7 sníklar sem lifa á líkama okkar

Yfirlit: Smámaurar hafa tekið sér bólfestu í andliti okkar og ormar háma í sig innihald iðra okkar. Ógrynni smásærra sníkla komast inn í líkama okkar gegnum sár, skordýrabit og hin ýmsu líkamsop og lifa þar á blóði, dauðum húðfrumum og jafnvel heila okkar.

BIRT: 21/09/2022

LESTÍMI:

5 mínútur

1. Amöbur sem éta heila liggja í leyni í baðvatninu

Heila-amaban lifir í heitu ferskvatni og kemst gegnum lyktartaugar inn í heila þar sem hún getur valdið óafturkræfum skaða

Naegleria fowleri – sem einnig nefnast heilaétandi amöbur – eru í hópi þeirra sníkla sem hvað flestir óttast í hinum vestræna heimi.

 

Börn og fullorðnir sem hafa leikið sér í vötnum og ám, hafa orðið fórnarlömb þessara illskeyttu sníkla sem komast upp gegnum nefgöngin, inn í heila og geta valdið þar ólæknandi heilabólgu sem dregið getur fólk til dauða á aðeins örfáum dögum.

 

Þessar heilaétandi amöbur eru allnokkuð algengar og þrífast einkum í volgu vatni og jafnvel heitum hverum en þær geta lifað í 50-60°C heitu vatni í nokkrar klukkustundir. Ef hitastigið er lægra þroskast þær ekki upp úr blöðrustiginu en þannig þola þær meiri kulda

.

2. Ógrynni smámaura sest að á andlitshúð okkar

Í hársekkjum augabrúna og augnhára er að finna urmulinn allan af smámauralirfum (blátt)

Þær sjást aðeins í smásjá, eru áttfættar og skyldar köngulóm og blóðmítlum. Demodex folliculorum sem einnig nefnist andlitsmaur, hefur sest að á andlitum okkar allra og lifir góðu lífi þar.

 

Andlitsmaurar eru að öllu jöfnu ekki skaðlegir. Þá er að finna í svitaholum andlitsins og hársekkjum, þar sem þeir líkast til lifa á dauðum hárfrumum og fitu úr kirtlum húðarinnar.

 

Smámaurarnir hafa hins vegar ekki yfir neinum endaþarmi að ráða og geta fyrir bragðið ekki losað sig við úrgangsefni á meðan þeir lifa. Þegar maurarnir svo drepast og líkamar þeirra veslast upp, breiðast uppsöfnuð úrgangsefnin í einu vetfangi yfir húðina og þeim fylgir ógrynni baktería og bakteríueiturefna.

 

Þetta getur leitt af sér mikla ertingu í húð og jafnvel sýkingu, einkum hjá þeim sem eru með veiklað ónæmiskerfi.

Smámaurarnir eru ekki með endaþarmsop og þegar dýrin drepast dreifast því úrgangsefni og bakteríur sem safnast hafa upp á allri ævi dýranna, út á húðina. Þetta veldur gríðarlegri ertingu í sumu fólki og jafnvel sýktum útbrotum.

3. Gætið ykkar á augnlinsunum

Augn-amaban kemst inn í augað gegnum rispur á hornhimnunni og getur valdið hornhimnubólgu sem leitt getur til blindu.

Sýking af völdum achant-amöbu stafar af sníklinum acanthamoeba keratitis sem er einfrumungur. Sníkil þennan er einkum að finna í vatni og mold, auk þess sem hann finnst stundum í kæli-, loftræsti- og loftkælibúnaði.

 

Þó svo að augn-amöbur leynist víða í náttúrunni, einnig á Norðurlöndum, þá tekst þeim sjaldan að sýkja fórnarlömb sín.

 

Þó skyldu notendur augnlinsa hafa varann á gagnvart þessum smágerða sníkli. Hann getur nefnilega valdið hornhimnubólgu ef hann nær að smita gegnum skaddaða húð eða hornhimnu. Ef hornhimnan er óskemmd kemst sníkillinn ekki í gegnum hana.

 

Sýking af völdum augn-amöbu getur verið sársaukafull, auk þess sem hún veldur táraflóði, óþægindum í birtu, svo og skertri sjón. Þegar verst lætur getur sýkingin leitt til blindu eða hornhimnuígræðslu.

 

4. Blóðsugur festa sig við þarmana

Krókormar rata inn í líkamann gegnum húðina á fótleggjunum og undir fótunum. Þegar sníklarnir hafa komist inn í líkamann finna þeir sér svo leið inn í þarmana.

Krókormar eiga ár hvert sök á alls 600 milljón sýkingum á heimsvísu en algengastar eru þær þó á hitabeltissvæðum og heittempruðum svæðum. Þeir sem ferðast til þessara heimshluta skyldu varast að ganga um berfættir þar sem hætta er á mengun af völdum mannasaurs, t.d. þar sem salernisaðstæðum er ábótavant.

 

Sníkill þessi smitar með því að naga sér leið gegnum húðina á fótleggjum og fótum. Þaðan er greið leið áfram inn í líkamann.

 

Krókormar eru með beittar tennur sem þeir nota til að soga sig fasta við þarmana áður en þeir byrja að sjúga blóð. Þessi smágerða blóðsuga getur valdið blóð- og próteinskorti, ásamt vökvauppsöfnun, auk þess sem ormarnir geta átt það til að ferðast um innyfli okkar, svo og undir húðinni.

Krókormar flakka greinilega um undir húðinni.

5. Slóttugur ormur skríður út úr barnsrössum

Holsjár notaðar til að leita að njálg í endaþarmi.

Njálgur sem á latínu nefnist enterobius vermicularis, er algengastur allra innyflaorma á norðurhveli jarðar. Svo algengur að segja má að hann hafi haft viðkomu í flest öllum barnaherbergjum.

 

Velgengni njálgsins er ekki að ástæðulausu. Njálgurinn hefur nefnilega yfir að ráða einkar hugvitssamlegri leið til að halda lífsferli sínum gangandi, á meðan mennskur hýsillinn, oftast barn, lúrir vært.

 

Að nóttu til skríður fullvaxinn ormurinn fram úr samastað sínum í ristlinum, áfram í átt að endaþarminum og alla leið út úr honum, þar sem hann verpir eggjum sínum rétt fyrir utan endaþarmsopið. Ertingin verður svo slæm að barnið byrjar að klóra sér kringum endaþarminn og fær þar með egg á hendurnar og undir neglurnar.

 

Eggin geta síðan borist áfram í munninn en þau geta einnig setið eftir á hurðarhúnum, rúmfötum og handklæðum og þannig getur sníkilinn smitað aðra.

 

6.Krabbameinsvaldandi sníklar lifa góðu lífi í rúmfötunum

Trichomonas-sníkillinn ræðst á kynfærin og getur leitt af sér allt frá skeiðarsýkingu yfir í alnæmi og krabbamein.

Sníklar hafa einnig hafið innreið sína í kynfæri okkar. Trichomonas vaginalis er algengasti kynsjúkdómurinn sem ekki orsakast af veiru. Tæplega 250 milljón sýkingar greinast árlega.

 

Innri kynfæri mannsins eru eini staðurinn sem sníkill þessi getur lifað á og þrifist í og fyrir vikið ver hann öllum lífsferli þar. Sníkillinn berst einungis þegar stundað er kynlíf og kynfærin snertast.

 

Sýking af völdum sníkilsins eykur hættuna á smiti og sýkingu af völdum HIV-veirunnar en ef um er að ræða þungaðar konur er einnig hætt við ótímabærri fæðingu eða of léttum börnum.

 

Þá er einnig álitið að Trichomonas-sýking geti stuðlað að krabbameini í leghálsi, líkt og sýnt hefur verið fram á aukna hættu á blöðruhálskrabbameini meðal karla sem þjáðst hafa af þrálátri sýkingu af völdum Trichomonas.

 

7. Sníklar sem valdið geta bæklun fjarlægðir

Fylgist með þegar allt að eins metra langur ormur er togaður út úr fótlegg.

Gínea-ormurinn ver mest allri ævinni í þörmum manna og þekkist á því að kvendýrin birtast á húð fótleggjanna til að verpa eggjum.

 

Fórnarlömbin reyna oft að fjarlægja allt að eins metra langan orminn í örvæntingarfullri tilraun til að losna við sýkinguna, með því að ná taki á enda hans þegar hann kemur upp um gat á húðinni og vefja honum afar hægt og rólega upp á prik.

 

Þetta getur tekið nokkrar vikur og hættan á að ormurinn slitni er afar mikil en slíkt getur haft í för með sér hættulega bakteríusýkingu og blóðeitrun sem gert getur slæmt ástandið enn verra og valdið varanlegri bæklun sem hefur það í för með sér að hinn smitaði getur hvorki gengið né staðið í fæturna.

 

Ýmislegt bendir til þess að takast muni að útrýma gínea-orminum á heimsvísu.

 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur róið að því öllum árum frá því um miðjan 9. áratuginn að fækka sýkingum af völdum þessa skelfilega sníkils. Tekist hefur að útrýma sníklinum í Asíu og sambærileg vinna hefur gefið góða raun í Afríku. Þar greindust 3,5 milljónir tilfella árið 1985 en árið 2015 hafði þeim fækkað niður í einungis 22 smit.

BIRT: 21/09/2022

HÖFUNDUR: LISE TØNNER og MORTEN KJERSIDE POULSEN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Science Photo Library, © Lorenzo-Morales et al./EDP Science,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.