Látum fornminjar liggja. Alltaf. Jafnvel þótt aðeins sé um leirbrot að ræða. Svona hlýtur kenningin að hljóma eftir frekar harðan dóm.
Hinn 66 ára breski Jim Fitton var á ferðalagi um Írak þar sem þessi jarðfræðingur á eftirlaunum tók þátt í skoðunarferð um hina fornu borg Eridu. Fararstjórinn á að hafa sagt honum að það væri í lagi að hafa með sér nokkur leirbrot sem minjagripi. Og það var einmitt það sem Bretinn gerði.
Þeirri ákvörðun sér Fitton eftir í dag. Þegar hann var á leið heim nokkrum dögum síðar fundu tollverðir leirbrotin í farangri hans og var hann samstundis handtekinn. Eftir tíu vikur á bak við lás og slá var mál hans tekið fyrir við dómstólinn í Bagdad.
Vegna eldri laga frá tímum Saddams Husseins átti breski eftirlaunaþeginn það á hættu að vera dæmdur til dauða, sem varð til þess að fjölskylda hans í Englandi biðlaði til dómstólsins:
„Jim hefur oft tekið litla minjagripi með sér heim frá ferðum sínum – til að minnast ferðarinnar og deila upplifun sinni með okkur. Fyrir honum var það í raun ekkert öðruvísi en að koma með lítinn stein af ströndinni til að minnast fjölskylduferðalags,“ útskýrði tengdasonur Fitton.

Bretinn safnaði leirbrotunum í skoðunarferð um hina fornu borg Eridu. Rústir hinnar 7.400 ára gömlu borgar eru staðsettar við Efrat ána í suðurhluta Íraks.
Dómnum áfrýjað
Dómstóllinn í Bagdad gaf ekki mikið fyrir þessa skýringu og dæmdi Fitton í 15 ára fangelsi.
„Skjólstæðingur minn á ekki skilið þessa refsingu. Fornmunirnir sem fundust hjá honum voru steinar og leirbrot og hafa ekkert fornleifafræðilegt gildi,“ útskýrir írakski lögfræðingur Fitton, sem mun áfrýja dómnum.