Grænn flugusveppur eða Engill dauðans (Amanita phalloides) veldur um 90% allra dauðsfalla af völdum sveppa í mat á heimsvísu og aðeins hálfur sveppur er talinn duga til að bana fullvöxnum manni.
Vísindamenn hika ekki við að útnefna þennan svepp sem þann banvænasta í heimi.
Nú hafa líffræðingar hjá Wisconsin-Madisonháskóla uppgötvað að þessi sveppur hefur fundið nýja aðferð til að dreifa erfðamassa sínum og það gæti aukið útbreiðslu hans um skógarsvörðinn víða um heim.
Rannsóknin byggist á greiningum á erfðaefni 86 einstakra sveppa sem tíndir hafa verið í Kaliforníu síðan 1993 og í Evrópu síðan 1978.
Í bandarísku sýnunum fundu vísindamennirnir nákvæmlega eins erfðaefni í sveppum tíndum á tveimur mismunandi svæðum en fræðilega séð gerir það alla þessa sveppi erfðafræðilega að sama einstaklingnum.
Þetta þýðir að síðustu 17 eða jafnvel 30 árin hefur þessum eitursveppum tekist að endurskapa sjálfa sig eftir litningum eins staks svepps eða með kynlausri æxlun.
Getur breiðst hratt út af sjálfu sér
Sveppirnir eru þó jafnframt færir um að fjölga sér með litningum tveggja einstaklinga, sem sagt með kynæxlun. Þessi blanda fjölgunarmöguleika segja vísindamennirnir að geti verið ástæða þess að eitursveppurinn breiðist nú hraðar út en áður víða um heim.
„Þessir mismunandi fjölgunareiginleikar þessarar ágengu eitursveppategundar auka líklega getuna til hraðari útbreiðslu en það sýnir veruleg líkindi með ágengum plöntum, dýrum og sveppum“, segja vísindamennirnir m.a. í grein sinni.
LESTU EINNIG
Margar sveppategundir eru vissulega þekktar fyrir að geta beitt bæði kynæxlun og kynlausri æxlun en græni flugusveppurinn hefur ekki verið meðal þeirra.
Kynæxlun veitir tegundum möguleika til að þróast og aðlagast nýjum aðstæðum með því að blanda genum. En kynlaus æxlun auðveldar einstökum sveppum hins vegar að breiðast út á miklum hraða og lifa þannig af um langan tíma.
Græni flugusveppurinn er upprunninn í norðurhluta Evrópu en hefur á síðustu áratugum náð að nema ný lönd, svo sem í Ástralíu, Norður-Ameríku og náð að breiðast út víðar í Evrópu. Vísindamennirnir telja að kynlausa æxlunin geti verið hluti skýringarinnar.