hinna tveggja mögulegu svæða sem útvarpsmerkið í Big Ear-sjónaukanum kann að hafa borist frá árið 1977.

 

Ef okkur fýsir að komast að raun um hvar Vá! á upptök sín og ákvarða hvort það er runnið undan rifjum háþróaðs menningarheims, þá er nærtækt að grannskoða 2MASS 19281982-2640123.

Sjónauki leysti 45 ára gátu

Áhugastjörnufræðingurinn Alberto Caballero hefur hugsanlega fundið upptök 45 ára gamals útvarpsmerkis með því að fínkemba gagnasafn sem hefur að geyma upplýsingar um 1,3 milljarða stjarna.

1. Heimurinn stóð á öndinni í 72 sekúndur

Árið 1977 greindi Big Ear-sjónaukinn hið margrómaða útvarpsmerki sem gengur undir heitinu Vá-merkið. Merkið barst frá öðru tveggja svæða sem merkt eru á stjörnuhimninum, þangað sem Big Ear beindist þegar merkisins varð vart.

2. Sjónauki hefur kortlagt 1,3 milljarða stjarna

Gaia-geimsjónaukinn hefur fylgst með 1,3 milljörðum stjarna í Vetrarbrautinni og eiga athuganirnar að leggja grunninn að einu allsherjar stjörnukorti. Alberto Caballero hefur borið stjörnukortið saman við svæðin tvö sem Big Ear fylgdist með.

3. Stjörnurnar uppfylltu sólarviðmiðin

Caballero bar gagnasafn sitt saman við þær stjörnur sem voru hvað líkastar sólinni hvað áhrærði ljósstyrk, stærð og yfirborðshitastig. Aðeins ein stjarna uppfyllti öll viðmiðin: 2MASS 19281982-2640123.

Næsta skrefið í leitinni að sendanda Vá!-merkisins felst í nákvæmri rannsókn á 2MASS 19281982-2640123-kerfinu og það geta stjörnufræðingar hæglega gert með nýjum sjónaukum sem geta greint meiri smáatriði en raunin var með notkun Big Ear á áttunda áratugnum.

 

Sem dæmi má geta þess að Alberto Caballero á í samstarfi við forsvarsmenn verkefnisins Breakthrough Listen sem gengur út á að hlusta eftir útvarpsmerkjum með fjórum risastórum útvarpssjónaukum sem dreift er um jörðina.

 

Í viðtali sem tekið var við Alberto Caballero nefndi hann einnig möguleikann á að nota SKA-sjónaukann sem gert er ráð fyrir að verði tilbúinn á næstunni, til að rannsaka Vá!-merkið eða jafnvel að greina nýtt merki af sama styrk.

 

Ef lánið er með okkur og líf ætti eftir að finnast á einum eða fleiri reikihnöttum kringum þessa margumtöluðu stjörnu og í ljós kæmi að líf þetta stæði á bak við Vá!-merkið, getum við þá tekið upp þráðinn frá árinu 1977 og farið af stað með samtal?

LESTU EINNIG

Þetta ræðst að sjálfsögðu af því hvort við „tölum sama mál“ og mögulegar vitrænar lífverur úti í geimnum mæla á.

 

Árið 1959 birtu eðlisfræðingarnir Giuseppe Cocconi og Philip Morrison kenningu þess eðlis að vitrænar geimverur myndu að öllum líkindum nota vetni til samskipta en vetni er algengasta frumefni alheimsins.

 

Þegar rafeindir breyta orkuþrepum í vetnisatómum senda atómin frá sér útvarpsbylgjur á tíðninni 1.420 megarið sem leiðir af sér bylgjulengd sem nemur 21 cm.

 

Fyrir vikið geta þessi tíðni og bylgjulengd einmitt talist vera sennilegasta „línan“ sem lífverur úti í alheiminum myndu nota fyrir samskipti.

 

Þetta er svo ástæða þess að sama tíðni er frátekin fyrir stjarnfræðilegar athuganir og er varin samkvæmt ráðleggingum Alþjóðasambands stjarnfræðinga: Öðrum er stranglega bannað að senda merki á þessari tíðni því slíkt gæti truflað stjarnfræðiathuganir.

 

Það var einmitt á tíðninni 1420 megarið sem Vá!-merkið barst til jarðar. Ef við fyrir bragðið hyggjumst hafa samband við sendanda þessa sama merkis, þá gerum við rétt í að beina útvarpssendi í átt að 2MASS 19281982-2640123 og stilla á rétta tíðni.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Mikkel Meister,

Shutterstock,© Big Ear Radio Observatory and North American AstroPhysical Observatory (NAAPO),© Bigear.org,© Pan-STARRS/DR1

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.