Þegar ungur gullgrafari á hinu fræga Klondike-svæði í Kanada rak gröfuskófluna í eitthvað hart neyddist hann til að sækja yfirmann sinn.
Í leðjunni sáust greinilega útlínur frosins mammútskálfs – sem nánast var alveg heill, bæði með húð og hári.
Steingervingafræðingurinn Dr. Grant Zasula kallaði þetta „merkasta fund í Norður-Ameríku á sviði steingervingafræði,“ í viðtali við CBC-fréttastofuna.
Hann starfar í Yukon í Norðvestur-Kanada, einu af alls þremur norðurhéruðum landsins og fékk í hendur mynd af mammútskálfinum sem talinn er kvenkyns, aðeins hálftíma eftir að grafan rakst í þetta ísaldardýr.
„Hún er með rana, hún er með hala og agnarlítil eyru. Og fremst er raninn lagaður til að geta slitið upp gras,“ sagði hann við CBC-fréttastofuna.
Fyrir um 30.000 árum gekk þessi mammútskálfur um Yukon-svæðið ásamt villihestum, hellisljónum og risavöxnum sléttuvísundum.
Mammútskálfurinn fannst í Tr‘ondëk Hwëch‘in-héraði sem byggt er frumbyggjum. Kálfurinn hefur þar fengið nafni Nun cho ga sem merkir „stór ungi“ á Hän-tungumálinu sem talað er af frumbyggjum í Yukon og Alaska.
Svæði þekkt fyrir ísaldarleifar
Fyrsta skoðun, gerð m.a. af jarðfræðingum hjá Yukon-jarðfræðistofnuninni og Calgaryháskóla, sýnir að Nun cho ga hefur að líkindum látið lífið fyrir um 30.000 árum og síðan varðveist í sífreranum.
Mammútar og hellaljón koma upp úr sífreranum
Í árþúsundir hefur sífreri Síberíu umlukt dýralíf frá tímum ísaldar. Nú bráðnar ísinn og dregur hin fullkomlega varðveittu forsögulegu dýr fram í dagsljósið. Og eitt dýranna er svo vel varðveitt að það var enn með blóð í æðum og þvag í þvagblöðru – eftir 42.000 ár. Smelltu hér og sjáðu myndirnar.
Þótt Yukon-svæðið sé heimsþekkt fyrir ísaldarleifar, er afar sjaldgæft að finna dýr sem varðveist hafa með bæði húð og hári.
Svo sjaldséð er það að þetta er í fyrsta sinn sem mammút finnst í næstum heilu lagi í Norður-Ameríku.
„Nun cho ga er falleg skepna og ein stórkostlegasta uppgötvun frá ísöld sem gerð hefur verið í heiminum,“ segir Dr. Grant Zazula í fréttatilkynningu.
Árið 1948 fundust hlutar af mammútskálfi sem fékk nafnið „Effie“, í gullnámu lengst inni í Alaska. Og árið 2007 fannst annar mammútskálfur sem fékk nafnið „Lyuba“, í sífreranum í Síberíu.
Nun cho ga er 140 cm að lengd og örlitlu lengri en kálfurinn sem fannst í Síberíu og vísindamenn telja að hún hafi náð að lifa í um einn mánuð á kanadísku ísöldinni.