Öll erum við að einhverju leyti matvönd þegar við fæðumst. Við erum t.d. gjörn á að vilja ekki það sem er beiskt á bragðið. Þetta er í rauninni einkar skynsamlegur gikksháttur því margt það sem er eitrað á náttúrunni er einmitt beiskt á bragðið.
Á hinn bóginn eru ungabörn oft sólgin í sæta fæðu, sem er afar skiljanlegt því móðurmjólkin er einmitt sæt á bragðið. Börn bregðast oft harkalega við óþekktu bragði.
Þetta þarf ekki endilega að flokkast sem matvendni því börn finna einfaldlega meira bragð og sterkari lykt en við fullorðna fólkið.
Þetta skýrist á þann veg að bragðskyn og þrefskyn dofna með árunum.
Skynfæri þessi eru með öðrum orðum upp á sitt besta í barnæsku. Bragðskynið er háð mörgum þáttum og breytist alla ævina, m.a. sökum hormónabreytinga.
LESTU EINNIG
Fyrir bragðið förum við oft að kunna að meta matvæli á fullorðinsárum sem við vildum ekki sjá sem börn, t.d. ost.
Þá má einnig geta þess að heili okkar er þannig úr garði gerður að hann tengir slæma lífsreynslu oft við fæðuna sem við innbyrtum rétt áður.
Hugsum okkur einhvern sem fótbrotnar andartaki eftir að hafa borðað tiltekna köku. Í slíkum tilvikum er hætt við að viðkomandi eigi eftir að forðast þessa tilteknu kökutegund svo árum skiptir.
Bragðskynjun er flókið fyrirbæri. Þar sameinast bragðskynjun úr bragðlaukunum á tungunni, lyktin af fæðunni, svo og áferð hennar, auk þess sem bragðupplifunin er í mörgum tilvikum menningarlegs eðlis.
Matvendni barna er oft tengd skoðunum foreldranna á mat og máltíðum. Rannsóknir benda jafnframt til þess að börn venjist því að snæða fjölbreytta fæðu ef móðir borðar margvíslegar fæðutegundir á meðgöngunni.