Þau gen sem við fáum í arf og kóða fyrir vöðvamassa hafa áhrif á heilbrigði og geta haft áhrif á áhættuna á margvíslegum sjúkdómum.
Þetta er niðurstaða viðamikillar rannsóknar við Jyväskyläháskóla í Finnlandi.
Vísindamennirnir rannsökuðu samhengið milli arfgengs vöðvastyrks 340.000 Finna og tíðni algengra sjúkdóma, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma og lungna-, krabba- og bandvefssjúkdóma.
Stuðst var við ákveðinn vöðvastyrkskvarða sem byggist á hundruðum þúsunda genabreytileika í vöðvum.
Þessar breytur byggjast einvörðungu á genum í vöðvafrumum og taka því ekki mið af öðrum aðstæðum, t.d. langvarandi styrktarþjálfun.
Erfðaefnið gegnir nefnilega stóru hlutverki varðandi þróun vöðvamassans.
Erfðamassinn gerir sumu fólki auðveldara að byggja upp vöðvamassa en öðru og sama gildir um að viðhalda honum.
Þessi genamunur getur haft áhrif á samsetningu vöðvatrefja, magn hormóna, efnaskipti og líkamsbyggingu.
Þótt allir geti aukið vöðvamassann með líkamsrækt og viðeigandi næringu sýndu niðurstöðurnar að því öflugri vöðvamassa sem þú færð í arf, þeim mun síður áttu á hættu að þróa með þér sjúkdóma þegar þú eldist.