Flestir foreldrar vilja allt gera til að vernda börnin sín gegn áföllum í lífinu. Nú hafa rannsóknir leitt í ljós að heilar barna sem verða vitni að t.d. slysum eða ofbeldi fullorðnast hraðar en heilar annarra barna.
Vísindamenn við Stanford háskóla í Bandaríkjunum fylgdust á tveggja ára tímabili með 214 börnum á aldrinum níu til þrettán ára og hafði hluti barnanna reynslu af slysum eða ofbeldi. Á þessu umrædda tímabili voru teknar heilasneiðmyndir af börnunum og þá voru jafnframt tekin úr þeim frumusýni úr munnvatni.
Í heilum fullorðinna dregur framheilinn (grænt) úr starfsemi möndlunnar (fjólublátt).
Sneiðmyndirnar leiddu í ljós að heilar barna sem höfðu orðið vitni að streituvaldandi atburðum þroskuðust hraðar en ella og fóru frekar að hegða sér eins og fullorðnir heilar.
Þetta átti einkum við um samstarfið á milli tveggja hluta heilans, þ.e. framheilans og möndlunnar. Þessi tvö svæði eru oft virk samtímis í börnum, á meðan virknin er aðskilin í fullorðnum.
Eldri heilar og yngri líkamar
Þegar fullorðnir nota framheilann dregur úr starfseminni í möndlunni og þetta telja vísindamenn vera mikilvægt til þess að við getum haft hemil á tilfinningum okkar.
Rannsóknirnar leiddu jafnframt í ljós að þessi sömu börn voru lengur á gelgjuskeiðinu og að öldrun frumna þeirra var hægari en ella. Erfiðu upplifanirnar færðu börnunum fyrir vikið eldri heila og yngri líkama.
LESTU EINNIG
Niðurstöðurnar í heild gefa til kynna að streita snemma á ævinni geti haft mikil áhrif á þroska barna.