Blóð streymir um æðar okkar allra og sá blóðflokkur sem við höfum fengið í vöggugjöf getur ráðið því hvort okkur hættir til að fá blóðtappa í heila snemma á lífsleiðinni eður ei.
Ef marka má nýja safngreiningu sem fólst í athugun vísindamanna, við læknadeildina í Maryland háskóla, á 48 rannsóknum á erfðavísum og heilablóðföllum kemur greinilegt mynstur í ljós. Rannsóknin sem birtist í tímaritinu Neurology, leiddi í ljós að fólk sem fengið hafði kransæðasjúkdóma snemma á lífsleiðinni var oftar en ekki í blóðflokki A. Hættan var 16% meiri en ella meðal fólks í blóðflokki A.
Á hinn bóginn leiddu tölurnar í ljós að þeim sem tilheyrðu blóðflokki 0 var 12% síður hætt við að veikjast af kransæðastíflu fyrir sextugt. Vísindamennirnir vonast til að geta grafist betur fyrir um samhengið til þess að koma auga á nýjar leiðir til að fyrirbyggja að fólk fái slag snemma á lífsleiðinni í framtíðinni.
Fleiri og fleiri veikjast
„Hlutfall þeirra sem fá heilablóðfall snemma á lífsleiðinni hækkar stöðugt. Þessir einstaklingar eiga á hættu að látast af völdum heilablóðfallsins og þeir sem lifa af eiga á hættu að lifa við skerta starfsgetu áratugum saman. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur fremur lítið verið rannsakað hvers vegna sumu fólki hættir til að fá slag tiltölulega ungu“, útskýrir Steven J. Kittner, prófessor í taugalækningum við læknadeildina í Maryland háskóla og einn helsti vísindamaðurinn að baki safngreiningunni.
Greiningin fól í sér tæplega 17.000 heilablóðfallssjúklinga og hartnær 600.000 heilbrigða einstaklinga í samanburðarhópnum sem aldrei höfðu fengið slag. Vísindamennirnir skoðuðu litninga þátttakendanna í leit að genaafbrigðum sem haft gætu áhrif á hættuna á heilablóðfalli. Þeir komust að raun um að litningurinn sem felur í sér erfðavísinn sem ræður blóðflokki okkar skiptir sköpum.
Þeim sem eru í blóðflokki A hættir með öðrum orðum meira við að fá slag snemma á lífsleiðinni og þeir sem voru í blóðflokki 0 voru í minni hættu hvað þetta snerti, samanborið við fólk sem fengið hafði slag seint í lífinu eða alls ekki. Bæði þeir sem fengið höfðu slag snemma og seint voru hins vegar oftar í blóðflokki B, samanborið við þá sem aldrei höfðu fengið slag.
Blóðflokkur A hefur áður legið undir grun
„Við vitum enn ekki hvers vegna blóðflokkur A eykur áhættuna en að öllum líkindum tengist það blóðstorknandi þáttum, blóðflögum og frumulaginu sem þekur æðarnar að innanverðu. Þetta kann enn fremur að tengjast próteinum sem eru á hreyfingu í blóðrásinni. Allir þessir þættir hafa áhrif á myndun blóðtappa“, segir prófessor Kittner.
Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að fólki sem tilheyrir blóðflokki A hætti eilítið meira en öðrum til að fá blóðtappa í fætur. Þeir eru einkum varhugaverðir í tengslum við langt flug þar sem fólk situr kyrrt tímunum saman.
LESTU EINNIG
Vísindamennirnir að baki nýju safngreiningunni benda hins vegar á að um sé að ræða eilítið aukna hættu meðal þátttakenda í blóðflokki A.
Allir geta minnkað hættuna á kransæðasjúkdómum með því að leggja áherslu á heilbrigt líferni.