Lifandi Saga

Arftakar Hitlers hyggjast bjarga Þýskalandi

Bandamenn krefjast skilyrðislausrar uppgjafar Þýskalands. En þegar þýskir samningamenn hitta Montgomery reyna þeir að lokka Vesturveldin til að rjúfa bandalagið við Sovétríkin – rétt áður en dómsdagur skellur á.

BIRT: 05/07/2023

Þjóðverjar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar ríkisútvarpið tók að spila útfararsálm að kvöldi 1. maí. Síðan rauf þulur tónlistina.

 

Klukkan er 22.25 og ljóst er að þulurinn er í miklu uppnámi: „Sú tilkynning barst frá höfuðstöðvum Foringjans að Foringi okkar, Adolf Hitler, hafi látið lífið fyrir Þýskaland – hann barðist fram á síðustu stundu gegn bolsévismanum. Á mánudag tilnefndi foringinn Dönitz flotaforingja sem eftirmann sinn. Nýr foringi okkar mun nú ávarpa þýsku þjóðina“. 

 

Það þarf varla að kynna Dönitz. Allir Þjóðverjar þekkja hann sem kafbátaflotaforingjann sem hefur staðið að fjölmörgum árásum á bandamenn.

 

Löngu áður, eða árið 1939, ók hann í gegnum Berlín í opinni drossíu meðan almenningur fagnaði honum á götunum. Síðan þá hafa dagblöðin hyllt hann sem hetju – og Hitler stólaði á hann í blindni.

 

Árið 1943 var Dönitz yfirmaður alls flotans en nú er stóraðmírallinn kominn í nýtt hlutverk þegar hann talar í hljóðnemann. „Í djúpri sorg og lotningu hneigir þýska þjóðin sig“, byrjar Dönitz. „Foringinn sá snemma þá miklu hættu sem stafar af bolsévismanum og helgaði líf sitt baráttu gegn honum“. 

 

Þessu næst tilkynnir Dönitz áform sín. „Mikilvægasta verkefni mitt er að frelsa þýsku þjóðina frá eyðileggingu bolsévikkanna og það er einungis til að ná þessu marki sem baráttan heldur áfram“, tilkynnir hann. 

 

Sem sannfærður nasisti neitar Dönitz að gefast upp ef uppgjöfin felur í sér að Þjóðverjar þurfi að gefa sig á vald Rauða hersins. Ef hann gæti myndi hann strax í dag snúa vopnum í austurátt en Þýskaland á einnig við aðra óvini að etja: 

 

„Svo lengi sem Bandaríkjamenn og Bretar hindra okkur í að ná því marki munum við verjast þeim. Til að svo geti verið þarf ég á hjálp ykkar að halda! Treystið á mig því ykkar vegferð er einnig mín vegferð. Haldið lög og reglur í borgum og til sveita!“ biður Dönitz síðar þetta kvöld.

Daginn eftir dauða Hitlers varð flotaforinginn Karl Dönitz leiðtogi Þýskalands.

Síðbúinn póstur frá Berlín 

Fyrr sama dag: Áður en nýi forsetinn gat haldið ræðu sína í útvarpinu þurfti hann að rjúfa mörg bandalög og halda SS-foringjanum Himmler í hæfilegri fjarlægð. 

 

Tilkynningin um að Karl Dönitz hafi verið valinn til að verða næsti ríkiskanslari barst honum einungis einum og hálfum degi áður – þann 30. apríl. En það heyrðist ekki eitt orð frá Berlín um að Hitler væri dáinn.

 

Þá vitneskju fékk Dönitz fyrst um morgunverðarborðið 1. maí, þar sem hann var önnum kafinn við að setja saman ríkisstjórn. Hann hefur eytt mörgum stundum í símanum til þess að velja ráðherra.

 

Í erfðaskrá sinni hafði Hitler skipt upp stöðuveitingum en Dönitz veit ekkert um þann lista – og hann hefur heldur ekki neina hugmynd um að foringinn hafi krafist þess að stríðinu skyldi haldið áfram á öllum vígstöðvum.

 

Í einfeldni sinni ætlaði Dönitz að Hitler vildi að hann myndi binda enda á stríðið. Meðal þeirra sem hafa heimsótt Dönitz til að fá ráðherrastöðu er Heinrich Himmler.

 

Vissulega var Hitler búinn að reka SS-foringjann en engu að síður reiknar Himmler með því að hann gegni enn mikilvægu hlutverki: „Án mín getur Evrópa ekki spjarað sig“.

 

Himmler stýrir ennþá mörgum SS-vígasveitum og fyrir vikið stafar Dönitz hætta af honum. Mestu gildir að halda honum fjarri án þess að móðga hann.

 

Þeir snæða kvöldverð saman og SS-leiðtoginn getur greint frá því að nasistaforinginn í Hamborg hafði hugsað sér að afhenda borgina Bretum án mótspyrnu.

 

Þessi tíðindi verða til þess að Dönitz brjálast – ef allir gera bara eins og þeim sýnist, hvernig getur honum tekist að leysa sitt verkefni? Eigi að bjarga landinu þurfa allir að standa saman. 

 

Dönitz leitar eftir áætlun 

2. maí: Þýskur herafli á Ítalíu gefst upp og bandamenn sækja hratt fram í Þýskalandi. Dönitz tekst rétt svo að halda völdum í norðurhluta landsins ásamt hersetnu löndunum Noregi, Danmörku og hlutum af Hollandi. 

 

Ný ríkisstjórn Þýskalands kemur saman í ráðhúsinu í Eutin, litlum bæ norðan við Lübeck. Í rauðu múrsteinabyggingunni við torgið er enginn sem trúir á sigur hersins eins og aðstoðarmaður Dönitz skráir hjá sér: „Staða hersins er vonlaus“. 

 

Sumir ráðherranna leggja til að gefast upp undir eins til þess að forðast nýjar loftárásir á þýskar borgir. Margir hershöfðingjanna krefjast hins vegar þess að barist verði til síðasta manns. 

 

Sem eins konar málamiðlun ákveður Dönitz að áfram skuli barist.

 

Þannig fær flotinn meiri tíma fyrir „Operation Hannibal“ – stórhuga björgunaraðgerð á hermönnum og borgurum sem búið er að umkringja meðfram Eystrasalti eftir að Rauði herinn hefur sótt hratt fram gegnum Lettland, Litháen og Austur-Rússland. 

 

Á landi á að mynda eins konar göng meðfram ströndinni austan við Lübeck þannig að hersafnaður Weichsel geti sloppið undan hermönnum Sovétríkjanna.

 

Hermennirnir voru fyrir tveimur vikum að verja Berlín meðfram fljótinu Oder en síðan hafa þeir haldið í norðvesturátt til þess að forðast að hafna í fangabúðum Sovétmanna. 

 

Alfred Jodl hershöfðingi frá herráðinu í Berlín hefur loksins náð til Dönitz. Frá árinu 1939 hefur hann verið einn helsti ráðgjafi Hitlers.

 

Nú fullvissar Jodl sinn nýja foringja um að hermennirnir geti haldið göngunum opnum en honum er mótmælt samstundis af rödd í símanum.

 

Aðstoðarforingi Dönitz hefur hringt í vin sinn í Lübeck og þaðan berast voveifleg tíðindi: „Það eru mikil læti úti á götunum. Hver herbíllinn á fætur öðrum keyrir framhjá. Allir eru þeir breskir!“ hrópar vinur aðstoðarforingjans í símann. „Viljið þér heyra?“ 

 

Maðurinn í Lübeck heldur símtólinu upp að glugganum og ægilegur hávaði af skriðbeltum og öflugum vélum heyrist greinilega.

 

Hermenn Montgomerys hafa hindrað Rauða herinn í að ná til Jótlands – og Dönitz hefur glatað björgunarleið sinni. Nýi foringi ríkisins neyðist því til að semja strax við bandamenn. 

 

Þýskir hermenn eru á örvæntingarfullu undanhaldi til að forðast Rauða herinn og vilja gefast upp fyrir Bretum.

Þýsk útsending nær til Bretanna

3. maí klukkan 8.00: Þýsk sendinefnd er valin til að semja við breska hermarskálkinn Montgomery sem stýrir liðsafla bandamanna í Norðvestur Þýskalandi. 

 

Berlínarbúar gáfust upp fyrir Rauða hernum í gær, í dag mun Hamborg gefast upp fyrir Bretum. Sprengjuárásir á næst stærstu borg Þýskalands hafa þegar kostað 40.000 íbúa lífið og eyðilagt meira en aðra hverja byggingu.

 

En þegar formleg uppgjöf á að fara fram mæta tvær þýskar sendinefndir á staðinn – önnur til þess að yfirgefa borgina en hin á von á því að verða leidd til Bernard Montgomerys. 

 

Dönitz er ekki með í nefndinni – hann hefur metið málið svo að það sé fyrir neðan virðingu hans sem forseta að semja við breskan marskálk.

 

Þess í stað fer Hans-Georg Von Friedeburg aðmírall fyrir nefndinni en hann hefur tekið við þýska flotanum eftir stöðuhækkun Dönitz.

 

Friedeburg ekur af stað í krambúleruðum svörtum Mercedes og klæðist síðum svörtum leðurfrakka með stórt kaskeiti á höfðinu. 

 

Dönitz áformar að Friedeburg skuli semja við Breta en þó þannig að undanhald Þjóðverja í austri geti haldið áfram: „Reyndu að bjarga eins mörgum þýskum hermönnum og hægt er frá bolsévismanum og kúgun þeirra. Hersafnaðurinn Weischel verður að ná aftur inn á svæði engilsaxneskra“. 

 

Þjóðverjar vita að Stóra-Bretland, BNA og Sovétríkin hafa gert með sér samkomulag í Jalta um að Þýskaland skuli gefast upp skilyrðislaust fyrir þeim öllum þremur.

 

Þess vegna leitast Friedeburg ekki við að semja um frið, heldur reynir hann að valda sundrungu meðal bandamanna með tilboði um að þýskir heraflar sem berjist gegn Rauða hernum séu tilbúnir að gefast upp – fyrir Bretum einum saman. 

 

Bílar þýsku nefndarinnar fá fylgdarlið af breskum brynvörðum vögnum og bílalestin stefnir til Lüneburg sunnan við Elden, þar sem Montgomery hefur komið fyrir vagnbúðum sínum á hæðardraginu Timeloberg. 

 

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Montgomery stelur senunni 

3. maí kl 11.30, Lüneburg: Meðan þýska sendinefndin nálgast leggur hermarskálkurinn Montgomery drög að því að ná sem mestu úr fundinum við óvinina. Þessi reynda eyðimerkurrotta þykist vita hverju Þjóðverjar slægjast eftir.

 

Friedeburg og menn hans koma til Timeloberg og eru skildir þar eftir – nokkuð ráðvilltir – undir Union Jack sem blaktir yfir nokkrum flutningavögnum á hlaðinu. 

 

Eftir nokkurra mínútna spennuþrungna bið opnast dyr á einum vagninum og nokkuð sjúskuð mannvera kemur í ljós: Hermarskálkur Montgomery.

 

Þjóðverjar heilsa honum að hermannasið en Bretinn tekur sér drjúgan tíma í að rölta niður tröppurnar áður en hann heilsar þeim með undarlega linu handtaki. 

 

„Hvaða menn eru þetta?“ spyr marskálkurinn sína menn í sama tónfalli og hann myndi nota gagnvart óæskilegum farandsölumönnum.

 

Auðvitað veit hann svarið við spurningunni. En Montgomery nýtur þess að standa á sviðinu. Þegar búið er að kynna þýsku nefndarmennina fyrir honum, heyrist hann segja: „Hef aldrei heyrt um þá. Hvað vilja þessir menn?“ 

 

Samningaviðræður fara fram undir beru lofti – til þess að undirstrika yfirburði Bretanna.

 

Friedeburg leggur fram tilboð Þjóðverja: Hersafnaðurinn Weischel með mörg hundruð þúsund manns dregur sig til baka í átt að bresku víglínunni og er tilbúinn að gefast upp fyrir Montgomery. 

 

„Alls ekki!“: Marskálkurinn hafnar tilboðinu samstundis. „Þessi þýski her er að berjast við Rússana. Þeir koma mér ekkert við. Farið frekar og gefist upp fyrir Sovétmönnum“. 

 

Þess í stað kemur Montgomery með gagntillögu: „Mun allur herafli Þjóðverja norðan og vestan við mitt svæðið – þar með talið Hollandi, Slésvík-Holsten og Danmörku gefast upp?“

 

Síðan bætir hann því við að muni Þjóðverjar hafna þessu eða setja fram skilyrði, muni hann með glöðu geði halda bardögunum og sprengjuárásum áfram. 

 

Skammt undan standa nokkrir breskir liðsforingjar og njóta sjónarspilsins: „Foringinn stendur sig bara nokkuð vel á leiksviðinu“, hvíslar einn þeirra meðan örvæntingarfullir Þjóðverjar reyna að mótmæla. „Hann hefur undirbúið sig fyrir þennan dag allt sitt líf“, svarar annar Breti og á erfitt með að leyna glotti. 

 

Áður en Montgomery tilkynnir að nú sé komið að morgunverði réttir hann þó Þjóðverjum hjálparhönd: Bretar munu vitanlega taka á móti öllum þýskum hermönnum sem koma frá víglínunni til að gefast upp.

 

Hvað varðar almenna borgara getur hann ekki lofað neinu en áréttar að hann sé „ekki neitt skrímsli“. Friedeburg verður að halda aftur til Dönitz til að kynna þessa afarkosti.

 

Á leiðinni í gegnum yfirráðasvæði Breta er Þjóðverjanum leiðbeint af breskum jeppum með stóra hvíta fána á þaki bílanna.

 

Nokkrum kílómetrum norðan við Hamborg við þorpið Quickborn ná þeir til víglínunnar: „Við beygðum fyrir horn og ókum beint í flasið á þýskum skriðdrekum. Ungur liðsforingi með einungis einn handlegg stóð í vegkantinum og stjórnaði för þeirra. Þegar hann sá þýsku farartækin heilsaði hann að nasista sið“, greindi einn Bretanna frá og þeir snéru við í snarhasti. 

 

Þjóðverjar velja milli stríðs og friðar 

3. maí, Flensborg um hádegið: Meðan Friedeburg ræðir við Montgomery situr Dönitz forseti ríkisins fund með leiðtogum frá m.a. Danmörku og Noregi. Getur Þýskaland barist áfram? 

 

Flensborg er nú höfuðborg Þýskalands eftir fall Berlínar. Dönitz hefur valið borgina því þar er hann eins langt og mögulegt er frá herafla bandamanna, án þess að þurfa að yfirgefa þýska jörð.

 

Ríkisstjórnin hefur komið sér fyrir í sjóliðaskólanum Mürwik þar sem Dönitz hóf feril sinn sem sjóliðsforingi árið 1910.

 

Í einni skólastofunni fundar hann nú með hershöfðingjum Þjóðverja og öðrum leiðtogum í hersetnu löndunum Danmörku, Noregi og Hollandi til þess að leggja drög að næstu skrefum. 

 

Í Hollandi ráða Þjóðverjar einungis yfir landræmu við Norðursjó. Bretar hafa einangrað þá frá öðrum yfirráðasvæðum Þjóðverja.

 

Til þess að hitta Dönitz þarf því lögregluforingi staðarins, Seyss-Inquart, því að sigla framhjá Bretum. Það reyndist einungis hægt með hinum hraðskreiða Schnellboot (hámarkshraði 80 km/klst). 

 

Seyss-Inquart er meira en viljugur að leggja niður vopnin. Herdeildirnar í Slésvík-Holsten hafa enga löngun til að berjast lengur og vilja gefast upp en Þjóðverjar í Noregi og Danmörku eru mun vígreifari. 

 

„Í Noregi getum við mætt sérhverri árás“, staðhæfir æðsti þýski embættismaðurinn Terboven frá Noregi og nýtur stuðnings herforingja í landinu.

 

Hann er með 380.000 vel búna hermenn og sér enga ástæðu til þess að enda stríðið án baráttu. 

 

Lindemann hershöfðingi sem er kominn frá Danmörku er sama sinnis. 230.000 menn hans samanstanda vissulega af óviljugum Ungverjum, lítt þjálfuðum táningum og öldruðum mönnum.

 

En Lindemann hefur persónulegri ástæðu; Hann fékk stöðuna í Danmörku því Hitler taldi hann of gamlan til þess að gegna herþjónustu. Hershöfðinginn vill óður og uppvægur hljóta góð eftirmæli. 

 

„Í Danmörku getum við barist til síðasta manns“, lofar Lindemann. 

 

 „En af hverju, hvershöfðingi?“ spyr einn af ráðherrum Dönitz og nýtur stuðnings Werner Best sem er háttsettur nasistaforingi Danmerkur.

 

Best bendir á að 240.000 þýskir flóttamenn í Danmörku reiði sig algjörlega á aðstoð frá hernum. 

 

Örlög flóttamannanna eru rædd fram og aftur sem sannfærir Dönitz um réttmæti uppgjafar fyrir Montgomery: Þýskar herdeildir í vestri skuli gefast upp svo baráttan og undanhaldið í austri geti haldið áfram. 

Þúsundir munaðarlausra barna reikuðu um Þýskaland að stríði loknu – þau voru kölluð úlfabörnin.

Sjónarhorn myndavéla stýra friðarsamningum

4. maí, í Quickborn: Breskir jeppar bíða í fremstu víglínu til að mæta Friedeburg. Litla bílalestin heldur áfram til höfuðstöðva Montgomerys. 

 

Í búðum Breta eru allir önnum kafnir. Hermenn þjóta um til að undirbúa móttöku Þjóðverjanna. Það er farið að rigna og tjöldum er slegið upp.

 

Í þeim mun hermarskálkurinn taka á móti Friedeburg og fylgdarliði hans. Þessa sögulegu stund skal varðveita á filmu en það felur í sér nokkra tæknilega áskorun fyrir tökumennina því tjaldið er einungis 6×6 m.

 

Því þarf að stilla myndavélunum upp fyrir utan og taka myndir í gegnum litla glugga. Einnig veldur ljósið nokkrum erfiðleikum. Með erfiðismunum tekst kvikmyndamönnunum að útvega góða lampa þannig að tjaldið er eins vel upplýst og á leiksviði. 

 

Montgomery fylgist áhugasamur með undirbúningnum og spyr hvar hann skuli standa. Honum er bent á stað í miðju tjaldinu en einn starfsmaður hans mótmælir þessu harðlega: „Hermarskálkurinn getur ekki bara staðið þarna. Hann þarf að taka á móti þeim!“ 

 

En Montgomery er sáttur við tillögur tökumannsins: „Látið þá koma til mín!“ Þessu næst röltir hann yfir í tjaldið þar sem stríðsfréttaritarar bíða þess að verða upplýstir um framvindu mála. 

 

„Bragðaðist teið vel?“ spyr Montgomery áður en hann heldur áfram í fínasta skapi. „Heraflinn sem mun gefast upp telur meira en milljón manns. Ekki slæmt það, milljón manns!“

 

Skömmu síðar fær hann tilkynningu um að Friedeburg sé kominn ásamt fylgdarliði sínu. „Látið þá bíða“, segir Montgomery. 

 

Í maí var mótspyrna Þjóðverja í molum en sumir herflokkar börðust ótrauðir áfram.

Stríðinu lýkur í Norðvestur Þýskalandi

4. maí klukkan 18.00, Timeloberg: Rétt eins og áður þurfa Friedeburg og menn hans að bíða í drjúgan tíma undir breska fánanum til að hitta Montgomery. Núna er farið að rigna hressilega. 

 

Fundur Montgomerys með stríðsfréttariturum bandamanna stendur í hálfan tíma áður en hermarskálkurinn endar hann: „Og nú höldum við áfram að sinna mikilsverðasta viðburði dagsins. Við ætlum að hitta Þjóðverjana sem eru komnir. Við viljum heyra hvað þeir hafa að segja við okkur.“ 

 

Montgomery hermárskálkur býður Friedeburg herforingja inn á skrifstofu sína sem er innréttuð í vagni á flutningabíl. Þar gengur hann úr skugga um að Þjóðverjar hyggist í raun gefast upp.

 

Svarið er jákvætt og eftir uppgjöfina óska þeir einnig að færa samningaviðræður upp á hærra plan – þ.e.a.s. með bandaríska hershöfðingjanum Eisenhower sem er yfirmaður allra herafla bandamanna í Vestur-Evrópu. 

 

Hæstánægður ekur Montgomery Þjóðverjanum yfir í tjaldið þar sem myndavélar og hljóðnemar standa reiðubúnir til að skrá þessa sögulegu stund. 

 

Hermarskálkurinn sest við borðsendann en síðan fá Þjóðverjar sér sæti. Þeir eru taugatrekktir og einn þeirra hyggst róa taugarnar með því að reykja vindil.

 

Hvasst augnaráð frá Montgomery sem þolir ekki reykingar, stöðvar hann. „Við erum samankomnir hér í dag til að …“, byrjar Bretinn að segja fyrir framan myndavélarnar en síðan les hann upp skilmálana. 

 

Þýskir heraflar í Hollandi, Danmörku og Norðvestur Þýskalandi munu gefast upp skilyrðislaust næsta morgun klukkan 8 að breskum tíma. Skrifi Þjóðverjar ekki undir á staðnum hótar hann að efla árásir sínar á heri þeirra. 

 

Hver á fætur öðrum skrifa Þjóðverjarnir undir plöggin og fer Friedeburg flotaforingi fremstur í flokki. Þjóðverjarnir hafa fengið til umráða ódýrasta pennann sem breskir starfsmenn fundu í búðunum.

 

Á meðan þessu stendur springur einn öflugur lampi rétt fyrir ofan höfuð Friedeburgs og flotaforinginn hendist af stóli sínum.

 

En á endanum hafa allir ritað nöfn sín á skjölin. Uppgjöfin er nú orðin að raunveruleika og Montgomery hefur náð öllu þessu á kvikmynd. 

 

Þýskar herdeildir í Danmörku, Hollandi og Norðvestur Þýskalandi munu gefast upp þann 5. maí kl. 8.00. 

 

Skjalið með undirskriftum Þjóðverja verður sent til Eisenhower samkvæmt tilmælum Montgomerys.

 

En það gerist þó aldrei því þessi stolti Breti tímir ekki að skila sönnuninni um sína æðstu stund í stríðinu til manns í stöðu sem hann taldi sjálfan sig vera hæfari til að gegna. Eisenhower verður að láta sér nægja afrit. 

 

bornholm_bombed

Loftárásir Sovétmanna á Rønne og Nexø kostuðu 10 Dani og marga Þjóðverja lífið.

Kapphlaup um að ná fyrstir til dönsku landamæranna

Rauði herinn náði aldrei til Jótlands, Rússarnir hernámu hins vegar Borgundarhólm í tæpt ár.

 

Yfirmaður herafla bandamanna, Dwight D. Eisenhower, sendi breskar herdeildir til Lübeck og Eystrasalts til að setja upp vegatálma ef Rauði herinn skyldi reyna að ná til dönsku landamæranna.

 

Samkvæmt samningnum áttu Vesturveldin að frelsa Danmörku en bandamenn grunuðu Stalín um græsku og treystu honum ekki til að halda samninginn, enda hefði stjórn yfir farvötnum Eystrasalts falið í sér mikinn ávinning fyrir Sovétríkin.

 

Öryggisins vegna ákváðu Eisenhower og Montgomery að bandamenn skyldu krefjast þess að Danmörk ætti að vera með í samningnum um uppgjöf þýskra í Hollandi og N-Þýskalandi.

 

Uppgjöfin tók gildi þann 5. maí 1945 og sama dag lenti lítill breskur herflokkur í Kaupmannahöfn. Honum var ætlað að mæta mögulegum sovéskum fallhlífahermönnum.

 

Stalín hreppti hins vegar Borgundarhólm eftir að þýskur herforingi neitaði að gefast upp. Eftir tveggja daga loftárásir hertók sovéskur liðsafli Bornholm þann 9. maí.

 

Það var fyrst 11 mánuðum síðar sem þeir yfirgáfu eyjuna.

 

Ógnir þvinga Þjóðverja til friðarsamninga

6. maí klukkan 21, Raines: Eftir uppgjöf Þjóðverja deginum áður samanstendur Þýskaland nasista nú af Noregi, hluta af Tékklandi ásamt nokkrum umkringdum svæðum meðfram Eystrasalti og frönsku ströndinni. 

 

Samninganefnd Friedeburgs er komin til höfuðstöðva Dwight D. Eisenhowers hershöfðingja í frönsku borginni Reims.

 

Æðsta manni herafla bandamanna kom ekki til hugar að slá upp tjaldbúðum undir berum himni eins og Montgomery hafði gert – hann hefur búið þægilega um sig í tækniskóla bæjarins.

 

Áður en samningaviðræðurnar hefjast nær stemningin frostmarki þegar hópur bandarískra herforingja sýnir Friedeburg skýrslu um útrýmingarbúðirnar Bergen-Belsen. Í henni er að finna myndir af hrúgum af líkum og þúsundum grindhoraðra fanga. 

 

Friedeburg snöggreiðist. Það getur ekki verið að Bandaríkjamenn vilji saurga land hans, liðsforingja og þjóð! 

 

Ekki er hægt að komast undan því að Þýskaland gefist upp en Friedeburg gerir það sem hann getur til að draga það á langinn: Deginum áður hélt hann þannig því fram að hann hefði einungis umboð til þess að semja en ekki til þess að skrifa undir sjálfa uppgjöfina.

 

Þessi staðhæfing veitti Þjóðverjum tvo sólarhringa til viðbótar, þar sem Eisenhower með sívaxandi óþoli varð að bíða þess að þýskir fulltrúar kæmu frá Flensborg.

 

Nú hefur Alfred Jodl frá þýska herráðinu loksins lent en hann vill einnig fremur ræða allt annað en uppgjöfina sem nær til hermannanna á austurvígstöðvunum. 

 

„Það er ljóst að Þjóðverjar reyna að vinna sér inn tíma. Markmiðið er að forða sem flestum hermönnum og borgurum frá austurvígstöðvunum í átt til okkar“, skráir Eisenhower hjá sér súr í bragði. 

 

Til þess að ögra ekki Stalín tekur hann sjálfur ekki þátt í fundunum en fulltrúi hans heldur honum vel upplýstum.

 

Eisenhower vill fá fram uppgjöf allra Þjóðverja eins skjótt og auðið er, því að Stalín hefur lengi grunað Vesturveldin um ráðabrugg með Þjóðverjum gegn Sovétríkjum. 

 

Loksins koma Jodl og Friedeburg með tilboð um að samningurinn verði undirritaður þann 8. maí en öðlist gildi 48 tímum síðar.

 

Þetta bragð mun veita Þjóðverjum meira en þrjá sólarhringa í viðbót en það er hér sem Eisenhower missir þolinmæðina. 

 

„Eisenhower krefst þess að við skrifum undir í dag“, tilkynnir Jodl vondaufur Dönitz í símanum.

 

„Ef við gerum það ekki munu víglínur bandamanna lokast fyrir öllum þeim sem reyna að gefast upp fyrir þeim. Og öllum samningum verður hætt. Ég sé enga aðra valkosti en þessa: Ringulreið eða uppgjöf“. 

 

Innan klukkustundar fær Jodl heimild til að gefast upp. Hann og Friedeburg reyna eitt lokabragð með því að leggja til að bardagar hætti fyrst 48 tímum eftir undirritun uppgjafarinnar.

 

Þá geta þeir eftir á fundið afsakanir fyrir því að fresta undirskriftinni svo lengi sem kostur er. Eisenhower sér í gegnum þessa ráðkænsku og svarar því til að bardagar skuli hætta innan 48 tíma frá miðnætti sem nálgast nú óðum.

 

Annars muni hann vísa öllum Þjóðverjum frá víglínum Vesturvelda. Friedeburg og Jodl gera sér grein fyrir því að samningatækni þeirra dugar ekki lengur. 

 

Þjóðverjar samþykkja að leggja niður vopn þann 9. maí klukkan 0.00. 

jodl_signing

7. maí 1945: Alfred Jodl hershöfðingja var flogið til Reims til að skrifa undir skilyrðislausa uppgjöf Þjóðverja.

Uppgjöfin fær aukakafla 

8. maí, Berlín: Þjóðverjar hafa skrifað undir uppgjöfina hjá Eisenhower en Stalín neitar að viðurkenna samninginn. Hann krefst nýrrar uppgjafar sem fara skuli fram í Berlín. 

 

Allt er loksins tilbúið fyrir endanlega uppgjöf Þjóðverja. Friedeburg lendir á Tempelhov-flugvellinum ásamt Wilhelm Keitel marskálki sem er oddviti þýska herráðsins og ber æðstu tign þýskra herforingja.

 

Bílar frá Rauða hernum aka Þjóðverjum í gegnum sundursprengda Berlín og fram hjá Ríkiskansellíinu sem er nú rústir einar. Einungis fáeinar hræður eru á ferli á götunum. 

 

„Skelfingu lostinn gat ég nú séð eyðilegginguna í borg okkar“, segir Keitel síðar. Bílarnir stoppa við mötuneyti herskólans. Byggingin er ein af fáum heilum húsum Berlínar.

 

Klukkan er næstum 12 en fresta þarf athöfninni mörgum sinnum, m.a. vegna þess að franski fulltrúinn hefur uppgötvað að enginn franskur fáni blaktir ásamt þeim sovésku, bandarísku og bresku. 

 

Kvenkyns rússneskir hermenn sauma saman í hasti franskan fána úr bláu og hvítu laki ásamt og rönd af rauðu efni úr fána nasista.

 

Í flýtinum eru rendurnar láréttar – eins og á fána Hollands – og því þarf að endurgera fánann.

 

Loks kemur að því að fulltrúar bandamanna taka sér stöðu í salnum. Eisenhower hefur sent sinn staðgengil því hann neitar að gegna einhverju minniháttar hlutverki í leikriti sem Stalín stýrir. 

 

Keitel marskálkur gengur inn. Hann ber sig með prússneskum hroka, andlitið er sem steinrunnin gríma og hann skellir hælunum saman þegar hann hefur marskálkstaf sinn upp í kveðju. 

 

„Ach, Frakkar eru hérna líka“, tuldrar Þjóðverjinn þegar hann sér þrílitan fána Frakkanna, „það var einmitt það sem vantaði“. Honum finnst auðmýkjandi að gefast upp fyrir landi sem þýski herinn rúllaði yfir árið 1940.

 

„Hafið þér lesið þetta skjal gaumgæfilega og eruð þér reiðubúnir til að rita undir það?“ er beint að Keitel og fylgdarliði hans. Keitel reynir að vinna inn meiri tíma og vill senda uppgjöfina til allra þýskra herafla en því er hafnað.

 

Þá tekur hann gráan leðurhanskann af hægri hönd, grípur penna og horfir með fyrirlitningu í átt til blaðamannanna áður en hann ritar nafn sitt á skjölin.

 

Næst er það yfirmaður Luftwaffe og að lokum ritar Friedeburg aðmíráll undir uppgjöfina sem yfirmaður flotans. Þetta er í þriðja sinn sem hann gefst upp. 

 

Klukkan er nú gengin yfir miðnætti og sýnir 1.00 þann 9. maí. Stríðinu í Evrópu er endanlega og formlega lokið. 

 

Bandamenn skiptu Þýskalandi á milli sín

AUSTUR-PRÚSSLAND ásamt héruðunum Hinterpommern og Schlesien hurfu af þýska landakortinu. Póllandi var úthlutað þýskum landsvæðum austan fljótsins Oder (og þurftu sjálfir að láta af hendi svæði til Sovétríkjanna í austri).

BREMEN féll í hlut Bandaríkjanna þrátt fyrir að vera á miðju yfirráðasvæði Breta. Skýringin er sú að Bandaríkjamenn vildu hafa aðgang að Bremerhaven sem liggur við Norðursjó.

FRAKKLAND fékk að hernema stórt svæði til marks um endurreisn stórveldisins. Stalín þvertók fyrir að afhenda nokkurt landsvæði og því fengu Frakkar hluta af yfirráðasvæðum Breta og Bandaríkjamanna.

SAARLAND hálft var tekið af Þýskalandi þegar Frakkar gerðu svæðið að sjálfstjórnarhéraði. Það var fyrst eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1955 sem Frakkar hættu við að innlima Saarland. 

BERLÍN var skipt upp eins og öðrum svæðum Þýskalands og gat því ekki lengur verið höfuðborg svæða Vesturveldanna.

AUSTURRÍKI og höfuðborginni Vín var einnig skipt upp í yfirráðasvæði Bandamanna en Austurríkismenn fengu fullt sjálfstæði þegar árið 1955. Þjóðverjar máttu bíða eftir sameiningu til ársins 1990.

Bandamenn skiptu Þýskalandi á milli sín

AUSTUR-PRÚSSLAND ásamt héruðunum Hinterpommern og Schlesien hurfu af þýska landakortinu. Póllandi var úthlutað þýskum landsvæðum austan fljótsins Oder (og þurftu sjálfir að láta af hendi svæði til Sovétríkjanna í austri).

BREMEN féll í hlut Bandaríkjanna þrátt fyrir að vera á miðju yfirráðasvæði Breta. Skýringin er sú að Bandaríkjamenn vildu hafa aðgang að Bremerhaven sem liggur við Norðursjó.

FRAKKLAND fékk að hernema stórt svæði til marks um endurreisn stórveldisins. Stalín þvertók fyrir að afhenda nokkurt landsvæði og því fengu Frakkar hluta af yfirráðasvæðum Breta og Bandaríkjamanna.

SAARLAND hálft var tekið af Þýskalandi þegar Frakkar gerðu svæðið að sjálfstjórnarhéraði. Það var fyrst eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1955 sem Frakkar hættu við að innlima Saarland. 

BERLÍN var skipt upp eins og öðrum svæðum Þýskalands og gat því ekki lengur verið höfuðborg svæða Vesturveldanna.

AUSTURRÍKI og höfuðborginni Vín var einnig skipt upp í yfirráðasvæði Bandamanna en Austurríkismenn fengu fullt sjálfstæði þegar árið 1955. Þjóðverjar máttu bíða eftir sameiningu til ársins 1990.

 

Ríkisstjórn Dönitz heldur áfram 

Flensborg í maímánuði: Þýskaland er sigrað en Dönitz heldur áfram pínulitlu ríki í skóla sjóhersins, þar sem ríkisstjórn hans heldur daglega fundi. 

 

Nokkrum dögum síðar er Friedeburg kominn aftur til Flensborgar til að upplýsa Dönitz um uppgjöfina í Berlín. 

 

Lífið í skóla sjóhersins, Mürwik, gengur sinn vanagang næstum eins og ekkert hafi í skorist. Sérhvern morgun er Dönitz forseti ríkisins vakinn í káetu sinni á suður-ameríska gufuskipinu Patría sem hefur þjónað sem íbúðarskip í Flensborg frá 1941.

 

Á bryggjunni bíður bílstjórinn með brynvarinn Mercedes 770 sem Hitler gaf eitt sinn Dönitz. Bíllinn ekur með forsetann um 500 metra til skóla sjóhersins þar sem ráðherrar hans bíða eftir honum í skólastofu einni.

 

Ríkisstjórn Dönitz hefur ekki fengið leyfi til að hætta störfum, því hún er nytsamlegt við að miðla málum milli Breta og annarra starfsmanna þýska ríkisins.

 

En ráðherrarnir hafa ýmislegt fyrir stafni. Sem dæmi deila þeir um hvort nota beri ennþá Hitlers-kveðjuna í þýska hernum og hvernig nýr fáni Þýskalands eigi að líta út. Ennþá blaktir hakakrossinn yfir skólanum. 

 

Matvælaráðherrann hefur sérstakt áríðandi verkefni: Hann kemur með snafsa handa ráðherranum á fundina.

 

Áfengið heldur mönnum hressum og söfnuðurinn tekur að trúa því að kannski bíði þeirra betri verkefni í framtíðinni. 

 

Skólinn ruddur 

 

23. maí klukkan 9.45, Flensborg: Tíminn rennur út fyrir Dönitz og ríkisstjórn hans. 

 

Breskir hermenn hafa tekið sér stöðu umhverfis skólann í Mürwik. Allir ráðherrar, ráðgjafar og starfsmenn hersins eru kallaðir saman og handteknir.

 

Helstu kapparnir, eins og Dönitz, Keitel og Jodl skulu halda til Nürnberg þar sem stríðsglæpadómstóllinn bíður þeirra. 

 

Mitt í ringulreiðinni biður fyrrum aðalsamningamaður Þýskalands, Friedeburg, um leyfi til að fara á salernið. Tíminn líður og breskir hermenn verða órólegir.

 

Þegar þeir brjóta niður hurðina að salerninu liggur Friedeburg á gólfinu með uppglennt augu. Hann hefur tekið inn blásýruhylki. 

 

Friedeburg hefur líklega framið sjálfsmorð þar sem honum þótti það vera stórkostleg auðmýking að gefast upp fyrir óvininum – örlög sem fimmti hver aðmíráll kaus samt sem áður.

 

Eftirmæli

Í Nürnberg staðhæfir Dönitz að hann hafi í einu og öllu hegðað sér eins og heiðvirður hermaður og að hann sjái ekki eftir neinu. Hann þurfti ekki að standa reikningsskil á nasismanum eða útrýmingarbúðunum en hlaut hins vegar mikið lof fyrir „Operation Hannibal“ sem bjargaði 2 milljónum Þjóðverja. 

 

nurnberg_trial

Stríðsglæpadómstóllinn í Nürnberg starfaði frá 1945 til 1949.

Réttað yfir nasistum í Nürnberg

Alþjóðleg lög dugðu ekki gegn glæpamönnum nasista. Því þurfti að setja ný lög fyrir réttarhöldin.

 

BROT GEGN FRIÐI

Þessi lög áttu að ná til þeirra Þjóðverja sem tóku þátt í að æsa upp þjóðina í stríðsátök á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Áróður þeirra hafði lofað þjóðinni að stækka yfirráðasvæði hennar til að auka „lífsrými í austri“ fyrir þýska landnema.

 

SKIPULAGNING OG FRAMKVÆMD ÁRÁSARSTRÍÐS 

Landsvæði voru hertekin án yfirlýsingar um stríð af hálfu nasista Þýskalands. Bandamenn vildu refsa þeim mönnum sem stóðu fyrir árásum á hlutlaus lönd.

 

STRÍÐSGLÆPIR

Hér gátu bandamenn stuðst við Genfar-sáttmálann sem innihélt leikreglur um hvernig bæri að haga sér í stríði. Þjóðverjar höfðu m.a. brotið lögin með því að taka stríðsfanga af lífi.

 

GLÆPIR GEGN MANNKYNI

Miskunnarlaus meðferð nasista á almennum borgurum féll undir þennan ákærulið. Hann varðaði m.a. nauðungarflutninga á borgurum, fjöldaaftökur og þó einkum útrýmingu Gyðinga og annarra þjóðfélagshópa.

Karl Dönitz

Flotaforinginn var dæmdur fyrir brot gegn allsherjarfriði og stríðsglæpi

 

10 ára fangelsi 

Hermann Göring

Flugmarskálkurinn var dæmdur fyrir stríðsglæpi, brot gegn friði og mannkyni og einnig fyrir að skipuleggja og framkvæma árásarstríð.

 

Dauðadómur

Rudolf Hess

Staðgengill Hitlers var dæmdur fyrir að skipuleggja árásarstríð og brot gegn friði.

 

Lífstíðarfangelsi

Greinaröð um 

Fall nasistanna

Niðurtalning til dómsdags

Hershöfðingar Hitlers flýja

Dauðaganga fanganna

Sigurhátíð bandamanna við Elben

 

Arftakar Hitlers hyggjast bjarga Þýskalandi

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Esben Mønster-Kjær & Torsten Weper

© Interfoto awkz/Imageselect,© Shawshots/Imageselect,© Landtag Brandenburg,© Bridgeman Images,© Ritzau Scanpix,© Photoquest/Getty Images, Shutterstock,© DPA/Picture-alliance/Scanpix Ritzau,© DPA/Picture-alliance/Scanpix Ritzau,© DPA/Picture-alliance/Scanpix Ritzau,© DPA/Picture-alliance/Scanpix Ritzau

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

Lifandi Saga

Hvers vegna brann Hindenburg? 

Náttúran

Gætu hvítabirnir lifað af á Suðurskautslandinu?

Lifandi Saga

Hvað voru fyrsta og annað ríkið?

Lifandi Saga

El-Alamein: Montgomery sigrar Rommel í sandbylnum

Lifandi Saga

Hvers vegna geta kosningar verið svona ótrúlega jafnar?

Náttúran

Hvers vegna hafa dýr svona mismunandi augu?

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Náttúran

Geta hvalir gleypt fólk?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is