Frá Adolf Hitler hafði ekkert heyrst mánuðum saman. Hann var orðinn svo fjarlægur að sögusagnir til að skýra hið dularfulla hvarf hans urðu hver annarri furðulegri.
Ein var á þá leið að foringinn væri orðinn svo vitfirrtur að halda þyrfti honum í felum frá almenningi.
En loksins, á nýársdag 1945, heyrðist hin vel þekkta rödd aftur í útvarpinu.
Hitler notaði þessa ræðu til að fullvissa þjóð sína um að þjáningunum myndi senn linna og síðan tæki við gullin framtíð:
„Við vitum hvaða örlög breskir og bandarískir ráðamenn ætla Hinu Þýska Ríki og við þekkjum áform forsprakka bolsjevikkanna – og þeirra alþjóðlegu júðasamtaka sem í raun standa á bak við þá – gagnvart þýsku þjóðinni,“ fullyrti hann með sínum einkennandi austurríska hreim.
En Þýskaland myndi fara með sigur af hólmi, þökk sé nasismanum, lofaði einræðisherrann. Og þegar að því kæmi myndið ríkið blómstra á ný.
„Innan fárra ára mun hið nasjónalsósílastíska ríki með orku sinni og frumkvæði ná að endurbyggja allt það sem nú er eyðilagt,“ lofaði Hitler. „Borgir okkar verða voldugri og fegurri en nokkru sinni fyrr. Heilsusamlegri heimili fyrir Þjóðverja verða byggð á rústum leigublokkanna.
Þessi bjarta framtíðarsýn foringjans var langt frá þeim veruleika sem daglega blasti við Berlínarbúum:
Stórir hlutar borgarinnar höfuð verið malaðir mélinu smærra eða voru kolnaðar rústir eftir loftárásir bandamanna. Ríkið smækkaði dag frá degi. Sprengjum var varpað á þýskar verksmiðjur, járnbrautir rofnar og kafbátum sökkt.
Hinn Rauði her Stalíns var í Póllandi, í aðeins 500 km fjarlægð frá Berlín, og þau válegu tíðindi birtust í leyniþjónustuskýrslu að í undirbúningi væri stórsókn Rússa á öllum austurvígstöðvunum – 6 milljón hermenn, 91.000 fallbyssur og 11.000 skriðdrekar voru í startholunum.
Hollráð dagsins: „Njótið stríðsins“
Hitler vísaði þessum fréttum á bug sem fullkomnum „hálfvitaskap“ og sagði að höfunda skýrslunnar ætti að „loka inni á fávitahæli“. Það kom þess vegna eins og þruma úr heiðskíru lofti að Rauði herinn skyldi m.a. komast yfir Vistulafljót þann 12. janúar og svo hertaka Varsjá aðeins viku síðar.
Berlínarbúar höfðu vaxandi áhyggjur af þróun mála enda höfðu fregnir af framferði Rússa borist úr austurátt, t.d. frá þorpinu Nemmersdorf í Austur-Prússlandi sem Rauði herinn tók haustið 1944. Þar átti öllum konum verið nauðgað og þær síðan drepnar.
„Njótið stríðsins – friðurinn verður hryllingur!“ Þessi gálgahúmor öðlaðist útbreiðslu og aðrir sögðu: „Það sem viðheldur geðheilsunni er tilhugsunin um fall nasista.“
Einu sinni höfðu íbúar Berlínar verið fjórar milljónir en nú voru 2,8 milljónir eftir, aðallega konur, börn og gamlir menn, ónothæfir í stríði.
Loftvarnarflautur vöktu íbúana oft í viku hverri og þá þurfti fólk að haska sér af stað í öryggi í loftvarnarbyrgi eða kannski bara niðri í kjallara. Allir höfðu með sér neyðartösku með skilríkjum sínum, peningum og einhverju til að borða. Neyðartaskan stóð gjarnan tilbúin við dyrnar og bara að grípa hana með sér.
Blaðakonan Ursula von Kardorff hélt dagbók á stríðsárunum: „Næstum á hverjum einasta degi loftvarnarflaut, bókstaflega á mínútunni kl. átta um kvöldið og aftur kl. 11. Boðin „flugvélar yfir Hannover-Braunschweig“ og svo kapphlaup í loftvarnarbyrgið.“
Ursula von Kardorff var af aðalsætt og góð tengsl tryggðu henni aðgang að Speer-byrginu í grennd við Brandenburger Tor og ráðuneytin.
Þar gátu embættismenn leitað skjóls við þægilegar aðstæður. Þarna var rennandi vatn og aldraður hirðsiðameistari sagði fólki gamansögur frá hirð Vilhjálms keisara. Fyrir kom að Albert Speer, arkitekt Hitlers og hergagnaráðherra, birtist í byrginu ef hann var staddur í borginni.
„Hann virðist kurteis og vinsamlegur. Ekki með rembing,“ skrifaði hin 33 ára gamla Ursula von Kardorff.
En fæstir Berlínarbúar gátu litið á loftárásirnar sem kærkomna tilbreytingu frá hversdagslífinu og tækifæri til huggulegra samræðna.
Almennu loftvarnarbyrgin og voru afar ófullnægjandi og svo þétt skipuð að fyrir kom að fólk tróðst undir við dyrnar þegar fyrstu sprengjurnar ollu örvæntingu í röðinni fyrir utan.
Salerni voru of fá og fylltust strax ef þau voru þá ekki harðlokuð vegna þess að einhver örvæntingarfullur borgarbúi hafði lokað sig þar inni til að svipta sig lífi.
Járnbent steinsteypan stóð allar sprengjur af sér en ef sprengja sprakk ofan á byrginu olli það miklum titringi og fólk, sem hafði verið að reyna að tala saman, snarþagnaði.
Þegar sírenuvælið gaf til kynna að loftárásin væri afstaðin streymdi fólk út til að athuga hvort heimilið væri enn uppistandandi. Mikið neistaflug var frá mörgum brennandi húsum, skrifaði Konrad Warner, sem var fréttaritari fyrir svissneskt blað:
„Menn hrópuð hver til annars: „Það kviknar í þér, slökktu glóðina!“ Ég hljóp áfram og barði á hattinn og frakkann til að losna við glóðina.“
Meirihluti Berlínarbúa varð að gera sér að góðu að leita skjóls í kjallaranum undir húsinu. Það tók ekki nema örskotsstund að komast þangað en á móti kom að öryggið var afar takmarkað.
Fjölmörg hús hrundu saman yfir kjallaranum og stundum brann fólk þar lifandi en í öðrum tilvikum dó það smám saman úr súrefnisskorti vegna þess að björgunin kom of seint. Í Berlín var vissulega vel búið slökkvilið en stöðugar loftárásir færðu því miklu fleiri og stærri verkefni en unnt var að sinna.
Hinn 15 ára gamli Wolfgang Pickert hafði það hlutverk að skjótast út og athuga skaða og elda þegar fyrstu sprengjurnar höfðu fallið. Tveimur árum fyrr hafði hann brugðist hratt við og náð að koma í veg fyrir að eldur næði að læsa sig í margra hæða hús með einungis vatnsfötu og brunakúst að vopni.
Nú sá hann að jafnvel reyndir hermenn stóðust illa álagið sem fylgdi því að vera í Berlín í loftárás.
„Faðir minn lenti einu sinni í þessu og hann var farinn á taugum þegar allt var búið og sírenurnar fóru í gang.“
Erlendir nauðungarverkamenn voru notaðir til að hreinsa göturnar og þeir sem áttu leið hjá voru gripnir og látnir hjálpa til. Innan um brakið lágu lík sem þurfti að safna saman til að aðstandendur eða nágrannar gætu borið kennsl á þau.
Skammt frá dýragarðinum í Berlín stóð eitt stóru loftvarnarvirkjanna með öflugar loftvarnarbyssur á þakinu, en rými fyrir 15.000 manns inni í loftvarnarbyrgjunum.
Slökkviliðið í Berlín þurfti nær daglega að kljást við elda eftir loftárásirnar.
Skammt frá dýragarðinum í Berlín stóð eitt stóru loftvarnarvirkjanna með öflugar loftvarnarbyssur á þakinu, en rými fyrir 15.000 manns inni í loftvarnarbyrgjunum.
Slökkviliðið í Berlín þurfti nær daglega að kljást við elda eftir loftárásirnar.
Hitler kemur til Berlínar
Þegar stórsókn Rauða hersins hófst klukkan fimm að morgni 12. janúar, var Adolf Hitler sofandi í höfuðstöðvunum „Adlerhorst“ við Rín.
Frá þessum stað hafði hann þremur vikum fyrr stjórnað Ardenner-sókninni sem mistókst hrapalega. Í „Adlerhorst“ tóku menn framrás Rússa úr austri reyndar ekki mjög alvarlega í fyrstu. Hitler var ekki vakinn fyrr en klukkan 12 og í kjölfarið fylgdu hefðbundnir fundir, gönguferð og síðan te.
Klukkan var orðin þrjú þegar Hitler steig um borð í brynvarða lest sína og lagði af stað til Berlínar. Þangað kom lestin morguninn eftir og síðasta spölinn til ráðuneytisbygginganna var farið í bíl.
Hitler virtist undrandi á leiðinni um rústir höfuðborgarinnar.
Og Hitler slapp ekki við ógnir loftárásanna fremur en aðrir. Til öryggis neyddist hann til að gista í hinu stóra neðanjarðarbyrgi, Foringjabyrginu sem Albert Speer hafði látið byggja undir garðinum við skrifstofubyggingu kanslaraembættisins. Nýju kanslarabygginguna gat hann aðeins notað á daginn.
Á meðan þrammaði Rauði herinn í gegnum Pólland og innan tíðar voru Rússar komnir inn í Schlesien, sem þá taldist þýskt hérað.
Ursula von Kardorff fékk í heimsókn vinafólk sitt frá Breslau, sem Hitler hafði sérstaklega útnefnt sem „virki“, þ.e. borg sem umfram allt skyldi bjarga frá hertöku óvinanna.
Parið komst með síðustu lestinni sem komst frá Breslau (nú Wroclaw í Póllandi) áður en Rauði herinn umkringdi borgina.
„Þau sögðu mér frá svo áköfum fólksflótta að við lá að fólk træðist undir, líkum sem kastað var út úr óupphituðum flutningavögnum, mæðrum sem voru viti sínu fjær og neituðu að trúa því að kornabörn, sem þær héldu í fanginu, væru þegar dáin,“ skrifaði Ursula von Kardorff í dagbók sína og viðurkenndi að sjálf hefði hún látið sér fátt um finnast:
„Maður er orðinn svo tilfinningadofinn að slíkar hryllingssögur ná ekki að hreyfa við manni lengur.
Síðasta heimili Hitlers
Steinsteypa, metrar að þykkt, varði Foringjann fyrir loftárásum og öðrum sprengjum, en ósigurinn þokaðist stöðugt nær.
Stofa Hitlers
Í Foringjabyrginu hafði Hitler þrjú lítil herbergi, svefnherbergi, vinnuherbergi og stofu.
Hann fór oftast seint á fætur, um 11:30 og fór í bað fyrir verkefni dagsins. Herbergin voru búin húsgögnum úr kanslarabyggingunni til að lífga upp á þetta drungalega umhverfi.
Uppi á vegg hékk mynd af Friðrik mikla Prússakonungi, fyrirmynd Adolfs Hitler.
Vinnuherbergi
Fyrir framan stórt landakort á veggnum gat Hitler sett sig í herstjórahlutverk og flutt til hersveitir sem eiginlega voru ekki til lengur.
Herbergi Evu Braun
Ástkona Hitlers dvaldi í Alpasetri hans, Berghof, lengst af. En Eva Braun flutti sig til hans í mars 1945, mjög gegn vilja hans.
Herbergi Göbbels
Áróðursráðherrann Joseph Göbbels var eini nasistaleiðtoginn sem hafði bústað í byrginu.
Símstöðin
Í lokin var síminn eina tengingin við umheiminn. Símanúmer Foringjabyrgisins var 12 00 50
Síðasta heimili Hitlers
Steinsteypa, metrar að þykkt, varði Foringjann fyrir loftárásum og öðrum sprengjum, en ósigurinn þokaðist stöðugt nær.
Stofa Hitlers
Í Foringjabyrginu hafði Hitler þrjú lítil herbergi, svefnherbergi, vinnuherbergi og stofu.
Hann fór oftast seint á fætur, um 11:30 og fór í bað fyrir verkefni dagsins. Herbergin voru búin húsgögnum úr kanslarabyggingunni til að lífga upp á þetta drungalega umhverfi.
Uppi á vegg hékk mynd af Friðrik mikla Prússakonungi, fyrirmynd Adolfs Hitler.
Vinnuherbergi
Fyrir framan stórt landakort á veggnum gat Hitler sett sig í herstjórahlutverk og flutt til hersveitir sem eiginlega voru ekki til lengur.
Herbergi Evu Braun
Ástkona Hitlers dvaldi í Alpasetri hans, Berghof, lengst af. En Eva Braun flutti sig til hans í mars 1945, mjög gegn vilja hans.
Herbergi Göbbels
Áróðursráðherrann Joseph Göbbels var eini nasistaleiðtoginn sem hafði bústað í byrginu.
Símstöðin
Í lokin var síminn eina tengingin við umheiminn. Símanúmer Foringjabyrgisins var 12 00 50
Læknar og hermenn skoðuðu 72 látna í Nemmersdorf
Ódæðisverk Rússa ollu skelfingu
Fjöldanauðganir í þýsku þorpi urðu áróðursefni í höndum Josephs Göbbels.
Frá innrásinni í Sovétríkin 1941 höfðu Þjóðverjar framið margvísleg ódæðisverk á hernumdum svæðum, en 1944 tóku Rússar að hefna sín.
„Þjóðverjar eru ekki menn,“ stóð á dreifibréfi til sovéskra hermanna, sem hertóku þorpið Nemmersdorf í Austur-Prússlandi þann 21. október.
Þegar Þjóðverjar náðu Nemmersdorf aftur skömmu síðar blöstu við óhugnanleg fjöldamorð.
„Við fyrsta húsið stóð hestvagn og á honum lík fjögurrar naktra kvenna, sem negldar höfðu verið í krossfestingarstellingum. Í húsunum fundum við alls 72 lík, flest konur en líka börn og líka 74 ára karlmann.
Allt fólkið var látið. Kornabarn hafði verið barið með þungu barefli í höfuðið,“ sagði hermaðurinn Karl Potrek. Öllum stúlkum og konum, á aldrinum 8-84 ára, hafði verið nauðgað.
Áróðursráðherrann Joseph Göbbels sá í þessum ódæðisverkum tækifæri til að sá ótta við Rússa og þjappa þýsku hermönnunum betur saman á austurvígstöðvunum.
Þess vegna voru ódæðisverkin í Nemmersdorf vandlega skráð og síðar rannsökuð af alþjóðlegri nefnd sérfræðinga.
Drengir í stað karlmanna
Meðan óbreyttir borgarar í Berlín leituðu skjóls í byrgjum og kjöllurum voru það börn og unglingar sem reyndu að verja borgina.
Á loftvarnarstöðvum voru aðeins örfáir hermenn eftir og þessar stöðvar voru nú einkum mannaðar 15-17 ára unglingspiltum úr æskulýðssamtökum nasista, Hitlerjugend. Stúlkur úr samtökunum Bund Deutscher Mädeln tóku líka þátt í loftvörnunum.
Strangar kynreglur nasista leyfðu vissulega ekki kvenfingur á gikknum en stúlkurnar mönnuðu ljóskastara, radar, fjarlægðarmæla og margt fleira.
Loftvarnir í Berlín höfðu öll stríðslárin verið þær bestu í öllu Þýskalandi enda voru loftárásir á höfuðborgina óþolandi blettur á heiður nastistastjórnarinnar.
Nú höfðu flestar loftvarnarbyssur verið fluttar til vígstöðvanna og flughetjur þýska hersins höfðu ekki lengur nægjanlegt bensín til að taka slaginn við stórar sprengjuflugvélar óvinanna í háloftunum.
Auk nokkurra smærri loftvarnarstöðva á víð og dreif voru meginloftvarnir Berlínar bundnar við stóru loftvarnarvirkin þrjú. Þetta voru stórir steinsteyputurnar og á hverjum þeirra voru fjórar tveggja hlaupa loftvarnabyssur á þakinu.
Á úthliðunum voru til viðbótar pallar þar sem upp var stillt 20 mm og 37 mm hríðskotafallbyssum.
Óvinaflugmenn sem flugu yfir turnana þurftu að gjalda það dýru verði.
Þegar Berlínarbúar hnipruðu sig ekki saman af skelfingu í loftvarnarbyrgjum, leitaði hugurinn að mat. Garnagaulið minnti þá stöðugt á litla matarskammta og staðgönguvörurnar, sem í boði voru, náðu sjaldnast að gera meira en deyfa sultinn um hríð. Frá stríðsbyrjun hafði næring í fæðu Þjóðverja minnkað um 40% og í stórborgunum voru tölurnar enn lægri.
„Þetta fjandans matarlíki er bölvað óæti,“ sagði einn af vinnufélögum Ursulu von Kardorffs hjá blaðinu Deutsche Allgemeine Zeitung.
Hún trúði dagbókinni sinni fyrir því að ummælin hefðu vakið sér bros. Yfirleitt var þessi maður nefnilega kurteisin uppmáluð.
Sjálf var hún betur sett en flestir aðrir. Sambönd hennar gerðu henni mögulegt að kaupa salat, pylsur og rúnnstykki í starfsmannaverslun hergagnaráðuneytisins. Aðrar nauðsynjar fann hún á svarta markaðnum, rétt eins og flestir aðrir Berlínarbúar.
Þann 30. janúar 1945 heyrðist rödd Adolfs Hitler á ný í útvarpinu. Tilefnið var afmæli valdatöku nasista þennan dag árið 1933.
Áður hafði verið haldið upp á daginn með blysför um borgina en þetta kvöld voru göturnar auðar og Hitler varði stórum hluta ræðunnar í umfjöllun um hersveitir Stalíns, sem nú nálguðust Oderfljót í innan við 100 km fjarlægð.
„Sá grimmilegi óvinur sem nú leikur lausum hala í austri og útrýmir hundruðum þúsunda í þorpum og bæjum, í dreifbýli og borgum, verður að lokum yfirbugaður og hrakinn til baka, þegar við beitum öllu afli okkar til hins ýtrasta, þrátt fyrir allt mótlæti og þolraunir okkar,“ fullyrti Hitler.
Sumt fólk trúðin honum enn:
„Ég er svo vonglöð,“ skrifaði kona til mannsins síns sem var stríðsfangi í Frakklandi.
„Öll þjóðin er reiðubúin að fylkja liði með vopn í hönd. Við höfum leynivopn sem verða notuð þegar rétta stundin rennur upp, en umfram allt eigum við Foringja, sem okkur er óhætt að fylgja alveg blindandi.“
Loftárásir ná nýjum hæðum
Sprengjuárásir Breta í myrkri voru fyrir löngu orðnar hluti af hversdagslífi Berlínarbúa þegar Bandaríkjamenn hófu loftárásir að degi til í byrjun febrúar.
Eitt þúsund sprengjuflugvélar þöktu himininn þann 3. febrúar og járnbrautin, byggingar ráðuneytanna og sjálf kanslarabyggingin voru meðal helstu skotmarkanna. En almennir borgarar sluppu heldur ekki. Ilse Schier, 21 árs, og nýorðin móðir lýsir deginum svona:
„Vítiseldarnir kviknuðu um ellefuleytið um morguninn. Himinninn var alveg svartur og aðeins eldtungurnar lýstu upp þessa óhugnanlegu mynd, sem líka fylgdi stæk lykt af brennandi holdi. Eldsprengjurnar átu sig í gegnumhúsþökin og maður náði ekki andanum fyrir reyk. Niðri í jarðlestargöngunum ríkti ólýsanlegt öngþveiti. Fólksfjöldinn tróðst eftir teinunum en enginn vissi hvert.“
Ursula von Kardorff lifði daginn líka af. Rétt eins og svo margir aðrir hélt hún að hún væri að missa vitið vegna þess að aldrei gafst neinn svefnfriður. „Af hverju í ósköpunum tekur ekki einhver sér stöðu úti á miðri götu og öskrar: Þetta er orðið meira en nóg?“
Þrjú þúsund týndu lífi í þessari árás. Meðal þeirra var hinn alræmdi dómari, Roland Frelsler, við þjóðardómstól nasista.
Líkunum var safnað saman í íþróttasölum þar sem hægt var að bera kennsl á þau. Áður höfðu líkin verið lögð á gangstéttar, en þetta þótti of óhugnanlegt fyrir almenning.
„Við NeuenburgerStrasse varð stúlknaskóli fyrir sprengju, hundruð stúlkna höfðu leitað skjóls í kjallaranum,“ skrifaði Karl Deutmann, sem var vaktmaður hjá stálframleiðandanum Mannesmann. „Síðar stóðu foreldrarnir yfir limlestum og sundurtættum líkunum og gátu ekki lengur borið kennsl á dætur sínar.“
Stjórnvöld og sannfærðustu nasistar reyndu enn að viðhalda kjarki Berlínarbúa. Skilti við húsa rústir bönnuðu gripdeildir. Og samkvæmt þeim lá dauðarefsing við broti.
„Virkismúrar okkar geta fallið en hjörtun fær ekkert bugað,“ var málað á uppistandandi veggi víðs vegar um borgina.
„Þvílíkt bull!“ skrifaði Ursula von Kardorff. „Svona lagað hefur ekki áhrif á neinn nema hálfvita.“
Daginn eftir árásina tókst henni að komast í vinnuna:
„Bara að komast þangað tók tvo til þrjá tíma. Öll sitjum við í glæsilegum sal, líkast páfagaukum í dýragarði, strengjabrúður sem eiga að taka sér fyrir hendur eitthvað sem enginn skilur lengur. T.d. eigum við daglega að prenta veggspjöld með hryllingssögum af framgöngu Rússa, eða fáranlegar hvatningaryfirlýsingar: Við sigrum vegna þess að við ætlum að sigra!“
Við Berlín átti að reisa víggirðingu
Verkefnið hét „Operation Clausewitz“, en leiðtogar nasista í Berlín hikuðu við að hrinda áætluninni í framkvæmd þar eð slík aðgerð myndi valda borgarbúum ótta. Þegar verkið hófst var það orðið of seint.
Varnaráætlunin „Operation Clausewitz“ snerist um að koma upp varnarlínum, þar á meðal skriðdrekagryfjum, varnarvirkjum og síðar einnig götuvígjum úr sporvögnum og götusteinum til að stöðva framrás Rússa. Verkinu var þó slegið á frest vegna tregðu nasista til viðurkenna að borgin gæti verið í hættu.
Í apríl voru loks 70.000 Þjóðverjar látnir hefja gerð varnarvirkja.
Þetta voru reyndar einkum konur og gamalmenni, en þeim til hjálpar voru notaðir 17.000 franskir stríðsfangar. Stjórnvöld áttu ekki lengur bensín á skurðgröfur né heldur nóg af gaddavír eða jarðsprengjum.
Á endanum varð aðaláherslan á innsta hringinn, sem nefndist Zitadelle og náði í kringum ríkisstjórnarbyggingarnar og Foringjabyrgið.
9. apríl 1945:
Hundruðum kvenna var safnað saman til að grafa skurði sem gætu stöðvað sovésku skriðdrekana.
Sporvögnum borgarinnar var lyft upp af teinunum og þeir notaðir sem götuvígi.
Gamlir hermenn úr fyrri heimsstyrjöld voru kallaðir inn í „Volksturm“ og þeim kennt að beita nýja undravopninu – Panzerfaust.
9. apríl 1945:
Hundruðum kvenna var safnað saman til að grafa skurði sem gætu stöðvað sovésku skriðdrekana.
Sporvögnum borgarinnar var lyft upp af teinunum og þeir notaðir sem götuvígi.
Gamlir hermenn úr fyrri heimsstyrjöld voru kallaðir inn í „Volksturm“ og þeim kennt að beita nýja undravopninu – Panzerfaust.
12 ára hetjur fengu Járnkrossinn
Eftir að Bandaríkjamenn hófu árásir að degi til, vogaði Hitler sér sjaldan upp á yfirborð jarðar. Að frátöldum nánustu samstarfsmönnunum voru nokkrir drengir úr Hitler-jugend þeir einu sem fengu að sjá foringjann, þegar hann veitti þeim Járnkrossinn í garði kanslarabyggingarinnar þann 20. mars.
Atburðurinn var kvikmyndaður fyrir þýska vikuannálinn, Wochenschau, sem vikulega var sýndur í kvikmyndahúsum á undan aðalbíómynd kvöldsins.
Það var alvörusvipur á þessum stríðsþjálfuðu börnum þegar foringinn strauk þeim vangann. Á eftir sögðu drengirnir stuttlega frá afrekum sínum. Hitler sjálfum tókst með erfiðismunum að grípa um vinstri höndina. Enginn mátti sjá krampakenndan titringinn.
„Kannski erum við einfaldlega snargalnar mýs í risastórri gildru,“ skrifaði Ursula von Kardorff í dagbókina. „Enn eru við að skjótast til allra átta, en ósýnilegur risi er þegar búinn að taka gildruna upp og lætur hana í næstu andrá falla niður í stóra vatnstunnu.“
Meðan Hitler og áróðursvél nasista kröfðust þess áfram að allir leggðust á árarnar til að tryggja sigurinn, var Foringinn sjálfur önnum kafinn við að undirbúa útrýmingu síns eigin fólks.
Daginn eftir að hann útdeildi Járnkrossinum til drengjanna skrifaði hann undir tilskipun, sem síðar varð þekkt sem „Neró-tilskipunin“:
„Baráttan fyrir tilveru þjóðarinnar krefst þess að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að veikja baráttukraft óvinanna og koma í veg fyrir frekari framrás þeirra,“ skrifaði Hitler.
Ekkert, sem að gagni mátti koma, mátti falla bandamönnum í hendur. Þess vegna átti að eyðileggja allar brýr, járbrautir, verksmiðjur, vatnsveitur, rafveitur og matarbirgðastöðvar.
Hergagna- og innviðaráðherrann Albert Speer var ljóst að tilskipunin myndi gera landið nánast óbyggilegt. Hann brá skjótt við og ferðaðist um til að sannfæra nasistaleiðtoga á sem flestum svæðum um að hafa tilskipunina að engu.
Börnum og öldruðum fórnað
Strax 1944 voru allir þýskir karlmenn á aldrinum 16-60 ára innkallaðir í nýjan her, sem nefndist Volksturm, „Þjóðarstormur“. Í þessum her voru nokkuð aldraðir menn og svo hálf-fatlaðir sem eftir voru þegar allir herfærir menn höfðu þegar verið kallaðir til herþjónustu.
Fræðilega séð voru þetta samtals 60.000 hermenn, en einungis bestu einingarnar fengu vopn. Aðrir urðu að láta sér nægja samsafn af gömlum lagerum eða byssur sem teknar höfðu verið að herfangi.
Áróðursráðherrann Joseph Göbbels, sem einnig hélt um stjórnartaumana í Berlín, lét nú Þjóðarstormsveit borgarinnar sverja Adolf Hitler trúnaðareið og því næst marseraði þessi „her“ um göturnar – margir hermannanna vopnaðir skóflum og klæddir sínum eigin borgaralegu fötum. Raunveruleg herþjálfun var ógerleg, m.a. vegna skorts á skotfærum.
„Vort föðurland, fastir stöndum vér, Foringi vor ræður afaher.“ Þannig hljómuðu háðslínur sem syngja mátti við lagið „Die Wacht am Rhein“, sem var þekktur hersöngur.
Til vígstöðvanna eftir viku
17 ára piltur, Helmut Altner var meðal þeirra unglinga sem voru kvaddir til herþjónustu 1945. Þann 29. mars fór hann frá heimili sínu og hóf hættuferðina í gegnum Berlín og til til herstöðvarinnar í Spandau.
„Berlín virðist vera að trosna sundur,“ skrifaði hann í dagbók sína. „Neðanjarðarlestirnar ganga óreglulega og hálftíma seinkun er ekki óalgeng. Ofanjarðar hafa teinarnir víða eyðilagst, þannig að S-lestirnar eru nánast hættar.“
Víða þurftu hann og aðrir ferðalangar að ganga, en stundum náðu þeir að stöðva vörubíl og þvinga bílstjórann til að keyra sig hluta leiðarinnar. Á leiðinni sá hann rústir nýlega sprengdra húsa, þar sem 12 ára drengir úr Hitlerjugend voru að safna saman sundurtættum líkum.
Í herstöðinni var honum úthlutað allt of stórum einkennisjakka, en buxurnar náðu á hinn bóginn ekki nema niður á hné.
Næstu daga fékk Helmut Altner að skjóta nokkrum sinnum úr byssu og honum var kennt að nota Panzerfaust-sprengjuvörpu. Að lokum var hann svo varaður við því að liðhlaupar og hugleysingjar yrðu skotnir á staðnum og þann 7. apríl var hann sendur á vígstöðvarnar.
21. apríl 1945 náði Rauði herinn inn í úthverfi Berlínar. Endalokin nálguðust.
LESTU EINNIG
Dómsdagur rennur upp
Áætlun Þjóðverja fólst í því að stöðva Rússa við Oderfljót.
Orrustan við fljótið stóð yfir í þrjá daga í apríl. Eftir það hafði þýsku fyrirstöðunni verið rutt úr vegi og leiðin lá til Berlínar.
Bresku sprengjuflugvélarnar flugu yfir Berlín í síðasta sinn 19. apríl. Síðan átti Rauði herinn að fá vinnufrið.
Örlög höfuðborgarinnar voru nú í höndum eldri manna og drengja á borð við Helmut Altner. En úr neðanjarðarbyrgi sínu fyrirskipaði Adolf Hitler að barist skyldi til síðasta blóðdropa.
Eftirskrift
Helmut Altner tók tók þátt í bardögunum frá úthverfum Berlínar til miðborgarinnar þar sem hann gafst upp. Ursula von Kardorff hafði þá flúið borgina og var í Münhcen þegar Berlín féll. Eftir stríðið skrifaði hún m.a. um stríðsglæparéttarhöldin í Nürnberg.