Lifandi Saga

Fyrstu skátarnir: Vaskir drengir leiddu Breta til sigurs

Árið 1899 kom það í hlut ofurstans Róberts Baden-Powells að verja suðurafrísku borgina Mafeking gegn Búum sem herjuðu á borgina. Hann hafði yfir langtum færri hermönnum að ráða en honum hugkvæmdist samt að beita hugvitssamlegum brögðum og hópi drengja til að fá áorkað hinu ómögulega.

BIRT: 12/04/2023

Breski ofurstinn Baden-Powell sat makindalega í heimatilbúnum aðalbækistöðvum sínum á efstu hæð Dixon hótelsins. Þaðan sást yfir alla litlu borgina Mafeking í Suður-Afríku en þegar þarna var komið sögu, árið 1899, bjuggu þar rétt rúmlega eitt þúsund landnemar frá Evrópu.

 

Útsýnið var ekki beinlínis uppörvandi. Fyrir utan hótelið, sjúkrahúsið og járnbrautarstöðina var í bænum að finna lítil hús með blikkþökum, nokkur tré á stangli og ógrynnin öll af sandi og ryki. Enn verra var þó ástandið í fátækrahverfinu en þar bjuggu um 7.000 innfæddir Afríkubúar í leirkofum sínum.

 

Heiti bæjarins, Mafeking, táknar „staður úr steini“ á tungumáli heimamanna, „tswana“ og engan skyldi undra nafngiftina. Bærinn var hrjóstrugur og umkringdur Kalahari-eyðimörkinni á alla vegu.

 

Baden-Powell hafði engu að síður bitið það í sig að verja þennan vesæla stað með her sínum sem taldi tæplega 1.200 menn, sama hvað á bjátaði.

Íbúar Mafeking áttu fullt í fangi með að byggja einföld jarð- og viðarskýli meðan á umsátrinu stóð.

Búastríðið hafði þá nýverið brotist út og það kom í hlut ofurstans að halda aftur af Búunum, þannig að þeir kæmust ekki inn í hjarta bresku Kap-nýlendunnar, þar sem nú heitir Suður-Afríka.

 

Mafeking var að finna nærri landamærum Búalýðveldisins Transvaal. Allt í kringum bæinn greindi Baden-Powell kynstrin öll af óvinveittum Búahermönnum. Herstyrkur þeirra taldi 8.000 hermenn og hershöfðingja þeirra, Piet Cronjé, var farið að leiðast þófið. Skotárásirnar hófust 13. október 1899 og Cronjé gerði því skóna að ná þessum litla bæ á sitt vald innan örfárra tíma.

 

Baden-Powell hafði hins vegar í mörgu að snúast inni í bænum. Breski ofurstinn hafði sett á laggirnar hersveit sem samanstóð af drengjunum í bænum, öllum á aldrinum 11 til 15 ára sem á nokkrum dögum höfðu aðstoðað við að útbúa loftvarnarbyrgi þar sem bæjarbúar kæmust í skjól undan skotárásunum. Drengirnir höfðu jafnframt reist falskan varnargarð með gervifallbyssum og tveimur háum fánastöngum sem stórskotalið Búanna nú beindist að.

 

Drengirnir fylgdust stöðugt með hreyfingum óvinarins, á meðan byssuskotin hvinu í eyrum þeirra og þegar fallbyssur Búanna komu í augsýn hringdu þeir bjöllu til að vara íbúana í Mafeking við, svo og hermennina.

„Um hvaða blóðsúthellingar ert þú að tala? Fram til þessa höfum við einungis misst eina hænu og sitjum uppi með særðan asna“.

Baden-Powell til Piet Cronjé hershöfðingja.

Eftir margra klukkustunda skotárásir birtist útsendari Búahershöfðingjans við bæjarmörkin, haldandi á hvítum fána.

 

„Gefstu upp núna til að koma í veg fyrir frekari blóðsúthellingar“, mælti Búinn.

 

Baden-Powell brosti og svaraði kuldalega:

 

„Um hvaða blóðsúthellingar ert þú að tala? Fram til þessa höfum við einungis misst eina hænu og sitjum uppi með særðan asna“.

 

Þegar Cronjé var flutt áhyggjulaust svar Baden-Powells varð hann furðu lostinn. Búarnir höfðu þegar þarna var komið sögu enn ekki gert sér grein fyrir að þeir ættu við alveg einstakan breskan herhöfðingja að etja. Baden-Powell hafði varið löngum starfsferli sínum í að úthugsa djarflegar hugdettur og skyndilegar neyðarlausnir sem gátu bjargað honum út úr verstu hremmingum.

 

Meðan á sjö mánaða löngu fyrirsátrinu um Mafeking stóð hafði hann þörf fyrir hvaðeina sem hann gat notað en mikilvægasti hlekkurinn í vörnum hans var þó sennilega nýskipuð sveit vaskra drengja. Þeir spjöruðu sig vel og urðu honum hvatning til að setja á laggirnar skátahreyfinguna um gjörvallan heim.

Svonefnd ungliðasveit Baden-Powells samanstóð af 24 drengjum á aldrinum 11-15 ára. Eftir umsátrið fékk hver einasti þeirra orðu fyrir framlag sitt í umsátrinu.

Útilífið hafði vinninginn umfram skóla

Róbert Baden-Powell ólst upp í fjölskyldu menntamanna en faðir hans var prófessor í náttúruvísindum við háskólann í Oxford. Hann lést raunar þegar Róbert litli var aðeins þriggja ára gamall og brátt kom í ljós að drengurinn líktist föður sínum ekki vitund. Árið 1870 hóf Róbert nám við Charterhouse School, einn fínasta heimavistarskóla Englands, þá 13 ára að aldri en þess ber strax að geta að aðfinnslur kennara hans áttu sér engin mörk.

 

„Svaf allan frönskutímann“, „hefur engan áhuga á vísindum“ og „hefur enga löngun til að læra stærðfræði“. Þannig hljóðuðu m.a. athugasemdirnar í einkunnabók drengsins.

Baden-Powell var góður reiðmaður og gekk til liðs við riddaraliðið á Indlandi aðeins 19 ára gamall.

Helstu áhugamál Róberts meðan á skólagöngu hans stóð voru teikning og leiklist og þegar svo skólinn flutti í nýjar byggingar suður af London árið 1872 gafst drengnum tækifæri til að leggja stund á aðaláhugamál sitt sem var útivist.

 

Nýju skólabyggingarnar voru umgirtar skógum og Róbert ráfaði um úti í náttúrunni þar sem hann rakti fótspor dýranna. Hann æfðist jafnframt vel í að fela sig, því skólapiltunum var bannað að fara út í skóginn.

 

Baden-Powell vildi komast út fyrir hússins dyr og upplifa náttúruna og þegar skólagöngu hans lauk ákvað hann að skrá sig í breska herinn, þá 19 ára gamall. Ekki leið á löngu áður en hann var sendur til bresku nýlendunnar á Indlandi en eftir níu mánaða dvöl þar var hann svo illa haldinn af niðurgangi og meltingartruflunum að hann neyddist til að snúa aftur heim til Englands. Róbert hafði hins vegar öðlast mikinn áhuga á ferðalögum og næstu 30 árum varði hann í að ferðast til allra afkima breska heimsveldisins.

LESTU EINNIG

Njósnari á fiðrildaveiðum

Næstu árin eftir þetta var Baden-Powell skipaður til starfa á Möltu, Indlandi, í Afganistan og Afríku. Hann var einkum notaður sem landkönnuður og njósnari og var þekktur fyrir sjálfstæð vinnubrögð. Á þeim þremur árum sem hann starfaði á Möltu ferðaðist hann sem trúboði til Alsír og Dalmatíu (þar sem nú heitir Króatía) sem í þá daga var hluti af Austurríki-Ungverjalandi.

 

Í Dalmatíu lést Baden-Powell vera skordýrafræðingur á fiðrildaveiðum en í raun og veru stundaði hann njósnir á austurrísk-ungversku strandvirkjunum úti við Adríahaf. Hann faldi athugasemdir sínar í teikningum af fiðrildum til þess að athuganir hans fyndust ekki ef leitað yrði á honum. Ef marka má Baden-Powell sjálfan voru þó ekki margir sem „grunuðu þennan hálfklikkaða Englending sem eltist við skordýr, um neitt misjafnt“.

 

Óhefðbundnar aðferðir Baden-Powells vöktu hins vegar athygli meðal háttsettra hermanna á Bretlandseyjum og vorið 1894 barst honum skeyti frá æðsta manni hersins, Wolseley lávarði.

 

„Þú hefur verið valinn til að gegna herþjónustu í baráttunni um Ashanti-konungsríkið“, stóð í herkvaðningunni.

Þegar Baden-Powell stundaði njósnir í Króatíu þóttist hann vera að teikna fiðrildi á meðan hann í raun gerði uppdrætti af varnarvirkjunum.

Undir lok 19. aldar hafði breska heimsveldið vaxið gífurlega en hafa ber í huga að ekki voru öll lönd áfjáð í að verða nýlendur.

 

Ashanti-konungsríkið í miðju Gana streittist til dæmis lengi á móti. Hermennirnir réðust á landnemana á Gullströndinni og lokuðu helstu verslunarleiðum Breta gegnum konungsríkið. Þetta gátu Bretar að sjálfsögðu engan veginn sætt sig við og Baden-Powell var valinn til þess að koma hinum harðsvíraða konungi Asantehene Agyeman Prempeh frá völdum.

 

Baden-Powell safnaði í kringum sig þúsund manna herliði frá hinum ólíku afrísku ættbálkum og leiddi þá gegnum þéttvaxinn frumskóginn þar sem þeim var ætlað að byggja brú yfir ána Prah sem rann milli höfuðborgarinnar í Ashanti, Kumasi og Gullstrandarinnar.

 

Leiðangurinn tókst vonum framar. Bresku hermennirnir í Afríku létust í hrönnum af völdum sjúkdóma en Baden-Powell missti ekki einn einasta af innfæddum hermönnum sínum. Brúin átti eftir að marka endalok konungsins í Ashanti sem gafst upp án þess að grípa til vopna. Baden-Powell líkuðu þessi endalok ekki en hann ritaði í dagbók sína:

 

„Æ, æ. Nú er útlit fyrir að allt okkar framtak endi bara með friðsamlegri lausn“.

Búar áttu rætur að rekja til svokallaðra farandsbúa, þ.e. hollenskra flakkara sem yfirgefið höfðu borgirnar meðfram ströndum Suður-Afríku í því skyni að leita lengra inn í land.

Bretar sóttust eftir gulli Búanna

Árið 1881 lutu Bretar í lægra haldi í fyrra stríðinu gegn Búum í Suður-Afríku. Þeir settu á stofn eigið ríki og fundu skömmu síðar gríðarlega stóra gullæð. Eftir þennan gullfund fóru Bretar að undirbúa nýtt stríð.

 

Árið 1886 fannst í klettum í Transvaal meira gull en fundist hafði nokkru sinni fyrr. Þegar þarna var komið sögu réði breska heimsveldið yfir mest allri Suður-Afríku en ríkin Transvaal og Oranje voru sjálfstæð lýðveldi sem lutu stjórn hollenskra landnema, svokallaðra Búa.

 

Bretar flykktust til Transvaal þúsundum saman í því skyni að taka þátt í að vinna gullið og borgin Jóhannesarborg svo að segja spratt upp úr jörðinni á nokkrum dögum. Búarnir óttuðust hins vegar að þeir yrðu brátt í minnihluta í eigin ríki og beittu aðkomufólkið aðhaldsaðgerðum og settu á háar álögur.

 

Bretum fannst þeir beittir órétti og kröfðust þess að hömlunum yrði aflétt. Samskipti landanna tveggja versnuðu til muna eftir að Bretar gerðu misheppnaða tilraun til að ná Jóhannesarborg á sitt vald árið 1895.

 

Bretar neituðu þó alfarið að gefa upp tilraunir sínar til að komast yfir gull Búanna. Átökin jukust næstu fjögur árin og að lokum braust svo Búastríðið út hinn 11. október 1899.

Indíánaaðferðir heilluðu

Baden-Powell sem var fertugur þegar þarna var komið sögu, var hækkaður í tign eftir velgengnina í Ashanti, gerður að ofursta og því næst sendur til Matabelelands í Simbabve. Þar átti hann í nánu samstarfi við hinn ratvísa Bandaríkjamann Frederick Russell Burnham sem gegndi herþjónustu í breska hernum.

 

Burnham hafði alist upp í indíánafriðlandi í fylkinu Missouri, þar sem hann kynntist drengjum af sioux-ættflokknum og lærði af þeim að rekja slóð.

 

Baden-Powell hreifst verulega af Burnham sem hann lýsti „ekki óáþekkum Buffalo Bill – bara fágaðri“. Bandaríkjamaðurinn uppfræddi hinn breska vin sinn um lífshætti indíánanna og ekki hvað síst hvernig þeir komust af aleinir úti í auðninni án landakorts eða áttavita.

Baden-Powell var heillaður af indíánum og lifnaðarháttum þeirra, sem veitti skátahreyfingu hans innblástur.

Njósnarar og ratvísir menn á borð við Baden-Powell og Burnham voru mikilvægir breska hernum í öllu ógrynninu af nýlendum heimsveldisins, þar sem frumskógar og auðnir ollu því að ógerlegt reyndist að stunda hefðbundinn hernað.

 

Skátahreyfing fyrir börn hafði enn ekki litið dagsins ljós en fyrstu hugmyndirnar létu á sér kræla í samtölum þeirra Burnhams og Baden-Powells. Það var Burnham sem kynnti Stetson-hattinn fyrir Baden-Powell og þríhyrnda klútinn sem m.a. veitti vörn gegn sólsting en þessar tvær flíkur áttu seinna eftir að verða ófrávíkjanlegur hluti af einkennisbúningi skáta.

Eftir bardagann við Magersfontein árið 1899 skrifaði hershöfðinginn Piet Cronjé Búaforsetanum Paul Kruger: „Sigur vor er guði að þakka en einnig Norðurlandabúunum“.

Norðurlandabúar börðust við hlið Búa

170 norrænir gullgrafarar gengu til liðs við Búana og börðust með þeim gegn Bretum, þar sem þeir vöktu athygli fyrir dauðafyrirlitningu.

 

Þegar Búastríðið braust út árið 1899 settu 170 Norðurlandabúar saman hersveit sem barðist með Búunum. Sveit þessi vann mikla hetjudáð í bardaganum um Mafeking þar sem norrænu hermennirnir m.a. hreinsuðu jarðsprengjusvæði. Að umsátrinu loknu lýsti Baden-Powell því yfir að bardagaglöðustu hermennirnir í hópi Búa hafi verið Norðurlandabúar.

 

Sveit þessi lét jafnframt til sín taka í bardaganum við Magersfontein, þar sem Búahershöfðinginn Piet Cronjé skipaði 52 Norðurlandabúa í framvarðasveitina. Þegar svo Cronjé áttaði sig á að breskir hermenn væru á leiðinni skipaði hann framvarðasveitinni að snúa aftur en skipunin barst aldrei alla leið.

 

Norðurlandabúarnir 52 léku Bretana grátt. Bresku hermennirnir urðu að komast áfram og samkvæmt heimildum danska undirlautinantsins William Bærentzen lögðust Norðurlandabúarnir niður og „skutu í mark“. Þegar sveitin hafði unnið sitt verk voru aðeins sjö hermenn eftir sem ekki höfðu farist eða særst illa.

 

Þessi dirfskulega vörn seinkaði Bretum að svo miklu leyti að þeir lutu í lægra haldi í bardaganum við Magersfontein og neyddust til að hörfa.

Drengjasveit aðstoðaði gegn Búunum

Baden-Powell var orðinn vanur því að vera sendur á vígvelli heimsveldisins og sumarið 1899 var hann svo kominn til Suður-Afríku þar sem í uppsiglingu var stríð gegn Búum í nýlendunum Transvaal og Oranje.

 

Búar voru upprunalega hollenskir landnemar sem höfðu losað sig undan yfirráðum Breta eftir fyrra Búastríðið (1880-1881). Eftir gullfundinn mikla árið 1884 fóru margir að ásælast landsvæðið og nú var einungis tímaspursmál hvenær stríð brytist út.

 

Þetta gerðist hinn 11. október 1899 og Baden-Powell var fyrirskipað að halda til litla bæjarins Mafeking og verja lestarkerfið á staðnum. Án falls Mafeking gátu Búarnir ekki sótt fram gegn bresku nýlendunum og Kap-nýlendunni (þar sem í dag heitir Suður-Afríka) né heldur gegn Ródesíu (Sambía og Simbabve).

 

Í raun og veru var sveit Baden-Powells í Mafeking miklu fámennari en sveitir andstæðingsins. Bærinn var staðsettur nærri landamærunum að Transvaal og ekki leið á löngu áður en Búar höfðu umkringt bæinn. Hins vegar ræðst útkoma bardaga ekki ávallt af fjölda hermanna og Baden-Powell var þess fullviss að hann gæti beitt óhefðbundnum aðferðum sínum og leiklistarhæfileikum sem hann hafði ræktað í heimavistarskólanum, til að halda aftur af Búum.

Ekki aðeins hjálpuðu breskir drengir til í umsátrinu, konur Mafekings börðust einnig gegn Búunum.

Það fyrsta sem honum hugkvæmdist var að hann hefði þörf fyrir aukinn liðsstyrk og Baden-Powell sem var minnugur þess hversu vel gekk að kalla innfædda til herþjónustu, setti á laggirnar 200 manna herdeild sem samanstóð af mönnum úr borginni en deildina kallaði hann „svörtu verðina“.

 

Þá stofnaði hann jafnframt hersveit ungra drengja undir stjórn 13 ára gamals drengs að nafni Warner Goodyear. Herliðið nefndi hann ungliðasveitina og voru liðsmenn hennar 64 drengir úr bænum. Drengirnir klæddust léreftsstuttbuxum og gengu með Stetson-hatta áður en þeir fóru að aðstoða við að styrkja varnarvirki bæjarins, njósna um óvininn og sendast með skilaboð á reiðhjólum. Framlag ungliðasveitarinnar gaf fullorðnu hermönnunum tækifæri til að einbeita sér að vörnum bæjarins.

 

Ungliðasveitin stóð sig með miklum ágætum og ekki hvað síst fyrir þær sakir að Baden-Powell kom ekki fram við liðsmennina sem börn heldur treysti því að þeir sjálfir gætu tekið réttar ákvarðanir meðan á umsátrinu stóð. Þegar ein skotárásin var gerð mælti Baden-Powell við einn unga hjólasendilinn sinn:

 

„Þú verður fyrir skoti ef þú ætlar að halda áfram að hjóla um allt á meðan skothríðin varir!“ Drengurinn svaraði kokhraustur: „Ég hjóla svo hratt að skotin munu aldrei hæfa mig“.

 

Það að láta drengina bera ábyrgð varð síðar meir einn af hornsteinum skátahreyfingarinnar. Líkt og Baden-Powell ritaði í metsölubók sína, „Scouting for Boys“ sem kom út árið 1908: „Því meiri ábyrgð sem skátaforinginn lætur flokksforingjana axla, þeim mun virkari verða þeir“.

Baden-Powell sagði ungum skátum oft skondnar sögur af umsátrinu um Mafeking.

Óvinurinn var gabbaður með skátabrögðum

Baden-Powell og 1.200 manna her hans voru langtum færri en óvinurinn meðan á umsátrinu um Mafeking stóð. Ofurstinn snarráði gabbaði Búana hins vegar með ýmsum kænskubrögðum skátanna.

Gjallarhorn hræddi óvininn

Baden-Powell notaðist við gjallarhorn úr málmi til að eiga samskipti við sína menn sem voru í nokkurri fjarlægð. Gjallarhornin mátti hins vegar einnig nota til að skjóta óvininum skelk í bringu. Að nóttu til laumaðist hann upp úr skotgröfunum og hrópaði í gjallarhornin þannig að óvinurinn hélt að árás væri í nánd.

Brúður vöktu athygli

Ein hugvitsamlegasta hugmynd Baden-Powells fólst í að útbúa brúður sem gátu hreyft höfuðið með aðstoð hreyfibúnaðar og lyft sjónauka upp að augunum. Brúður þessar gerðu það að verkum að Búarnir töldu sig vera undir stöðugu eftirliti.

Gervijarðsprengjur héldu óvininum undan

Baden-Powell kom fyrir jarðsprengjum fyrir utan borgina til að hræða Búana. Bretinn sá jafnframt til þess að íbúarnir fréttu af fjölda sprengjanna. Engin leið var fyrir þá að vita að tveir þriðju þeirra voru ekkert annað en eftirlíkingar.

Ósýnilegur gaddavír narraði Búana

Ekki leið á löngu áður en allur gaddavír fyrir skotgrafirnar var uppurinn í Mafeking en Baden-Powell komst að raun um að gaddavír sést ekki úr fjarska. Hann fyrirskipaði þess vegna hermönnum sínum að reisa staura án gaddavírs og skríða undir ósýnilegan gaddavírinn til þess að Búarnir héldu að svæðið væri vel varið.

Snilldarleg aðferð „fjölgaði“ vopnunum

Vopn voru af skornum skammti í Mafeking og fyrir bragðið sá Baden-Powell til þess að þau gengju manna á milli. Þegar einn hermaður hafði skotið úr sinni byssu gekk hún áfram til næsta hermanns. Þetta fékk Búana til að halda að Bretarnir væru gráir fyrir járnum.

Dagblöðin dýrkuðu Baden-Powell

Gegn Baden-Powell var svo Búahershöfðinginn Piet Cronjé sem hafði fengið þá fyrirskipun að hann mætti alls ekki missa meira en 50 menn í árásinni á bæinn. Búarnir bjuggust við að Mafeking myndi falla þeim í hendur fljótt en vissu að sama skapi að breski herinn þoldi miklu meira niðurlag en hinn fámenni her þeirra sjálfra.

 

Fyrir vikið þorði Cronjé ekki að gera áhlaup á borgina. Þess í stað reyndi hann að veikja varnir andstæðingsins með stöðugum skotárásum en stórskotalið Búanna var fábrotið og lélegt auk þess sem margar sprengjukúlur þeirra sprungu aldrei. Baden-Powell hafði breytt borginni í eitt allsherjar virki og sett á laggirnar aðvörunarkerfi sem fór í gang þegar sprengjuárás vofði yfir.

Líkt og drengjasveitin fylgdust Afríkumenn í "The Black Corps" með því þegar fallbyssur Búa fóru af stað. Þeir hringdu þá bjöllu svo íbúarnir kæmust í öryggi.

Breski ofurstinn var ekki sáttur við að þurfa að liggja í felum. Af og til lét hann hermenn sína gera leifturárásir sem höfðu þann tilgang að koma höggstað á grunlausa Búana. Árangursríkustu árásirnar voru gerðar með lítilli eimreið sem ók á borgarteinunum og gat dregið tvo vopnum hlaðna vagna inn á umráðasvæði Búanna.

 

Fyrsta árásin með aðstoð lestarinnar var gerð hinn 14. október 1899 og kom hún Búum algerlega í opna skjöldu. Þeir skutu í átt að lestarvögnunum en skotin þeyttust aftur til baka eftir að hafa lent á stálplötum lestarinnar. Meðan á þessu stóð skutu Bretarnir úr vélbyssum og að 20 mínútum liðnum var hrjóstrug jörðin þakin líkum og særðum mönnum en talið er að 55 menn hafi látið lífið og margir til viðbótar særst. Aðeins tveir Bretar létu lífið í árásinni.

 

Óhefðbundnar aðferðir Baden-Powells gerðu það gagn sem þeim var ætlað að gera. Búarnir eyddu miklum tíma og gífurlegu magni skotfæra í að skjóta á gervihermenn Bretanna og einnig gervivirkin en drengjasveitin gerði það að verkum að hann var ávallt einu skrefi á undan óvininum.

Brynvarin lest var mikilvægt vopn í styrjöld þar sem mikill skortur var á fallbyssum.

Búarnir breyttu um stefnu að nokkrum mánuðum liðnum. Þeir höfðu gert ráð fyrir að sultur og sjúkdómar myndu neyða Bretana í Mafeking til að gefast upp. Og það stóð tæpt. Blóðsótt og malaría drógu hundruð til dauða í borginni og svo fór að allur matarforði varð uppurinn og borgarbúar neyddust til að borða hesta og asna bæjarins.

 

Baden-Powell neitaði hins vegar að gefast upp og gerði allt sem hann gat til að halda uppi jákvæðum anda. Hann skemmti hermönnunum með ýmsum leiksýningum sem hann sjálfur lék aðalhlutverkið í, stundum íklæddur kvenmannskjól.

 

Ef marka mátti breska undirliðþjálfann Rose sem einnig barðist í Mafeking, var Baden-Powell „ávallt léttur í lund og glaður og bar þess aldrei merki að vera áhyggjufullur“.

„Umsátrið um Mafeking vekur víða athygli og öll þjóðin fylgist með fréttum með öndina í hálsinum“.

Blaðið The Spectator. 

Breskir fjölmiðlar fylgdust grannt með umsátrinu. Frækileg andspyrnan í Mafeking var í engu samræmi við stríðið í heild sem einkenndist af dapurlegum ósigrum Breta og slæmu umtali á alþjóðavísu.

 

Atburðirnir í Mafeking færðu Bretum loks þær velgengnisfréttir sem þeir þráðu svo heitt. Í enska dagblaðinu The Spectator birtist m.a. eftirfarandi frétt: „Umsátrið um Mafeking vekur víða athygli og öll þjóðin fylgist með fréttum með öndina í hálsinum“.

 

Ekki sakaði að Baden-Powell var snillingur í að lýsa atburðum stríðsins fyrir dagblöðunum sem kepptust um að birta kaldranalegar athugasemdir hans frá vígstöðvunum. Hann sendi m.a. svohljóðandi skreyti til dagblaðanna: „Fjögurra klukkustunda skotárásir. Einn hundur lét lífið“.

 

Hann ýkti staðreyndirnar svo um munaði og sagði t.d. her Búanna samanstanda af alls 12.000 hermönnum, ofhermdi dánarfjölda Búanna og sagði jafnframt ofsögum af hernaðarlegu mikilvægi Mafekings en flestir Búahermenn voru í raun farnir frá borginni og einungis þúsund menn héldu borginni í skefjum.

Baden-Powell var enginn saklaus skátadrengur

Faðir skátahreyfingarinnar var hylltur sem stríðshetja eftir umsátrið í Mafeking en síðar meir hefur komið í ljós að hann hefði getað bætt orðunum „stríðsglæpamaður“ og „misheppnaður“ í ferilskrá sína.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Búar reyndu örvæntingarfulla árás

Vorið 1900 einkenndust aðstæður í Mafeking af örvæntingu. Sjúkdómar og sultur herjuðu, Búarnir færðust sífellt nær og heima í Englandi fór að bera á óánægju vegna takmarkaðs stuðnings við Baden-Powell.

 

Stóra-Bretland gat engan veginn sætt sig við að missa völdin í borginni sem þeir höfðu varið svo hetjulega í ríflega hálft ár. Í maí árið 1900 safnaði yfirmaður suðurafrísku sveitanna, Roberts lávarður, því saman 1.149 hermönnum sem höfðu það hlutverk að frelsa Baden-Powell og menn hans.

 

Búarnir fréttu af liðsaukanum og ákváðu að gera enn eina örvona tilraunina til að ná völdum í Mafeking.

Búar reyndu örvæntingafulla árás á Mafeking áður en bretar komu.

Tæplega 240 hermenn réðust á borgina undir stjórn ungs Búaliðsforingja að nafni Sarel Eloff. Í fyrsta sinn frá því að umsátrið hófst virtust Búar ætla að hafa betur. Þeir kveiktu í kofum og Eloff og menn hans réðust inn í lögreglustöð borgarinnar.

 

Búar gerðu sér aðalbækistöðvar á lögreglustöðinni og börðust í blóðugum götubardögum við Bretana en ósamkomulag milli leiðtoga Búanna gerði það að verkum að þeir bættu ekki við herafla sinn til að styðja við árásina. Búaleiðtogarnir óttuðust að bardaginn væri þegar tapaður og tóku ekki þá áhættu að missa fleiri menn.

 

Þegar Roberts lávarður loks kom á áfangastað með sína 1.149 hermenn neyddist Eloff fyrir vikið til að gefast upp. Fimmtungur manna hans hafði þá látið lífið og enn fleiri voru særðir.

„Hitlersæskan“ var undir sterkum áhrifum skátahreyfingarinnar og útivera var í hávegum höfð, líkt og hjá skátum. Þegar fram liðu stundir fékk starfsemin sífellt hernaðarlegri ásýnd.

Bresk hetja komst á svarta bók nasistanna

Þýska skátahreyfingin var upprætt í stjórnartíð Adolfs Hitlers sem áleit Baden-Powell vera hættulegan mann sem bæri að taka fastan eftir fyrirhugaða innrás í England. Þess má þó geta að skátahöfðinginn hreifst sjálfur af nasisma.

 

Skátahreyfing Baden-Powells öðlaðist fljótt miklar vinsældir í Þýskalandi og voru meðlimir hennar þegar orðnir nokkur hundruð þúsund þegar Adolf Hitler komst til valda árið 1933. Tveimur árum síðar var hreyfingin bönnuð því Hitler óttaðist að hún kynni að ala af sér andnasíska skemmdarverkamenn. Þess í stað voru öll þýsk börn látin ganga til liðs við borgaralegu ungliðahreyfinguna „Hitlersæskuna“ sem minnti um margt á skátahreyfinguna en laut stjórn nasista að öllu leyti.

 

Nasistar fóru fljótt að álíta hinn áttræða Baden-Powell svo hættulegan að hann birtist í svokallaðri svartri bók þeirra en um var að ræða lista yfir 2.820 Breta sem ætlunin var að taka til fanga eftir fyrirhugaða innrás í England.

 

Sjálfur var Baden-Powell alls ekki andsnúinn nasistahreyfingunni. Árið 1939, þ.e. tveimur árum fyrir andlát sitt, ritaði skátahöfðinginn í dagbók sína:

 

„Las ‘Mein Kampf’. Dásamleg bók með góðum hugmyndum er snerta menntun, heilsu, áróður, skipulagningu og fleira“.

 

Þessi hrifning Baden-Powells á Adolf Hitler hefur síðar gert það að verkum að margir hafa krafist þess að stytta af honum í ensku borginni Poole verði fjarlægð.

Skátar náðu tökum í Mafeking

Borgin Mafeking var svo endanlega frelsuð eftir 217 daga umsátur. Þegar fréttirnar bárust til London fylltist þjóðin þjóðernisgorgeir. Þjóðsöngur Breta var kyrjaður á götum úti. Íbúarnir féllust í faðma og menn hentu höttum sínum í loft upp í sigurvímu.

 

Baden-Powell var gerður að þjóðarhetju og honum bárust þúsundir bréfa sem stíluð voru á „hetjuna í Mafeking“.

 

Bretum fór að sama skapi að vegna betur í stríðsrekstrinum öllum. Árið 1902 tókst að brjóta á bak aftur alla andspyrnu Búa og ríkin Transvaal og Oranje voru innlimuð í breska heimsveldið.

London sprakk af fögnuði þegar fréttist af frelsun Mafekings.

Þegar Baden-Powell sneri heim til Englands aftur árið 1903 var honum tjáð að lítið rit sem hann samdi stuttu fyrir umsátrið væri skyndilega orðið metsölubók. Bókin nefnist „Aids to Scouting“ og fjallar um njósnir í stríðsrekstri og var alls ekki ætluð almenningi en allir vildu hins vegar lesa um hinn víðfræga Baden-Powell og snilligáfu hans.

 

Velgengni bókarinnar, ásamt drengjasveitinni sem hann setti á laggirnar meðan á umsátrinu stóð, gáfu honum þá hugmynd að koma vitneskju sinni á framfæri við ungt fólk. Árið 1908 samdi hann bókina „Scouting for Boys“ sem sló samstundis í gegn og seldist í rösklega 150 milljón eintökum.

 

Játvarður 7. Bretakonungur hvatti Baden-Powell til að segja skilið við herinn árið 1910 og helga sig uppbyggingu alheimshreyfingar skáta. Sama ár setti hann á laggirnar skátahreyfingu fyrir stúlkur, ásamt systur sinni Agnesi.

MYNDBAND: Horfðu á Baden-Powell ráða nýja skáta

Næstu árin ferðaðist Baden-Powell um allan heim þar sem hann hélt fyrirlestra um ágæti skátalífsins. Árið 1922 hafði starfandi skátum fjölgað upp í eina milljón iðkenda sem dreifðust á 32 þjóðlönd. Nú á dögum eru meðlimir skátahreyfingarinnar alls 31 milljón í 155 löndum.

 

Baden-Powell fór ekki á eftirlaun fyrr en hann var 79 ára gamall árið 1937 en þá lét hann öðrum eftir leiðtogastarf sitt. Fjórum árum síðar lést hann á heimili sínu í Kenýa. Um 50.000 manns koma að grafreit hans ár hvert og telst staðurinn vera einn vinsælasti pílagrímsstaður heims. Á legsteini hans gefur að líta hring með punkti í miðjunni en um er að ræða alþjóðlegt skátatákn sem útleggst: „Ég er snúinn heim“.

Lesið meira um Róbert Baden-Powell

  • Edward M. Spiers: Letters from Mafeking, Frontline Books, 2019

 

  • Tim Jeal: Baden-Powell, Hutchinson, 1989

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN , BUE KINDTER-NIELSEN

The Print Collector/Imageselect & Bridgeman Art Library/Ritzau Scanpix. © Wellcome Images. © Mary Evans Picture Library/Ritzau Scanpix. © Britishempire.co.uk. © Project Gutenberg. © Photos Redux – Colourising History. © Fox Photos/Stringer/Getty Images. © Vuosisatamme kuvissa. © Granger/Imageselect. © Central Press/Stringer/Getty Images. © Shutterstock. © Hall/Bridgeman Art Library/Ritzau Scanpix. © Popperfoto/Getty Images. © Library of Congress. © Historia/Shutterstock/Ritzau Scanpix & Shutterstock. © Paget/Bridgeman Art Library/Ritzau Scanpix. © LIFE Photo Archive. © Internet Archive Book Images. © Meinhard Fenske. © World Image Archive/Imageselect.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

Náttúran

Greind í heimi dýranna

Alheimurinn

Hér eru sannanirnar fyrir Miklahvelli

Náttúran

Nýfundin risaeðla með furðu smáa framlimi

Lifandi Saga

Veislubúningar varðmanna Nixons aðhlátursefni

Náttúran

Hvað eru doppleráhrif?

Spurningar og svör

Af hverju eru sítrónur súrar?

Maðurinn

Hvernig framleiðir líkaminn orku úr fæðunni?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.