Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Hann berst með saur katta og ræðst til atlögu við heila okkar. Til allrar hamingju gerir hann okkur jafnframt ákaflega falleg. Nýjustu rannsóknir hafa leitt í ljós jákvæð áhrif sníkilsins bogfrymils (toxoplasma) á okkur mennina.

BIRT: 24/04/2024

Ímyndið ykkur að þið rekist á geislandi fallegan einstakling, einhvern sem þið nánast kiknið í hnjánum af að horfa á, með heillandi andlit og fallegan vöxt. Ímyndið ykkur síðan að það úi og grúi af sníklum í höfði og líkama þessa sama einstaklings.

 

Sviðsmynd þessi er ekki algerlega úr lausu lofti gripin. Aðlaðandi útlit og sýking af völdum bogfrymils haldast nefnilega í hendur ef marka má nýlega rannsókn sem unnin var af alþjóðlegu teymi vísindamanna.

 

Vísindamenn hafa löngum haft grunsemdir um að þessi smásæi sníkill sem um þriðjungur okkar ber í sér, búi yfir einstakri getu til að ráðskast með hýsil sinn.

 

Ef marka má nýjustu rannsóknir eru þessi áhrif sníkilsins meiri en áður var talið því hann breytir ekki einvörðungu hegðun fórnarlamba sinna heldur getur hann einnig breytt andlitum þeirra og líkömum í þá veru að fórnarlömbin verða lögulegri á að líta.

 

Sníkill verpir eggjum í ketti

Sníkillinn bogfrymill er einfrumungur, þ.e. smásæ lífvera sem lifir í innyflum annarra dýra og er sníkill á þeim. Sníkillinn fjölgar sér í köttum en auk heimiliskatta má í þessu sambandi einnig nefna ljón og hlébarða. Þegar eggin komast í þarmana losna þau úr dýrinu með saur.

 

Ef maður eða eitthvert dýr verður fyrir því óláni að innbyrða vatn eða fæðu sem er menguð af saur kattarins, sýkir sníkillinn líkama þess óheppna. Þá þroskast eggin í hreyfanlega sníkla sem dreifa sér um líkamann og rata m.a. út í vöðvana og heilann.

Bogfrymill er einfrumungur sem einnig kallast frumvera. Í Norður-Evrópu er sníkilinn að finna meðal um 10-50% íbúanna.

Síðan getur sníkillinn lagst í eins konar dvala og beðið þess að köttur éti hýsilinn með þeim afleiðingum að hann geti fjölgað sér á nýjan leik.

 

Sníkillinn bíður þó ekki aðgerðarlaus á meðan. Ýmsar rannsóknir hafa nefnilega leitt í ljós að sníkillinn fái hýsil sinn til að láta kött veiða sig.

 

Sýktir heilar ósmeykir

Rannsókn ein frá árinu 2016 leiddi í ljós að simpansar hætta að forðast þvaglykt af hlébörðum þegar þeir sýkjast af bogfrymli. Með þessu móti eykst hættan á að rándýrið geti veitt þessa tilteknu apa.

 

Hættan eykst til muna fyrir þær sakir að sníkillinn veldur því jafnframt að hýsillinn verður óvarkár.

Sníkill ljær heilanum sjálfsöryggi

Heilinn er að öllu jöfnu varinn af blóð-heila-hömlum sem einnig kallast heilatálmi eða blóð-heilaskilja en hömlur þessar halda óboðnum gestum úti. Bogfrymillinn narrar varnir líkamans og tekur stjórnina í heilanum.

1. Ónæmisfrumur hleypa inn óvinum

Æðar heilans eru umkringdar tálmum sem halda sníklum undan en gera frumum ónæmiskerfisins kleift að rata í gegn. Bogfrymill ræðst fyrir vikið til atlögu við ónæmisfrumurnar og notar þær til að dulbúast og komast í dularbúningi inn í heilann.

2. Sníkill ræðst inn í heilafrumur

Í heilanum ræðst sníkillinn inn í taugafrumur þar sem hann breytist í svokallaða blöðru en um er að ræða eins konar dvalaástand. Blöðrurnar fela sig fyrir ónæmiskerfinu og geta þannig dvalið langtímum inni í heilanum, jafnframt því sem þær hafa áhrif á atferli hýsilsins.

3. Blöðrur valda skammhlaupi í hræðsluboðum

Blöðrurnar er iðulega að finna í möndlu heilans sem hefur áhrif á hræðslutilfinninguna. Hér hefta blöðrurnar hræðsluboð í heilanum og auka framleiðslu dópamíns, með þeim afleiðingum að hýsillinn verður óttalausari og áhættusæknari.

Alþjóðleg rannsókn sem gerð var árið 2018 leiddi m.a. í ljós að bogfrymill olli því að þeir sýktu stunduðu í auknum mæli áhættusöm viðskipti. Þá kom einnig í ljós að sýktir ungir menn völdu frekar að leggja stund á nám sem hafði að markmiði stjórnunar- og frumkvöðlastörf en við átti um þá sem ekki voru sýktir.

 

Tilraunir sníkilsins til að dreifa sér hafa með öðrum orðum veruleg áhrif á líf fólks. Og nú hafa vísindamenn greint enn einn útsmoginn þátt í útsjónarsemi sníkilsins.

 

Sýking gerir okkur laglegri

Bogfrymill getur borist milli dýra með eðlun. Dýr reyna að öllu jöfnu að forðast að eðla sig með þeim sem sníkill hefur sýkt en bogfrymillinn hefur þróað aðferð til að komast hjá þessum vanda.

 

Í tilraun einni sem gerð var árið 2018 skoðuðu vísindamenn nokkurra landa líkamsmun og hegðunarmun alls 35 sýktra og 178 ósýktra þátttakenda.

30 til 50% jarðarbúa eru sýktir af bogfrymli.

Tilraunin sýndi fram á að sýktir einstaklingar væru með samhverfari andlit en þeir sem ekki voru sýktir en slíkt útlit er almennt talið aðlaðandi. Sýktar konur voru enn fremur með lægri líkamsþyngdarstuðul en þær ósýktu og álitu sjálfar sig vera meira aðlaðandi en ella.

 

Bæði sýktar konur og sýktir menn voru að öllu jöfnu álitin vera lögulegri og heilsusamlegri á að líta en ósýktu einstaklingarnir í tilrauninni. Þetta var mat dómara sem samanstóð af 205 manns víðs vegar að úr heiminum.

Andlitin vinstra megin sýna blöndu tíu ósýktra tilraunaþátttakenda en andlitin hægra megin aftur á móti blöndu af tíu sýktum einstaklingum.

Vísindamennirnir að baki tilrauninni telja að skýra megi tengslin á milli aðlaðandi útlits og sýkingar með því að sníkillinn geti breytt útliti fólks.

 

Þó hefur ekki tekist að færa endanlegar sönnur á þessi tengsl. Efasemdarfólk telur hins vegar að tengslin séu einfaldari en sem svo – sem séu þau að aðlaðandi fólk auki hættuna á smiti vegna þess að það stundi kynlíf oftar en hinir.

 

Báðir þessir þættir geta þó átt við og hugmyndin um að sníklar geti haft áhrif á líkama hýsilsins er ekki úr lausu lofti gripin.

 

Sníkill stjórnar hormónum þínum

Bogfrymill hefur margvísleg áhrif á líffræði líkamans. Dýratilraunir hafa leitt í ljós að sníkillinn stuðlar að aukinni framleiðslu á boðefnunum serótóníni og dópamíni en bæði þessi efni hafa áhrif á hegðun.

 

Aðrar tilraunir hafa sýnt fram á að sníkillinn stuðli að aukningu testósteróns í líkamanum. Testósterón hefur m.a. áhrif á hárvöxt og vöðvamassa og getur því haft áhrif á hversu aðlaðandi okkur virðist fólk vera.

 

Þýðir þetta þá að það sé æskilegt að smitast af bogfrymli?

Þrjár örverur leggjast á heilann

Bogfrymill er ekki eini sníkillinn sem leggur hald á heilann. Hér gefur að líta þrjá ógeðfellda heilasníkla sem ræna okkur svefni, gera okkur geðveik eða éta upp heilann.

Heilaæta sem drepur

Naegleria fowleri er einfrumungur sem étur af lyktarklumbunni í fremsta hluta heilans. Fórnarlambið finnur fyrir óþægindum og missir meðvitund örfáum klukkustundum síðar. Árásin leiðir af sér hita, ofskynjanir, veiklun hugrænnar getu og síðan dauða eftir tvær til þrjár vikur.

Veira veldur geðveiki

Hundaæði sem gengur undir læknisfræðilega heitinu rabies, stafar af veiru sem einnig getur ráðist á menn. Veiran hefur áhrif á boðefni í þeim heilastöðvum sem stjórna minni, tilfinningum og ótta. Þeir sem verða fyrir smiti deyja iðulega en áður hrjáir þá kvíði, ruglingur og ofskynjanir.

Sníkill rænir okkur svefni

Einfrumungur sem kallast trefjur (trypanosoma), orsakar svefnsýki með því að ráðast til atlögu við heiladyngjubotn okkar sem stjórnar svefninum. Árásin veldur m.a. svefnleysi, ofsakláða, skorti á matarlyst og breytingum á persónuleika. Sé sýkingin ekki meðhöndluð getur hún dregið fólk til dauða.

Svarið er alls ekki vafningalaust. Bogfrymill getur reynst þunguðum konum skaðlegur, svo og fólki með veiklað ónæmiskerfi en að öllu jöfnu telst sníkillinn vera nokkuð saklaus. Vísindamenn að baki nýju rannsókninni leggja hins vegar áherslu á að þekking okkar á bogfrymli sé af skornum skammti.

 

Þeir benda á ýmis áhrif sem skoða þurfi nánar.

 

Vísindamenn fýsir m.a. að komast að raun um hvort eiginleiki sníkilsins til að ýta undir áhættuhegðun geti haft neikvæð áhrif á getu hýsilsins til að komast af.

LESTU EINNIG

Þá benda þeir að sama skapi á að breytingar á magni boðefna eða hormóna geti haft þær afleiðingar að við þróum með okkur alvarlega kvilla á borð við hjarta- og æðasjúkdóma eða jafnvel geðklofa.

 

Þá má einnig geta þess að sníkillinn getur breytt viðhorfi okkar til annars fólks. Sökum þess að það hentar sníklinum að við stundum kynlíf með hvað flestum telja vísindamenn að bogfrymillinn geti gert það að verkum að við álítum aðra vera meira aðlaðandi en raun ber vitni.

 

Þegar við komum auga á einstaklega lögulega konu eða karl sem heilla okkur upp úr skónum, er hugsanlegt að þá sé að verki sníkill í heila okkar.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: JONAS MELDAL

Borráz-León et al. & Shutterstock. © Shutterstock. © Borráz-León et al..

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

Maðurinn

Svartir punktar afhjúpa getgátur heilans

Alheimurinn

Hvað ef jörðin væri í öðru sólkerfi?

Náttúran

Skoðið myndirnar: Úlfar hegða sér eins og allt önnur dýr

Alheimurinn

Ótrúlegt afrek: Nemendur slá nokkur heimsmet með heimagerðri eldflaug

Náttúran

Hversu stór gátu skorkvikindi orðið?

Lifandi Saga

Olíuborpallur springur: Eldhaf í Norðursjó

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.