Gyllinæð eru bólgnar bláæðar sem eru staðsettar rétt innan eða utan endaþarmsopsins. Gyllinæð er skaðlaus en getur verið mjög óþægileg og valdið einkennum eins og blæðingum, sviða, kláða og verkjum.
Bólgurnar stafa oft af of miklum þrýstingi við hægðalosun en geta líka stafað af auknum þrýstingi á kviðarholið. Þess vegna eru barnshafandi konur og offitusjúklingar í áhættuhópum.
Langvarandi og mikil líkamleg vinna getur einnig aukið hættuna og í sjaldgæfari tilfellum geta skorpulifur, stækkaður blöðruhálskirtill og æxli í endaþarmi haft áhrif.
Almennt veldur gyllinæð mestum sársauka ef hún er staðsett utan endaþarmsopsins.
Þrjú afbrigði gyllinæðar
Allar tegundir gyllinæðar geta valdið óþægilegum blæðingum en það ræðst af því hvar hún er staðsett hversu sársaukafull hún er.
1. Sýnileg og óþægileg
Ytri gyllinæð sem er fyrir utan endaþarmsopið er eins og litlir viðkvæmir pokar eða bunga. Það getur oft verið erfitt að halda svæðinu hreinu.
2. Falin og sársaukalaus
Innri gyllinæð er æðahnútar sem myndast á æðum í efri hluta endaþarms. Svæðið hefur enga verkjaviðtaka og veldur því ekki sársauka.
3. Sýnileg og sárt
Svokölluð sigin gyllinæð er innri gyllinæð sem hefur vaxið utan þarmaopsins. Þegar hringvöðvinn kreistist utan um hana getur það valdið miklum sársauka.
Meðferð á gyllinæð fer eftir einkennum. Í alvarlegum tilfellum er hægt að fjarlægja gyllinæð með skurðaðgerð. Að öðrum kosti getur læknirinn smeygt gúmmiteygju utan um æðahnútinn þannig að hann visnar og dettur af.
Í langflestum tilfellum er þó nóg að fjarlægja orsök gyllinæðar – þ.e. forðast hægðatregðu, þannig að ekki sé nauðsynlegt að rembast mikið á meðan á hægðum stendur. Því er gott að neyta mikils vökva og fá nóg af trefjum. Eins skiptir hreyfing miklu máli.