Fimmtug kona sest þreytuleg á bekkinn. Svitinn perlar af henni og hún er með svima. Hún er á breytingaskeiðinu og lengst inni í heila hennar er hafin veruleg þróun taugafrumnanna sem breyta munu lífi hennar.
Að örfáum mínútum liðnum er konan tilbúin til að halda för sinni áfram en hún hikar engu að síður. Þegar hún lagði af stað að heiman var hún með ákveðið markmið í huga. Nú man hún ekki hvert ferðinni var heitið.
Aðstæður á borð við þessar eru daglegt brauð í lífi margra kvenna.
Tíðahvörf, þ.e. sá aldur þegar konur hætta að hafa á klæðum og eggjastokkarnir gegna ekki sama hlutverki og áður, eru einkum þekkt fyrir að tengjast svonefndum hitaköstum sem verða þegar blóð streymir fram í andlitið og svitinn drýpur niður eftir enninu.
Nú hafa vísindamenn hins vegar einnig sýnt fram á að þessi tímamót hafi jafnframt í för með sér enn verri kvilla, um allan líkamann.
Breytingaskeiðið hefst venjulega við 45 – 55 ára aldurinn.
Einn verstur þessara kvilla er alzheimer. Á örfáum árum kann breytingaaldurinn að orsaka verulegar breytingar á efnaskiptum í heila og hrinda af stað niðurbroti heilavefs með þeim afleiðingum að minnið skerðist.
Fram til þessa hefur verið litið á þessi tímamót sem óumflýjanlegan hluta af lífi kvenna. Þessu hyggjast vísindamenn nú breyta.
Þeir eru þegar farnir að gera tilraunir með skurðaðgerðir og lyf sem hugsanlega gætu seinkað tíðahvörfum um heil tuttugu ár.
Heilinn í samtali við eggjastokka
Frjósemi konu er háð nánu samspili milli heila hennar og kynfæra.
Í hverjum tíðahring á sér stað samstarf milli undirstúku heilans annars vegar og heiladingulsins hins vegar, um að senda hormónið FSH í eggjastokka konunnar sem orsaka það að svonefndar eggjablöðrur byrja að þroskast.
Eftir því sem þroska þeirra fleygir fram losa blöðrurnar frá sér sífellt meira magn af kynhormónunum estrógeni og inhibíni sem að lokum láta heilann stöðva framleiðslu á FSH.
Þegar blöðrurnar eru orðnar nægilega stórar og eggin í þeim hafa þroskast, fer heilinn þess í stað að losa frá sér annað hormón sem nefnist LH.
Hormón þetta er framleitt í stutta stund en mikil framleiðsla á sér stað í einu og þegar magnið nær hámarki verður egglos hjá konunni.
Heilinn og eggjastokkarnir eldast þó með árunum og hormónajafnvægið sveiflast. Magnið af estrógeni og inhibíni dalar og jafnframt þessu eiga blöðrur eggjastokkanna í stöðugt meira basli með að bregðast við hormónum heilans.
LH-magnið skerðist að sama skapi en FSH-þrepið hækkar. Þetta hefur það í för með sér að heilinn og eggjastokkarnir geta ekki átt í eðlilegum samskiptum lengur. Breytingaskeiðið er nú runnið upp hjá konunni og hún hættir að lokum að geta eignast börn.
LESTU EINNIG
Hvers vegna konur ganga í gegnum þetta ferli er enn sem komið er hulin ráðgáta. Langflest dýr eru frjósöm ævina á enda – þrátt fyrir öldrun.
Sumir vísindamenn telja jafnvel að breytingaaldurinn ætti að geta verið jákvæður fyrir konur til að bera genin áfram.
Ein tilgátan hljóðar á þann veg að eldri konum væri hættara við að lenda í erfiðleikum eða jafnvel deyja, í fæðingu og fyrir vikið sé skiljanlegt að þær verji orku sinni í að gæta barnabarna umfram það að eignast fleiri börn sjálfar.
Óháð því hver skýringin kann að vera hafa breytingar á hormónajafnvægi fleiri breytingar í för með sér en ófrjósemi.
Minna estrógenmagn hefur einkum slæm áhrif fyrir þær sakir að hormónið hefur áhrif á stjórnun líkamshita, blóðsykurs og efnaskipta í heila, ásamt viðhaldi beina, slímhúðar og æða.
Sá helmingur kvenna sem finnur ekkert fyrir þessum breytingum, kann að lenda í vanda vegna tíðahvarfanna þótt síðar verði.
Karlar ganga einnig í gegnum breytingaskeið
Tvö prósent á ári er það hlutfall sem mikilvægasta kynhormón karla, testósterón, minnkar um frá þrítugu og það sem eftir lifir. Þessi skerðing leiðir af sér hægfara breytingaaldur sem bitnar á atferli karlmanna, kynlífi þeirra og líkamsstyrk.
Skortur á örvun breytir virkni erfðavísanna
Testósterón binst að öllu jöfnu viðtökum í innanverðum heilafrumunum og á þátt í að kveikja og slökkva á genum frumnanna. Fyrir vikið hefur testósterón veruleg áhrif á virkni heilafrumnanna og ef testósterónið minnkar geta andleg einkenni gert vart við sig, svo sem eins og kvíði, þunglyndi og skert einbeitingargeta, auk þess sem erfitt getur reynst að takast á við streitu.
Veiklaðar stofnfrumur gera liminn linan
Lítið testósterónmagn getur haft í för með sér takmarkaða kynlífslöngun en það kann jafnframt að hafa áhrif á kynfæri mannsins og valda ristruflunum. Nákvæmlega hvaða áhrif skortur á kynhormóninu hefur á getnaðarliminn er enn ekki vitað fyrir víst en sumar rannsóknir benda til þess að testósterón örvi að öllu jöfnu stofnfrumur í stinningarvef getnaðarlimsins og eigi því þátt í að halda vefnum heilbrigðum og hraustum
Hormónaskortur veldur litlum vöðvum
Testósterón binst viðtökum á yfirborði vöðvafrumnanna og örvar bæði vöxt þeirra og getu til að dragast saman. Þegar hormónamagnið fellur verða áhrifin nokkurn veginn þau sömu og þegar karlmenn draga úr líkamshreyfingu. Stærð einstakra vöðvatrefja dregst saman og heildarvöðvamassinn rýrnar til muna, svo og vöðvastyrkurinn.
Karlar ganga einnig í gegnum breytingaskeið
Tvö prósent á ári er það hlutfall sem mikilvægasta kynhormón karla, testósterón, minnkar um frá þrítugu og það sem eftir lifir. Þessi skerðing leiðir af sér hægfara breytingaaldur sem bitnar á atferli karlmanna, kynlífi þeirra og líkamsstyrk.
Skortur á örvun breytir virkni erfðavísanna
Testósterón binst að öllu jöfnu viðtökum í innanverðum heilafrumunum og á þátt í að kveikja og slökkva á genum frumnanna. Fyrir vikið hefur testósterón veruleg áhrif á virkni heilafrumnanna og ef testósterónið minnkar geta andleg einkenni gert vart við sig, svo sem eins og kvíði, þunglyndi og skert einbeitingargeta, auk þess sem erfitt getur reynst að takast á við streitu.
Veiklaðar stofnfrumur gera liminn linan
Lítið testósterónmagn getur haft í för með sér takmarkaða kynlífslöngun en það kann jafnframt að hafa áhrif á kynfæri mannsins og valda ristruflunum. Nákvæmlega hvaða áhrif skortur á kynhormóninu hefur á getnaðarliminn er enn ekki vitað fyrir víst en sumar rannsóknir benda til þess að testósterón örvi að öllu jöfnu stofnfrumur í stinningarvef getnaðarlimsins og eigi því þátt í að halda vefnum heilbrigðum og hraustum
Hormónaskortur veldur litlum vöðvum
Testósterón binst viðtökum á yfirborði vöðvafrumnanna og örvar bæði vöxt þeirra og getu til að dragast saman. Þegar hormónamagnið fellur verða áhrifin nokkurn veginn þau sömu og þegar karlmenn draga úr líkamshreyfingu. Stærð einstakra vöðvatrefja dregst saman og heildarvöðvamassinn rýrnar til muna, svo og vöðvastyrkurinn.
Hæg efnaskipti skadda heilann
Estrógen veldur því að frumur heilans stækka og gagnast þeim til að lifa áfram, senda boðefni og mynda nýjar tengingar við aðrar frumur.
Hormónið kemur jafnframt í veg fyrir bólgur í heila og stjórnar orkunotkun hans. Þegar estrógenmagnið lækkar meðan á breytingaskeiðinu stendur, minnkar notkun heilans á helstu orkulind hans, glúkósa, sem nemur 20-25 prósentum.
Fyrstu afleiðingarnar kunna að vera þær að konan eigi í basli með að muna orð eða þá hún skynji óljóst að hún sé að missa tökin. Áhrifin á heilann geta þó orðið öllu verri þegar fram í sækir.
Vísindamenn hafa lengi barist við að skilja hvernig á því stendur að konum er helmingi hættara við að fá alzheimer en körlum. Hluti af skýringunni er sá að konur lifa lengur en karlar en sú staðreynd skýrir þó ekki allan muninn.
Áhrif tíðahvarfa á heilann
Orkunotkun heilans minnkar umtalsvert meðan á breytingaskeiðinu stendur, svo og eftir það. Þetta kann að orsaka skemmdir á heila sem að lokum geta leitt til heilabilunarsjúkdómsins alzheimer.
Árið 2018 var hóp vísindamanna, undir stjórn heilasérfræðingsins Lísu Mosconi, farið að gruna að breytingaaldurinn ætti hlut að máli.
Teymið rannsakaði fyrir vikið hóp kvenna á aldrinum 40 til 60 ára með tilliti til magns af próteinbút í heila sem nefnist beta-amýlóíð. Búturinn getur valdið skemmdum á heilafrumum og skiptir meginmáli fyrir þróun á alzheimer.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að uppsöfnun beta-amýlóíðs var umtalsvert meiri í konum á breytingaaldri en meðal karla á sama aldri, svo og kvenna sem enn voru ekki komnar á breytingaskeiðið.
Rótin að alzheimer myndast með öðrum orðum nákvæmlega á þeim aldri, þó svo að sjúkdómurinn geri ekki vart við sig fyrr en seinna. Vísindamenn vita enn ekki fyrir víst hvers vegna magn beta-amýlóíðs hækkar en sumar tilraunir hafa leitt í ljós að minnkandi estrógenmagn og minni glúkósanotkun veldur því að heilafrumurnar fara að framleiða meira af skaðlega próteinbútnum.
Þessi nýja vitneskja skiptir sköpum, því hún kann að verða meðvirkandi til þess að koma megi í veg fyrir alzheimer. Einkenni alzheimers gera oftast ekki vart við sig fyrr en konur eru komnar yfir sjötugt en nú liggur ljóst fyrir að hefja beri fyrirbyggjandi aðgerðir strax í kringum tíðahvörf.
Æðarnar hungrar í estrógen
Heilinn er engan veginn eina líffærið sem verður breytingaaldrinum að bráð. Heil keðjuverkun skaðlegra breytinga á sér stað í líkamanum sem eykur hættuna á ýmsum tegundum sjúkdóma.
Líkami konunnar fer m.a. að safna upp meira magni af fitu en áður og síaukið magn þeirrar fitu safnast fyrir á kviðnum.
Þegar svo líkamshreyfing kvenna á þessum aldri dregst saman er hætt við að aukaleg fituuppsöfnunin geti orsakað fitumyndun umhverfis líffærin í kviðarholinu, m.a. lifrina, brisið og garnirnar.
Hormónaóreiða í öllum kvenlíkamanum
Minnkuð frjósemi, skekkja í hitastillingunni og hægfara niðurbrot á heilavef – tíðahvörf hafa í för með sér óreiðu í kynhormónum kvenna og þetta bitnar á öllum hlutum líkamans.
Heili glatar tímasetningu þegar hann eldist
Þegar heilinn eldist verða heilafrumurnar síður næmar fyrir hormónum og öðrum boðefnum. Hjá konum hefur þetta þær afleiðingar að heiladingullinn framleiðir minna af hormóninu LH sem á þátt í að samhæfa gangsetningu eggloss.
Ónæmir eggjastokkar framleiða minna af estrógeni
Líkt og við á um heilann eldast eggjastokkarnir og verða síður næmir fyrir m.a. LH-hormóninu. Jafnframt þessu fækkar eggjablöðrum en þær eiga bæði þátt í að mynda eggfrumur og að losa frá sér mikilvæg kynhormón á borð við estrógen, inhibín og AMH.
Hitastillir líkamans sendir blóð í kinnarnar
Minna magn af estrógeni hefur m.a. áhrif á heiladingulinn sem stjórnar hitastigi líkamans. Heilasvæðinu hættir þá til að senda skilaboð til æða húðarinnar um að þenjast út og konan finnur fyrir vikið fyrir svokölluðu hitakófi.
Viðbótarfita lokar æðum
Breytingar á hormónajafnvægi hefur það í för með sér að líkaminn brennir minni fitu. Fitan safnast þess vegna fyrir og þetta á sér einkum stað á kviðnum og umhverfis líffærin í kviðarholinu. Þegar fram líða stundir getur þetta orsakað fitumyndun innan á æðunum og þar með æðakölkun.
Taugafrumur eitra heilann
Lítið estrógenmagn hefur áhrif á efnaskipti heilans og þetta getur m.a. leitt af sér aukalega framleiðslu efnisins beta-amýlóíð sem veldur skemmdum á heilafrumum og getur að lokum haft í för með sér alzheimer.
Fitumyndunin og minnkað estrógenmagnið auka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum, svo og sykursýki 2. Skortur á estrógeni hefur jafnframt áhrif á sveigjanleika æðanna og almennt heilbrigði, því hormónið sendir að öllu jöfnu boð beint til frumnanna í æðaveggjunum um að sinna eðlilegu viðhaldi.
Tíðahvörfin hafa fyrir bragðið í för með sér auknar bólgur í æðaveggjum, slælegri viðgerðir æðaskemmda, auk þess sem æðarnar dragast saman.
Allt eykur þetta hættu á æðakölkun og blóðþrýstingur kvenna hækkar að sama skapi. Hættan á blóðtappamyndun í heila tvöfaldast fyrstu tíu árin eftir að tíðahvarfa verður vart.
Ungir eggjastokkar kældir niður
Þessar mýmörgu afleiðingar fyrir heilsu kvenna hafa gert það að verkum að læknar og vísindamenn leita nú logandi ljósi að meðferð eða lækningu. Upplagt virðist að gefa konum inn aukalegt estrógen sökum þess hve mikilvægan sess hormónið skipar í tengslum við breytingaskeið kvenna en því miður er lausnin ekki ætíð neitt sérstaklega einföld.
Læknar hafa notað estrógen í áraraðir til að berjast gegn kvillum tengdum breytingaaldrinum en meðferð þessi kann að hafa í för með sér alvarlegar aukaverkanir á borð við blóðtappa, sjúkdóma í æðum heilans, elliglöp og ýmsar gerðir krabbameins, m.a. í eggjastokkum, brjóstum og móðurlífi.
Aukaverkanirnar ráðast af því hvort hormónið er tekið inn í töfluformi eða því smurt á húðina en óháð því hvaða úrræði konan velur skyldi hún ætíð hugsa sig vel um áður en hún velur meðhöndlun.
Hættan á að fullorðin kona fái alzheimer er 20%
Langtum æskilegra þykir að slá tíðahvörfunum á frest. Þetta er einmitt það sem breskir læknar gera tilraunir með sem skurðaðgerð. Árið 2019 fóru níu heilbrigðar konur í skurðaðgerð sem fólst í því að fjarlægja hluta af vef úr öðrum eggjastokknum.
Sjálf aðgerðin tók hálftíma og að henni lokinni var vefurinn skorinn í þunnar sneiðar og frystur.
Þegar konurnar komast á breytingaaldurinn er ætlunin að láta vefinn þiðna og græða hann aftur í eggjastokkinn sem hann upprunalega var tekinn úr. Vonir eru bundnar við að vefurinn hegði sér þá líkt og hann hefði gert í ungum líkama og framleiði nægilegt magn hormóna, t.d. estrógen. Með því móti færi líkaminn ekki á breytingaaldurinn.
Skurðlæknar hyggjast hefta breytingaaldurinn
Nákvæmnisskurðlækningar, varfærnisleg frysting ungra eggjastokka og að lokum ný gangsetning á hormónaframleiðslu líkamans – breskir læknar hafa í hyggju að beita nýrri meðhöndlun sem frestað gæti breytingaaldrinum um tuttugu ár.
Skurðlæknir sker hluta af eggjastokk
Skurðlæknirinn klippir um það bil einn til tvo þriðjuhluta af eggjastokk ungrar konu með notkun einnar eða fleiri kviðsjáa en um er að ræða tæki sem útbúið er með ljósi, myndavél eða klippum.
Sneiðar af vef eru frystar varfærnislega
Vefurinn sem var fjarlægður er skorinn í sneiðar og frystur. Frystingin verður að eiga sér stað hægt og nauðsynlegt er að baða vefinn í efnum á borð við DMSO sem koma í veg fyrir myndun stórra ískristalla sem skaddað geta vefinn.
Þiðinn eggjastokkur vakinn til lífsins
Þegar konan kemst á breytingaaldurinn er vefurinn þiðinn upp aftur og honum komið fyrir við eða á eggjastokknum sem eftir varð. Að fjórum eða fimm dögum liðnum er vefurinn búinn að mynda nýjar æðar og byrjaður að mynda hormóna.
Skurðlæknar hyggjast hefta breytingaaldurinn
Nákvæmnisskurðlækningar, varfærnisleg frysting ungra eggjastokka og að lokum ný gangsetning á hormónaframleiðslu líkamans – breskir læknar hafa í hyggju að beita nýrri meðhöndlun sem frestað gæti breytingaaldrinum um tuttugu ár.
Skurðlæknir sker hluta af eggjastokk
Skurðlæknirinn klippir um það bil einn til tvo þriðjuhluta af eggjastokk ungrar konu með notkun einnar eða fleiri kviðsjáa en um er að ræða tæki sem útbúið er með ljósi, myndavél eða klippum.
Sneiðar af vef eru frystar varfærnislega
Vefurinn sem var fjarlægður er skorinn í sneiðar og frystur. Frystingin verður að eiga sér stað hægt og nauðsynlegt er að baða vefinn í efnum á borð við DMSO sem koma í veg fyrir myndun stórra ískristalla sem skaddað geta vefinn.
Þiðinn eggjastokkur vakinn til lífsins
Þegar konan kemst á breytingaaldurinn er vefurinn þiðinn upp aftur og honum komið fyrir við eða á eggjastokknum sem eftir varð. Að fjórum eða fimm dögum liðnum er vefurinn búinn að mynda nýjar æðar og byrjaður að mynda hormóna.
Einn læknanna að baki nýju meðhöndluninni heitir Simon Fishel en hann var einn þeirra sem olli straumhvörfum á sviði frjósemisaðgerða á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.
Fishel batt miklar vonir við skurðaðgerðina en leggur þó áherslu á að niðurstaðan ráðist að miklu leyti af aldri konunnar þegar fyrri aðgerðin er gerð.
Hafi hún verið um fertugt ættu læknar að geta frestað tíðahvörfum um á að giska fimm ár. Hafi konan hins vegar einungis verið 25 ára að aldri, mætti fresta tíðahvörfum um 20 ára og þau ættu þá fyrst að gera vart fyrst við sig þegar konan er um sjötugt.
Í nýrri tegund meðhöndlunar er ætlunin að frysta vef úr eggjastokkunum í nítrógenfrysti áratugum saman.
Hvort aðgerðin ber árangur verður óvíst næstu áratugina en þó er mjög sennilegt að hún eigi eftir að gefa góða raun. Slíkum aðgerðum hefur nefnilega verið beitt um langa hríð í öðrum tilgangi.
Þegar konur undirgangast krabbameinsmeðferð er nefnilega hætt við að eggjastokkar þeirra skaddist og þessar konur hafa því tök á að láta fjarlægja hluta af eggjastokknum áður en aðgerðin er gerð, frysta þann hluta sem fjarlægður var og græða hann aftur í að meðferðinni lokinni.
Í rannsókn sem gerð var árið 2017 tókst að sýna fram á að minnst 80 börn hefðu orðið til í eggjum sem mynduð voru í eggjastokksvef sem græddur hafði verið í konu með þessu móti.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að vefurinn kann að verða algerlega nýtilegur aftur þrátt fyrir að hafa verið skorinn í burtu og frystur.
Blóð gangsetur eggjastokkana aftur
Skurðaðgerð, líkt og hér hefur verið lýst, gefur góða raun en gagnast þó ekki konum sem þegar eru komnar á breytingaaldurinn. Gleðilegu tíðindin eru þau að grískir vísindamenn leita nú lausna á þessum vanda.
Þeir hafa meðhöndlað þrjár konur sem þjást af því sem kallast blóðflöguríkur blóðvökvi. Konurnar sem um ræðir höfðu ekki haft á klæðum í rösklega eitt ár, annað hvort af völdum tíðahvarfa eða vegna snemmbærar öldrunar eggjastokka og höfðu fyrir bragðið ekki getað eignast börn.
Blóðflöguríki blóðvökvinn er úr blóði kvennanna sjálfra en raunar er búið að fjarlægja hvítu og rauðu blóðkornin.
Eftir stendur þá hátt hlutfall blóðflagna sem geta gefið frá sér vaxtarþætti sem að öllu jöfnu eiga þátt í m.a. myndun nýrra æða, endurmyndun vefs og hafa eftirlit með þroska stofnfrumna.
Blóðvökvanum er sprautað inn í eggjastokka konunnar og meðferðin virðist hrinda af stað framleiðslu kynhormóna með þeim afleiðingum að allar konurnar þrjár hafa orðið ófrískar síðan.
Tilraunin er of smá í sniðum til að draga megi skýrar ályktanir og margir vísindamenn eru efins um að það hafi í raun verið blóðvökvinn sem stuðlaði að þunguninni.
Þetta vekur þó vonir um að læknum eigi eftir að takast að endurvekja eggjastokkana innan fárra ára, án mikilla erfiðismuna og að fyrirbyggja þannig þá kvilla sem breytingaskeiðið hefur í för með sér.
Þegar fimmtug kona sest þreytuleg á bekk í framtíðinni er þess vegna alls ekki svo víst að hún sé að kljást við hitakóf og eigi í basli með að muna, heldur kann hún einfaldlega að vera komin langt á leið.