Ólst þú upp við fulla athygli foreldra þinna? Þá er hugsanlegt að heili þinn sé öðruvísi en annarra.
Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem unnin var í Kína, þar sem vísindamenn báru heilasneiðmyndir þeirra sem eiga systkini saman við heilasneiðmyndir einkabarna.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að systkinaleysi hefur áhrif á skapgerð okkar, svo og þróun heilans.
Heilinn lítur öðruvísi út
Vísindamennirnir rannsökuðu alls 303 kínverska háskólanema, bæði með vitrænum prófunum, svo og á heilasneiðmyndum. Helmingur þátttakendanna voru einkabörn og hinn helmingurinn átti systkini.
Rannsóknirnar leiddu í ljós mismikið magn af gráa efninu, þar sem kjarna heilafrumnanna er að finna, í hópunum tveimur.
Sem dæmi má nefna að einkabörn voru með meira af gráa efninu í því svæði heilans sem tengist tungumálaskilningi og skapandi hugsun.
Hins vegar var minna grátt efni á þeim stöðum sem tengjast tilfinningum og félagslegri getu.
Einkabörn eru meira skapandi
Í vitrænu prófununum fengu einkabörnin einnig hærri einkunn í „sveigjanlegri hugsun“ sem m.a. segir til um sköpunargáfu. Þau hin sömu fengu hins vegar lakari einkunn í „vinsemd“.
Vísindamenn vita enn ekki fyrir víst hvað veldur. Þeir geta sér þó til um að ástæðan sé sú að foreldrar einkabarna hafi haft meiri tíma til að örva sköpunargáfu barna sinna og að börnin hafi jafnframt leikið sér meira ein.
Þó svo að fylgja þurfi niðurstöðunum eftir með frekari rannsóknum gefa þær engu að síður til kynna að tengslin á milli stöðu okkar í fjölskyldunni og þroska heilans séu sterkari en við áður höfðum talið.