Lifandi Saga

Kursk kafbátaslysið

Í djúpi Barentshafs eru 118 menn innilokaðir um borð í helsta stolti rússnenska flotans, kjarnorkukafbátnum Kursk, og súrefnið er brátt á þrotum.

BIRT: 02/05/2023

Um borð í kjarnorkukafbátnum Kursk er andrúmsloftið þrúgað spennu þrátt fyrir að einungis sé um flotaæfingu að ræða.

 

Áhafnarmeðlimirnir 118 hafa verið til sjós í 48 tíma og í óvanalega kyrru og heiðskíru veðri hafa þeir ásamt 30 herskipum og þremur öðrum kafbátum frá rússnenska norðurflotanum verið í eltingarleit í Barentshafi norðan við Kólaskaga.

 

En nú er kominn laugardagsmorgunn og innan tíðar á þessi árlega hernaðaræfing að ná hámarki sínu með árás á tundurspillinn Pétur mikla.

LESTU EINNIG

Hinn 27 ára gamli yfirliðsforingi Dmitrí Kolesnikov hefur tekið þátt í æfingunum fjórum sinnum áður og er því hagvanur í rangölum Kursk. Eiginlega hafði hann fyrirhugað að yfirgefa flotann um árþúsundaskiptin en síðan varð kennarinn Olga á leið hans.

 

Þau giftu sig í mars og Kolesnikov er farinn að gera langtímaáætlanir með væntanlegt fjölskyldulíf í huga.
 Til þess að öðlast hefðbundin lífeyrisréttindi hefur hann því valið að halda starfi sínu í flotanum og sú ákvörðun gleður einnig kollega hans um borð í Kursk.

 

Með sitt alþýðlega fas er Kolesnikov vinsæll um borð þar sem samstaðan er mikil – ekki síst vegna hins 45 ára gamla skipherra, flotaaðmírálsins Genadí Líatín.

 

Hann lítur á sig sem föður allra manna sinna og í hvert sinn sem nýr áhafnarmeðlimur slæst í hópinn sendir hann foreldrum hans persónulega kveðju. Í bréfinu lofar hann að passa son þeirra og sjá um að hann komist heill til hafnar á ný.

Áhöfnin á Kursk stillir sér upp fyrir myndatöku við hersýningu í Severomorsk þann 30. júlí árið 2000. 13 dögum síðar ferst kafbáturinn í Barentshafi.

Kursk getur ekki sokkið

Með lengd sem nemur 154 m og 18,2 m breidd er Kursk stærsti árásarkafbátur heims. Hann er nefndur eftir borginni Kursk sem liggur nærri landamærum Úkraínu, en þar átti sér stað mesta skriðdrekaorrusta síðari heimsstyrjaldarinnar.

 

Kursk tilheyrir svonefndum Oscar 2 – klassa en í honum eru margir risastórir kjarnorkukafbátar sem voru þróaðir á tímum Sovétríkjanna. Bygging kafbátsins, sem er með tvo kjarnaofna, hófst árið 1990 og hann lagði upp í jómfrúarsiglingu sína í desember 1994.

 


 Kafbáturinn getur verið í kafi í 120 daga og farið niður á allt að 500 metra dýpi, og vegna sterkbyggðs tvöfalds byrðings var Kursk talinn ósökkvandi. Ytra byrðið er tæpur 1 cm á þykkt og gert úr stáli með miklu innihaldi af nikkel og krómi sem á að koma í veg fyrir tæringu málmsins.

 

Fjarlægðin milli skrokkanna tveggja er 2 metrar og innri stálskrokkurinn er um 5 cm þykkur og svo sterkbyggður að hann getur þolað tundurskeytaárásir og árekstra við önnur farartæki.

 

Ryðguð tundurskeyti vekja ugg

Í stjórnklefanum hefur Líatín skipherra lagt síðustu hönd á útreikninga vegna yfirvofandi árásar sem og tímasetninga, og meðan Kursk líður nánast hljóðlaust í gegnum hafið á sjónaukadýpi fara sjö sjóliðar í tundurskeytarýminu yfir gátlistann.

 

Kursk er ætlað að skjóta tveimur æfingatundurskeytum án sprengihleðslu og þrátt fyrir að sjómennirnir séu þrautþjálfaðir og meðal þeirra bestu í gjörvöllu Rússlandi eru slík skot aldrei sjálfgefin.

Kafbáturinn Kursk

  • Hverjir? 118 rússnenskir sjómenn mynda áhöfnina á rússnenska kafbátnum Kursk.

 

  • Hvað? Kjarnorkukafbáturinn ferst við æfingar og festist á 115 m dýpi.

 

  • Hvar? Slysið gerist í Barentshafi skammt undan Kólaskaga við norðvesturhluta Rússlands.

 Eftir 1990 hefur fjármagn flotans verið verulega skorið niður og vegna þess er einungis nauðsynlegasta búnaði viðhaldið. Sjómennirnir gantast með að það eina sem sé öruggt í starfi þeirra sé óöryggið: Þeir viti aldrei hvort þeir fái laun sín og siglingin frá stöðinni í Vidjajevo nærri Murmansk verður oft tafsöm vegna skorts á réttum birgðum.

 

Öllu verra er að vopnabúrið er orðið úr sér gengið. Tundurskeytin eru endurnýtt hvað eftir annað, oft eru þau ryðguð eða biluð og því eru sjóliðarnir uggandi þegar þeir handleika þessi vindlalöguðu neðansjávarvopn.

 

Afar hvarfgjarnt eldsneyti

Fyrsta tundurskeytið sem Kursk er ætlað að skjóta er af gerðinni 65 – 76 A og var fyrst smíðað 1976, þó grunngerð þess sé ennþá eldri. Tundurskeytið er knúið af blöndu bensíns og vetnisperoxíðs sem er afar hvarfgjarnt eldsneyti.

 

Vegna bruna – og sprengingarhættu hafa flest önnur lönd í heiminum hætt við að nota vetnisperoxíð sem eldsneyti í tundurskeyti en þetta á ekki við um Rússland.
 Vetnisperoxíd er lyktarlaust og litlaust og einkennist af því að geta hvarfast samstundis við efni sem geta gengið í samband við súrefni.

 

Eins og efnafræðiformúlan sýnir er vetnisperoxíð – H2O2 – aðeins vatn (H2O) með auka súrefnisatómi. Vökvinn leitast ævinlega við að losna við þetta atóm og þegar það kemst í tæri við málma eins og t.d. kopar eiga sér stað ofsaleg efnahvörf. Þegar losnar um þetta auka súrefnisatóm myndast ógurlegur varmi.

 

Um borð í Kursk vill svo til að tundurskeytarörin eru gerð úr blöndu kopars sem reynist afdrifaríkt.

Rússnenskir sjómenn ferma 530 mm tundurskeyti sem er álíka stórt og 650 mm vopnið sem sprakk um borð í Kursk.

Kursk blæs til árásar

Ærandi hljóðmerki berst um kafbátinn til marks um að áhafnarmeðlimir skuli samstundis fara á stöðvar sínar. Yfir hátalarakerfið tilkynnir einn foringjanna stutt og skilmerkilega: „Æfingarviðbúnaður. Tundurskeytaárás.“
 Klukkan er nú 11.25 og í stefni kafbátsins hefur áhöfnin séð til þess að hið 11 metra langa og 5 tonna þunga tundurskeyti sé á sínum stað.

 

Engan um borð grunar að geigvænlegir kraftar eru við það að losna úr læðingi. Frá leka úr tundurskeytinu seitlar vetnisperoxíð hægt og rólega út í rörið.

 

Sprenging myndar höggbylgju

Nákvæmlega klukkan 11.28.27 laugardaginn 12. ágúst árið 2000 springur tundurskeytið í ógurlegri eldkúlu með krafti sem svarar til 100 kg af TNT. Á rannsóknarstöð í Noregi greina jarðskjálftamælar höggbylgju sem mælist 1,5 að styrk og er á við minni jarðskjálfta.


 Sú orka sem losnar við sprenginguna veldur stórkostlegri höggbylgju sem æðir í gegnum kafbátinn með ægilegum hávaða. Í einu vetfangi þeytist höggbylgjan meira en 1000 metra á sekúndu frá tundurskeytaklefanum og í gegnum opnar dyr yfir í stjórnklefann.

 

Brennandi helvíti breiðist út

Á sekúndubroti breytast mennirnir sjö í tundurskeytaklefanum í brennandi kyndla. Örskömmu síðar skella hamfarirnar á stjórnklefanum þar sem Líatín og aðrir 36 liðsforingjar og matrósar þeytast um koll með sprungnar hljóðhimnur.

Aðmírállinn Gennadí Líatín hafði þjónað í rússnenska flotanum frá 1972 og var eftir andlátið heiðraður sem „Hetja rússnenska föðurlandsins“.

Þeir menn sem lifa af sprenginguna eru illa slasaðir og í áfalli, og meðan kafbáturinn tekur að sökkva geta áhafnarmeðlimir í afturenda kafbátsins einungis getið sér til um hvað hafi eiginlega gerst.

 

Öll samskiptatæki hafa eyðilagst og sjóliðarnir í skutnum hafa enga hugmynd um að þeir hafi misst ótal félaga sinna í brennandi helvíti. Eins eru þeir grunlausir um hvaða skelfilega skapadægur bíður þeirra.

 

Sjálfkviknun í sprengiefnum

Í rústum tundurskeytaklefans vinna eðlisfræðilögmálin miskunnarlaust áfram. Nærri 1000 kg af vetnisperoxíði og 500 kíló af bensíni leka út í springandi æfingartundurskeytin og eldsmaturinn blandast í geigvænlega blöndu.

 

Samtímis sjóða sprengjuhleðslurnar á 23 öðrum tundurskeytum. Málmur og leiðslur bráðna og meðan hitastigið nálgast skjótt 400°C – það hitastig þar sem sprengiefnin springa sjálfkrafa – sekkur Kursk með ógnvænlegum hraða.


 Nákvæmlega 135 sekúndum eftir sprenginguna í tundurskeytaklefanum borar þetta 23.000 tonna ferlíki sig niður í  hafsbotnin á 115 metra dýpi. Á sama augnabliki springa allar sprengihleðslur með næstum 250 sinnum meira afli en sú fyrsta. Styrkur sprengingarinnar mælist 3,5.


 Innra byrðið er hannað til að þola þrýsting allt niður á 1000 metra dýpi. En höggbylgjan frá seinni sprengingunni er svo ógurleg að hún tætir stefnið í sundur á augabragði og skilur eftir sig gat sem er margir fermetrar.

 

Augnabliki síðar lætur ytra byrði kafbátsins undan þrýstingnum og ískaldur sjór skellur inn í kafbátinn. Ef Kursk hefði verið statt nær yfirborðinu myndu um 90.000 lítrar á sekúndu þrýstast í gegnum gatið.

 

En á meira en 100 metra dýpi þar sem þrýstingurinn er meira en tífaldur, er kraftur vatnsins svo mikill að hann gæti skorið manneskju í tvennt.

 

Eftirlifendur leita athvarfs í skutnum

Þeir sjóliðar sem eru enn á lífi í fjórum fremstu hólfum kafbátsins eiga nú fáeinar sekúndur ólifaðar. Flóðbylgjan skellur í gegnum kafbátinn og gjöreyðir öllu á leið sinni. Skilrúmin milli einstakra hólfa tætast í sundur eins og væri þau gerð úr pappír, og í stjórnklefanum þeytist einn liðsforingjanna í loft upp með svo miklu afli að líkami hans klessist fastur við loftið.


 Á einungis 16 sekúndum er tundurskeytaklefi, stjórnklefi, fjarskiptarými og áhafnarklefar kaffærðir og fullir af brenndum mannslíkömum, afrifnum líkamshlutum og alls kyns tækjarusli.
 Það brakar og brestur í kafbátnum. Rafmagnið fer af en eins og fyrir kraftaverk þolir hið 13 cm þykka stálþil við kjarnaofnana þrýstinginn.

 

Í fjórum hólfum á bakvið kjarnaofnanna eru 23 áhafnarmeðlimir og einn þeirra er yfirliðsforinginn Dmitrí Kolesnikov, sá sem ætlaði að hætta sjómennsku. Nú upplifir hann sína verstu martröð. En í stað þess að missa móðinn gerir hann nákvæmlega það sem neyðaráætlanir kveða á um.

 

Sem háttsettasti sjóliðinn tekur hann stjórnina og skipar félögum sínum að fara í björgunarbúninga og leita skjóls í þröngum göngum í skuti Kursk.

 

⇒Eyðileggingin var alger

Kursk var skipt í níu hólf sem voru aðskilin með sérstyrktum og vatnsþéttum skilrúmum. Öll eyðilögðust þau eða kaffærðust við slysið fyrir utan það aftasta þar sem loft gat safnast fyrir.

Farðu með bendilinn yfir tölurnar til að lesa meira.
1
Ryðgað tundurskeyti springur

Vetnisperoxíð lekur úr einu tundurskeytinu með þeim afleiðingum að efnahvörf verða sem leysir úr læðingi miklar sprengingar í tundurskeytaklefanum.

2
Eftirlifendur safnast saman

23 áhafnarmeðlimir lifa af sprengingarnar og leita skjóls í skuti kafbátsins í 9. hólfi.

3
Neyðarlúga er eina aðgönguleiðin

Tilraunir björgunarmanna til að ná niður að neyðarlúgu mistakast. Átta dögum eftir slysið tekst norskum köfurum að opna lúguna, en í ljós kemur að kafbáturinn er fullur af sjó.

Flóttaleiðir lokaðar

Því miður eru sjóliðarnir langan veg frá mikilvægustu flóttaleið Kursk sem liggur í gegnum turninn í stjórnklefanum. Inni í turninum er að finna þrýstihylki sem getur tekið um 100 manns. Þegar sjóliðarnir hafa safnast saman þar inni geta þeir losað hylkið frá kafbátnum og stigið hægt til yfirborðs sjávar, þar sem hylkið virkar eins og björgunarbátur.

 

Önnur möguleg flóttaleið – og eina leið sjómannanna þar sem fremsti hluti Kursk er á kafi – er í gegnum neyðarlúgu í níunda hólfi. Hver og einn þarf fyrst að skríða upp í gangahólf sem er fyllt með vatni þar til þrýstingurinn eftir 10 – 15 mínútur er sami að innanverðu eins og utan við.

 

Þessu næst er ysta lúgan opnuð og maðurinn syndir upp að yfirborðinu með súrefnisbúnað og björgunarvesti.
 Í reynd virkar þessi neyðarlúga einungis á grunnsævi og Kursk er á svo miklu dýpi að það er lífshættulegt að athafna sig í sjónum. Þrýstingurinn er gríðarlegur og hættan á kafarasýki yfirvofandi. Því meira vatn sem manneskja hefur fyrir ofan sig, þess meira þrýstir það á líkamann.

 

Við yfirborðið er þrýstingurinn ein loftþyngd og fyrir hverja 10 metra sem manneskja kafar niður eykst þrýstingurinn um eina loftþyngd – á 115 metra dýpi er þrýstingurinn því um 12 loftþyngdir.

 

Við svo mikinn þrýsting vex uppsöfnun á köfnunarefni í vefjum líkamans og þegar manneskja heldur upp að yfirborði, yfirgefur köfnunarefnið vefina eftir því sem þrýstingurinn minnkar. Sé farið of hratt upp á yfirborðið getur köfnunarefnið myndað loftbólur í blóði og vefjum sem hindrar blóðflæði. Þetta getur skaðað bæði bein og liði og orsakað m.a. lömun sem getur leitt menn til dauða.

 

Slysið fært til bókar

Nákvæmlega tveimur tímum á sex mínútum eftir fyrstu sprenginuna tekur Kolesnikov sér  kúlupenna og blað í hönd. Með snyrtilegri skrift ritar hann dagsetninguna – „12.8.2000“ – efst í vinstra hornið á auðu blaði og hægra megin ritar hann tímasetninguna – „13.34“. Síðan ritar hann samviskusamlega nöfn allra eftirlifenda sem hafa leitað skjóls aftast í kafbátnum.

 

Sérhver þeirra 23 fær sína eigin línu með plássi fyrir bæði fullt nafn, vaktir og verkefni. Í daufu skini neyðarlýsingarinnar tekur það Kolesnikov nákvæmlega 24 mínútur að klára listann og neðst á blaðið ritar hann aftur tímann „13.58“.

LESTU EINNIG

Koltvísýringur dreifist út

Í flakinu af Kursk standa sjómennirnir nú frammi fyrir geigvænlegum vanda: Öll neyðarkerfi hafa brugðist og meðan súrefnið hverfur eykst innihald koltvísýrings frá útöndunarlofti þeirra. Mannslíkaminn getur vel þolað lágt súrefnisinnihald í nokkurn tíma. En að anda að sér lofti með einungis 2% koltvísýring er afar hættulegt. Aukist magn koltvísýringsins í 5% getur það leitt til meðvitundarleysis og köfnunar.

 

Um 90% af því súrefni sem sjómennirnir anda að sér er skilað í formi koltvísýrings og jafnvel þó mennirnir hægi á öndun sinni berast frá þeim næstum sjö lítrar af koltvísýringi á mínútu.
 Aukið magn koltvísýrings hefur þá verkun að það eykur þörf til að draga andann djúpar og hraðar þar sem líkamann skortir súrefni.

 

Sjómennirnir eru því staddir í vítahring; til þess að halda sér á lífi þurfa þeir að draga andann. En í sérhvert sinn sem þeir gera það færast þeir skrefi nær dauðanum.

 

Síðasta kveðja

Meðan áhafnarmeðlimirnir 23 hnipra sig saman í 9. hólfi seint á eftirmiðdag laugardagsins 12. ágúst seitlar sjórinn meðfram skrúfuöxlinum í myrkvuðu flakinu. Hægt en óaflátanlega er skuturinn einnig að færast á kaf og á sama tíma hefur hitastigið nálgast frostmark.

 

Neyðarlýsingin er farin, eymdin er alger og enginn merki þess að hjálp sé á leiðinni. Engu að síður heldur Kolesnikov í vonina.
 Aftan á blaðsíðuna þar sem hann hafði ritað nöfn félaga sinna krotar hann ný skilaboð:

 

„Það er of dimmt til að skrifa, en ég ætla að reyna. Útlit er fyrir að það sé ekki nokkur von, 10 – 20%. Við skulum vona að einhver geti að minnsta kosti lesið þetta. Hér er listi yfir áhafnarmeðlimi sem eru nú staddir í 9. hólfi og leitast við að komast út. Kveðjur til allra, engin ástæða til að örvænta. Kolesnikov.“


 Síðan gengur hann frá blaðinu í vatnsþéttar umbúðir og stingur miðanum í vasann.

Yfirliðsforinginn Dmitrí Kolesnikov skildi eftir færslur sem hafa gert kleift að endurmóta síðustu stundir áhafnar Kursks.

Enginn getur fundið Kursk

Klukkan 23.30 12. ágúst lýsir norðurflotinn yfir neyðarástandi. Endurteknar tilraunir við að ná sambandi við Kursk hafa reynst árangurslausar þannig að 12 stundum eftir fyrri sprenginuna er umfangsmikil leit sett í gang.

 

Skip á svæðinu fínkemba hafið með sónartækjum til að finna og ákvarða fjarlægðir til hluta neðansjávar. Sónarinn virkar með sama hætti og ratsjá. Hljóðbylgja er send niður í sjóinn og nemi hlustar eftir bergmáli frá henni eða þeim hlutum sem hljóðbylgjan skellur á.

 


 Vandinn er sá að Kursk er hannaður til að vera ósýnilegur. Ytra byrði kafbátsins er klætt gúmmíi til þess einmitt að torvelda öðrum að finna staðsetningu hans.

 

Gúmmíklæðingin endurvarpar nánast engu hljóði og því er miklum örðugleikum bundið að finna Kursk. Í aðstæðum þar sem kafbáturinn er í mikilli neyð hefur styrkur Kursk þannig orðið að helsta veikleika hans.

 

Flugvélar og skip leita nánast í blindni eftir kafbátnum og það er fyrst um 9 leytið sunnudaginn 13. ágúst sem tekst að staðsetja kafbátinn á hafsbotni.

 

Örvænting breiðist út

Strax eftir að Kursk finnst berst orðrómur um mögulegt slys frá Barentshafi til flotastöðvarinnar í Vedjajevo.

 

Hundruð skelfingu lostinna manna flykkjast til stjórnstöðvarinnar og krefjast svara: „Er það satt að sjómennirnir hafi reynt að ná sambandi með því að berja á skrokkinn að innanverðu?“, „Hvers vegna sitjið þið hérna í stað þess að hjálpa mönnunum?“, „Er það rétt að þeir geti aðeins lifað í fimm daga?“ og „Hvenær náið þið þeim út?“ eru nokkrar þeirra spurninga sem dynja á Ivan Nideév sem er aðmíráll kafbátadeildar norðurflotans.

 

En Nideév getur ekki svarað öllum þessum spurningum. Hann hefur engar nýjar fregnir frá björgunaraðgerðum og getur ekki lofað nokkrum sköpuðum hlut.

Ár hvert safnast rússnenski norðurflotinn til mikilla heræfinga undan Kólaskaga. Kafbáturinn Kursk hefur verið til sjós í 48 klukkustundir þegar sprenging verður í honum.

Tvær björgunaraðferðir reyndar

Mannskapurinn um borð í björgunarskipum flotans getur valið milli tveggja aðferða við björgun áhafnar kafbáts á miklu dýpi: Það má reyna að senda smákafbát niður í djúpið og tengja hann við neyðarlúgu Kursk og koma síðan áhafnarmeðlimum upp á yfirborðið smám saman. Annar möguleiki felst í að sökkva kafarabjöllu niður í vír frá skipi á yfirborðinu.

 

Við báðar aðferðir þarf þrýstingur í björgunarfarartækinu að vera sá sami og inni í Kursk þannig að áhöfnin geti skriðið slysalaust úr kafbátnum og náð síðan hægt og rólega upp að yfirborðinu.

 

Veður versnar

Rússarnir reiða sig á smákafbátinn Priz sem er sökkt í hafið síðla dags mánudaginn 14. ágúst. Þriggja manna áhöfninni er ætlað ómögulegt verkefni. Slæmt er orðið í sjóinn og meira að segja á miklu dýpi er straumurinn mikill og útsýnið takmarkað.

 

Ljóskeilan frá Priz rennur yfir hafsbotninn og fellur á sundurtætta málmhluta sem dreifast yfir botninn. Stefni Kursk reynist vera í tætlum en stýrimaðurinn Aleksandr Maisak getur vongóður staðfest að bæði kjarnakljúfarúmið og skuturinn eru heil.

 

Með mikilli einbeitingu leitast Maisak að koma Priz í heppilega stöðu til að tengja sig við neyðarlúguna á 9. hlutanum. En í hvert sinn sem smákafbáturinn kemst nægjanlega nærri hrífur straumurinn hann í burtu. Eftir klukkustunda tilraunir neyðist Maisak að gefast upp. Rafhlöður Priz eru á þrotum og ef farartækið heldur ekki strax upp á yfirborðið gæti áhöfn þess verið í hættu.

Aðstandendur hafa safnast saman á sjúkraskipinu Svir, sem hefur lagst við akkeri nærri slysstað Kursks, til að minnast látinna sjómanna.

Kafarar anda að sér helíum

Harmleikurinn er forsíðufregn um gjörvallan heim og sunnudaginn 20. ágúst veita hernaðaryfirvöld norskum sérfræðingum leyfi til að gera tilraun og ná til Kursk. Átta dagar eru liðnir frá slysinu en sérfræðingar meta það svo að sjómennirnir gætu fræðilega lifað af í allt að 12 dægur, að því gefnu að öll neyðarkerfi virki.

 


 Norðmennirnir reiða sig á að komast með kafarabjöllu í 15 metra fjarlægð frá kafbátnum. Þaðan hyggjast þeir synda yfir að honum, hlusta eftir lífsmerkjum og reyna að opna neyðarlúguna. Í súrefniskútum hafa mennirnir heliox sem er blanda með 95% helíum og 5% súrefni. Slík blanda er notuð við djúpsjávarköfun enda minnkar hún hættuna á kafarasýki.

 

Jafnvel við mikinn þrýsting leysist helíum nánast ekkert upp í blóðinu og getur því ekki myndað loftbólur í blóði og vefjum þegar kafararnir halda upp á yfirborðið. Til varnar fimbulkuldanum í djúpinu eru kafararnir klæddir neoprembúningum með innbyggðu dælukerfi sem leiðir 43° heitt vatn yfir líkama þeirra.

 

Öll von er úti

Einn kafaranna lemur með hamri fjögur högg á stálskrokk Kursk. Honum mætir ekkert nema ærandi þögn. Síðan lemur hann aftur, í þetta sinn enn harðar, en það eina sem gerist er að agnarsmáar málningarflögur losna frá risavöxnu farartækinu og hverfa burt með straumnum.


 Örlítil vonarglæta finnst enn – kannski eru sjómennirnir of veikburða og örmagna til að geta svarað höggunum. Norðmennirnir bisa við að opna neyðarlúgunum og þegar hún loksins opnast mætir köfurunum ömurleg sjón: Bæði göngin og kafbáturinn eru algjörlega á kafi.

 

Kafararnir láta myndavél síga niður í gruggugt vatnið í 9. hluta kafbátsins og upptökurnar eru eins og úr hryllingsmynd. Eitt lík í bláum galla líður framhjá linsunni og þar með hverfur síðasta von um að finna nokkurn mann á lífi.

Norskir kafarar opna neyðarlúgu á Kursk þann 21. ágúst 2000. Þeir staðfesta að kafbáturinn er sneisafullur af sjó.

Eftirmáli: Björgun Kursk

Í október 2001 hífir hollenska björgunarfyrirtækið Mammont – Smit International kjarnorkubátinn upp að yfirborði. Krufningar á 23 sjóliðunum í Kursk – þar með töldum Dimitrí Kolesnikov sem fannst með bréfið í vasa sínum – benda til að allir hafi þeir látist um klukkan 20 laugardaginn 12. ágúst. Dánarorsök var koltvísýringseitrun og súrefnisskortur – ekki drukknun.

 

Að líkindum létu sjómennirnir líf sitt þegar þeir reyndu að verða sér úti um meira súrefni með sérstökum viðkvæmum neyðarbúnaði sem var að finna í kafbátnum.
 Búnaður þessi er hannaður til að vinna súrefni úr koltvísýringi loftsins. Því miður hvarfast efni í honum auðveldlega við snertingu við t.d. vatn og olíu – og 9. hólfið var fullt af hvoru tveggja.

 

Kannski hefur búnaðurinn dottið niður í vatnið með þeirri afleiðingu að mikil sprenging hefur leysts úr læðingi og eytt því litla sem eftir var af súrefni.

Árið 2001 bjargar hollenskt fyrirtæki Kursk. Ónýtt stefnið er skorið burt á hafsbotni áður en kafbáturinn er hífður upp.

 Þessi grein byggir á fjölmörgum tímaritsgreinum og ekki síst bókunum „A Time to Die: The Kursk Disaster“ eftir Robert Moore og „Kursk: Russia‘s Lost Pride“ eftir Peter Truscott

Kursk í tölum

  • Lengd: 154 metrar

 

  • Breidd: 18,2 metrar

 

  • Þyngd: 23.000 tonn

 

  • Áhöfn 118 – að hámarki: 130

 

  • Hámarksdýpt: 500 metrar

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: AF STINE OVERBYE

© Alamy/Imageselect, © Alrosa.net, © Reuters/Scanpix, © Donato Spedaliere, © Shutterstock, © AFP/Scanpix, © Reuters/Scanpix, © English Russia, © Shutterstock/SpotLuda, © AP/Polfoto,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

Náttúran

Greind í heimi dýranna

Alheimurinn

Hér eru sannanirnar fyrir Miklahvelli

Náttúran

Nýfundin risaeðla með furðu smáa framlimi

Lifandi Saga

Veislubúningar varðmanna Nixons aðhlátursefni

Náttúran

Hvað eru doppleráhrif?

Spurningar og svör

Af hverju eru sítrónur súrar?

Maðurinn

Hvernig framleiðir líkaminn orku úr fæðunni?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.