Maðurinn

Þú hugsar með hjartanu

Hjörtu okkar slá 100.000 sinnum á sólarhring. Vísindamenn hafa nú komist að raun um að hver einasti sláttur hefur áhrif á heilann þannig að skynfærin slævast, sársaukaþröskuldurinn hækkar og tilfinningarnar verða næmari.

BIRT: 13/01/2024

 

„Augu þeirra mættust þvert yfir salinn og þau fundu lengst inni í randkerfinu að þau voru sköpuð hvort fyrir annað.“

 

Ástarsögur tóku nýja stefnu þegar vísindin vísuðu tilfinningum á bug út úr gömlum heimkynnum sínum, þ.e. hjartanu, yfir í reiknitölvu líkamans, heilann.

 

Nýlegar rannsóknir sýna þó að hugsanir okkar ráðast að hluta til af hjartanu. Hjartað stjórnar heilanum með boðefnum og taugabrautum í fullkomnu samræmi við slátt hjartans.

 

Vísindamönnum hefur tekist að greina ógrynni tenginga milli þessara tveggja líkamsþátta og niðurstaðan sýnir fram á nær algeran samruna líffæranna tveggja.

 

Áður fyrr var hjartað einungis talið vera einföld blóðdæla en nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að hjartað nemur á hverri sekúndu skynfæri, þarfir og dýpstu tilfinningar okkar til annars fólks.

 

Hjarta og heili eiga í samskiptum

Púlsinn verður örari þegar við verðum ástfangin, hrædd eða finnum fyrir streitu. Við getum meira að segja sjálf fundið kröftugan hjartsláttinn í innanverðum brjóstkassanum.

 

Hjartað gerir okkur kleift að finna fyrir tilfinningunum líkamlega og það er ugglaust þess vegna sem við mennirnir, árþúsundum saman, höfum talið að tilfinningarnar ættu sér bústað í hjartanu.

 

Á undanförnum öldum hafa vísindin lítillækkað hjartað niður í það að vera vélræna dælu sem einvörðungu er til þess gerð að sjá líkamanum fyrir súrefni og næringu. Ástæðu þess að hjartsláttur eykst þegar við erum ástfangin, hafa þeir talið vera þá að hjartað fylgi skipunum heilans í blindni.

 

Rafbylgja flæðir gegnum hjartað

Slög hjartans stjórnast af innbyggðum gagngráði líkamans. Hann sendir boð til vöðva hjartans sem fyrir sitt leyti, gæta þess að fylla líkama okkar af súrefnisríku blóði.

 

1- Líffræðilegur gangráður stjórnar hjartanu

Lítill klasi af frumum sem kallast gúlpshnútur, á veggnum í hægra forhólfi hjartans, gefur þaðan frá sér rafboð með reglulegu millibili. Rafboðin berast svo hjartanu um sérlegar brautir sem ætlað er að tryggja að vöðvar hjartans dragist saman í réttri röð.

 

2. Forhólfin dæla í takt

Forhólfin tvö herpast fyrst saman. Hægra hólfið hefur að geyma súrefnissnautt blóð sem hefur streymt um líkamann en hið hægra er fullt af súrefnisríku blóði sem haft hefur viðkomu í lungunum. Forhólfin þrýsta blóðinu áfram í hvolfin.

 

3. Lokur tryggja einstefnu

Hjartalokur milli forhólfa og hvolfa gegna hlutverki loka og tryggja að blóðið geti ekki runnið til baka úr hvolfi í forhólf.

 

4. Hvolf senda blóðið áfram

Samdráttur hvolfanna tveggja er síðasti þáttur hjartsláttarins. Hægra hvolfið sem felur í sér súrefnissnautt blóð, sendir innihald sitt í átt að lungunum þar sem það tekur til sín súrefni. Vinstra hvolfið sem er með sterklegri vöðva en hið hægra, dælir súrefnisríku blóði sínu út í allan líkamann með aðalslagæð líkamans.

 

Þessi skoðun á samspili hjartans og heilans er í þann veg að gjörbreytast aftur. Nýjustu rannsóknir hafa nefnilega leitt í ljós að hjartað slær ekki eingöngu í því skyni að senda súrefni og næringu út í líkamann.

 

Hjartað slær að öllu jöfnu 60-90 sinnum á mínútu. Þegar hjartað slær er blóðinu fyrst dælt úr forhólfunum tveimur yfir í hjartahvolfin.

 

Því næst þrýstir hægra hvolfið blóðinu áfram til lungnanna en hið vinstra dælir blóði út um allan líkamann. Öll þessi starfsemi stjórnast af vöðvafrumum og í raun réttri er hjartað allt einn sjálfstýrður vöðvi.

 

Hjartað getur haft áhrif á margvíslega starfsemi heilans

 

Vísindamenn hafa lengi vitað að hjartað stjórnar að miklu leyti eigin takti og að taugtengingar við heila gera það að verkum að heilinn getur fylgst með og gripið inn í hjartsláttinn, ef þörf krefur.

 

Á síðustu áratugum hafa vísindamenn þó farið að gera sér grein fyrir að samskiptin geta einnig verið á hinn veginn.

 

Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að hjartað getur haft áhrif á margvíslega starfsemi heilans. Með því móti á hjartað þátt í að móta hugsanir okkar og gerðir.

 

Hormón getur skipt sköpum

Áhrif hjartans á heilann eiga sér stað með margvíslegum samskiptaleiðum. Hér mætti nefna saltræsihormónið ANP sem sérlegar frumur í hægra forhólfi hjartans losa þegar hjartavöðvarnir dragast saman.

 

Helsta hlutverk ANP er lækkun blóðþrýstings og hjartað stjórnar stöðugt magni hormónsins til þess að halda blóðþrýstingnum innan eðlilegra marka. Hormónið ANP hefur áhrif á ýmis líffæri líkamans og þröngvar sér m.a. lengst inn í heilann.

 

Þar heftir hormónið boðefni til þeirra hluta heilans sem stjórna þorsta, með þeim afleiðingum að við höfum minni þörf fyrir vökva. Með þessu móti dregur hjartað úr vökvamagni líkamans og þar með lækkar blóðþrýstingurinn.

 

Hjartað er á stærð við krepptan hnefa og vegur oftast um 300 grömm.

 

Hormón þetta bælir að sama skapi sympatíska taugakerfið sem að öllu jöfnu setur líkamann í viðbragðsstöðu við hættulegar aðstæður. Taugakerfið getur t.d. orsakað hraðari púls eða aukið losun adrenalíns í nýrnahetturnar en hvort tveggja undirbýr líkamann undir flótta eða átök.

 

Með því að bæla ferlið gerir APN það að verkum að meiri ró færist yfir okkur og við fyllumst síður ótta sem hefur þær afleiðingar að blóðþrýstingurinn hækkar síður. Þannig er greinilegt að hjartað getur haft áhrif á viðbrögðin þegar líf okkar er í hættu.

 

Rannsóknir sem m.a. voru gerðar við Kyushu háskóla í Japan, benda jafnframt til þess að ANP-hormónið geti minnkað losun streituhormónsins kortisóls.

 

Mikið magn af kortisóli í blóði getur til lengri tíma litið valdið skemmdum á stofnfrumum og taugafrumum í heila og aukið hættuna á geðrænum kvillum á borð við kvíða og þunglyndi. Hjartað á með öðrum orðum þátt í að styrkja andlega heilsu okkar.

 

LESTU EINNIG

 

Jákvæð áhrif hormónsins ANP hafa vakið vísindamenn til umhugsunar um hvort það megi nota sem lyf, m.a. fyrir fólk með of háan blóðþrýsting. Málið er bara því miður ekki svo einfalt, því mikið magn af hormóninu getur skaddað mörg líffæri, þar með talið hjartað sjálft.

 

Vísindamenn binda þó vonir við að finna megi lausn á komandi árum sem geri þeim kleift að nýta jákvæð áhrif efnisins til að meðhöndla ýmsa hjarta- og æðasjúkdóma.

 

Hjartsláttur deyfir sársaukann

Hjartað býr yfir öðrum úrræðum en ANP í því skyni að hafa áhrif á heilann og eitt þeirra veldur hærri sársaukaþröskuldi sem gerir það að verkum að við skynjum minni sársauka.

 

Breskir vísindamenn gerðu tilraun þar sem þátttakendur voru látnir finna sársauka með raförvun tauga í kálfanum. Jafnframt mældu rafskaut sársaukaviðbrögð þátttakendanna í lærvöðva og notaður var blóðþrýstingsmælir til að fylgjast með blóðþrýstingi og púlsi þátttakendanna.

 

Tilraunin leiddi í ljós, svo ekki varð um villst, að þátttakendur tilraunarinnar skynjuðu minni sársauka þegar taugar þeirra voru virkjaðar á samdráttarstigi hjartans.

 

Vísindamönnunum tókst að tengja minni sársaukaskynjun við skammvinna víkkun æðanna sem verður þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í líkamann.

 

Þeir telja fyrir vikið að það séu þrýstingsmælar sjálfra æðanna, svonefndir þrýstinemar sem tengi sársaukastöðvar heilans við hjartað.

 

Þrýstinemarnir eru taugafrumur sem eiga í beinum samskiptum við æðarnar og virkjast þegar æðarnar víkka út í takt við hjartsláttinn. Þegar nemarnir eru virkjaðir losna úr læðingi boðefni til heilans sem hækka sársaukaþröskuldinn um skamma hríð.

 

Hjartað á í samskiptum við heilann

Vísindamenn hafa lengi vitað að heilinn getur haft áhrif á hjartað í þá veru að hraða eða hægja á hjartslættinum. Nýlegar rannsóknir hafa á hinn bóginn leitt í ljós að hjartað getur jafnframt stjórnað starfsemi heilans með stórum taugaknippum, líffræðilegum blóðþrýstingsmælum og hormónum.

Boðefnin berast með taugaknippum

Stóra skreyjutaugin myndar tenginguna milli heilans og líffæra líkamans, m.a. hjartans. Hjartað getur sent og tekið við boðum frá heila með taugaþráðum taugarinnar. Boðin frá hjartanu geta hraðað eða hægt á starfseminni í tilteknum heilastöðvum en skilaboð til hjartans geta hins vegar haft áhrif á púlsinn.

Þrýstingsmælar fylgjast með blóðþrýstingnum

Í hjartanu, svo og sumum af stærri æðum líkamans, er að finna blóðþrýstingsmæla sem nefnast þrýstinemar. Þeir samanstanda af taugafrumum sem eru þannig úr garði gerðar að endar þeirra eru festir við yfirborð æðanna. Þegar hjartað dregst saman víkka æðarnar út og toga fyrir vikið í taugaendana sem senda boð til heilans.

Hjartahormón hefta heilafrumur

Hjartað losar við hvern slátt hormóna, m.a. saltræsihormón sem berast með blóðinu til heilans. Þar geta hormónarnir bundist viðtökum á taugafrumunum og komið í veg fyrir að frumurnar sendi boðefni áfram til nágranna sinna. Við þetta breytist starfsemi heilans.

 

Aðrar tilraunir hafa leitt í ljós að minni sársaukatilfinning getur í sumum tilvikum orðið langvinn. Þegar vísindamenn rannsökuðu rottur sem þjáðust af arfgengum háþrýstingi komust þeir á snoðir um að rotturnar þyldu meiri sársauka en rottur með eðlilegan blóðþrýsting.

 

Ástæðan er ugglaust sú að hár blóðþrýstingur ofvirkjar þrýstinemana. Sama einkenni virðist eiga við hjá fólki með háþrýsting.

 

Sé um viðvarandi háþrýsting að ræða langtímum saman kann hann að valda of miklu álagi á kerfið, með þeim afleiðingum að þrýstinemarnir glata næmni sinni og draga úr virkninni sökum þess að þeir eru virkjaðir um of. Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að þetta getur valdið þrálátum verkjum.

 

Stöðugur taktur slævir skilningarvitin

Við fyrstu sýn kann að virðast einkennilegt að svo beint samband sé milli hjartsláttar og sársaukaskynjunar en vísindamenn eru með greinargóða skýringu á fyrirbæri þessu. Líffæri líkamans senda stöðugt boðefni til heilans með það fyrir augum að dylja eigin virkni.

 

Með því móti tryggja þau að meðvitundin þurfi ekki stöðugt að fylgjast með því sem á sér stað í líkamanum. Með því að hækka sársaukaþröskuldinn þegar hjartað slær, hjálpar sjálft hjartað okkur að leiða hjá okkur stöðugan hjartsláttinn þannig við við getum frekar einblínt á utanaðsteðjandi áhrif.

 

Hjartslátturinn hefur ekki einvörðungu áhrif á sársaukaskynjunina heldur einnig skynfæri okkar almennt. Heilasérfræðingar við Max Planck stofnunina í Þýskalandi gerðu tilraun á árinu 2020 þar sem þátttakendur fengu ítrekað afar vægt rafstuð sem ekki olli sársauka, jafnframt því sem rafskaut voru látin mæla heila- og hjartastarfsemi þátttakendanna. 

 

3-4 milljörðum sinnum slær hjartað að meðaltali á heilli ævi.

 

Tilraunin leiddi í ljós, svo ekki varð um villst, að heilinn hunsaði stuðið að hluta til, ef það var veitt á sama tíma og hjartað herptist. Vísindamennirnir gátu greint að ýmis boðefni í heila sem að öllu jöfnu skerpa meðvitundina um skynáhrif, voru bæld á meðan hjartað dróst saman.

 

Bæling skynáhrifanna var enn fremur mest þegar hjartslátturinn var stöðugur og slögin voru með jöfnu millibili.

 

Þetta virðist benda til þess að geta líkamans til að bæla skynáhrifin styrkist þegar heilinn getur sagt fyrir um næsta samdrátt hjartans. Næmnin fyrir rafstuðinu minnkaði einnig þegar þátttakendurnir einblíndu samtímis á það sem átti sér stað í líkömum þeirra.

 

Öflugt boð magnar tilfinningar

Þegar við einblínum á eigin hjartslátt virkjast ýmsar heilastöðvar sem eiga þátt í úrvinnslu skynáhrifa en koma jafnframt við sögu við mótun innstu tilfinninga okkar.

 

Þýskir vísindamenn gerðu tilraun sem fólst í að mæla að hve miklu leyti tilraunaþátttakendur skynjuðu eigin hjartslátt. Að því loknu voru þátttakendurnir látnir virða fyrir sér ljósmyndir sem löðuðu fram þægilegar, hlutlausar eða óþægilegar tilfinningar.

 

Mæling á heilastarfsemi leiddi í ljós að þeir sem áttu auðvelt með að einblína á og skynja eigin hjartslátt brugðust að sama skapi harkalegar við myndunum. Skýringin er að öllum líkindum sú að þeim berast öflugri boð frá hjartanu á meðan það dregst saman.

 

Hjartsláttur hefur áhrif á tilfinningarnar

Leiftursnögg taugaboð frá hjarta og æðum til heilans tryggja að hjartað geti haft áhrif á starfsemi heilans í takti sem samsvarar hjartslættinum fullkomlega. Útkoman verður sú að það hvernig heilinn vinnur úr tilfinningum í líkingu við óbeit, ótta og sársauka sveiflast upp og niður um það bil 60-90 sinnum á mínútu.

 

1. Ennisblöðin verða viðkvæm fyrir óbeit

Samdráttur hjartans hefur áhrif á virknina í ennisblöðum heilans sem skiptir m.a. miklu máli fyrir tilfinningu á borð við óbeit, svo og það hvernig við skynjum óbeit í andlitum annarra. Í sömu andrá og hjartað herpist breytist virknimynstrið í ennisblöðunum þannig að við bregðumst harkalegar við andlitum sem láta í ljós óbeit.

2. Mandlan kemur upp um ótta hjá öðrum

Mandlan er óttasvæði heilans og hún stjórnar bæði viðbrögðum okkar gagnvart hættulegum aðstæðum og gegn ótta annarra. Samdráttur hjartans gerir möndluna næmari fyrir áhrifum í eitt andartak og í takt við hjartsláttinn bregðumst við harkalegar við því að sjá fólk láta í ljós ótta í andlitum þeirra.

3. Heilastúkan sefar sársauka

Sársaukaskynjun okkar á sér m.a. rætur í starfsemi undirstúku heilans. Þegar hjartað herpist saman senda þrýstingsmælar æðanna, þ.e. þrýstinemarnir, boð til undirstúkunnar um að hægja um stund á virkninni til þess að við skynjum síður sársauka. Sársaukaþröskuldurinn lækkar aftur þegar slaknar á hjartanu.

 

Þó svo að slög hjartans deyfi sársauka og slævi skynhrifin getur hjartað einnig komið okkur í nánari snertingu við tilfinningar okkar. Þetta hefur jafnframt áhrif á getu okkar til að lesa í tilfinningar annarra.

 

Þau kerfi heilans sem vinna úr tilfinningum okkar eru nefnilega í grófum dráttum eins og þau sem við nýtum til að túlka tilfinningar annarra.

 

Tilraunir hafa m.a. leitt í ljós að við bregðumst harkalegar við ef við sjáum einstakling sem sýnir ummerki ótta eða óbeitar á þeirri stundu sem hjartað dregst saman heldur en gerist þegar hjartað þenst út.

 

Viðkvæmt hjarta getur valdið kvíða

Hjartað, líkt og önnur líffæri, hefur veruleg áhrif á starfsemi heilans og þessi tengsl eru afar mikilvæg. Maginn sendir t.d. boð til heilans þegar maginn er tómur og við það verður til sultartilfinning en aftur á móti þvingar full þvagblaðra okkur til að fara á salernið.

 

Fyrir vikið getur skapast ákveðinn vandi ef slík tenging við heilann er slæleg. Vandamálið gerir m.a. vart við sig hjá sumum einhverfum. Þeir skynja ekki boð líkamans fyrr en þau verða mjög öflug.

 

LESTU EINNIG

Útkoman kann að verða sú að þeir finni ekki fyrir pirringi fyrr en þeir skyndilega springa úr reiði, ellegar þá að þeir geti fótbrotnað án þess að finna fyrir sársauka.

 

Óvenju sterk tenging milli líffæranna og heilans getur að sama skapi orsakað vanda. Vísindamönnum tókst að sýna fram á með tilraun að einstaklingum sem finna mjög vel fyrir hjartslætti sínum hættir jafnframt til þess að fyllast kvíða.

 

Sorg veldur brostnu hjarta

Vísindamenn eiga enn langt í land með að skilja hið flókna samspil milli hjartans og heilans en þó þykir óyggjandi að þessi tvö líffæri starfa oft sem ein heild. Hjartað kann fyrir bragðið mæta vel að leika stórt hlutverk þegar við t.d. verðum ástfangin.

 

Áhrif hjartans á tilfinningarnar geta því í sama mæli snúist í öndverða átt en þar með er átt við að tilfinningarnar hafi líkamleg áhrif á hjartað.

 

Þetta á sér m.a. stað í þeim tilvikum er mikil sorg, t.d. í tengslum við andlát eða skilnað, orsakar hjartasjúkdóminn álagshjartakvilla sem einnig kallast „brostið hjarta“. 

 

Brostið hjarta slær ætíð skakkt

Þegar heilbrigt hjarta dregst saman flest vinstra hvolfið alveg út. Ef um er að ræða sjúkling með álagshjartakvilla getur hjartað ekki lagst alveg saman.

 

1 – Hjarta með álagshjartakvilla

 

2 – Heilbrigt hjarta

 

Kvilli þessi einkennist af brjóstverkjum og öndunarerfiðleikum og líklegt þykir að hans verði vart sökum þess að sorg leysi úr læðingi óvenjumikið af adrenalíni sem skaddar æðar og vöðva hjartans.

 

Til allrar hamingju ná flestir sjúklingar sér á nokkrum vikum. Líkt og við á í mörgum tilvikum þar sem ástarsorg kemur við sögu, er besta lækningin fólgin í tíma.

 

Sönnun þess hve mikil gagnkvæm tengsl eru á milli hjarta og heila á nú þátt í að endurvekja hugmyndina um að hjartað hýsi tilfinningarnar. Málið er þó snúnara en svo.

 

Hjartað er nefnilega ekki eini staður líkamans sem hýsir tilfinningar. Þarmarnir geta í sama mæli haft áhrif á depurð, gleði og tengsl okkar við aðra.

 

Þarmarnir hafa áhrif á hugsanir okkar í gegnum taugatengingar og hormóna en ugglaust einnig með þarmagerlum sem ferðast upp í heila. Framvegis ættu því bæði hjartað og þarmarnir að koma fyrir í ástarsögum.

 

 

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ULLA EDELBO RAASCHOU

© Claus Lunau,© shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hvernig gátu riddarar í brynju farið á klóið?

Maðurinn

Ofurörvuð börn læra minna

Alheimurinn

Ráðgátan um dularfullu geimhringana

Maðurinn

8 vísindalegar ástæður þess að þú lyktar

Náttúran

Snjáldurmýs ganga á eigin heila

Náttúran

Háhyrningar réðust á bát og beittu áður óséðri aðferð

Tækni

Lítil kjarnarafhlaða heldur símanum gangandi í 50 ár

Læknisfræði

Kvefast ég frekar ef ég fer út með blautt hár?

Náttúran

Súrefni: Hvað er súrefni – og er hægt að fá of mikið af því?

Náttúran

Nú gætum við fundið leynilegar tímavélar alheimsins

Maðurinn

Heilasérfræðingar: Ástin og vináttan verðlauna heilann

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is