Milljónir manna í grennd við flugvelli verða fyrir óþægindum af völdum hávaða. En nú hafa vísindamenn við Bathháskóla í Englandi fundið upp nýtt einangrunarefni sem getur dregið mikið úr hávaða frá þotuhreyflum.
Efnið GPA (Grafenoxíð-polyvinylalkóhól-aerogel) vegur ekki nema 2,1 kg á rúmmetra og er þar með léttasta einangrun sem þekkist.
Mælingar vísindamannanna sýna að á hljóðtíðnisviðinu 400-2.500 rið dregur GPA úr hávaða um 80% og ef efnið er notað til einangrunar í hreyfilhúsunum undir vængjunum má lækka hávaða frá hreyflunum um 16 dB.
Þetta þýðir að hávaðinn frá hreyflum hljóðfrárrar þotu getur farið úr 105 dB í aðeins 90 dB sem samsvarar hávaðanum í hárþurrku. Einangrunin í kringum hvern hreyfil verður aðeins fáein kg að þyngd.
Nýja hljóðdempandi efnið vegur aðeins 2 kg hvert á hvern rúmmetra Steinull vegur ca. 30 kg á rúmmetra.
Efnið grafín var fyrst framleitt árið 2004 og er bæði óhemju sterkt og fislétt. Efnið er gert úr hreinu kolefni, aðeins einnar frumeindar þykkt en frumeindirnar tengjast með því að deila rafeindum.
Í GPA er grafínoxíð þeytt saman við polyvinylalkóhól, efni sem notað er til húðunar á pappír og plasti og veitir eins konar marengsáferð.
LESTU EINNIG
GPA er þó nokkuð flókið í framleiðslu og því dýrara en hefðbundin einangrunarefni svo sem steinull eða glertrefjar. Til að byrja með má þess vegna reikna með að það verði aðeins notað í flugvélum en þar skiptir verðið minna máli en þyngdin.
Síðar meir gæti efnið komið til notkunar í t.d. bílum þar sem það gæti komið í veg fyrir að dekkjahljóðið heyrðist inn í bílinn. Sömuleiðis mætti nota GPA í byggingar þar sem annað hvort þarf að halda hljóði úti eða inni.
Vísindamennirnir vonast til að efnið verði komið á markað innan tveggja ára.