Stjörnufræðingar hafa lengi haft áhuga á mögulegri landbúnaðarframleiðslu í geimnum. Plöntur, ræktaðar í geimnum, gætu auðveldað og lengt geimferðir, enda framleiða þær bæði súrefni og fæðu.
Hingað til hefur einungis tekist að rækta plöntur í geimstöðvum en markmiðið er að geta ræktað þær í jarðvegi á öðrum hnöttum.
Nú hafa menn færst einu skrefi nær þessu markmiði. Við Flórídaháskóla hefur tekist að koma jurtum til að spíra og vaxa í jarðvegi frá tunglinu.
Þrjár teskeiðar mold frá tunglferðum
Vísindamennirnir notuðu jarðvegssýni frá þremur af sex mönnuðum tunglferðum á árunum 1969-1972.
Þrátt fyrir að geimfararnir hafi komið með um 382 kíló tunglefnis til jarðar fengu vísindamennirnir aðeins 12 grömm frá Apollo-leiðöngrunum 11, 12 og 17.
Vísindamenn vinna með sjaldgæfan og dýrmætan tungljarðveg. Þeir fengu aðeins 12 grömm til að vinna með.
Vísindamennirnir skiptu sýnunum í örsmáa blómapotta. Jarðvegi úr hverju sýni frá tunglferðunum þremur var skipt í fjóra potta og ein teskeið, aðeins 1 gramm, sett í hvern.
Til samanburðar var fíngerð gosaska frá jörðinni – eins konar gervi-tungljarðvegur – sett í samsvarandi potta.
Í pottana var sáð fræjum jurtarinnar arabidopsis thaliana sem tekist hefur að rækta í þyngdarleysi í geimstöðvum.
Eftir tvo sólarhringa tóku öll fræin að spíra en sex dögum síðar tóku þau að vaxa á mismunandi hátt, eftir því hvaðan af tunglinu sýnin voru komin.
Heilbrigðustu jurtirnar og þær sem uxu hraðast voru í gjóskupottunum en jurtir í tungljarðvegi voru smærri, uxu hægar og sýndu afbrigðilegan blaðlit.
Jurtirnar til vinstri eru samaburðarplöntur en jurtirnar til hægri eru ræktaðar í tungljarðvegi. Myndi sýnir jurtirnar 16 daga gamlar.
Ungur tungljarðvegur með heilbrigðustu plönturnar
Sýnin frá Apollo 11 gáfu slökustu útkomuna en sýnin frá Apollo 12 og Apollo 17 voru heilbrigðari.
Vísindamennirnir telja niðurstöðurnar ráðast af aldri jarðvegs á tunglinu. Því lengur sem sá jarðvegur hefur legið óhreyfður, því meiri geimgeislun og sólvindi hefur hann orðið fyrir.
Sýnin frá Apollo 11 voru tekin á svonefndu Kyrrahafi á tunglinu og það er jarðfræðilega séð eldra en sýnin frá Apollo 12-leiðangrinum sem tekin voru á Stormahafinu.
Þar hefur verið hraunrennsli sem hefur gert jarðveginn frjósamari.
Sýnin sem Apollo 17 flutti til jarðar voru tekin á Taurus-Littrow-svæðinu sem tiltölulega nýlega í jarðsögu tunglsins hefur orðið fyrir miklu loftsteina- og halastjörnuregni.
Það hefur gert jarðveginn nokkru frjósamari þar eð hann hefur ekki legið kyrr og mengast af geimgeislun og sólvindi jafn lengi.
Geimfarinn Harrison Schmitt Í Tautus-Littrow svæðinu í tunglinu, sem er staðurinn þar sem tungljarðvegurinn með heilbrigðustu plöntunum var uppruninn.
Plöntur á tunglið árið 2025
Hjá NASA er áætlað að senda menn aftur til tunglsins ekki seinna en 2025 með hinu svonefnda Artemis-verkefni. Það verður í fyrsta sinn síðan 1972 sem menn stíga fæti á tunglið.
Geimfararnir eiga m.a. að gera tilraunir með að rækta plöntur. Vísindamennirnir vonast til að þessi tilraun geti komið að haldi til að velja heppilegan stað til ræktunar á tunglinu.
Takist það geta plönturnar séð geimförum fyrir bæði fæðu og súrefni til lengri geimferða en nokkru sinni fyrr.