Bílaframleiðendur um allan heim vinna að þróun nýrra bílagerða, sem ekki menga loftið og nú tekur dekkjaframleiðandinn Goodyear eitt skref í viðbót.
Fyrirtækið hefur birt uppskrift að nýju hjóli, sem ekki einungis hlífir umhverfinu, heldur bætir það.
Á hjólinu utanverðu, umhverfis nafið er holrúm, fyllt með mosa. Þegar bíllinn er á ferð sogast lofstreymi gegnum mosann sem notar ljóstillífun til að vinna koltvísýring úr loftinu og framleiða súrefni.
Raki helst sjálfkrafa í mosanum vegna byggingarlags dekksins, sem sogar vatn upp af veginum og flytur það út í mosann.
Dekkið þarf aldrei loft
Dekkið er ekki loftfyllt, heldur gert úr mörgum gúmmískífum, sem raðað er hlið við hlið með dálitlu millibili.
Að sögn framleiðandans gefur þessi uppbygging bæði gott veggrip og góða fjöðrun, jafnframt því sem hjólið verður léttara en ella.
Ætlunin er að vinna orku úr ljóstillífun í mosanum og nota hana til að knýja þá tækni sem verður innbyggði í hjólið. Það gætu orðið skynjarar, sem greina hreyfingar bílsins, og lýsandi borði meðfram felgunni til að vara aðra vegfarendur við hreyfingu bílsins.
Hjá fyrirtækinu hefur verið reiknað út að í borg á borð við París, þar sem eru 2,5 milljónir bíla, gætu slík hjól unnið um 4.000 tonn af koltvísýringi og losað 3.000 tonn af súrefni á ári.
Ætlunin er að í nýja hjólið, sem fengið hefur nafnið Oxygene, verði notað endurunnið gúmmí úr gömlum dekkjum.
Hreyfing hjólsins heldur ljóstillífuninni við
Sérstök hönnun tryggir að innbyggða stöppulagið fái vatn af veginum og koltvísýring úr borgarloftinu.